Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Kristur kemur

3. desember 2006

Undursamlegi Guð,
sem kemur til okkar í syni þínum Jesú Kristi,
ekki í valdi og krafti, heldur auðmjúkur og allslaus
og ert þó sterkari en alt vald á jörðu.
Gef öllum mönnum og þjóðum náð til að þekkja þig
og að taka eftir syni þínum þegar hann kemur,
svo að af ljósi hans verði nóttin björt eins og dagur. Amen

I
Það hefur orðið nokkuð langt hlé á messum hér í Þingvallakirkju og er nú ekki alveg vansalaust. Fyrir því eru ákveðnar ástæður og einkum þær að ekki gengur alltaf allt eftir sem áformað er. Tveim fyrirhuguðum hátíðamessum haustsins hefur verið frestað fram á hið nýja komandi ár. Við munum halda þær hátíðir þegar tíminn til þess verður hentugur.

En nú komum við saman að venju hinn fyrsta sunnudag aðventu og sláumst í för með þeim sem fagna komu Krists til kirkju sinnar um allan heim, í ys stórborganna og í kyrrð strjálbýlisins, í háreistum musterum og í agnarsmáum bænahúsum og þó fyrst og síðast í einstaklingum, í hjörtum mannanna.

Það er ánægjulegt að hugsa til þess að þó að hinn þekkingarþyrsti og skyniborni samtíðarmaður viti að hjartað er ekkert nema vöðvi sem dregst saman og blæs út og dælir blóðinu um líkamann og hefur hvorki vit né skyn, þá er samt allt hið góða og elskulega í manninum kennt við hjartað.

Og jafnvel þó að hægt væri að skýra út að það að verða ástfanginn sé einkenni um sérkennileg efnaskipti í líkamanum, þá gefa manneskjur hvert öðru hjarta sitt í fullri einlægni og þeim sem þiggur finnst það mikil gjöf.

Og þetta einfalda og elskulega krydd lífsins er þeim mun merkilegra þegar hugsað er til þess að við lifum í raunheimi og leikum okkur í sýndarveruleika, en höldum samt áfram að elska á einhvern frumlægan hátt sem stendur af sér allar breytingar raun-veruleikans og sýndar-veruleikans. Æ, hvað það er gott.

En hvað það er líka gott að ástin skuli ekki bara vera handa unglingunum, heldur sé hún til í ýmsum myndum, og ekki bara fyrir alla aldurshópa, heldur að hún skuli líka vera til sem kærleikurinn; þetta djúpa, stóra undur sem við hvílum í, heldur saman heiminum og nær lengra en allt vit og allt skyn og öll þekking. Guð.

Á meðan við höldum áfram að brölta þetta dag frá degi, og taka ákvarðanir um stundarhagsmuni og langtímamarkmið eftir getu, færni og löngunum í föstum farvegi sem við gætum kallað rás tímans, er einn til sem heldur því öllu í hendi sér. Guð.

Og nú höfum við verið kölluð fram fyrir hann hér í Þingvallakirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu. Nú byrjar með formlegum hætti undirbúningur jólahátíðarinnar, fæðingarhátíðar frelsarans Jesú Krists sem hefst á jólanótt og lýkur með þeim degi sem hér á landi er kallaður þrettándinn, en er í raun og veru hin fornu jól og birtingarhátíð Drottins.

Aðventan á sér langa sögu. Lengd hennar var ekki alltaf hin sama. Stundum voru það fimm vikur og stundum sex, en nú um margar aldir hafa það verið fjórir sunnudagar en ejji endilega fjórar vikur, því að sá fyrsti erv á bilinu frá 27.nóv.til 3.desember. Það táknar að aðventan getur verið hið lengsta 28 dagar en hið skemmsta 21 dagur.

Aðventan þetta árið er því eins stutt og mögulegt er. Það er ekki víst að það hafi nokkur áhrif á hinn kristna undirbúning, en það hefur haft áhrif með öðrum hætti og undirstrikað að aðventan hefur tvær merkingar.

Önnur tekur mið af hinu trúarlega innihaldi. Hin gerir það ekki.

II.

Kæri söfnuður.

Þjóðkirkjan notar tvær raðir guðspjalla og annarra texta fyrir kirkjuárið. Nú með nýju kirkjuári þegar aðventan gengur í garð, er komið að því að hlusta á frásögn Lúkasar af Jesú í samkunduhúsi heimabæjar síns.

Það er guðspjall dagsins og við höfum heyrt það lesið frá altarinu. En eins og svo oft er það svo agnarlítill kafli ritningarinnar sem lesinn er, að mikið skortir á að samhengið verði sýnilegt, og það sem meira, er heyrandinn fer á mis við þá snilld sem felst í byggingu textans hjá guðspjallamanninum Lúkasi þegar hann skrifar guðspjall sitt.

Þessi guðspjallstexti sem lesinn var er miðja kaflans. Hann hefst með frásögninni um freistingar Jesú en endar á því að hans eigið fólk hafnar honum

Á báðum stöðum stendur Jesús á fjallsbrún og hefur farið þangað gegn vilja sínum. Í fyrra sinnið er það freistarinn sjálfur sem setur Jesú á brún fjallsins og býður honum að ríkja yfir heiminum ef hann aðeins falli fram og tilbiðji hið illa vald djöfulsins, en hið síðara sinnið er það hans eigið fólk sem fer með hann fram á brún hengiflugsins til að hrinda honum fram af og drepa hann, af því að hann hafði móðgað það og var ekki tilbúin að þjóna því umfram aðra.

Hinu fyrra dæmi svarar Jesús með Orði Guðs: Drottinn Guð þinn skaltu tilbiðja og þjóna honum einum.

Hinu síðara svarar hann engu orði. Hann snýst á hæli og gengur í gegn um þvöguna sem hopar undan. Þegjandi fer hann leiðar sinnar. Hans eigið fólk þolir ekki gagnrýni.

Hvað sagði hann eiginlega?
Andi Drottins er yfir mér,
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn, láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.

Orð úr Jesajabókinni

Og svo sagði hann við fólkið: Í dag hefur þessi ritning ræst. Sem þýðir: Ég er sá sem Guð áformaði að senda, og Jesja segir frá í spádómi sínum.

En þau sögðu: Er þetta ekki sonur Jósefs?

Jesús vísaði þá til þeirra frétta sem borist höfðu um kraftaverk hans og lækningar og svo sagði hann það sem reiðinni olli: að það væri ekki þannig að spámenn væru einhvers metnir í sínu heimalandi, og það væri ekki heldur þannig að Guð sýni frekar miskunn þeim sem tilheyri Ísrael.Og svo gaf hann þeim dæmi um það.

Þetta les nú söfnuðurinn sjálfur í fjórða kafla Lúkasar þegar heim kemur.

III.

Fyrsti sunnudagur í aðventu markar upphaf ferils. Við undirbúum okkur til að taka á móti frelsara heimsins. Sjá ég stend við dyrnar og kný á , er yfirskrift dagsins. Konungur konunganna kemur til kirkju sinnar.

Hvað ætlum við að gera sem köllum hann konung og frelsara?

Að lifa ábyrgu lífi, eða reyna bara að hafa það þægilegt. Við tökum eftir því að þetta er stundum sett upp sem andstæður. En það skyldi nú aldrei vera að það eina sem væri reglulega þægilegt væri að lifa ábyrgu lífi?

Hvert er einkenni aðventunnar í kristnum sið? Það er hinn persónulegi undirbúningur. Það er undirbúningur undir einskonar starfsmannaviðtal um áramót á kirkjualmanakinu.
Hvernig var hið umliðna kirkjuár? Hvernig hef ég staðið mig gagnvart vinnuveitanda mínum Jesú Kristi, þetta árið? Hvað ætla ég að segja við hann þegar hann kemur?
Ætla ég að leita persónulegs ávinnings ? Ætla ég að vera með honum í liði?
Hann tekur þig með sér fram á brún fjallsins með freistaranum sem vill ráða með illsku, þar stendur þú hjá honum, og þú færð líka að standa hjá honum á brún hengiflugsins meðan múgurinn nálgast sem vill drepa hann.

Aðventan hefur einnig annað yfirbragð en hinn persónulega undirbúning. Það er þannig að maður þarf að hafa sig allan við til þess að halda sínum eigin kúrs en taka ekki upp einhvern annan sem falboðin er og standa vörð um það sem manni sjálfum er heilagt , gagnvart þeim sem ekkert er heilagt.
Sérhver dagur er nýtt tækifæri lífsins. Með vissum hætti má segja að okkar hlutverk sé að taka á móti hverjum morgni eins og hann er, fullur fyrirheita, og að forðast að fara þannig með daginn að þegar við mætum kvöldinu sé það fullt vonbrigða.

Aðventan geymir mörg tækifæri fyrir alla.

Kirkjan sem fann hana upp gerði ráð fyrir því að hún væri tími undirbúnings og reikningsskila. Aðventutíminn er gott tækifæri til eins konar uppgjörs. Ekki skattframtals, eða bókhalds, heldur manneskjunnar í heild, í hugsunum, orðum og gjörðum, eins og við segjum í játningunni.
Maður opnar svolítið meira inn að hjartanu um leið og maður hugsar : Hvað ætla ég að gefa, hvað ætla ég að gera.

Og reynslan sýnir að fólkið í landinu er opnara og gjafmildarara á þessum tíma, framar aðrum. Fólk gefur ekki bara hvert öðru og sínum nánustu, heldur hafa stórkostlegir hlutir gerst meðal fátækra og deyjandi í fjarlægum löndum vegna þess sem gefið er hér. Og þó að við getum ekki bjargað nema fáum og verðum að horfa upp á það hvernig hræðileg illska drepur og eyðir heilu þjóðflokkunum á meðan við vorum að horfa í aðra átt, - eða kannski sömu, megum við ekki láta það draga úr okkur kjarkinn, og við eigum að leggja rækt við hið litla, vegna þess að það er fyrsti vísir hins stóra.

Eins og bara það að skrifa jólakort.
Líkast til er það sem kemst næst því að kallast reikningsskil í lífi almennings á þessum tímum , að skrifa jólakort.

Að kalla fram í hugann allt þetta fólk sem okkur þykir vænt um og viljum rækta samband við og skrifa þeim. Sum þeirra höfum við aldrei séð allt þetta ár, jafnvel sum ekki árum saman, en við viljum ekki sleppa þeim.
Það sem þarf til að skrifa jólakort, fyrir utan penna, blek og blað er þrennt.

Hugur, hjarta og hönd, sem mynda einingu, eða þrenningu.
Í einsemdinni gera þau ekki sama gagn.

Hugurinn einn er rök og skynsemi.
Hjartað eitt er tilfallandi tilfinning.
Höndin ein er ómarkvisst fálm.
En hugur sem horfir til hjartans lætur höndina gjöra hið rétta
Líkast til þarf ekkert annað frekar til þess að við getum undirbúið og haldið okkar heilögu hátíð.

Merking aðventunnar er ekki fyrst og fremst sú að við skulum undirbúa fæðingarhátíð frelsarans með því að minnast hins hugljúfa atburðar fyrir 2000 árum , heldur þess að hann sem fæddist á jólum kemur aftur við endi aldanna þegar allt verður gjört nýtt, og að hann vitjar síns fólks til þess að kalla það til ábyrgðar með sérstökum hætti nú í aðdraganda jólahátíðarinnar.

Í dag erum það við sem erum hans eigið heimafólk og hann kallar okkur til eftirfylgdar og til ábyrgðar.

Minnstu þinna nánustu, minnstu hinna þurfandi, minnstu komu Krists, minnstu sjálfs þín.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2658.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar