Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Erik Norman Svendsen

Mót heiðni og kristni

11. október 2007

Jes.1,16-17. Gal. 5,1-6. Mark. 2,14-28.

Meðal þeirra bóka sem ég gríp niður í aftur og aftur eru bækurnar um Orm rauða, bóndasoninn frá Skáni sem fyrir slysni lagðist í víking til Írlands. Eftir margra ára erfiðleika langt frá heimaströndu kom hann til hofs Haraldar konungs blátannar í Jalangri, þar sem hann kvæntist Ylfu, hinni undurfögru dóttur konungs.

Það er sænski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Frans G. Bengtsson sem af gáska og djúpu sagnfræðilegu innsæi hefur lýst einmitt því tímabili í norrænnar sögu þegar kristindómurinn ruddi sér til rúms og ýtti smám saman hinni gömlu ásatrú til hliðar, a.m.k. opinberlega, ekki alltaf í raun.
 
Ég þreytist aldrei á að lesa kaflann um hvernig jólin voru drukkin hjá Haraldi blátönn í Jalangri, þar sem konungur, þá nýlega snúinn til kristni, heldur - með aðstoð Popo biskups - jól með heimilisfólkinu, sem var kristið, og heiðnum höfðingjum. Þeirra á meðal var sonur Haraldar konungs, Sveinn tjúguskegg, yfirlýstur heiðingi. Hann tók þátt í jólahaldinu með það eitt í huga að Haraldur konungur, faðir hans, myndi detta dauður niður, því um jól, þegar matur og drykkur var hvað mestur og sterkastur gerðist það oft að gamlir menn dóu snögglega í rúminu eða þar sem þeir sátu við drykkju, eins og fór fyrir Gormi konungi, sem eftir ofgnótt jólasteikurinnar lá mállaus í tvo daga og lést síðan, svo sem lýst er í fyrri bókinni um Orm (útg. í Rvík 1946).

Veislan stendur auðvitað yfir í marga daga og ekkert er til sparað, hvorki af mat né drykk. Því hér í norðrinu höfum við haldið miðsvetrarhátíðir og drukkið jól, löngu áður en kristindómurinn kom til okkar af suðlægari slóðum. Á vetrinum miðjum var haldin hátíð til að stuðla að því að sólin snéri aftur og næði tökum á kulda og myrkri. Þá var blótað, blóði fórnardýra fórnað, til að tryggja sér velvild goðanna, hvort sem þau hétu Óðinn, Freyr eða Þór. Veislan var heilög athöfn og minnir á margan hátt á jólagleði okkar daga, sem enn miðar að því að safna fólki saman, óháð trú, í kring um nægtaborð matar og drykkjar.

Þannig var það líka hjá Haraldi konungi í Jalangri árið sem Ormur rauði og menn hans snéru aftur eftir margra ára víking í Vesturvegi. Í konungssalnum stóra sátu 700 manns á bekkjum, konulausir, því ekki var nokkur leið að halda frið drukkinna manna í milli, ef konur voru nærri. En bæði ásatrú og kristindómur vildu varðveita friðinn við jólaveisluna. 

Veislan hefst á því að biskupinn biður bænar – sem Haraldur konungur hafði reyndar beðið hann um að hafa í styttri kantinum – og síðan drekka menn þrjár skálar: til heiðurs Kristi, fyrir hamingju Haraldar konungs og fyrir komu sólar. Jafnvel heiðingjarnir drukku Krists skál, þar sem hún var fyrst og þá þyrsti í ölið, en sumir gerðu fyrir sér hamarstáknið og muldruðu nafn Þórs, áður en þeir drukku. 

Og svo er maturinn borinn inn: svín, lamb og uxar og gufukatlar með blóðmör og mjöður sem fær matinn til að renna ljúflega niður. Jólahaldið var hafið og því er ekki enn lokið. Bænin stutta er í dag orðin að stuttri guðsþjónustu aðfangadagskvölds sem fylgt er eftir með miklum veisluhöldum í mat og drykk. Kristindómur og heiðindómur hlið við hlið, ekki í andstöðu heldur mesta bróðerni. Því hvað sem kristnitöku líður erum við auðvitað norrænt fólk sem vetrarsólstöðurnar gefa sameiginlegt tilefni til hátíðar.

Skáldsagan Ormur rauði fjallar um mót trúarbragða og þann árekstur sem það orsakaði á norðurslóðum fyrir 1000 árum. Áhrifanna sér enn stað í þjóðarvitund okkar og hugarfari. Reynslan af þessu móti trúarbragðanna er framar öðru grundvöllur sjálfsmyndar norrænna manna og samstöðu þeirra, sem kemur svo fallega fram í táknmáli jólahaldsins, en það hefur alltaf haft sérstöðu í norðrinu, þar sem endurkoma sólarinnar skiptir öllu máli fyrir líf og velferð.
 
Hvíti Kristur, sem boðaður var fyrir 1000 árum, var þess vegna ekki í mynd Krists sem þjáist á krossinum, heldur hinn sigrandi höfðingi, Kristur hinn sterki, sem sigraði dauðann í upprisu sinni á páskamorgni. Á róðukrossum þess tíma er hann sýndur beinn í baki og karlmannlegur. Meira að segja hinir hrjúfu víkingar gátu trúað á og tilbeðið þennan Krist sem augsýnilega var sterkastur allra. En smám saman fengu orð hans einnig vægi. Frásögurnar um líf hans og orð mörkuðu djúp spor í líf fólksins. Blóðhefnd mátti víkja fyrir miskunnsemi, fjandskapur lét í minni pokann fyrir friði, gömlum siðavenjum var skipt út fyrir nýjar sem byggðu á annars konar umhyggju fyrir náunganum.

Þetta gerðist ekki allt í einu – og ekki heldur alltaf. En ný sýn á guðdóminn og náungann mótaði smám saman þjóðir okkar og samfélög. Því að Jesús Kristur veldur umbreytingu, umbreytingu kærleikans og miskunnseminnar. Allt breytist, þegar orð Jesú og verk eru boðuð. Við verðum aldrei söm eftir að hafa mætt þeim kærleika og þeirri miskunnsemi sem streymir frá orðum Krists og verkum.

Stöku sinnum heyrast raddir um að það skipti í raun engu máli hverju við trúum, og að trú, hvaða nafni sem hún nefnist, snúist alltaf um það sama. Þetta er einfaldlega ekki rétt, eins og reyndar má lesa um í Ormi rauða. Þar segir frá skírnarveislu á bæ Orms rauða í Smálöndum. “Stóð hún í þrjá daga, eins og Ormur hafði hugsað ser, og þegar frá upphafi varð það almannarómur, að hún hefði verið hin merkilegasta veisla, þar sem ekkert vopn varð blóðugt, og voru þó gestirnir á hverju kvöldi eins vel drukknir og framast varð á kosið í höfðingjaveislu” (Ormur rauði II, ísl. þýð. Friðrik Ásmundsson Brekkan, Reykjavík 1947, bl. 35).

Í guðspjalli dagsins í dag mætum við einmitt þeim Jesú, sem hafnaði gömlum siðvenjum og gaf lífi okkar með Guði og hverju öðru alveg nýja vídd. Hann skipti öllu máli að einnig væri rúm fyrir þau sem á einhvern hátt féllu ekki inn í staðalmyndina vegna hvers konar veikinda eða minni máttar.
Hann kom með nýtt vín á nýjum belgjum.

“Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara”, segir Jesús í guðspjalli dagsins. Þar er sagt frá Jesú í húsi Leví tollheimtumanns, þar sem hann sat til borðs með tollheimtumönnum og bersyndugum. Okkur hættir til að setja þetta hugtak á stall, eins og það væri heiðurstitill. Við erum, segjum við, öll syndug fyrir Drottni, eins og það geri okkur eitthvað sérstök í augum Guðs. En þá erum við að sveipa syndina upplognum ljóma, með því að láta sem það að vera tollheimtumaður eða syndari sé gott í sjálfu sér.

Eina ástæða þess að Jesús umgekkst tollheimtumenn og syndara var að enginn annar kærði sig um það. Litið var niður á þetta fólk og það ekki að ástæðulausu. Tollheimtumenn voru föðurlandssvikarar og nýttu sér blygðunarlaust aðstöðu sína á kostnað eigin þjóðar og fólk sem lifði í augljósri synd var sjálfsagt jafn óáreiðanlegt og fráhrindandi og drykkjumenn og fíkniefnaneytendur í dag. En Jesús leit það öðrum augum en við gerum oftast nær. Ekki vegna þess að hann léti sér annt um synd þeirra heldur vegna þess að hann lætur sér annt um okkur, manneskjurnar. Því að hann spyr ekki að verðleikum heldur þörf mannsins. “Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru”. Þennan dag í húsi Leví sýndi Jesús takmarkalausa elsku Guðs í orði og verki. Það er hún ein sem fær endurnýjað og umbreytt syndaranum.

Fræðimönnunum var viðhorf Jesú algjörlega framandi og meira en það, hreinasta brjálsemi. Í þeirra augum lá beinast við að aðgreina tollheimtumenn og bersynduga og losa sig síðan við þá, a.m.k. úr hópi góðborgaranna. En eins og alltaf er sýn Jesú á syndinni langtum róttækari en annarra. Synd varðar fyrst og fremst grundvallarviðhorf okkar til Guðs, frekar en ytra atferli. Syndin er að við leitum sjálfra okkar í stað Guðs, að við hlustum eftir okkar eigin rödd frekar en Guðs rödd og að við þannig hugsum um okkur sjálf, fyrst og fremst, í stað náunga okkar. Syndin er hugarfar sjálfselskunnar.

Sjálft orðið synd, sem fyrst kom inn í danska tungu með kristindóminum, þýðir eiginlega að missa marks. Og það gerist í hvert sinn sem maður byrjar á sjálfum sér en ekki Guði og náunganum. Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, og náunga þinn eins og sjálfan þig. Þannig dregur Jesús saman æðsta boðorð lögmálsins, sem kunnugt er. Það er þessi kjarnahugsun sem við erum í stöðugri uppreisn gegn og syndgum á móti. Þess vegna erum við líka á einhvern hátt bæði tollheimtumenn og bersyndug og þurfum að biðja um náð Guðs og fyrirgefningu syndanna.

Í orðum Jesú um hina heilbrigðu og réttlátu er fólgin mikil kaldhæðni. Þeim heilbrigðu finnst þeir ekki þurfa læknis við og hinir réttlátu sjá ekki þörf sína á fyrirgefningu og þess vegna fá þeir hvorki lækningu né fyrirgefningu. Sjálfur bað Jesús fyrir óvinum sínum og óvildarmönnum og var vinur tollheimtumanna og syndara. Einn þeirra var Leví Alfeusson. Jesús kallaði hann til fylgdar við sig og þegar Leví, undrandi yfir þessum heiðri sem honum var sýndur, hlýddi  kallinu, fylgdi Jesús honum heim. Þar var slegið upp veislu og allar dyr voru opnar upp á gátt og allir voru velkomnir. “Margir fylgdu honum”, stendur í guðspjallinu – meðal annars í von um ókeypis máltíð hjá ríka tollheimtumanninum. Þessi veisla breytti lífi þeirra, bæði Leví, sem fékk lærisveinanafnið Matteus, og allra hinna tollheimtumannanna og bersynduga fólksins, sem frá þeim degi vék ekki frá Jesú. Og þetta fólk köllum við gjarnan vondan félagsskap, fólk sem við af ýmsum ástæðum finnst við vera hafin yfir og viljum ekki umgangast.

En einmitt úr þessum félagsskap í húsi tollheimtumannsins spratt nýtt samfélag Guðs og manna, samfélag kærleika og miskunnsemi þar sem Guð leggur línurnar í lífi okkar, sá Guð sem Jesús Kristur hefur opinberað einnig okkur Norðurlandabúum. Til að vera með í því samfélagi er engin þörf á að sýna eigin trúrækni með því að fasta eða halda sérstaka helgisiði. “Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim?”, spyr Jesús af mikilli mælskulist gagnrýnendur sína. Á milli línanna má lesa að það geta þeir auðvitað ekki. Því að í hinum góða félagsskap Jesú eiga allir gleðina saman og gefa hinum örlátlega með sér. Orð hans og verk eru gleðiboðskapur frá Guði himinsins sem endurnýjar líf okkar með því að leggja því nýjar línur, þar sem miskunnsemi kemur í stað hefndar, friður bægir á burt fjandskap og þar sem ný umhyggja fyrir samferðafólkinu, borin uppi af náungakærleika, ryður úr sessi gömlum siðareglum mannlífsins, þar sem hinn sterkasti hafði ávallt vinninginn.

Þennan dag í húsi Leví hófst nýr tími og nýtt samfélag milli Guðs og okkar, samfélag sem allir geta tilheyrt. Á milli húss Levís og kirkjuhússins liggur bein lína. Í báðum húsum er það Jesús sem sameinar og í báðum húsum eru það tollheimtumenn og bersyndugir sem hann safnar um borð sitt, sýnilega í altarisgöngunni þar sem við tökum á móti fyrirgefningu syndanna og eilífu lífi úr hendi hans.  Hér í þessu húsi tollheimtumanna og bersyndugra mætir hann okkur í lausnarorði fyrirgefningarinnar og kærleikans við skírnarlaug og heilaga máltíð, í hinu boðaða orði og lofsöngnum. Hér fáum við forsmekk brúðkaupsveislunnar í ríki Guðs. Og sú veisla stendur ekki aðeins í þrjá daga eða eina viku heldur til eilífðar. Amen.
Erik Norman Svendsen, biskup í Kaupmannahöfn.
Prédikun flutt í Hallgrímskirkju í Reykjavík á Norrænu höfuðborgamóti 2007.

Predikunin var flutt á dönsku. Þýðandi María Ágústsdóttir. 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2855.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar