Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Skúli Sigurður Ólafsson

Gott gildismat

22. október 2006

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ - og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. Matt. 9.1-8

Við fögnum góðum gestum hingað í kirkjuna sem lagt hafa á sig óeigingjarnt starf til þess að miðla því sem dýrmætt er, veitir styrk og leiðsögn. Áhugavert var að heyra af verkefnum þeirra. Ég sýni jafnan fermingarbörnunum Biblíuna – eftirprentunina af Biblíu Guðbrands og bendi þeim á það hve miklu framtak það hefur skilað. Málið sem við tölum í dag hefur varðveist fyrir tilstuðlan þeirrar útgáfu. Orðatiltækin eigum við svo mörg úr þýðingu Odds Gottskálkssonar og siðferðið hefur setið sem hamrastál í ölduróti tíðarandans. Kjölfesta og dýrmætar fyrirmyndir lifa tískustrauma og dynti hverrar kynslóðar.

Trú og gildi

Og dýrmætastur er vitnisburðurinn um heilagan anda og starf hans hér á jörðu – sagan um Jesú og þá von sem hann hefur fært mannkyni. Já, þökk þeim Sveini og öðrum Gídeonmönnum sem hingað hafa komið og heiðrað okkur með nærveru sinni og fróðleik. Okkur er lærdómsríkt að heyra af starfi þeirra og ættum að leggja þeim lið við þeirra heilögu baráttu.

Hverju miðla þeir með verkum sínum? Þeir miðla trúnni og á máli samtímans mætti segja að þeir miðli gildum – ákveðnu gildismati. Verkefni þeirra er að boða og halda lifandi þeim viðmiðum sem Biblían færir okkur og koma þeim áleiðis til þeirra kynslóða sem landið erfa.

Vinaleiðin

Verkefni þeirra fær mig til þess að hugsa um bréfaskriftirnar sem nú ganga manna á milli á netinu og fjallað var um í blöðunum í síðustu viku þar sem foreldri kvartaði undan kristilegu starfi sem fram fer í grunnskóla barna sinna. Vinaleiðin svo nefnda, sem er þar til umfjöllunar, byggir á því að efla börnin og styrkja þau í umhverfi sínu þar sem mælikvarðarnir eru oftar en ekki byggðir á hinu ytra byrði. Engum blöðum er um það að fletta að börnin finna gjarnan fyrir vanlíðan og kvíða í heimi slíkra viðmiðana. Þau skynja einmanaleikann í mannmergðinni rétt eins og hinir fullorðnu og þurfa svo sannarlega að kynnast því hvað skiptir máli andspænis því sem er hismi og hjómið eitt.

Mér verður hugsað til þessa verkefnis nú þar sem Gídeonmenn hafa nú lýst starfi sínu. Því þessi dýrmæti liðsauki sem börnin fá í skólanum verður að mínu mati fyrir óréttlátri gagnrýni. Stuðningurinn sem börnin fá eftir þessum leiðum er túlkaður á versta veg. Honum líkt við pólitíska ítroðslu og látið er í veðri vaka að börnin sitji undir áróðri og ósvífinni innrætingu þar sem þau ræða í trúnaði við kristna manneskju innan veggja skólanna. Hér er mikil hætta á ferðum ef marka má bréfritara og vísunin í pólitíkina leiðir hugann til einræðisríkja þar sem hugsunin er niðurnjörvuð eftir því sem valdhöfum þóknast á hverjum tíma. Menn seilast langt í samlíkingum þar sem börnin fá að deila hugsunum sínum með trúnaðarvini í skólanum.

Innrætingin er margvísleg

Já, menn hafa áhyggjur af innrætingu og skilaboðum. Þær áhyggjur eru réttmætar og ætti enginn að skella skollaeyrum við þeim tíðindum sem okkur berast úr skólakerfinu af skelfilegum afleiðingum þess áróðurs sem börnin verða fyrir nánast hverja vökustund dagsins. Ég þóttist skynja afleiðingar slíkra verka í gær á fundi með foreldrum hér í sveitarfélaginu

Hafa menn séð tölurnar úr nýjustu könnun á lífsgildum og lífsháttum unglinganna okkar? Það verður fróðlegt að kynnast viðbrögðum samfélagsins þegar þær verða gerðar opinberar. Ætli nokkur amist við því þótt drengir í sjötta bekk verji að jafnaði 30 klukkustundum á viku fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna? Þær tölur koma fram í könnun þessari. Þetta slagar upp í meðalvinnuviku launþega. Menn ræða það nú í fullri alvöru og að gefnu tilefni að opna deildir á meðferðarstofnunum fyrir þá sem eru orðnir háðir tölvuspilum.

Mótsagnarkenndar upplýsingar

Umtalverður hluti barnanna er ósáttur við þyngd sína en drekkur sykraða gosdrykki nánast á hverjum degi, leggur sjaldan á sig líkamlegt erfiði og svona mætti áfram telja. Hvaðan skyldi þessi mótsagnarkennda hegðun vera sprottin? Hvaða skilaboð eru börnin okkar að fá? Hverjar eru fyrirmyndirnar og hver eru lífsgildin? Hver skyldi vera orsökin fyrir því að aðeins helmingur stúlkna í 10. bekk snæðir morgunmat áður en lagt er af stað í skólann? Standa þær fyrir framan spegilinn með snyrtivörurnar í stað þess að borða þessa mikilvægustu máltíð dagsins?

Tölur geta gert okkur skelkuð, súluritin geta verið ógnvænleg og svo er einnig með það sem þarna kemur fram. Ekkert vakti þó meiri ugg í brjósti þess sem hér stendur þegar farið var yfir niðurstöður þessar en tölurnar yfir kannabisneyslu stúlkna í 10. bekk í þessu ágæta sveitarfélagi – Reykjanesbæ. Fimmta hver stúlka hefur, á sinni stuttu ævi, prófað hass eða önnur kannabisefni.

Fyrirmyndir

Já, skelfilegt væri það nú ef vinaleiðin í grunnskólunum miðlaði nú nýjum viðhorfum til barnanna. Hvernig fer nú fyrir okkur ef kæmi þaðan eitthvað mótvægi við allan hafsjóinn af skilaboðum sem börnin okkar fá og skilar sér vafalítið í hegðun þeirra og lífsmynstri. Hvað ef einhver segði að annað skipti máli en útlitið, að aðrar fyrirmyndir væru inni í myndinni en þær sem birtast í slúðurfréttunum? Hvað ef einhver segði í fullum trúnaði að unglingurinn sé dýrmætur í sjálfum sér og mikilvægur fyrir það sem hann er.

Kirkjan miðlar jákvæðum boðskap til þeirra sem vilja leggja við hlustir. Í sunnudagaskólanum í síðustu viku bentum við börnunum á það að sagan um Miskunnsama Samverjann gæti allt eins gerst á skólalóðinni. Þar getur verið að margir þurfi á kröftum þeirra að halda. Og við fengum á móti sögur af krökkum sem lagðir voru í einelti, skildir útundan eða áttu erfitt af öðrum sökum. Þarna fengu börnin mikilvæga fyrirmynd – mann sem lagði sig fram um að bæta líðan þess sem orðið hafði fyrir skelfilegu áfalli.

Hefðum við átt að láta þá sögu ósagða af ótta við að koma skilaboðum að hjá börnunum? Það er eins og sumir haldi að tómarúmið taki við ef engu er miðlað. Jú, svo kann að vera í sumum tilvikum. Tómarúmið kann að fylla sál þess sem ekki fær að hlýða á jákvæðan boðskap. En það er svo margt sem sækir í tómið og áður en varir er það fullt af alls kyns óþarfa og óhollustu.

Rétthugsun hvers tíma

Hvað sögðu fræðimennirnir um Jesú í guðspjalli dagsins? „Hann guðlastar!“ Af hverju sögðu þeir það? Jesús læknaði mann sem var lamaður og gat sér enga björg veitt en fylgdi ekki þeim viðmiðum sem við lýði voru. Og Jesús tengdi saman í einni setningu þá hugsun að manneskjan er ein heild – líkaminn og sálin – þetta eitt. „Syndir þínar eru fyrirgefnar,“, sagði hann. Hann reisti hann við um leið og hann færði honum heim sanninn um kærleika Guðs sem er æðri öllum skilningi og maðurinn fékk mátt á ný.

„Hann guðlastar!“ sögðu fræðimennirnir – fulltrúar rétttrúnaðar, rétthugsunar síns tíma.

Um höfundinn25 viðbrögð við “Gott gildismat”

 1. Óli Gneisti skrifar:

  Dæmið um tölvunotkun og sjónvarpsgláp er náttúrulega mjög slakt af því að það er sífellt og endalaust verið að amast við því, skil ekki hvernig það fer framhjá þér. Það er ekkert sem bendir til þess að kristin gildi geri nokkuð til að koma í veg fyrir fíkniefnanotkun eða áfengisdrykkju, þetta er bara út í loftið hjá þér.

  Þú spyrð af hentugleika rangrar spurningar. Þú spyrð hvort að þér finnist allt í lagi að gildismati þínu sé neytt upp á börn annarra. Þú ættir að spyrja hvort þér finndist allt í lagi að einhverjir aðrir myndu troða sínu gildismati upp á börn þín. Þetta er í raun spurning um notkun á gullnu reglunni í hinu daglega líf.

  Þér finndist væntanlega ekki í lagi ef skólatrúleysinginn eða skólakomminn fengi aðgang að barninu þínu til að koma sínum hugmyndum inn hjá því. Það er nefnilega ekkert í lagi að taka völdin svona af foreldrunum.

  Ég hef ekki heyrt að nokkur guðleysingi láti sér detta í hug að það sé rétt að kenna í skólum að guð sé ekki til en trúmönnum virðist þykja allt í lagi að reynt sé að troða því inn hjá börnum að guð sé til. Það er augljóst hvor aðilinn er á siðferðislega hærra plani.

  Samkvæmt könnuninni Trúarlíf Íslendinga 2004 þá eru að minnsta kosti 26% þjóðarinnar sem ekki trúa á guð og nærri 50% játa ekki kristna trú (þó að Gallup hafi í raun viðurkennt að könnunin sé skekkt þjóðkirkjunni í hag). Það er ekki hægt að hunsa að það er risastór hópur þarna úti sem ekki aðhyllist ykkar gildismat.

 2. Skúli skrifar:

  Dæmið um tölvunotkun og sjónvarpsgláp er náttúrulega mjög slakt af því að það er sífellt og endalaust verið að amast við því, skil ekki hvernig það fer framhjá þér. Það er ekkert sem bendir til þess að kristin gildi geri nokkuð til að koma í veg fyrir fíkniefnanotkun eða áfengisdrykkju, þetta er bara út í loftið hjá þér.

  Ég benti á andstæðuna á milli trúnaðarsamtals djáknans og hávaðans í auglýsingunum.

  Þú spyrð af hentugleika rangrar spurningar. Þú spyrð hvort að þér finnist allt í lagi að gildismati þínu sé neytt upp á börn annarra. Þú ættir að spyrja hvort þér finndist allt í lagi að einhverjir aðrir myndu troða sínu gildismati upp á börn þín. Þetta er í raun spurning um notkun á gullnu reglunni í hinu daglega líf

  Og litlu síðar spyrðu mig um “skólakommann”.Ég bregst við þessari samlíkingu um ítroðslu vs. vinaleið:

  Stuðningurinn sem börnin fá eftir þessum leiðum er túlkaður á versta veg. Honum líkt við pólitíska ítroðslu og látið er í veðri vaka að börnin sitji undir áróðri og ósvífinni innrætingu þar sem þau ræða í trúnaði við kristna manneskju innan veggja skólanna. Hér er mikil hætta á ferðum ef marka má bréfritara og vísunin í pólitíkina leiðir hugann til einræðisríkja þar sem hugsunin er niðurnjörvuð eftir því sem valdhöfum þóknast á hverjum tíma. Menn seilast langt í samlíkingum þar sem börnin fá að deila hugsunum sínum með trúnaðarvini í skólanum.

  Eins og svo oft áður Óli ertu mjög selektívur í lestri þínum á þeim texta sem þú gagrýnir.

 3. Matti skrifar:

  Menn seilast langt í samlíkingu segir þú, samt er allt orðrétt haft eftir djákna hægri megin í bréfinu. Það eina sem hefur verið gert út er að vinaleið er skipt út fyrir félagaleið, kommúnisma fyrir kristni.

  Það er fróðlegt að sú samlíking gangi fram af þér, því í raun er það vinaleiðin sem svo hneykslar þig!

 4. Óli Gneisti skrifar:

  Hefurðu ekkert að segja um gullna regluna? Ertu kannski að vanda selektívur í því sem þú svarar?

 5. Skúli skrifar:

  Það er fróðlegt að sú samlíking gangi fram af þér, því í raun er það vinaleiðin sem svo hneykslar þig!

  Nei, elskulegur:

  …vísunin í pólitíkina leiðir hugann til einræðisríkja þar sem hugsunin er niðurnjörvuð eftir því sem valdhöfum þóknast á hverjum tíma. Menn seilast langt í samlíkingum þar sem börnin fá að deila hugsunum sínum með trúnaðarvini í skólanum.

  Óli segir: Þú spyrð af hentugleika rangrar spurningar. Þú spyrð hvort að þér finnist allt í lagi að gildismati þínu sé neytt upp á börn annarra. Þú ættir að spyrja hvort þér finndist allt í lagi að einhverjir aðrir myndu troða sínu gildismati upp á börn þín. Þetta er í raun spurning um notkun á gullnu reglunni í hinu daglega líf. Ég hafna því að þetta sé ítroðsla. Það er einmitt málið. Skilaboð, bein og óbein, um hin andlegu mál fá börnin víða í skólakerfinu. Sjálfur minnist ég þess frá minni skólagöngu hve algengt það var að kennarar deildu skoðunum sínum á þeim efnum með okkur nemendunum. Kannast ekki við að nokkur maður hafi kvartað undan slíku fyrr né síðar.

 6. Matti skrifar:

  Menn seilast langt í samlíkingum þar sem börnin fá að deila hugsunum sínum með trúnaðarvini í skólanum.

  Já krúttið mitt.

  Trúnaðarvini sem er “fulltrúi Þjóðkirkjunnar”. Trúnaðarvini sem hefur verið vígður til starfa. Trúnaðarvini sem hefur sjálfur sagt frá starfi sínu og orðrétt er haft eftir í bréfinu. Allt sem fram kemur í vinaleið er orðrétt haft eftir djáknanum í Mosfellsbæ.

  Sjálfur minnist ég þess frá minni skólagöngu hve algengt það var að kennarar deildu skoðunum sínum á þeim efnum með okkur nemendunum

  Fyrirgefðu, á þetta að vera réttlæting þín fyrir að bæta í þann hóp sem deilir skoðunum sínum með börnunum í skóla? Sérðu ekki að þetta er “slippery slope”? Með þínum rökum fyllist skólinn af fulltrúum hinna ýmsu lífsskoðunarfélaga sem vilja deila skoðunum sínum með börnunum, hlusta á þau og ræða við þau á forsendum lífsskoðana sinna.

  Í dag er bara eitt félag sem hefur fjármagn og stuðningsaðila til að standa í þessu, en hvað ef ríkur velgjörðarmaður styrkir fleiri félög. Mun Séra Skúli Ólafsson fagna því þegar Vinarleið Vantrúar fer af stað í skóla barna sinna. Þar sem Vantrúarsinnar ræða við börnin án þess að foreldrar hafi samþykkt það.

  Ef hann er samkvæmur sjálfur sér mun Skúli sjálfur aðstoða okkur við að afla fjár til starfsins.

  En staðreyndin er sú að okkur þykir hugmyndin siðlaus og munum aldrei framkvæma hana.

  Til að leysa “vandann” eru margar lausnir. Sjálfum þykir mér rétt að eyða þessum peningum einfaldlega í námskeið fyrir það fólk sem umgengst börnin nú þegar í skólanum, þ.e.a.s. skólaliðana.

 7. Skúli skrifar:

  Matti þú lítur framhjá þeirri miklu boðun sem fram fer í skólunum í dag og hefur verið átalslaus til þessa.

  Slipperíslóp? Hvað finnst þér um þessa: Þjóðkirkjan vinnur með skólunum >> þá mæta öll önnur lífsskoðunarfélög í skólana >> Áróður dynur á börnunum >> Allt fer á annan endann! Mér finnst þú mæta sjálfum þér í rökvillunum, lagsmaður.

  Ég lít svo á að við séum að byggja á farsælu sambandi kirkju og skóla í gegnum árin sem hefur leitt af sér það marga jákvæða þætti fyrir skólana og þá sem þar starfa og nema.

  Vandamál barna í dag eru stór. Þau eru markvisst gerð að neytendum ef ekki að neysluvörum sjálf. Í þessu starfi er þeim bent á aðra sýn á sig sjálf og miðað við viðtökurnar sem starfið hefur fengið í Mosfellsbænum held ég að full þörf sé fyrir þessu.

  Áhugavert hvernig þú setur gæsalappir utan um “vandann”. Við erum líklega ósammála um stöðu barna í dag - eins og svo margt annað.

 8. Matti skrifar:

  Matti þú lítur framhjá þeirri miklu boðun sem fram fer í skólunum í dag og hefur verið átalslaus til þessa.

  Nei, það geri ég ekki.

  Mér finnst þú mæta sjálfum þér í rökvillunum, lagsmaður.

  Nei, það geri ég ekki. Ég er á móti því að lífsskoðunarfélög fari inn í skólana. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að kennarar tjái börnum skoðanir sínar, þó vissulega sé farið fram á að þeir gæti hlutleysis. Ég er viss um að hægt væri að reka kennara úr starfi ef hann gengur of langt í “boðun”. Það sama gildir ekki um starfsmenn Þjóðkirkjunnar sem starfa innan skólanna.

  Ég lít svo á að við séum að byggja á farsælu sambandi kirkju og skóla í gegnum árin sem hefur leitt af sér það marga jákvæða þætti fyrir skólana og þá sem þar starfa og nema.

  Ég lít svo á að Þjóðkirkjan seilist of langt í viðleitni sinni til að finna störf fyrir menntaða guðfræðinga.

  Vandamál barna í dag eru stór. Þau eru markvisst gerð að neytendum ef ekki að neysluvörum sjálf.

  Hvað er Þjóðkirkjan að gera, annað en að herja á börn eins snemma og hægt er, til að kristna þau og fá þau í “rétt trúfélag”?

  Börn hafa aldrei haft það betra. Þau þurfa ekki að þræla eins og þau þurftu fyrir hundrað árum. Þau fá góða menntun, mikið félagsstarf og lang flest miklar samverustundir með fjölskyldunni.

  Þessi bölsýni sumra kirkjunnar manna er fróðlegt. Það mætti halda að heimurinn væri á heljarþröm, allt væri verra í dag en í gamla daga, þegar staðreyndin er sú að í dag er verið að finna upp lúxusvandamál þar sem engin er.

  Vissulega höfum við einhver vandamál, börn sem líður illa og eru lögð í einelti. En við höfum líka kennara, skólaliða og fleira starfsfólk sem getur sinnt því máli.

  Engin ástæða er til þess að Þjóðkirkjan noti tækifærið til þess að reyna að koma sínum áróðri að.

  Það er fróðlegt að Skúli hunsar alveg samanburðinn, hann tekur ekki efnislega afstöðu til þess hvort Vantrú, Sjálfstæðisflokkurinn eða önnur lífsskoðunarfélög ættu að fá sama aðgang að börnunum. Það hlýtur að segja okkur eitthvað.

 9. Skúli skrifar:

  Hvað er Þjóðkirkjan að gera, annað en að herja á börn eins snemma og hægt er, til að kristna þau og fá þau í “rétt trúfélag”?

  Hún mætir þörf í skólunum sem virðist vera brýn. Hið sama gerir hún á mörgum öðrum sviðum enda er hlutverk hennar ekki aðeins boðun heldur líka þjónusta og mannúðarstörf af ýmsum toga.

  Það er fróðlegt að Skúli hunsar alveg samanburðinn, hann tekur ekki efnislega afstöðu til þess hvort Vantrú, Sjálfstæðisflokkurinn eða önnur lífsskoðunarfélög ættu að fá sama aðgang að börnunum. Það hlýtur að segja okkur eitthvað.

  Í þessari predikun hafna ég því að samanburðurinn á milli kommúnisma og kristni sé sanngjarn. Annað er hagfræðikenning sem byggir á einræði en hitt er trúnaðarsamtal sem hefur það að marki að byggja upp einstaklinginn. Ég tel mig hafa gert heiðarlega tilraun til að skýra þetta í textanum hér að ofan.

  Þá benti ég á það áðan að löng hefð er fyrir samvinnu kirkju og skóla og hvað sem þér kann að finnast um slíkt nokkuð - þá er staðreyndin sú að samskipti þessi hafa gengið vel fyrir sig. Góð reynsla er komin á þau.

  Fari Vantrú af stað og vilji leggja sitt af mörkum til að bæta líðan barna í skólunum með sama hætti og kirkjan gerir þurfa menn á þeim bænum að sanna sig með viðlíka hætti og kirkjan hefur nú þegar gert. Slíkt tekur tíma en ef félagsskapurinn er trúverðugur og hefur sannað það þá tel ég ekkert því til fyrirstöðu að hann miðli með sínum hætti jákvæðum gildum til barna innan skólanna.

 10. Matti skrifar:

  Afskaplega er það merkilegt þegar lögbrot og/eða siðleysi er rökstutt með vísun til hefðar.

 11. Birgir Baldursson skrifar:

  Annað er hagfræðikenning sem byggir á einræði en hitt er trúnaðarsamtal sem hefur það að marki að byggja upp einstaklinginn.

  Nú? Kemur einhvers staðar fram í klausu Félagaleiðarinnar að þetta einræði verði boðað? Ef svo er þá hlýtur það einnig að koma fram í klausu Vinaleiðarinnar að trú sé boðuð, því Félagaleiðin er nákvæm kópía af Vinaleiðinni. Nákvæm.

  Af hverju má ekki skólakomminn eiga trúnaðarsamtöl seg byggja upp nemendur, fyrst hann er ekki að boða kommúnisma heldur veita félagslega aðstoð (þrátt fyrir að Lenín sé uppi á vegg)?

  Og eitt að lokum: Kommúnismi er ekki hagfræðikennig sem byggir á einræði, þótt Sovétskipulagið hafi byggt á einræði í nafni þessarar kenningar. Kristin trú er aftur á móti trúarkenning sem byggir klárlega á einræði (m.a.s. þríeinræði).

 12. Skúli skrifar:

  Afskaplega er það merkilegt þegar lögbrot og/eða siðleysi er rökstutt með vísun til hefðar.

  með hefð á ég við þá góðu reynslu sem er af þessu samstarfi. Ég útskýrði það í athuasemdinni.

  Nú? Kemur einhvers staðar fram í klausu Félagaleiðarinnar að þetta einræði verði boðað? Ef svo er þá hlýtur það einnig að koma fram í klausu Vinaleiðarinnar að trú sé boðuð, því Félagaleiðin er nákvæm kópía af Vinaleiðinni. Nákvæm.

  Þetta samkrull sósíalisma og sálgæslu er algerlega út í loftið. Sálgæsla getur ekki verið hluti af hagfræðikenningu.

 13. Birgir Baldursson skrifar:

  Kommúnismi er meira en bara hagfræðikenning. Hann er pólitísk afstaða og kveður á um þjóðskipulag. Er það ekki hlutverk stjórnmálamanna að láta sig velferð þegnanna varða? Ef það er fáránlegt að komminn stundi sálgæslu, er þá ekki alveg jafn glórulaust að pólitíkusar sitji í stól félagsmálaráðherra?

 14. Birgir Baldursson skrifar:

  Og er þá ekki bara réttast að félagsmálaráðuneytið sé á könnu kirkjunnar, fyrst yfirnáttúrufræðingar hennar telja sjálfa sig öðrum færari til að hlutast til um velferð fólks?

 15. Skúli skrifar:

  Kommúnismi er meira en bara hagfræðikenning. Hann er pólitísk afstaða og kveður á um þjóðskipulag. Er það ekki hlutverk stjórnmálamanna að láta sig velferð þegnanna varða?Hvort sem er, skiptir það engu máli. Þjóðfélagsmál og hagfræði hafa ekkert með þessa hluti að gera og það veistu vel Birgir. Ætli það sé fyrst núna sem einhver bendir á það hversu fáránleg samlíking Reynis er á milli Félaga- og Vinaleiðar?

  Og er þá ekki bara réttast að félagsmálaráðuneytið sé á könnu kirkjunnar, fyrst yfirnáttúrufræðingar hennar telja sjálfa sig öðrum færari til að hlutast til um velferð fólks?

  Hér hefur enginn haldið því fram að guðfræðingar séu öðrum færari í þessum efnum: Strámaður, lagsmaður ;)

  Ég vísa til þessarar góðu reynslu sem er fyrir samskiptum skóla og kirkju sem unnið er út frá.

  Þið vaðið í rökvillunum, blessaðir.

 16. Carlos Ferrer skrifar:

  Jóna Hrönn í Garðabæ fjallar um þetta í prédikun sinni með eftirfarandi orðum:

  Hér í Garðabæ og á Álftanesi eru skólar og kirkja farin af stað með tilraunaverkefni sem heitir “Vinaleiðin”. Verkefnið hefur í nokkur ár reynst einkar vel í Mosfellsbæ, og felst í því að þjónar kirkjunnar fara inn í grunnskóla samfélagsins og hlusta á börn. Þetta er tilboð um sálgæslu og forvarnastarf gagnvart börnum og stuðning við foreldra. Skólayfirvöld og kirkja hafa þannig efnt til samstarfs um að veita virka hlustun, þar sem börnin fá enn aukið tækifæri til að tjá sig og þar sem tekið er tillit til skoðana þeirra og hagsmuna.
  Meira hér

  Vandamálið eru ekki rökvillur í einstaka umræðuþræði, heldur stórfelld rangtúlkun á kirkjustarfi þrátt fyrir tilraunir til leiðréttinga og skýringa á eðli þess í grunnskóla.

  1. Vinaleiðinni er komið á í samstarfi við og á forsendum grunnskólans.
  2. Starf prests og djákna felst í því að vera samferða börnunum, vera sálgætandi en ekki trúboðar.
  3. Vissulega myndast tengsl milli starfsmanna kirkjunnar og skólasamfélagsins, og þau tengsl geta og munu skila sér í jákvæðu viðhorfi til kirkju hjá sumum. En það er af og frá að með því eigi sér innræting stað eða trúboð.

  Kirkjan er boðandi stofnun með lífi sínu. Hvort sem hún stundar trúboð eða ekki. Vinni hún þjóðþrifaverk, hefur það áhrif. Vinni hún ógagn hefur það áhrif. Vinaleiðin er tilraun stofnunar til að bregðast við þörf í samfélaginu, sem ekki er uppfyllt með öðrum hætti. Sem slík er hún þjóðþrifaverk. Tilraunir til að sverta það með annarlegum skilgreiningum eru niðurrif, sem skila fátækara skólastarfi.

 17. Matti skrifar:

  Ég vísa til þessarar góðu reynslu sem er fyrir samskiptum skóla og kirkju sem unnið er út frá.

  Hvaða góða reynsla er það? Nú hef sjálfur eytt árum í grunnskóla og átt börn í grunnskóla síðustu tíu árin.

  Ekki hef ég orðið var við að Þjóðkirkjan sé með mikla starfssemi þar innan dyra.

  Nákvæmlega hvaða góðu reynslu ertu að vísa til?

  Eða ertu bara að skálda upp einhver hefðarrök til þess að forðast að ræða efnisatriði málsins?

 18. Skúli skrifar:

  Samstarfið birtist í mörgum myndum:

  Reglulegar heimsóknir í gegnum árin
  Þátttaka kirkjunnar þegar áföll verða í skólunum
  Stuðningur og námskeið fyrir starfsfólk skólanna

  Og svona mætti áfram telja.

  Nú veit ég að þetta er ekki tónlist í þínum eyrum en það skiptir ekki máli í þessu sambandi.

  Ég er ekki að skálda neitt upp til að forðast efnisatriði málsins. Vinaleiðin ofl. í þeim dúr er einfaldlega útvíkkun á góðu og öflugu samstarfi sem reynst hefur vel.

 19. Matti skrifar:

  Þarna kom það. Meira þurfti ég ekki að heyra.

  Vinaleiðin er útvíkkun á samstarfi kirkju og skóla.

  Sjáið þið ekki að þetta þarf að stoppa. Gerið það fyrir mig, reynið að skoða málið útfrá sjónarhóli þess helmings landsmanna sem ekki játar kristna trú.

 20. Gyða skrifar:

  Skúli, þú og fleiri talið um að vinaleið og annað samstarf sé á forsendum skólanna.

  Hvaða forsendur eru það? Er ég sú eina sem skil ekki þetta orðalag. Hefur t.d. menntasvið Reykjavíkur sett upp sérstakar forsendur sem þeir vilja að þetta samstarf fari eftir?

 21. Birgir Baldursson skrifar:

  Hér hefur enginn haldið því fram að guðfræðingar séu öðrum færari í þessum efnum: Strámaður, lagsmaður ;)

  Ójú! Þú ert að halda því fram að guðfræðingar séu kommmum færari í þessu, að einhver eðlismunur sé á mótívasjónum þessara tveggja sem geri kirkjumanninn hæfan en kommann óhæfan. Er það ekki rétt skilið hjá mér?

 22. Skúli skrifar:

  Sæl Gyða, ég man ekki eftir því að hafa sjálfur talað um “forsendur skólanna” í þessu sambandi en vel má vera að ég hafi gert það. Þar held ég að sé átt við það að börnin fái þarna stuðning sem skólayfirvöld telja mikilægan.

  Já, sorrí Birgir þetta var ekki strámaður hjá þér. Kristmaðurinn er hæfari kommanum fyrir þær sakir að líknarstörf og sálgæsla er órjúfanlegur þáttur af starfi kirkjunnar. En tengist ekki þessari hugmyndafræði sem kommúnisminn er!

 23. Gyða skrifar:

  Þetta orðalag er í athugasemd “Carlos Ferrer skrifar: 25. 10. 2006 at 09.46″ fyrirgefðu Skúli ég las þetta í fyrsta yfirlestri sem þetta væri athugasemd frá þér.

  En þú segir að samkvæmt þínum skilningi þá sé það að börnin fái þann stuðning sem skólayfirvöld telja mikilvægan. En er staðreyndin ekki sú að það er kirkjan sem kemur inn og býður þessa þjónustu? Það er kirkjan sem skilgreinir hver þjónustan er? Eða ertu að segja að skólayfirvöld hafi sett niður hvernig þjónustu þeir vilji fá frá kirkjunni?

 24. Skúli skrifar:

  Líklega er ferlið svona:

  Skólayfirvöld hafa mörg hver góða reynslu af því að leita til kirkjunnar undir vissum kringumstæðum.

  >>Söfnuður býður fram krafta sína til þessarar þjónustu í tilteknum skóla.

  >>Yfirvöld í viðkomandi skóla ákveða með hvaða hætti skuli staðið að þjónustunni.

  >>Hún er skipulögð og kynnt með þeim hætti sem þið þekkið.

  “Forsendur skólanna” eru þá stuðningurinn við börnin og “forsendur kirkjunnar” lúta að því þjónustuhlutverki sem hún vill sinna í samfélaginu.

  Sumir eru allt annað en kátir með þessa þjónustu - en mér vitanlega hefur óánægjan hjá Reyni í Garðabænum ekki náð til einhvers umtalsverðs hóps þar. Ég held að þar ríki almenn ánægja með þetta framtak.

  BTW fékk ekki vinaleiðin í Mosfellsbænum verðlaun frá sveitarfélaginu? Ef sú er raunin (er ekki alveg með það á hreinu sjálfur) þá sýnir það vel með hvaða hætti kirkjan vinnur í þeim anda sem skólayfirvöld kjósa = “forsendurnar” góðu.

 25. Haraldur Stþ skrifar:

  Á allri minni skólagöngu man ég ekki eftir reglulegum heimsóknum starfsmanna Þjóðkirkjunnar í minn meðalstóra skóla í Breiðholtinu.
  - Enda hefði mér þótt það í hæsta máta óeðlilegt að starfsmenn trúfélags kæmu í heimsókn til okkar! Mér hefur aldrei fundist skóli eiga að vera vettvangur trúfélaga til að koma boðskap sínum á framfæri.

  “Leyfið börnunum að koma til mín” sagði maðurinn, ekki “Förum og sækjum börnin” eða “Komið með börnin til mín”.

  Þótt ég vilji ekki líkja trúfélagi við stjórnmálaflokk eða banka, finnst mér jafnslæmt að einhver þessara aðila séu í sambandi við börnin mín í skólanum. Ég á ekki börn ennþá, en ég veit að það myndi sjóða jafnmikið á mér hvort sem Fríkirkjan, Glitnir, VG eða félag þjóðernissinna væru með fasta viðveru í skóla barnsins míns. Ég er meðlimur Fríkirkjunni og viðskiptavinur Glitnis, en það gefur þeim engan sjálfstæðan rétt til að hjálpa barninu mínu og boða þeim trú eða góða fjármálastjórn.

  Barnið mitt mun velja hvort það vill vera í banka / trúfélagi og hvaða banki / félag það verður.
  ***

  Sem betur fer varð aldrei neitt áfall í mínum skólum sem kallaði á utanaðkomandi hjálp. Ef svo hefði verið og það hefði verið starfsmenn trúfélags sem hefðu mætt til að tala við mig, hefði ég líklegast frekar haldið áfram í áfalli eða leitað hjálpar annarsstaðar. Mér hefði, jafnvel sem barni, þótt það virkilega óeðlilegt ef skjólastjórnendur hefðu haft samband við aðstandendur trúfélags til þess að fá það til að tala við börnin, í stað einhverra sem menntun hafa til slíkra skóla.
  Það að kirkjan hafi vogað sér að koma inn í skólana þegar börn eru veik fyrir og rugluð finnst mér alveg ægilegt - ég fæ bara í magann. Auðvitað er það hlutverk hennar að vera til staðar ef einhver leitar til hennar, en þar á þetta að stoppa. Leyfið börnunum að koma til ykkar, ekki þröngva ykkur á þau.
  Þetta eru aldeilis ekki rök fyrir því að Vinaleið sé rekin af kirkjusóknum.

  ***

  “Stuðningur og námskeið fyrir starfsfólk skólanna” nefnir Skúli loks.
  Ég trúi því ekki að kirkjan sé með skipulögð námskeið fyrir starfsmenn skóla.
  Og að veita því stuðning, hvað er átt við? Er þetta áfallahjálpin sem fyrr var nefnd?

  Er virkilega um að ræða einhvern frekari stuðning og námskeið kirkjunnar fyrir starfsfólk grunnskóla, heldur en fyrir starfsmenn í álverksmiðju, smiði, lækna eða afgreiðslufólk stórmarkaða?

  Ef svo er þá finnst mér það út í hött satt að segja, en gaman væri að fá frekari upplýsingar um þetta (ef maður skyldi “lenda” í kennarastarfinu).

  ***

  Mér sýnist öll rökin fyrir samstarfi kirkju og skóla frekar vera mótrök.

  ***
  Það þarf engan trúleysingja til að sjá að réttur barns til frjálsrar sannfæringar og trúar er ekki virtur ef boðskap eins trúfélags er haldið að þeim með þessum aðferðum sem Vinaleiðin boðar.

  Hér eru starfsmenn Þjóðkirkjunnar að gera það sem í þeirra valdi stendur til að vera hluti af lífi þeirra - að foreldrum (og börnunum) forspurðum. Mér finnst ótrúlegt að það þurfi að rífast um hvort þetta er óeðlilegt!
  Auðvitað eru það ekki bara börn sem ekki skráð í Þjóðkirkjuna sem þarf að vernda fyrir þessari leið, heldur þarf að tryggja öllum börnum burtséð frá skráningum í trúfélög rétt til frjálsrar sannfæringar, hugsunar og trúar.

  Ég bið til Guðs (og trúi á hann) og biðla til starfsmanna Þjóðkirkjunnar um að endir verði bundinn á þessa leið vina og farsæl og hlutlausari leið verði fundin til að kenna börnum siðferðileg gildi og virðingu - telji fólk að skort hafi á slíka kennslu eða uppeldi hingað til.

  Skúli þú ert greinilega mjög vel gefinn - ég óska þér hins besta í því að breiða út kærleik kristninnar og snerta hjarta fólks. Gerðu það leyfðu börnunum samt að vera í friði fyrir trúfélaginu þínu.

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 7932.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar