Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórir Jökull Þorsteinsson

Lífsins ljós skín í myrkri dauðans

8. apríl 2007

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður.

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Matt. 28. 1-8

Gleðilega páskahátíð kæru systkin í Drottni.

Við höldum í dag stærstu hátíð kristninnar, sjálfa upprisuhátíð Krists Jesú. Við deilum gleðinni yfir sigri lífsins hvert með öðru og fögnum því að Kristur hefur slitið fjötra dauðans og er sannarlega upprisinn. Í raun og sann má segja að hver einasti sunnudagur sé upprisuhátíð í kirkjunni. Stórmerkja þeirra atburða sem páskahátíðin hverfist um, gætir í öllu lífi Kirkjunnar og sérhvers kristins manns. Í hvert sinn sem við lítum kross á kirkjuturni erum við minnt á atburði þessa, píslir Drottins Jesú, krossfestingu hans og dauða, greftrun hans og sigurs hans í upprisu á þriðja degi. Aldrei komum við svo inn í kirkjuhús að ekki sjáum við svipmyndir sem á þessa atburði benda og inntak þeirra býr í hverri athöfn á vettvangi kirkjunnar. Heilög skírn sækir t.a.m. eindregið mót sitt og merkingu til þeirra atvika sem við minnumst í dag, - og þá fermingin sömuleiðis, - við greftrun kristinna manna erum við borin í ljós þess sigurs sem Guð í Kristi, hefur gefið okkur hlutdeild í, - í gegn um trúna. Kirkja Jesú Krists er samfélag trúarinnar á hann í ljósi páskanna, alla daga.

Í hinum forna heimi var ýmiss konar fórnaratferli samgróið hvers kyns trúarbrögðum. Hof heiðinna manna voru staðir blóðfórna og hið sama er að segja um musteri Gyðinga, helgidóminn stóra í Jerúsalem, þar sem Jesús sjálfur kom og kenndi. Ýmsar fórnir voru færðar í musterinu, stórar og smáar, sumar þeirra voru einskonar gjald fyrir þjónustu og aðrar voru þakkarfórnir eða fórnir færðar í friðþægingarskyni. Ekki var allt þetta Guði þóknanlegt að mati spámannanna á tíma Gamla testamentisins. Ákveðinn fórnarskilningur var bundinn við páskalambið sem sérhver fjölskylda lét slátra í musterinu til minningar um það er Guð frelsaði Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi fyrir meðalgöngu spámannsins Móse. Ísraelsmenn máttu aldrei gleyma þessu náðarverki Guðs og minntust þess árlega um páska og snæddu síðan lambið heima.

Ef til vill læðist að okkur sú hugsun hér og nú að fórnir og fórnaratferli í trúarlegum tilgangi sé heimskan ein en þeirri hugsun er okkur óhætt að vísa frá því að í djúpi mannssálarinnar skiljum við að ekkert er sjálfsagt og til þess að öðlast eitthvað látum við títt annað af hendi. Í heiminum fórnum við tíma, orku og fjármunum, leggjum í ómælda fyrirhöfn til að öðlast ýmis gæði. Í samhengi trúarlífs hins vegar seilst til annarra vídda, þar bendir fórn lifandi dýrs eða veru beint á hin hinstu rök, lífs eða dauða. Á meðal okkar kristinna manna á fórnarhugsunin því sinn helga sess og sæti og er afar miðlæg ef að er gáð. Það er reyndar lífsfórn Krists Jesú sem liggur til grundvallar kristinni kenningu, kristinni trú. Hér er Kristur sjálfur fórnarlambið sem með því að gefa líf sitt friðþægir fyrir syndir mannkynsins, - deyr svo við megum lifa og erfa líf. Trúin sér að Guð sendi hann í heiminn okkur til leiðsagnar og setti hann fram til þess að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem á hann trúa. Trúleysið sér þetta ekki. Jesús Kristur er okkar páskalamb, fórnað í eitt skipti fyrir öll okkur til lífs. Hjá þeirri fullkomnu fórn blikna allar aðrar og eru einskis nýtar.

Á nokkrum stöðum í Biblíunni er svo að orði komist um mannfólkið að það sitji eða hafi setið í myrkri og skugga dauðans. Þessi lýsing á ástandi manna í heiminum, vitnar um vonarvana tilveru manna af holdi og blóði, manna sem vita af eigin forgengileika og vænta einskis utan þess sem unnt er að höndla hérna megin grafar og heimsins er. Þessi afstaða er raunar afar útbreidd og áhrif þessa viðhorfs sjást hvarvetna í heiminum. Þau birtast í valdabrölti ýmsu og hvers kyns metingi, að við viljum ekki fara neins þess á mis sem gleðja kynni hold okkar, metnað og tilfinningu fyrir því að við höfum til einhvers lifað. Þetta er eitt andlit syndarinnar. Á einum stað líkir Páll postuli syndinni við stingvopn eða brodd í hendi dauðans. Ef að er gáð seilist dauðinn til áhrifa í tilveru sérhvers manns löngu áður en hann gefur upp öndina, því hvort tveggja er að dauðinn er stöðugt nálægur með ógnan sína og eins vitum við að hann vitjar okkar fyrr eða síðar. Marteinn Lúther sagði um þetta: „Í lífinu miðju erum vér í dauða.” Þetta eru mikil ókjör en inn í þessi ókjör mannkyns berst nú boðskapur páskanna, fagnaðarerindi um líf og ljós, borið uppi af Orðinu og Heilögum Anda. Þetta er boðskapur um frelsun okkar úr því „Egyptalandi” sem er ánauð angistarvalds dauðans og syndarinnar.

„Ég veit að þér leitið að Jesú hinum krossfesta,” segir engillinn bjarti við konurnar í guðspjalli Páskadags. „Hann er ekki hér, hann er upprisinn eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá.” Konurnar sem hér áttu í hlut voru María Magdalena og María sem hér er kölluð María hin, Nafn Maríu Magdalenu kannast flestir við en María hin sem Mattheus nefnir svo er ekki alveg ljóst hver var. Líklegast er þó að hér ræði um Maríu Guðs móður, sem þarna var komin til að veita syni sínum hinstu umhyggju. Konurnar voru nú komnar að gröf Jesú með ilmsmyrsl, - án efa svonefnda myrru, til þess að smyrja líkama hans og veita honum sæmandi umbúnað í gröfinni. Til þess hafði ekki gefist ráðrúm á föstudeginum vegna hvíldardagshelgi páskahátíðar Gyðinga sem gekk í garð við sólsetur daginn þann, - en eftir það mátti ekki vinna nokkurt verk og þaðan af síður snerta lík. Þess vegna hafði líkami Jesú verið sveipaður einföldu líkklæði og lagður í nýja gröf sem höggvin hafði verið í klett. Þessa gröf hafði Jósef nokkur frá Arímaþeu látið gera og ætlað sjálfum sér látnum.

Hvíldardagshelgin gekk um garð við sólsetur á laugardegi og þá urðu konurnar því að bíða sólarupprásar, - bíða þess að lýsti af sunnudegi. Á leið til grafarinnar höfðu þær af því áhyggjur hvort þær gætu nálgast lík Jesú og hver myndi velta steininum stóra frá munna grafarinnar. Guðspjallamaðurinn Mattheus segir því að þær nöfnur hafi komið til að líta á eða skoða gröfina sem gætt var af rómverskum hermönnum úr liði Pontíusar Pílatusar. Guðspjallið greinir síðan frá snörpum jarðskjálfta og að Engill Drottins hafi komið og velt steininum frá og sest á hann. Var hann sem elding ásýndum og klæði hans skínandi hvít, segir þar. Guðspjallstextinn vitnar um atvik sem ógurlegt er og undursamlegt í senn. Um hina rómversku varðmenn segir að þeir hafi skolfið af hræðslu og líkst dauðum mönnum þar sem þeir fölnuðu upp í lamandi skelfingu. En engillinn bjarti segir við konurnar: „Þér skuluð ekki óttast, ég veit að þér leitið að Jesú, hinum krossfesta. Hann er ekki hér, hann er upprisinn eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum. Sjá! Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann!”

Sú Galílea sem engillinn vísaði lærisveinunum til var og er landfræðilegur staður. Sú „Galílea” sem hann vísar okkur til er trúin, þar væntir Kristur okkar, þar munum við sjá hann og verk trúarinnar er að eyða framandi valdi dauðans sem seilist til áhrifa í tilveru okkar og þar með í heiminum. Fagnaðarerindið er fregnin um lífið sem Guð hefur í Syni sínum gefið okkur fyrir trúna á hann.

Er við lesum vitnisburð guðspjallanna um Jesú þá greinum við að þar fer sá sem ekki blæs sjálfan sig út, að þar fer sá sem fram gengur í lítillæti og sem vitnar í anda, orði og verki um hlýðni við Guð Föður, í trú á hann, - vitnar um réttlæti hans og kærleika til manna. Vitnisburðurinn um píslir Jesú, niðurlægingu og kvalafullan dauða á krossi er hvar sem að er komið, á þá leið að hann lastmælti engum þeirra sem meiddu hann og sýndi ekkert í þá átt að hann vildi launa illt með illu, heldur að hann gaf líf sitt fúslega og bað fyrir þeim sem að því störfuðu að meiða hann og deyða.

Þetta vitnar um að syndin, broddur hins aðvífandi dauða fékk ekkert ítak í persónu Sonarins, Jesú Krists, að hann varðveitti Guðs kærleika og réttlæti til enda og bað á krossinum: „Faðir fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.” Þessi bæn Jesú hvar hann er deyjandi á krossinum sneri vissulega að þeim sem böðulsverkið unnu, honum var augljós andleg örbirgð þeirra og blinda, en bæn hans er einnig til umþenkingar fyrir okkur sem teljum okkur jafnan starfa í þágu lífsins. „Faðir fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.” Sigur Jesú Krists var því eindregið unninn á krossinum og dauða hans skoðum við sem lífsfórn Guðs Sonar. Upprisa hans er vitnisburður um þann dýrðlega sigur.

Kæru bræður og systur. Í trúnni þiggjum við lífsfórn Drottins Jesú, vitandi að hún er okkar syndagjald, að hún inniber skuldaskil okkar og ber okkur hreint borð í Guðs augliti, hreint borð þess réttlætis sem ávallt mun haldast í hendur við lífið eilífa. Dauði Jesú er lífgefandi öllum þeim sem þiggja ávinning sáttafórnar hans á Golgata. Kross Jesú Krists er lífsins tré okkur sem njótum ávaxta þess, hann er lífstákn sem bendir á hinn nýja mann sem er Kristur í þér og Kristur í mér. Um hinn kristna heim er í dag haldin sigurhátíð lífsins og trúarinnar á lífið. Við höldum hátíð í vissu þess að við höfum, fyrir trúna á Krist Jesú, öðlast lífið og sitjum ekki lengur í myrkri og skugga dauðans, - heldur dveljum í ljósi Jesú Krists sem skín í hjörtu okkar. Hann hefur gefið okkur að beina sálarsjónum að lífinu sem hann birti og að sigri hans á dauðanum. Gleðilega páska. Kristur er upprisinn.

Dýrð sé Guði, Föður Syni og Heilögum anda svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3863.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar