Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Vorþeyr

8. apríl 2007

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður.

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Matt. 28. 1-8

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi. Amen. Gleðilega páska.
„Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.“ Þannig hefst páskaguðspjall Mattheusar. Þær nöfnurnar eru vitni að þeim atburði sem kristnin byggir á. Að hugsa sér að nöfn þeirra skuli nefnd á þessum morgni um alla jörðina, þar sem sagan er sögð, boðskapurinn fluttur á ótal tungumálum, í ólíkustu aðstæðum manns og heims, alls staðar eru þær nefndar á nafn, þessar tvær. Þær eru þau höfuðvitni sem upprisuboðskapur kristinnar kirkju stendur og fellur með. Sumum finnst það heldur veigalítill grunnur.

Í vetur var sagt frá fornleifafundi í Jerúsalem þar sem gröf fannst með beinakistum með nöfnum Jesú, og Maríu. Sjónvarpsþáttur var gerður um fundinn og ýmsir höfðu á orði að nú hefði forleifafræðin afsannað upprisu Krists. Vísindin hefðu endanlega sýnt og sannað að frásagnirnar um hina tómu gröf væru goðsögn, jafnvel blekking ein.– Þetta var nú þegar betur var að gáð byggt á afar hæpnum forsendum, og alla vega engin tíðindi, heldur nokkuð sem hefur fylgt kristnum boðskap frá öndverðu - Gegn þeim stendur vitnisburður þeirra Maríu Magdalenu og Maríu hinnar og fullyrðing guðspjallanna, postulanna og kirkjunnar: „Ef Kristur er ekki upprisinn er ónýt prédikun vor, og ónýt líka trú yðar!“ - Þetta fullyrti Páll postuli, og meðal lesenda hans, meðal þeirra sem hann fullyrðir þetta við, var fólk sem hafði frá fyrstu hendi möguleika að fá staðfestingu á því sem konurnar héldu fram að þær höfðu séð og heyrt þennan fyrsta páskadagsmorgun. Hinn krossfesti Jesús reis af gröf, hann lifir!

Svo spyrja ýmsir: En hvað nú ef bein Jesú fyndust, skipti það nokkru máli fyrir grundvöll trúarinnar? Er ekki hvort eð er um að ræða andlega upprisu? Var ekki umfram allt um að ræða upprisna trú á lífið, endurvakinn lífsþrótt og von? Jú, meðal annars

- EN, ef Nýja testamentið staðhæfir að Jesús hafi risið af gröf sinni og að hún hafi verið tóm, þá er það staðhæfing sem við komumst ekki hjá að taka afstöðu til. Hún snýst ekki bara um táknmynd eða myndlíking um lífssýn og lífsvon sem lifnaði á ný. Heldur um gröf sem laukst upp, um látinn sem lifnaði, um dauða sem missti mátt sinn, um krossfestan meistara, dáinn, grafinn sem reis upp og gekk út úr gröf sinni og lifir. Á því byggir von okkar og trú. Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta um traust. Ég reiði mig á, ég treysti fullyrðingum kvennanna um það sem þær sáu og reyndu við gröfina í grasgarðinum forðum. Ég treysti þeim og postulunum og kirkjunni, sem kynslóð eftir kynslóð hefur staðfest þennan vitnisburð með lífi sínu og veru.

Sagt er að einhverju sinni hafi guðfræðistúdent nokkur viljað stríða prófessornum sínum og sagt að hann hefði heyrt í fréttum að gröf Jesú hefði fundist með líkamsleifum hans. Og sá gamli á að hafa hrópað upp yfir sig: „Nú, hann var þá til!“

Það er í tísku að véfengja sannleiksgildi guðspjallanna. Enn og aftur er því haldið fram í ræðu og riti að einu heimildirnar um Jesú frá Nasaret, guðspjöllin, séu nú ekki ýkja traustar heimildir. Þó er nær sanni að ævi fárra persóna fornaldar er betur studd heimildum. Guðspjöllin fjögur eru sannarlega traustar heimildir, sem standast rýni fræðanna. Boðskapurinn um Jesú, um krossinn og upprisuna hefur reynst trausts verður. Orðið er áreiðanlegt. Jesús lifði og dó, hann reis af gröf og hann lifir. Máttur hans er að verki á okkar jörð.

Upprisa Jesú verður aldrei sönnuð né afsönnuð með aðferðum vísindanna. Hún verður aldrei sönnuð eða staðfest nema með tiltrú, trausti, trú þeirra sem taka við boðskapnum, voga að taka hann á orðinu og reiða sig á hann. Og láta þann boðskap leiða sig í lífi og andspænis hervirkjum syndar og dauða. Kristin trú byggir á boðskap sem konur og karlar, kynslóð eftir kynslóð um aldir og þúsaldir tvær hafa reitt sig á, lifað og dáið fyrir. Ég vil standa með þeim í þeirri trú og trausti.

Saga er sögð af presti einum sem fékk far með gömlum bónda í sókninni. Skyggnið var slæmt og presturinn spurði bóndann hvernig hann gæti ratað í þessu slæma skyggni,„Ég treysti á mína góðu sjón,“ sagði bóndinn. Þegar þeir höfðu ekið lengi enn, og alltaf varð myrkrið meira og vegurinn verri og presturinn stressaðri.„Geturðu virkilega séð nokkurn skapaðan hlut?“ spurði hann bóndann. Þetta sinn viðurkenndi bóndinn að skyggnið væri ekki upp á marga fiska, „en,“ sagði hann, „Nú treysti ég á klárinn.“ Enn dimmdi og vegurinn versnaði til muna, og presturinn varð alvarlega skelkaður: „heldurðu virkilega að það sé óhætt að treysta þessum jálki fyrir lífi okkar og limum?“ „Nei,“ svaraði bóndinn hugsi, „nú treysti ég bara á Drottinn.“ - Og þá bað presturinn hann um að setja sig af.

Þetta snýst um traust, að treysta Drottni og fyrirheitum hans. Reiða sig á það, líka þegar dimmir yfir og leiðin verður vönd og mannanna stoð og styrkur bregst.

• • •

Upprisa hins krossfesta er yfirlýsing Guðs um helgi lífsins og eilíft gildi. Við þurfum að hlusta eftir því og taka mark á, þegar sífellt fleiri upplýsingar benda til að framtíð lífs á jörðu sé ógnað af manna völdum. Við göngum freklega gegn lífríki jarðar með græðgi okkar og yfirgangi og rányrkju. Við erum að uppskera ávexti blindrar og guðlausrar tæknihyggju og manndýrkunar. Engin algild gildi né lögmál virðast lengur virt, allt er falt, rétt og rangt er einungis álitið afstætt. Eða öllu heldur, aðeins aflsmunur. Hinn auðugi og sterki hefur rétt fyrir sér. Þetta er skelfileg lygi sem leiðir til glötunar, upplausnar samfélags og menningar. Boðskapur fagnaðerindisins er köllun til iðrunar og afturhvarfs. Biblían talar um fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfaoflæti sem er frá heiminum. „Og,“ segir Jóhannes postuli:„heimurinn ferst og fýsn hans, en sá sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“

Til að hamla gegn aðsteðjandi umhverfisvá þarf samstillt átak hinna mörgu. En umfram allt þurfum við öll að horfa í eigin barm og endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar. Við verðum að fara að horfast í augu við að draumar okkar og framtíðarsýnir séu ef til vill byggðar á kolröngum forsendum. Að áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, mátt hins hrausta, sterka og stælta, er tál. Á móti kröfum hátækni og háhraða og hámörkun afkasta og ágóða, þarf að koma vægi alúðar og umhyggju fyrir lífinu, landinu, náunganum, ungviðinu veika og brothætta. Meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, er frelsari heimsins, frelsari þinn.

Fagnaðarerindið lokar ekki augunum fyrir raunveruleikanum. Lífið er oft svo þungbært. Áföllin dynja þá minnst varir, sjúkdómar, slys, auðnubrigði af ýmsum toga. Öryggisleysi og einsemd, sársauki og sektarkennd eru mörgum óboðnir förunautar. Og dauðinn iðulega óvelkominn og ótímabær. Krossinn stendur fyrir þetta allt, alla skugga, myrkur, alla sorg mannlífsins, allar byrðarnar þungu. Allt það tók Kristur á sig, fyrir þig. Steinninn þungi sem velt var fyrir grafarmunna Krists, minnir á það sem enginn mannlegur máttur fær haggað. En páskarnir bera boð um mátt sem „fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt af gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.“ Steininum var velt frá, hinn krossfesti reis af gröf. Ljósið sigrar, lífið sigrar. Í þeirri trú og von vil ég lifa og mæta synd og hrörnun og forgengileika, já og dauða mínum og minna, í von til Krists, sem dauðann sigraði fyrir oss.

Eitt sinn sem oftar stóð ég við opna gröf hér í Fossvogskirkjugarði. Syrgjendur gengu að gröfinni og signdu yfir, eins og venjan er, í kyrrlátri helgi og hluttekning. Svo kom þar að eldri kona og leiddi við hönd sér ömmubarn hins látna. Varfærin, hlýlega tók hún um hönd litlu stúlkunnar og stýrði henni að gera krossmark yfir gröfinni. Signdi svo sjálf yfir og sagði lágum rómi um leið og þær sneru frá: „Gráttu ekki, væna mín, hann er ekki hér, hann lifir hjá Guði.“ Ég var snortinn af þessari hljóðlátu páskaprédikun, þessum endurómi frá hinum fyrsta páskadagsmorgni. Bænin, barnatrúin og hin kristna siðvenja leggja okkur orð á varir og atferli sem tjá hvað það er sem eitt megnar að lyfta hug og svala sál andspænis sorg og dauða. Og það er enginn tilbúningur. Það er innistæða fyrir því. Og því er svo brýnt að börnin og unga fólkið fari ekki á mis við það, verði ekki viðskila við hina kristnu sögu og siðvenju, það væru ægileg svik við þau og framtíðina!

Átök um lífsskoðanir hafa verið áberandi hér á landi nú í vetur. Það er sem hin harða og kalda andstaða gegn kristninni sem einkenndi upphaf fyrri aldar sé gengin aftur í hatrömmum andtrúaráróðri. Hinn andlegi hafís guðleysisins lónar fyrir landi, og ískalda og vonarsnauða þoku stafar frá honum.

Gegn því stendur hinn hlýi vorþeyr upprisutrúar og vonar.

Hvorum megin viltu vera? Hvora lífssýn viltu að barnið þitt aðhyllist? Hvort viltu vita það í hafís tómhyggju og vantrúar, eða í vorþey trúarinnar?

Trú og efi vega salt í lífi okkar allra. Eina stundina finnum við dragsúg vantrúar og vonleysis. Hinn dauði er endanlega frá manni tekinn, moldin hefur fengið sitt og síðan ekki söguna meir. – En svo strýkur vanga blíður vorþeyr vonarinnar: „Gráttu ekki. Hann lifir hjá Guði!“ Bænin og trúin er andsvar við ávarpi hans, iðkun og athöfn við skírnarlaug og máltíð altarisins, er andsvar við laðan lausnarans sem lifir, og er upprisan og lífið. Þegar við göngum hér á eftir til helgrar máltíðar þá er það fagnaðarmáltíð með upprisnum frelsara í árdagsbirtu vonarinnar, en ekki erfidrykkja við lokaða gröf í kveldhúmi sorgar og dauða. Það var einmitt við máltíðina sem Jesús sýndi sig upprisinn. Og þannig er það og verður. Kristur lifir og vill mæta þér og blessa þig. Og sá sem trúir á hann mun hólpinn verða.

Kristur er upprisinn! Við skulum halda okkur í þeirri morgunbirtu og halda okkur við þá björtu, hlýju von. Og við skulum ekki skirrast við að vitna um þá trú og um vonina og gleðina, sem af henni vex og grær. Gefum okkur á vald hinni glöðu, undursamlegu von og vissu: Kristur er upprisinn. Og hann er oss hjá, nú og að eilífu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 6844.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar