Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

HMJG?

1. janúar 2007

„Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.“ Lk 2.21

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Gleðilegt nýtt ár!

HMJG?

Tímamót og krossgötur. Á krossgötum getur verið gott að spyrja til vegar. Hvert skal halda? Við sem göngum til helgra tíða um jól og áramót og höfum lagt það í vana okkar að sækja kirkju höfum þar leiðbeinanda og vita sem vísar veg. „Ég er ljós heimsins“, sagði Jesús. „Ég er vegurinn“, sagði hann ennfremur.

Hvað mundi Jesús gera? Á ensku: What Would Jesus Do? Skammstafað WWJD. Hvað mundi Jesús gera? Enska skammstöfunin er ofin í armband sem bandarísk kona færði mér er hún sótti Neskirkju heim. Hún gaf mér bækur og þetta nútímalega nylon-armband. Nú er það í tísku að bera armbönd með yfirlýsingum eða slagorðum. Hvað mundi Jesús gera? Armbandið er ætlað ungu fólki og reyndar fólki á öllum aldri til að minna á grunngildi kristinnar trúar og tengsl þeirra við daglegt líf og málefni líðandi stundar. Já, hvað mundi Jesús gera í þessum eða hinum kringumstæðunum? Hve oft spyrjum við þessarar spurningar? Hve oft köllum við á hjálp hans sem er leiðtogi okkar kristinna manna? En hve oft hefur upphrópunin: Jesús! – að ekki sé nú talað um Jesus! – einhverja trúarlega merkingu meðal þeirra sem taka sér nafnið hans í munn í tíma og ótíma?

Hvað mundi Jesús gera?

Flestir Íslendingar sem náð hafa 14 ára aldri hafa gefið jáyrði sitt við spurningunni: „Viltu leitast við af fremsta megni að hafa Jesú Krists að leiðtoga lífsins?“

Játningin er göfug viljayfirlýsing um göfugt markmið, svar við köllum um að leitast við að leggja lífinu lið með kröftum sínum undir merki hans, sem fegurst hefur mælt á þessari jörðu, talað skýrast allra um elsku og fyrirgefningu, miskunn og mildi. Jesús Kristur er einstök persóna og í raun sú eina sem vert er að hafa sem fyrirmynd.

Afstaðan til heimsmála - HMJG?

Heimur minnkandi fer. Við vitum meir um það sem gerist í fjarlægum löndum en nokkur önnur kynslóð sem áður hefur lifað í þessu landi. Daglega sjáum við fréttir af atburðum sem gerst hafa nýlega eða gerast beinlínis fyrir augum okkar úti í hinum stóra heimi. Veröldin hefur fengið á sig allt aðra mynd en fyrir örfáum árum. Veraldarvefurinn, Netið, hefur til að mynda breytt veröld okkar margra til mikilla muna og það aðeins á einum áratugi. Við erum allt í einu komin inn í einskonar Amazon-frumskóg upplýsinga og afþreyingar. Og hvernig gengur okkur að rata þar? Hvernig mun unga fólkinu farnast sem ekki hefur átt þessi hægu uppvaxtarár sem mörg okkar eldri teljum okkur hafa átt? Hægu árin gáfu okkur tækifæri til að ná áttum áður en holskefla upplýsingaaldarinnar skall á. Við eignuðumst mörg ef ekki flest föst viðmið í tilverunni, oft eftir einn eða fleiri erfiða kafla í þroskaferlinu. Hver eru viðmið okkar í daglegu lífi, hver er áttavitinn í málefnaumræðu á sviði þjóðmála og heimsmála? Ætli barnatrúin og þau gildi sem eldri kynslóðin miðlaði okkur sé ekki sá áttaviti sem flestir mundu nefna?

Stríð og aftaka – HMJG?

Nú er Íraksstríðið í algleymingi og búið að taka fyrrum harðstjóra landsins af lífi. Aðilar stríðsins, þeir sem hófu það, eru í vandræðum með gang mála og þeim loksins orðið ljóst að það var feigðarflan frá fyrsta degi. Samt eru þau enn til hér á landi sem verja innrásina og telja hana hafa verið rétta ákvörðun á sínum tíma. En þau sem mótmæltu því frá fyrstu tíð trúðu aldrei áróðri þeim sem innrásin var byggð á. Og nú spyr ég: Má spyrja í þessu sambandi hvað Jesús hefði gert? Hver væri afstaða hans til þessa máls? Er hugsanlegt að við eigum auðveldara með að taka afstöðu til heimsmála ef hann sem við lofuðum að fylgja við fermingu fengi oftar að vera með í ráðum? Eða er þetta ósanngjörn spurning? Er óþægilegt að mál séu sett í þetta samhengi? Mér finnst það ekki. Mér finnst það sjálfsagt. Jólin eru hátíð þar sem við minnumst þess að Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Veröldin hefur ný viðmið upp frá þeim atburði. Tímatalið er miðað við fæðingu hans og menning okkar hvílir nær öll á boðskap hans. Jólin eru ekki aðeins glansmynd á jólakorti, falleg umgjörð um draumsýn eða einhvern óraunveruleika. Þau eru dauðans alvara og boðskapur jólanna varðar þessa jörð, þetta líf, allt okkar líf, alla daga.

„Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.“ (Jóh 1.11-12)

Að taka við honum og vera barnið hans. Þar liggur lausnin. En vandi heimsins er svo mikill sem raun ber vitni vegna þess að fólki tekst svo illa að meðtaka boðskap hans, meðtaka hann sjálfan, persónu hans, hugsjónir, lífsafstöðu, breytni.

Yfirlýsingar fólks vegna aftöku fyrrum harðstjóra Íraks skiptast í tvö horn. Sem betur fer eru þau mörg sem sjá í gegnum allt þetta ofbeldi og fáránleika lögmálsins, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Einhver sagði að hann hefði hlotið makleg málagjöld gerða sinna. En hver verða þá málagjöld þeirra sem breyta eins og hann, taka sömu afstöðu og hann til lausna á vanda heimsins og deilumálum í pólitík? Ber eitthvað þar á milli? Er einhver munur þegar allt er tekið með í reikninginn? Eru þau sem gleðjast yfir dauðarefsingum meðvitað og ómeðvitað í sama flokki og harðstjórinn og aðrir morðingjar þessa heims? Hann kollega minn talað um tár í prédikun sinni í gær. Ég skal segja ykkur að ég grét við sjónvarpsskjáinn þegar aftakan var sýnd, ekki yfir harðstjóranum sem slíkum, Guð miskunni honum, heldur yfir heiminum og hafdjúpri heimsku hans. Drottinn, miskunna þú oss! Kirkjuleiðtogar um allan heim hafna dauðarefsingum. Ramsey Clark, fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði um aftökuna, að hún bæri vott um sorglega atlögu að sannleika og réttlæti – „a tragic assault on truth and justice“. Og svo erum við sem þjóð aðilar að þessu öllu. Og mig hefur furðað stórlega hvernig menn rökræða sektarhugtakið í samtíðinni og reyna að fría sig ábyrgð, ekki aðeins á þessu máli heldur öðrum líka. Jesús sagði: „Hver sem er ekki með mér, er á móti mér“ (Lk 11.23). Og hann sagði líka: „En þegar þér talið, sé já yðar já og nei sé nei. Það sem umfram er, kemur frá hinum vonda“ (Mt 5.37). Kristur krefst afstöðu, afgerandi afstöðu. Maður getur ekki stutt stríð og verið stikkfrí um leið, brotið lög sem einstaklingur og vísað svo ábyrðinni á fyrirtækið eða stofnunina sem maður vinnur hjá. Drottinn, miskunna þú oss!

Mannréttindi – HMJG?

Í pistli dagsins er okkur fluttur sá mikilvægi boðskapur að allir séu jafnir í þessum heimi. „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ Enginn greinarmunur er gerður á fólki eftir uppruna, þjóðerni, þjóðfélagsstöðu eða kyni. Við erum öll eitt í Kristi. Þessi orð Páls postula eru þörf í samtíðinni þegar umræða um málefni innflytjenda rísa hærra á sjóndeildarhringnum en oft áður. Við erum eitt mannkyn. Hins vegar er mikil þörf á að ræða málefni innflytjenda og styðja allt þetta góða fólk sem hingað hefur lagt leið sína til að freista gæfunnar. Þau skipta okkur gríðarlega miklu máli sem hingað hafa komið með framandi siði og menningu því þau opna augu okkar fyrir nýjum sjónarhornum og breyta afstöðu okkar til heimsins.

Páll sagði líka að hér væri hvorki „karl né kona.“ Strax í upphafi Kristni er slegið mjög ákveðið á streng jafnréttis. Samt eigum við enn langt í land í þeim efnum enda þótt Ísland teljist sem betur fer meðal fremstu þjóða heims á sviði jafnréttismála. Við þurfum að vaka yfir umræðunni um réttlæti á öllum sviðum þjóðlífsins á hverri tíð. Ekki bara konur heldur líka karlar. En konur þurfa líka sjálfar að varast snörur afþreyingariðnaðar sem hlutgerir konur. Konur eru til dæmis miskunnarlaust gerðar að markaðsvöru í sjónvarpi, gerðar að kynlífsþrælum og glyðrum, og allt er það vafið inn í falskar og skrumskældar umbúðir kvenfrelsis og sjálfsákvörðunarréttar. Sumir þekktir og vinsælir sjónvarpsþættir hafa ótrúleg áhrif á siðferði og breytni beggja kynja og er staðfest með rannsóknum fræðimanna. Á sama tíma er gert lítið úr körlum og karlmennskan gengisfelld.

Og hommar og lesbíur sem berjast fyrir mannréttindum sínum – sem ég tel sjálfsögð enda þótt ég vilji gera greinarmun á sambúðarformi þeirra og kröfu um vígslu og vígslu hjóna skv. hefðbundnum skilningi – þau þurfa að horfa upp á að réttur þeirra er skrumskældur af þeirra eigin fólki í árlegri „klámgöngu“ í gengum borgina þar sem almenningur flissar og hlær af kæti yfir því að allt sem heilagt er er dregið niður í svaðið. Er verið að biðja um meiri mannréttindi eða meira taumleysi? Sjálfsagt er að styðja mannréttindi en hafna ber blygðunarlausum aðferðum við að vekja athygli á þeim. Til erum dæmi um að menningarheildir hafi hreinlega úrkynjast og dáið út vegna þess að öllum siðferðisviðmiðum var kastað á glæ.

Heilög af hendi Guðs

Veröldin er heilög af hendi Guðs í grunninn og hann kallar hana stöðugt til helgunar og hreinleika. Gerum okkur grein fyrir því að hatur margra islamstrúarmanna gagnvart kristnum er að mestu leyti til komið vegna þess að þeim ofbýður siðleysi vesturlandabúa og hins svo nefnda kristna heims.

HMJG?

Hver er afstaða okkar til málefna líðandi stundar? Hvað mundi Jesús gera?

Hver mundi afstaða hans vera til kvótamálsins, málefna eldri borgara, tekjuskiptingar í þjóðfélaginu, einkavæðingar, Ríkisútvarpsins, virkjana, heilbrigðismála, félagsþjónustu, fátæktar barna? Eða kirkjunnar? Mundi Jesús hreinlega fara fram hjá kirkjunni í dag? Hvað mundi Jesús gera?

Nýtt ár er hafið undir vernd og í nafni Jesú. Nýtt upphaf. Og við stöndum á krossgötum. Hvernig ætlum við að lifa þessu nýja ári? Mun okkur auðnast að eiga enn ein áramót? Hver verður afstaða okkar til málefna líðandi stundar á komandi ári? Ætlum við að taka afstöðu með Jesú okkur við hlið? Eða látum við einvörðungu stjórnast af fjölmiðlum og áróðri spunameistara í blindri hlýðni við flokkinn og spyrjum aldrei um gildi?

Hvað mundi Jesús gera?

Vegur hans er vegur sannleika og lífs. Aðrir vegir liggja til glötunar. En vegur hans er oft grýttur, vegur svita og tára, ekki breiðgata þar sem hægt er að brosa við öllu gagnrýnislaust. Hins vegar er vegur hans hamingjuleið, vegna þess að hamingjan helst í hendur við réttæti og sannleika. „Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar.“ Svo segir skáldið í 85. Davíðssálmi (v. 9-11) og heldur áfram: „Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans. Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru. Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.“ Þetta er skáldlega mælt og líkingamálið sterkt: „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.“

Nafnið Jesús merkir: Guð frelsar. Menn báru þetta nafn fyrir daga Krists en hann raungerði það með lífi sínu, dauða og upprisu. Jesús birti mönnum guð á jörðu. Þeir sem sáu hann, sáu Guð. Og þau sem nú sjá hann með trúaraugum sínum, sjá Guð. Nafnið hans gaf þjóðinni von á myrkum tímum. Nafnið hans gaf rósemd í hug og hjarta í skammdegismyrkri þar sem fólk óttaðist álfa, tröll og forynjur. Í þjóðsögunum er nafnið hans máttugast allra nafna. Og svo er enn andspænis því sem ógnar fólki nú á dögum.

Framtíð okkar er trygg í nafninu hans sem nefnt var yfir okkur við heilaga skírn; í nafni hans sem við lofuðum að fylgja við fermingu; í nafni hans sem ástar og hjúskaparheitin voru unnin í; í nafni hans sem við áköllum á hinstu stundu okkar, þegar við verðum loks að skilja við okkur öll önnur verðmæti á krossgötunum hinstu. Þá heldur aðeins eitt verðgildi sínu, aðeins eitt nafn getur þá bjargað, nafnið Jesús, nafnið sem vísar veginn til himinsins heim.

Gæfa okkar og gleði er fólgin í því að þekkja þetta nafn. Gætum þess og förum vel með það. Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3315.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar