Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Óskar Hafsteinn Óskarsson

Bara Guð má vekja mig

1. október 2006

Kæri Guð. Ég fékk algert áfall þegar ég sá styttuna af þér, eða þegar ég sá í hvaða ásigkomulagi þú varst, svona nakinn og horaður á krossinum þínum, helsærður og blóðið lak undan þyrnikórónunni og það var einsog höfuðið væri að detta af hálsinum. Ég gat ekki varist því að hugsa um sjálfan mig. … Nei, í alvöru, Amma bleika, ekki treystir þú á hann þennan? Af hverju ekki, Óskar? Mundirðu frekar treysta Guði sem er eins og vaxtarræktarmaður, herðabreiður og með skorna vöðva, olíuborinn líkama og nýtískulegri sundskýlu. Tja… Hugsaðu þig um Óskar. Hver finnst þér standa þér nær? Guð sem ekkert hefur þurft að þola eða Guð sem þjáist. Sá sem þjáist auðvitað. En ef ég væri hann, ef ég væri Guð, ef ég gæti, einsog hann, forðast þjáningar þá mundi ég gera það. Enginn getur forðast þjáningar. Hvorki Guð né þú.

Hér er Óskar 10 ára dauðvona drengur að ræða við vinkonu sína um þjáninguna og um Guð. Samræðurnar eru dauðans alvara. Þetta er kafli úr bókinni Óskar og bleikklædda konan. Frábær lesning. Vinkona Óskars hvetur hann til að senda Guði bréf daglega og tala um líðan sína og tilfinningar. Þau ræða saman ekki til að losna undan þjáningunni og sársaukanum heldur til að takast á við lífið eins og það er, sem stundum er svo ósanngjarnt og óréttlátt. Krabbameinsveikur tíu ára drengur á fáa daga eftir ólifaða. Lífið er á köflum miskunnarlaust.

Í guðspjallinu er líka dregin upp mynd af mannlegri neyð. Það ríkir sorg í bænum Nain. Móðir og ekkja er að fylgja einkasyni sínum til grafar. Nær verður vart höggvið í líf móður. Vinir og ættingjar fylgjast að. Við þekkjum eflaust flest svona aðstæður. Þær taka á en líða síðan líða hjá og lífið heldur áfram. Atburðurinn í Nain er ekki rifjaður upp í dag vegna ekkjunnar sem svo mikið hafði misst eða vegna fólksins sem var þar, heldur vegna hans sem kom þar að. Þess vegna lifir þessi atburður. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: Grát þú eigi! Frásögnin birtir mynd af Guði sem finnur til og er til staðar. Hann veit hvað það er að líða og þjást. Þess vegna stendur hann okkur nærri. Þess vegna á hann erindi við okkur sem svo oft þurfum að glíma við mótlæti og raunir.

Að lifa er að finna til, að lifa er að gleðjast og syrgja. Sorgin er gríma gleðinnar er stundum sagt til að undirstrika að þær systur eru eins og tvær hliðar á sama peningi. Báðar kalla þær fram mennsku okkar, vanmátt, styrkleika og veikleika, allt eftir aðstæðunum.

Hér áðan var lesið úr Jobsbók. Þar fáum við lesið um einhverja mögnuðustu glímu manns við Guð og þjáninguna. Job sem er grandvar og guðhræddur maður upplifir hvernig líf hans hrynur einn daginn. Hann missir allt og spyr í örvæntingu: Af hverju ég? Getur trúin verið eins og trygging gegn mótlæti og raunum í lífinu? Ef ég elska Guð og náungann í einlægni og geri allt það sem gott þykir get ég þá losnað undan þjáningunni? Þegar allt kemur til alls kemur í ljós að svo er ekki. Job er dæmi um það, að ógleymdum frelsaranum sjálfum. Þeir máttu báðir þola píslir og mótlæti þrátt fyrir góðsemina alla og miskunnarverkin. Og báðir glímdu þeir við Guð í örvæntingu sinni, þegar dauðinn varð ekki umflúinn. Guð minn Guð minn því hefur þú yfirgefið mig, sagði Jesús á krossinum. Lærdómurinn af lífi þeirra beggja virðist vera að Guð verndi manneskjuna ekki fyrir þjáningunni heldur veiti hjálp til að horfast í augu við hana. Og þar er auðvitað stór munur á.

Á síðustu vikum hefur verið fjallað mikið um hin hörmulegu dauðaslys í umferðinni á þessu ári, sem eru nú orðin 21 talsins eftir slys næturinnar. Ótalin eru þá þau fjölmörgu sem beðið hafa varanlegan skaða eftir þessi slys, um þau heyrum við lítið talað. Skemmst er að minnast STOPP átaksins. Þar voru samverur haldnar út um allt land til að vekja fólk til umhugsunar og ábyrgðar. Hvað er til ráða? Samkvæmt upplýsingum frá lögregluembættinu á Akureyri þá hafa 1600 manns verið kærðir það sem af er ársins fyrir of hraðan akstur, stundum ofsaakstur og 63 kærðir fyrir ölvunarakstur. Eitthvað er nú að. Ungir ökumenn eru hér í sérstökum áhættuhópi. Sautján ára unglingur hefur efni á að kaupa sér sportbíl upp á þrjúhundruð hestöfl og þar yfir til að aka um göturnar. Tifandi tímasprengja myndi einhver segja. Af hverju ég?, spyr Job með þjáningarsystkinum sínum. „EKKI ÉG” virðist unga fólkið okkar í umferðinni alltof oft hugsa og við kannski líka. Svona kemur ekki fyrir mig. Ódauðleikadraumórar eru gjarnan fylgifiskar bernskunnar. Af þeim draumi verður að vekja. Að aka um göturnar langt yfir leyfilegum hámarkshraða er lífshættulegt og felur í senn í sér virðingarleysi gagnvart sjálfum sér og öðrum. Einn anginn af þessu er eflaust brenglað verðmætamat, hægt er að fá nánast allt upp í hendurnar.

Hættan er auðvitað líka sú að líta á fjöldann 21 bara sem tölu, en ekki lifandi manneskjur sem áttu sér vonir, væntingar og framtíðardrauma. Tuttugu og ein manneskja látin, tuttugu og ein fjölskylda í sárum. Mannlegur harmleikur eins og hann gerist nöturlegastur. Og við hér fyrir norðan höfum ekki farið varhluta af þessu.

,,Það fyrsta var líkalega erfiðasta verkefnið af öllu að færa yngri bróður hans fréttirnar en hann lá sofandi inn í rúmi,” sagði faðir sem missti ungan son sinn í umferðarslysi fyrr á árinu. „Ég hafði engan veginn gert mér grein fyrir hve erfitt það væri að sjá drenginn minn í líkhúsinu og gera mér þar endanlega grein fyrir að það væri ekki um mistök eða misskilning að ræða. …. Ég gerði mér ekki grein fyrir að þegar ég við kistulagninguna kvaddi drenginn minn með kossi á kinnina í síðasta skiptið þá yrði sá koss á kalda kinn.”
Þetta er ekki einn af tuttugu og einum heldur blákaldur veruleikinn, pabbi sem er í sárum.

Þjáningar eru sprottnar af mismunandi rótum. Sumar verða vegna þess sem hægt er að kalla óviðráðanlegar orsakir, s.s. náttúruhamfarir, sjúkdómar og óviðráðanleg slys. Aðrar þjáningar verða beinlínis af mannavöldum, í stríði, glæpaverk eru framin, það verða slys. Fjöldi umferðarslysa hér á landi er fullkomlega óviðunandi og kallar á skilyrðislausa sjálfsskoðun okkar. Endurbætur á vegakerfi, aukið eftirlit og viðurlög, breytt verðmætamat og sérstaklega þarf að huga að unga fólkinu í umferðinni. Áleitin spurning er hvort leyfa eigi nýútskrifuðum ökumönnum að keyra hvað sem er. Mest verður þetta þó alltaf spurning um viðhorf og hugarfar til eigin lífs og annarra.

Sú stund kemur að við erum í sporum ekkjunnar í Nain. Glíman við þjáninguna heldur áfram. Stundum felst hún í því að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir þjáningar, eins og það að vinna gegn öldu umferðarslysa, en stundum felst glíman í því að horfast í augu þjáningarnar. Og sú glíma er ekki val, hún er beinlínis lögð á okkur. Og glíman við þjáninguna er öðrum þræði glíman við Guð.

Ég vitnaði í upphafi í samtal konu og tíu ára drengs. Hún hafði stutt hann í veikindunum og skrifaði Guði bréf eftir lát hans:
Kæri Guð. Takk fyrir að hafa gefið mér kost á að kynnast þessum dreng. Það var honum að þakka að ég var skemmtileg og spann upp sögur … Hann hjálpaði mér að trúa á þig. Ég er full af ást hún brennir mig, … ég á nóg fyrir ókomna tíð.
Ps. Síðustu þrjá dagana stillti drengurinn upp skilti á náttborðið sitt. Ég held að málið snerti þig. Hann hafði skrifað: Bara Guð má vekja mig.

Þegar veikindi og þjáningar herja á í lífi þeirra sem okkur þykir vænt um þá erum við svarið. Með því að vera til staðar. Með því að styðja og hlusta, hjálpa. Í þeim aðstæðum lærum við líka betur að þekkja okkur sjálf. Mitt í vonleysi og raunum er hann nærri. Þegar öll nótt virðist úti þá er enn von. Því kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur. Mitt á meðal okkar stendur hann, finnur til með þeim sem líður. Grát þú eigi! Nærveran skiptir öllu. Svo slokknar líf. Við dánarbeð erum við vanmáttug. En ekki hann. Bara Guð má vekja mig.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2501.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar