Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Eitt mannkyn - ein kynverund

15. apríl 2007

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: Friður sé með yður! Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður. Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað. En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: Vér höfum séð Drottin. En hann svaraði: Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa. Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: Friður sé með yður! Síðan segir hann við Tómas: Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður. Tómas svaraði: Drottinn minn og Guð minn! Jesús segir við hann: Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó. Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni. Jóh. 20. 19-31

I

Hvað mundir þú halda að þú þekkir margt fólk sem finnst þú bara frábær? Hvaða manneskjur eru það í lífi þínu sem raunverulega þekkja þig og meta þig fyrir það sem þú ert? Og þá meina ég ekki einhverja fjarlæga aðdáendur, ef einhver skyldi nú eiga slíka, heldur manneskjur sem þekkja þig vel og bara þykir heiðarlega vænt um þig með virðingu.

Jafnvel þótt þú eigir bara einn slíkan vin í þínu lífi, þá er það nóg. Það sakar ekki að þeir séu fleiri en einn er nóg. Eigir þú hinsvegar engan slíkan. Ef engin manneskja í öllum heiminum þekkir þig vel og finnst þú frábær eins og þú ert, þá ertu ekki í góðum málum.

II

Fréttin um Jesú er frásögn í tveimur þáttum. Annar þátturinn fjallar um þetta. Um það að vera samþykktur, elskaður og virtur. Og þegar þetta fyrra atriði rennur saman við það seinna, þá er útkoman fullur sigur í lífi þínu og mínu og allrar veraldar, hvorki meira né minna.

Ég tala í véfréttastíl. Áðan heyrðum við texta fluttan í sannkölluðum véfréttastíl sem hljóðaði svo:

Því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn. Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs? Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu.

Hér skrifar gamli postulinn, hann Jóhannes, og er að gefa okkur dularfulla lýsingu, einskonar lausnargátu um þá trú sem sigrar heiminn. Gátuna um vatnið og blóðið.

Manstu frásögnina af skírn Jesú. Þegar allir stóðu í röð við ánna Jórdan og biðu eftir því að taka iðrunarskírn hjá Jóhannesi skírara. Jesús setti sig í röðina með öllum hinum. Þegar Jóhannes sá hann sagði hann: “Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!” Jesús svaraði honum: “Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.”

Með því að Guðs sonur stillir sér upp í röðina með öllum hinum til þess að játa synd sína og þiggja iðrunarskírn er hann að taka á sjálfan sig okkar ófullkomnu aðstæður. Jesús játar sig sekan meðal syndugra manna, þótt saklaus sé.

Hefur þú ekki stundum farið eitt og annað bara til þess að sýna þig, svo að allir geti sagt að þú hafir nú komið? En svo hefur þú drifið þig af stað eins fljótt og hægt var að komast upp með án þess að valda móðgun. Hefur þú ekki eins og ég stundum verið nálægur án þess að meina nokkurn skapaðan hlut með því? Fæðing Guðs sonar inn í þennan heim var ekki slík heimssókn. Guð kom ekki til þess að sýna sig og forða sér. Frásögnin af iðrunarskírn Jesú í vatni er staðfesting á því að hann kom til þess að deila kjörum með okkur. Fyrri frétt trúarinnar sem sigrar heiminn, fréttin sem Jóhannes postuli dulkóðar með því að tala um vatnið, er þessi:

Guð hefur í Jesú Kristi tekið mennska tilveru á sig.

Skilur þú þetta?

Guð hefur í Jesú Kristi tekið mennska tilveru á sig.

Ég spurði áðan hvort þú vissir um einhvern sem finnst þú vera frábær. Guði finnst þú frábær segir vatnið. Guði finnst þú elskuverður einstaklingur. Hann hefur samþykkt þig og sýnt þér þá virðingu að koma til þess að vera, af því að þú ert áhugaverð(ur) í hans augum. Og meira en það; hann gerði þínar aðstæður að sínum. Jesús hefur tekið þína tilveru á sig.

Hann er sá sem kom með vatni og blóði, (…) Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu.

Nú höfum við afkóðað fyrri hlutann, nú skiljum við þetta með vatnið.

III

Þegar böðlarnir ráku spjótið í síðu Krists á krosinum rann út hvað? - Blóð og vatn. Þetta er hluti af þessu sama dulmáli Biblíunnar um vatnið og blóðið.

Guð hefur ekki bara tekið á sig allt mannlegt, eins og staðfest var í iðrunarskírn hans, hann er búinn að gefa líf sitt fyrir mennskuna. Hann bar á eigin líkama allar okkar aðstæður, gleði okkar og sorgir, stolt okkar og skömm, ástir okkar og hatur, virðingu okkar og blygðun, og hann bar þetta allt með sér upp á tréð þar sem blóð hans rann.

Ég spurði áðan hvort einhver virti þig. Má ég spyrja þig að öðru? Veistu um einhvern sem myndi gefa líf sitt fyrir þig? Það væru forréttindi. Það er góð tilfinning að lifa og vita um einhverja lifandi sál sem myndi gefa líf sitt fyrir mann ef með þyrfti. En fréttin sem Jóhannes postuli dulkóðaði með því að tala um blóðið í bréfi sínu er sú að Guð hefur þegar gefið líf sitt fyrir þig. Hann hefur í Jesú Kristi tekið á sjálfan sig alla sorg, alla skömm, allt hatur, alla blygðun, allt sem sem rænir þig lífinu og gleðinni.

Kristin trú, trúin á hann sem kom með vatni og blóði, trúin á Guð sem í eitt skipti fyrir öll kom til þess að vera, - kom til þess að samþykkja manneskjur og bera burt alla skömm og sök – það er frelsandi trú, það er trúin sem sigrar heiminn.
Trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.

Hvað merkir þetta fyrir fjölkyldu unglings sem stendur fyrir framan foreldra sína og segir þeim að hann sér hommi?

Í Guðspjalli dagsins stendur Jesús fyrir framan vini sína á degi upprisunnar og segir: Sjáið mig. Sjáið líkama minn. Sjáið að þetta er ég. Og hann sýnir þeim hendur sínar og fætur og síðuna þar sem vatnið og blóðið hafði runnið.

Orðrétt segir:

Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.
Þá sagði Jesús […] Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður. Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: Meðtakið heilagan anda.

Þannig stofnaði Jesús kirkju sína, kirkjuna sem samþykkir manneskjur fyrir það sem þær eru. Kirkjuna þar sem er óhætt að sýna sjálfan sig eins og maður er.
Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. (Lúk. 24.39.) sagði Jesús. Og lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.
Í Lúkasarguðspjalli biður hann þá m.a.s. að gefa sér að borða og þeir færa honum stykki af steiktum fiski sem hann neytir frammi fyrir þeim.
Jesús tjáir vinum sínum líkamlega þörf og þeir veita persónu hans viðtöku með því að mæta þeirri þörf.
Í framhaldi af þessari líkamlegu samfélagsreynslu stofnar Jesús kirkju sína. Og taktu eftir orðalagi stofnskrárinnar:
“Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður. […] Meðtakið heilagan anda!”

IV

Eins og faðirinn sendi son sinn í heiminn þannig sendir Jesús kirkju sína út í heiminn. Kirkja Jesú er send til þess að vera í heiminum með vatni og blóði. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Hún er sett til þess að vinna hið tvíþætta verk Krists, að deila kjörum með öllu fólki í virðingu og vera samfélag þeirrar sáttar sem kristur vann á krossinum þar sem blóði hans var úthellt fyrir alla og hann hrópaði: “Það er fullkomnað!”

Orð hans hljóðuðu ekki á þessa leið: “Þetta verður að duga, ég get ekki meir!”
Það er fullkomnað!
hrópaði hann.

Sáttin milli himins og jarðar er fullkomin í Kristi Jesú. Allt það sem aðgreinir himinn og jörð og mennina hvern frá öðrum er afnumið í upprisusigri hans. Sá Guð sem hengdur er nakinn upp á tré tekur m.a. á sjálfan sig alla þá skömm sem við tengjum mannslíkamanum og tilfinningunum og hann biður okkur að meðtaka heilagan anda, svo að vatnið og blóðið megi tala sínu máli inn í kynvitund okkar, að við fáum séð að einnig sem kynverur erum við eitt mannkyn. Eitt mannkyn með eina kynverund þótt kynin séu tvö og birtingarform kynvitundarinnar sé margslungið.

Svo stillir hann sér upp frammi fyrir okkur við hliðina á hommanum og lesbíunni og segir:
Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3662.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar