Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Umbúðirnar og innihaldið

24. desember 2007

Jólamessa sjónvarpsins 2007
Guðs heilagi sonur, ó, dýrð sé þér. Amen
Guð gefi þér gleðileg jól!
Dómkirkjan í Reykjavík ber þér kveðju og boðskap helgra jóla að þessu sinni. Megi ljós og andi jólanna lýsa hverju hjarta og líkna hverri sál og heimi öllum.

Skáldið Jón úr Vör segir í Jólakvæði:

Ég lítið barn svo langt í burtu fór
– og ljótt er margt sem fyrir augu ber.
Ég rata ekki heim til hjarta míns,
að halda jólin, móðir, enn hjá þér.

Og hvar er rótt í heimi stríðs og blóðs? 
Er hægt að lesa vers í slíkum gný?
- Á litlu kerti er ljós sem aldrei deyr,
mín ljúfa móðir vakir yfir því.

Á helgri nóttu þráum við að rata heim til hjartans og halda jólin hjá móður okkar, kirkju Krists. Hún tendrar ljós trúar og vonar og kærleika í heimi stríðs og blóðs og leitast við að beina augum okkar að ljósinu sem aldrei deyr, snúa hlustum sálar og anda að boðskapnum sem ómar gegnum gnýinn, um gjöfina bestu, gjöfina frá Guði.

 Jólaguðspjallið lætur ekki mikið yfir sér. En ég get ekki ímyndað mér fegurri sögu. Og svo koma til allar myndirnar margvíslegu sem hafa tjáð jólaguðspjallið á ótal vegu, hrífandi, heillandi, göfgandi myndir, já, og ljóðin og söngvarnir, maður lifandi, hvílík auðlegð. Jól án jólaguðspjallsins eru fátækleg jól. 

Oft og iðulega þegar ég heyri jólaguðspjallið lesið þá hrærir það djúpan streng í  brjósti mér, og vekur bernskuminningu til lífsins. Kertin loga og ljósin glitra, litla jólatréð uppi á píanóinu, jólagjafirnar á gólfinu þar hjá. Það er verið að lesa jólaguðspjallið: „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara…“ Og svo komu framandleg nöfn manna og staða, lesturinn er langur og á mig sækir syfja og ég reyni að berjast við að halda mér vakandi, - til að missa ekki af gjöfunum með alla þá leyndardóma sem undir umbúðunum dyljast.  Var þetta ekki synd og skömm að geta einungis haldið sér vakandi af umhugsuninni um gjafir? Og er þetta ekki dæmigert að umbúðirnar bera boðskapinn ofurliði? Sumir vilja meina að sú sé raunin með jólahaldið svona yfirleitt. Æ, ég veit það ekki. Ég veit bara að þreyta og værð barnsins, sem dottaði undir lestrinum, er einfaldlega þáttur í því að vera manneskja. Og jólin snúast um það að Guð varð mannsbarn á jörðu, með öllu því sem því fylgir. Og þess vegna skilur hann börnin, og okkur mannfólkið betur en við skiljum okkur sjálf.

En þessi litla saga, sem gat virst svo löng litlum barnshuganum, þessi einfalda frásögn jólaguðspjallsins hefur reynst slitsterkari en flest – ef ekki allt - annað sem fyrir eyru og augu hefur borið á langri leið. Hún er eiginlega stærri og meiri en aðrar sögur og frásagnir, mun dýpri og hærri og víðari og auðugri. Smám saman uppgötvaði ég að þessi stóra saga fjallaði um mig. Litla sagan mín var á merkilegan hátt ofin inn í stóru söguna. Líf mitt var fellt inn í annan vef og meiri, annars fólks og í drauma og áform Guðs. Auk þeirra Ágústusar og Kyreníusar, Jósefs og Maríu og allra hinna sem koma við sögu, þar er nafnið mitt, og nafnið þitt, sagan mín og sagan þín. 

Sú stóra og öfluga saga sem jólaguðspjallið segir fjallar um lífið í allri sinni vídd og litaugði. Hún fjallar um lokaðar dyr og opinn himinn, um gný og um kyrrð, um baráttu og um frið, um trúleysi og trúfesti, um hið ljóta sem fyrir augu ber, og hið fagra og bjarta sem Guð vill gefa,  um umhyggju og kærleika, um líf og dauða, um Guð og heiminn okkar.  Litla sagan mín – já, með aldri og þroska varð mér ljóst að hún féll inn í stóru söguna og að stóra sagan guðspjallsins var lykill að túlkun minnar eigin litlu sögu. Og það að heyra, trúa og biðja var í raun að rata heim til hjarta síns.
 
Miðdepill hinnar helgu sögu er litla barnið í jötunni, vafið reifum og lagt í jötu, Guð á jörð, manns barn í okkar heimi.  Þarna hvílir þetta barn nú í dimmu og köldu fjárhúsi, eða í döpru sinni þreytunnar, eða dimmum huga sorgarinnar eða köldu hjarta vonbrigðanna. Og svo gæti virst sem það væri yfirgefið af Guði. Nei, það er fjárhúsið ekki, - María og Jósef halda þar vörð við jötuna lágu, - og ekki heldur hugurinn dimmi og kalda hjartað. Trúin og kærleikurinn vaka þar yfir, já, líka þar er Guð í nánd, sem varnalaust barn, sem ambrar og fálmar eftir þér.
 
„ Og hvar er rótt í heimi stríðs og blóðs?  er hægt að lesa vers í slíkum gný?“   spyr skáldið, Jón úr Vör. Já, það er gild spurning. Hvar er frið að finna? Og hver kennir börnunum vers til að lesa þegar myrkrið sest að í sálinni? Hver er til að kenna þeim hverju þau eiga að trúa, hvernig þau eiga að breyta og hvers þau mega vona? Þegar gnýrinn og gasprið, ófriður og ógnir daganna taka yfir, er þá yfirhöfuð hægt að lesa vers, að trúa og biðja, og rata heim til hjarta sins?  Gott á það barn sem eins og skáldið á vissuna um ljósið sem aldrei deyr, sem móðirin ljúfa vakir yfir.

Ég gleymi aldrei jólasögu þýska höfundarins Berthold Brecht, sem þekktur er fyrir allt annað en hugljúfar jólasögur. Sagan gerist í undirheimum Chicago borgar. Háð og spé og sköll einkenna jólahaldið hjá hópi utangarðsmanna, sem þannig leitast við að brynja sig í einsemd sinni og lánleysi. Og helst vilja þeir skemmta sér á kostnað eins félaga síns, sem þeir höfðu tekið eftir að var sjúklega hræddur við lögregluna. Þess vegna hafa þeir rifið nokkur blöð úr símaskránni þar sem eingöngu eru nöfn og símanúmer lögreglustöðva stórborgarinnar, og svo grípa þeir gamalt dagblað sem var hendi næst og vefja því utan um þessi blöð. „Gerðu svo vel, gleðileg jól! Gleðileg jól!“ segja  þeir og háðið og hláturinn sýður niðrí þeim. „Gleðileg jól!“ Og svo fer mannagarmurinn að fletta dagblaðinu utan af vöndlinum, en allt í einu hættir hann. Augu hans eru eins og límd við frétt inn í blaðinu. Og svo sprettur hann á fætur og hrópar upp yfir sig:„Jú! Hérna stendur það! Málið er upplýst, ég er frjáls!- Nú veit öll borgin að það var ekki ég!“ Þá verður hinum ljóst að hann hafði verið grunaður um glæp, og angistin hvílt á honum eins og mara. Allt í einu er hann frjáls, hólpinn, vegna fréttar í dagblaði. „Gjöf frá Guði,“ heitir þessi frásögn, og höfundur lýkur henni með orðunum: „Ekki fundum við þetta dagblaðsrifrildi, heldur Guð.“

Jólin eru gjöf frá Guði. Og hann á margvíslegar leiðir að hjarta manns, þó honum sé iðulega úthýst, -það er gömul saga og ný-. Það sýnir jólaguðspjallið. Það fjallar um mig og um þig, okkar sögu, okkar heim, já, og alla sköpun Guðs. Jólaguðspjallið er frétt, sem varðar þig. Gjöf frá Guði. Segir þér að þú ert frjáls, því Kristur hefur frelsað þig, tekið á sig meinin þín, sekt, synd, sorg og dauða til að leiða þig heim, til hjarta þíns, til sjálfs þín, og til þess sem lífi þínu er frá öndverðu ætlað og áskapað, lífsins og ljóssins sem aldrei deyr.

 „Á litlu kerti er ljós sem aldrei deyr, mín ljúfa móðir vakir yfir því.“  sagði skáldið.
Jólin eru gjöf frá Guði. Hvort er mikilvægara umbúðirnar eða innihaldið? Stundum má ekki á milli sjá. Og iðulega eru það einmitt umbúðirnar sem bera boðskapinn fram. Í ljósum og hljómum, hughrifum og gjöfum helgra jóla dylst gjöfin dýrmæta, einstæða. Þiggðu þá gjöf, gjöfina frá Guði, frelsarann Jesú Krist.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2386.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar