Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Kyrrlæti

18. október 2006

En ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan. Það gjörið þér einnig öllum bræðrum í allri Makedóníu. En vér áminnum yður, bræður, að taka enn meiri framförum. Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar, eins og vér höfum boðið yður. Þannig hegðið þér yður með sóma gagnvart þeim, sem fyrir utan eru, og eruð upp á engan komnir. 1Þess 4.9-12

Kæri söfnuður,

Ég vil hvetja ykkur til að taka meiri framförum segir Páll postuli í morgunlestri dagsins. Og hann bætir við - eins og til útskýringar - „Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi.“ Framfarirnar felast í aukinni kyrrð. Og svo hann heldur áfram: „og stunda hver sitt starf og vinna með höndum yðar …“ Kyrrð og vinna og iðjusemi, það eru framfarirnar sem Páll postuli talar um - og hvatning hans til lesenda sinna.

• • •

Ég las grein - á netinu - um daginn sem fjallaði um ungt fólk sem lifir í ys og þys dagsins. Nútímafólk með sjónvarpsrásafjöld, margar fjarstýringar, hver með farsíma og sumir með tvo, nokkur netföng, þráðlausar fartölvur - sítengt fólk sem var alltaf að. Og það var svo sem ekkert nýtt eða nýstárlegt við það. Við þekkjum öll slíkt fólk, erum kannski svona sjálf að einhverju leyti.

Nema hvað.

Þeim datt snjallræði í hug sem kallast á við gamlar og grónar hefðir. Mitt í dagsins önn, sem vildi hjá þeim stundum ná aðeins of langt fram á kvöld og jafnvel líka fram á nótt, ákváðu þau að nóg væri komið. Og hugmynd kviknaði um reglulegan hvíldardag - Sabbatsdag. Ekki þó í hinni hefðbundnu gyðinglegu merkingu. Nei, þau ákváðu að taka sér tækni-hvíldardag. Einn dag í viku þegar slökkt var á öllu: Á farsímum og tölvum, á sjónvörpum og útvarpi, á sítengingunni sem er allt-um-vefjandi en getur um leið orðið algjörlega-þrúgandi.

• • •

Mér varð hugsað til þessa þegar ég las morgunlestur dagsins. Þegar ég las orðin um að „lifa kyrrlátu lífi“ varð mér hugsað til þess hversu lífið er oft lítið kyrrlátt og orðin um að hver stundi sitt starf minntu mig á að starfinu þarf líka að setja mörk. Kannski er hér komin ágætis áminning til okkar, áminningarmoli, í dagsins önn, um að hyggja að og muna eftir mörkunum og standa vörð um kyrrðina.

„Leitið sæmdar í því að lifa kyrrlátu lífi …“ Tökum þá áminningu og hið kyrrláta sem við eigum hér í kirkjunni á þessum fagra miðvikudagsmorgni með okkur út í annir dagsins.

Guð styrki okkur til þess og í því.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Kyrrlæti”

  1. Carlos skrifar:

    Eitt af því sem mér finnst þurfa fylgja kyrrlátu lífi, er það að sagðar eru sögur. Ævintýri, heilagar sögur, sögur af fjölskyldunni. Tökum aftur hlutverk sem við höfum gefið sjónvarpinu, dvd og tölvunni.

  2. Jón Helgi Þórarinsson skrifar:

    Hef oft hugsað þessu líkt og ætla nú að skoða hvort að ég geti ekki gert þetta - amk stundum; og til að byrja með reglulega hluta úr degi, en eins og staðan er nú þá eru þessi tæki nánast alltaf opin. Þetta er spurning um skipulag og sjálfsaga og taka frá tíma til að láta uppbyggjast og sinna sinum. Viljið þið vera með mér í svona „reglu“? Gott að hafa stuðning.

  3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

    Mér þætti það sannast sagna mjög spennandi. Ég hef sjálfur reynt þetta, að vísu ekki með reglulegum hvíldardögum, heldur með tæknilegu sambandsleysi í sumarfríi. Það leiddi til enn betra sambands við fjölskylduna. Mér finnst full ástæða til að reyna að útvíkka þetta nánar, til dæmis með hvíldardagatilraunum.

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3059.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar