Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Svavar Alfreð Jónsson

Meðal kypurblómanna

8. apríl 2007

I.

Margt er ranglætið í okkar þjóðfélagi og nú fyrir páskana vildu nokkrir baráttuglaðir unnendur réttlætisins ekki una þeim ólögum, sem banna að spilað sé bingó á föstudeginum langa. Notuðu þeir daginn til að efna til bingós á Austurvelli og uppskáru lof margra, enda vantar ekki nema fjóra daga upp á að þeim mikilvæga áfanga í mannréttindabaráttu á Íslandi sé náð að hér geti menn spilað sitt bingó vandræðalaust allt árið um kring.

En auðvitað voru það engir sérstakir áhugamenn um bingó sem stóðu fyrir samkomunni á Austurvelli. Það kom lítið fram í umræðunni að bingóspilararnir vildu með þessu mótmæla helgidagalöggjöfinni, einkum því að hér á landi séu almennir frídagar á trúarlegum forsendum. „Lengsta skyldufrí ársins er framundan,” skrifar armæðufullur dr. Gunni á bakhluta Fréttablaðsins og segir góð ráð dýr fyrir fólk sem hvorki sé á leiðinni til útlanda eða í sumarbústað. Pistillinn hans gengur út á að benda fólki á leiðir til að drepa tímann „fyrst maður getur ekki verið í vinnunni” eins og hann orðar það.

Ég veit ekki hversu stór sá hluti þjóðarinnar er sem á enga ósk heitari en að geta verið í vinnunni alla daga en ef til vill er hann stærri en okkur grunar. Þjóðin virðist nefnilega vera í töluverðum vandræðum með frídaga sína og hátíðir. Það er árviss siður hér á landi að bölsótast út í fermingar og á hverri aðventu fer í gang kór sem finnur jólahaldi landsmanna allt til foráttu. Föstudagurinn langi er nánast óbærilegur, því þá má ekki spila bingó. Og á páskum neyðist fólk til að vera ekki í vinnunni.

II.

Þegar við erum ekki í vinnunni þurfum við að grípa til einhverra aðgerða og í samfélagi okkar bólgnar sífellt út þörfin fyrir afþreyingu og skemmtun. Við kunnum ekki að hafa ofan af fyrir okkur sjálfum. Við erum upp á það komin að aðrir skemmti okkur. Við dægrastyttum tilveruna, eins og Jón Gnarr benti einu sinni á. Helst allt þarf að vera skemmtilegt. Messurnar og fréttirnar. Menn vonast eftir skemmtilegu þingi og skemmtilegri kosningabaráttu. Fyrir kemur að fólk segir mér að það hafi verið við svo ofboðslega skemmtilega jarðarför nýlega.

Þessi mikla eftirspurn eftir skemmtun hlýtur að eiga sér þær orsakir að okkur leiðist. Okkur hundleiðist lífið. Okkur leiðist að vera í hjónabandi. Börnin fara í taugarnar á okkur. Okkur finnst ekkert spennandi lengur og læknarnir hafa varla undan að skrifa upp á geðlyf handa okkur.

Lífið hefur glatað töfrum sínum. Við aflituðum það. Það er engin dýpt í því lengur og þess vegna er það nánast óbærileg tilhugsun að þurfa að vera upp á sjálfan sig kominn og sína nánustu þó ekki sé nema örfáa daga á ári.

III.

Páskar eru ekki bara kristin hátíð. Líka Gyðingar halda sína páska og minnast þá frelsunar þjóðarinnar úr Egyptalandi. Á páskum lesa Gyðingar að sjálfsögðu gamlar sagnir um þann atburð, en líka eitt undarlegasta rit Biblíunnar, Ljóðaljóðin.

Ljóðaljóðin lýsa ástríðufullu sambandi karls og konu. Þau eru erótísk. Þar stendur til dæmis: „Hversu fagrir eru fætur þínir í ilskónum, þú höfðingjadóttir! Ávali mjaðma þinna er eins og hálsmen, handaverk listasmiðs, skaut þitt kringlótt skál, er eigi má skorta vínblönduna, kviður þinn hveitibingur, kringsettur liljum.” Ljóðin loga af ástríðum og Gyðingar lesa þau á sínum páskum til að glæða ástríðurnar í sér, ástríðuna til lífsins. Þeir segja að til að vera til þurfi maður að sinna búksorgum og helstu nauðsynjum, en hafi menn áhuga á því að lifa, þurfi að uppgötva ástríðuna í sjálfum sér og tilverunni. Á páskum vill Guð ekki bara brjóta hlekkina af höndum okkar og fótum, heldur lífga anda mannsins, forða honum frá því að lifa andvana lífi. Hann vill gæða lífið töfrum og dýpt og gera það að ævintýri.

Þess vegna eiga Ljóðaljóðin svo mikið erindi við þjóð sem þekkir ekki lengur hið ástríðufulla líf og er að deyja úr leiðindum.

IV.

Í guðspjalli dagsins sáu konurnar sendiboða Guðs sem eldingu ásýndum og varðmennirnir við gröfina skulfu af hræðslu og urðu sem örendir. Þegar konurnar hlupu frá gröfinni segir guðspjallið að þær hafi gert það með ótta og gleði.

Þegar lífið birtist okkur í öllum sínum krafti er óttinn skiljanleg mannleg viðbrögð. Ef til vill erum við hrædd við að eiga frí vegna þess að við erum hrædd við lífið? Við erum hrædd við að þurfa að horfast í augu við okkur sjálf. Hrædd við að aðhafast ekkert. Meister Eckhart, einn frægasti dulspekingur kirkjunnar, segir ekkert í sköpunni líkjast Guði meira en þögnin. Við erum hrædd við þögnina, því þá erum við svo berskjölduð fyrir lífinu, fyrir Guði. Þess vegna þurfum við alltaf að vera á ferðinni. Það þarf helst alltaf eitthvað að vera í gangi og okkur líður betur eftir því sem hraðinn er meiri.

Fyrir nokkru var kynnt hér hugmynd um að Akureyri yrði hæglætisbær, „citta slow” eins og það heitir, en fjölmargir lýstu sig algjörlega andvíga því. Í margra augum er það nefnilega ekki hraðinn sem er hættulegastur. Miklu meiri ástæða er til þess að vara sig á því að fara sér hægt. Það getur verið stórvarasamt fyrir nútímamanninn að kasta mæðinni og ná áttum. Sá áróður dynur á okkur daginn út og inn og án afláts er verið að reyna að telja börnunum okkar trú um að þau verði umfram allt að flýta sér.

V.

Trúarbrögð mannkynsins eiga margt sameiginlegt og eitt af því sem er hvað mikilvægast í öllum heimsins átrúnaði er að Guð sé ekki í hávaðanum heldur þögninni og hið raunverulega líf ekki í hraðanum heldur kyrrðinni. „Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yða vera. En þér vilduð það ekki og sögðuð: „Nei, á hestum skulum vér þjóta,” segir í spádómsbók Jesaja.

Og svo sannarlega höfum við á hestum þotið gegnum lífið, svo hratt að við höfum kannski aldrei komist í tæri við það og það hefur týnt dýpt sinni, lit og ástríðu.

En nú er sigurhátíð lífsins. Á páskum fögnum við því að lífið sigraði dauðann og okkur býðst öllum að eignast hlutdeild í því. Og okkur þyrstir öll í þetta líf. Við finnum að eitthvað vantar. Við finnum að lífið hefur glatað lit sínum, kynngi sinni, ástríðunni. Lífið sem við okkur blasir á heilögum páskum, gegnum myrkur allra jarðarinnar grafa, er ástríðufullt líf í lit. Okkur er boðið að eiga þátt í ævintýri. Í orðum Ljóðaljóðanna kallar Guð okkur til lífsins með sér.

„Við skulum fara út á víðan vang, hafast við meðal kypurblómanna. Við skulum fara snemma upp í víngarðana, sjá, hvort vínviðurinn er farinn að bruma, hvort blómin eru farin að ljúkast upp, hvort granateplin eru farin að blómgast. Þar vil ég gefa þér ást mína.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2589.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar