Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Óskar Hafsteinn Óskarsson

Jesús grætur

20. ágúst 2006

Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni og sagði: Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu.Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma. Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli. Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.  Lúk.19.41-48

Jesús grætur.  Það er heldur dapurlegt innihald guðspjallsins í dag.  Ég læt fermingarbörn gjarnan fletta upp á tilteknu versi í Biblíunni sem er ótrúlega stutt.  Bæði finnst börnunum það dálítið spennandi og svo gefst þar tækifæri til að vekja umræður um eiginleika Guðs sem í huga margra er hátt upp hafinn og fjarlægur einhvers staðar út í geimnum.  Versið birtir mynd af Guði sem er nálægur, skilur og þekkir tilfinningar, finnur til.  Þetta vers er einungis þrjú orð.  Þá grét Jesús.  Orð sem segja margt um þann Guð kirkjan byggir líf sitt á og slíkur Guð hlýtur að eiga erindi við manneskjur.  Þetta stutta vers er úr frásögninni af því þegar grét Jesús við dánarbeð Lasarusar vinar síns.  Og í guðspjallinu sem lesið var hér áðan grætur hann líka. En tilefnið er allt annað.

Jesús horfði yfir borgina Jerúsalem og grét yfir henni.  Fylltist hryggð yfir andvaraleysi fólksins.  Ógæfan og eymdin blöstu við og fólkið virtist samdauna, tók ekki eftir brestunum og firringunni.  Þegar inn í borgina er komið liggur leiðin inn í helgidóminn.  Ómyrkur í máli rekur Jesús út þá sem stunduðu viðskipti og brask innan veggja helgidómsins: Hús mitt á að vera bænahús en ekki ræningjabæli!  Fólkið fagnaði en Jesús grét yfir spillingunni sem við honum blasti er hann horfði yfir borgina.  Jesús grætur, heimur hlær, var sungið hér áðan.  Hann grét þá en skyldi hann gráta nú?

Öruggt er að aldrei hafa möguleikar mannsins verið meiri en nú.  Framþróun tækni og vísinda er slík að henni verður ekki fylgt.  Stórframkvæmdir og risafyrirtæki verða til, viðskiptaheimurinn blæs út, óþrjótandi möguleikar og tækifæri, nýjar uppgötvanir.  Þetta er stórkostlegt.  En það er líka ógvekjandi.  Aukið afl, tækni og fjármagn útheimta líka aukna ábyrgð og siðferðisþrek.

Hvað með umhyggju, elsku og réttsýni?  Við heyrum um gengi gjaldmiðlanna, úrvalsvísitölu og gengisvísitölu en hvað með gengi umhyggju og miskunnsemi eða fyrirgefningarvísitölu og viðskipti elskuseminnar í lok dags?  Já, hvar eru auðævin sem hjartað geymir gera okkur að lifandi manneskjum?  Eftir þeim verðmætum kallar frelsarinn þegar hann horfir yfir andvaraleysið í Jerúsalem og þegar hann horfir til okkar í dag.  Hann hrópar inn í aðstæður þar sem óréttlætið og spillingin ráða ríkjum.  Opnið augun, þetta á ekki að vera svona!

Nýframkomnar upplýsingar um tekjur Íslendinga sýna enn og aftur að stöðugt breikkar bilið milli hátekjufólksins og lágtekjufólksins.  Núverandi skattkerfi virðist ekki lengur það jöfnunartæki sem það ætti að vera.  Á meðan hákarlarnir draga til sín milljónir og tugmilljónir í mánaðarlaun eru aðrir sem lepja dauðann úr skel.  Misskiptingin er æpandi og nú má ekki skilja sem svo að peningar séu af hinu illa og það að vera ríkur sé skammarlegt.  Hamingjan er vissulega ekki fólgin í peningunum en heldur ekki í peningarskorti.  Það verður alltaf launamunur milli fólks, en á meðan þúsundir samlanda okkar lifa við fátæktarmörk er það beinlínis dónalegt að sjá hákarla í fyrirtækjum og úr fjármálaheiminum hrifsa til sín milljónirnar yfir mánuðinn.   

Og hlægilegt er alltaf að heyra klisjur stjórnmálamannanna og forkólfa atvinnulífsins um að ekki megi hækka laun hinna lægstlaunuðu því þá hverfi stöðugleikinn.  Aldrei heyrir maður talað um fyrirtækin og hátekjufólkið í þessu sambandi.  Það virðist stikkfrí.  Og svo er það hátekjufókið sem felur laun sín og lætur líta út fyrir að vera með allt niðrí 100 þúsund á mánuði, jafnvel 8 þúsund krónur yfir mánuðinn, eins og dæmi var um á síðast ári.  Þetta fólk gerir þó sömu kröfur til samfélagsþjónustunnar, um aðgang að heilbrigðiskerfi, skólum og opinberri þjónustu.  Hér er á ferðinni siðleysi af verstu sort.  Stjórnvöld, þjóðin öll verður að vakna til meðvitundar.  Við megum ekki láta eins og ekkert sé.  Það er nóg til, vandinn liggur ekki í því, heldur hvernig gæðunum er skipt. „Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli.”

Já, Jesús grét yfir Jerúsalem, en skyldi hann gráta nú?
Skyldi hann hafa grátið yfir hinum sukksömu bæjarhátíðum nú í sumar?  Komið var upp um yfir 70 fíkniefnamál á hátíðinni Ein með öllu hér á Akureyri.  Já, það var sannarlega ein með öllu.  Skemmdarverk unnin á húsum og bílum, unglingadrykkja, dóp, nauðganir.  Forsvarsmenn og talsmenn hátíðarinnar virtust hæstánægðir og skilaboðin til unga fólksins okkar eru því alveg skýr.  Sorinn er viðurkenndur, nánast hafinn upp á stall.  Og víst er að margir unglingar hófu sín fyrstu kynni af drykkju og dópi á þessari hátíð.  Það er sagt að innkoman hafi numið um milljarði þessa helgina.  Hér eru gríðarlegir hagsmunir í veði.  Mammon getur auðveldlega slævgað dómgreindina og brenglað verðmætamatið.   Hvers virði er annars líf óharnaðs unglings?  Verður tjón stúlkunnar sem var nauðgað metið til fjár?  Hvað kostar líf drengsins sem byrjaði að sprauta sig um verslunnarmannahelgina?  Akureyri sem boðar fjölskylduvænt umhverfi og státar að frábæru skólastarfi og afþreyingu fyrir fjölskyldur.  Og ekki má heldur gleyma hinu framsækna menningarstarfi sem bærinn stendur vörð um.  Svona hátíð kemur eins og skrattinn úr sauðaleggnum inn í þetta samfélg og í fullkomnu ósamræmi við allt sem er og við viljum standa fyrir.  En þetta er ekki bara Akureyri, langt frá því.  Sömu sögu má segja af hátíðum sem haldnar voru í Ólafsvík og á Akranesi og eflaust fleiri stöðum á liðnu sumri.  Þar fór allt úr böndunum.  Með því að loka augum fyrir skuggahliðum þessara hátíða erum við að segja að allt sé í lagi.  Er þetta kannski bara allt í lagi?  Lítum við hugsanlega á þátttöku barnanna okkar í svona uppákomum sem sjálfsagðan hluta af uppeldinu?

Andvaraleysið og afskiptaleysið eru verstu óvinirnir hér, rétt eins og í Jerúsalem forðum.,,…er hann sá borgina grét hann yfir henni…Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli.”  Orð frelsarans tala skýrt inn í aðstæðurnar.  Jesús grætur, heimur hlær.

Sama má segja um textann frá Jeremía spámanni, sem við heyrðum hér áðan.  Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, segir Drottinn.  Guð er eins og leirkerasmiðurinn sem mótar leirinn.  Við erum börnin hans.  En við erum líka leirkerasmiðir.  Við mótum börnin okkar.  Þessi undursamlegu kraftaverk eru okkur á hendur falin – svo ómótuð, saklaus og varnarlaus.  Í því felst mikil ábyrgð.  Sífellt heyrum við rætt um vaxandi agaleysi barna og unglinga í kringum okkur.  En heyrum við talað um vaxandi agaleysi foreldra?  Það er svo auðvelt að varpa ábyrgðinni á skólana, kennarana, félagskapinn og samfélagið eða bara eitthvað annað – en þegar öllu er á botninn hvolft þá er og verður ábyrgðin foreldranna og heimilanna.  Hvar lenda börnin okkar í kapphlaupinu um tíma og lífsþægindi?  Og þegar kemur að útihátíðunum?  Hvar eru mamma og pabbi þá?  Er ekki augljóst að vaxandi agaleysi barnanna er í beinu samhengi við brenglað verðmætamat foreldranna og kannski samfélagsins í heild?  Við erum upptekin í öðru – en hvað er þetta annað?  Hvað getur skipt meira máli en börnin okkar og fjölskyldan?

Miklu púðri var eytt í stórfurðulega auglýsingu á dögunum sem birt var í nafni kristinnar trúar, þar sem samkynhneigðir voru hvattir til að frelsast undan eðli sínu og hneigðum.  Lækning í boði var sagt.  Hér liggur beinast við að snúa við hendingunni í sálminum og segja sem svo:  Heimur grætur, Jesús hlær.  Já, hvort ber að hlæja eða gráta að svona auglýsingu?  Ég held það sé betra að skella bara upp úr og láta sem ekkert sér.  En hugmyndin er hins vegar allrar athygliverð.  Og spurning hvort ekki ætti að bjóða foreldrum sambærilega meðferð til að frelsast frá afskiptaleysi og úrræðaleysi gagnvart börnum sínum.  Áminna fólk um að því fylgi 18 ára ábyrgð að eignast barn.  Umhyggja, agi, virðing og væntumþykja – allt innifalið.

,,Hús mitt á að vera bænahús …”
Vangaveltur um verðmætamat í lífinu, umgjörð utan um gleðistundir og sorgarstundir.  Kirkjan á að vera griðarstaður í straumi hversdagsins.  Þar eigum við að staldra við og velta fyrir okkur hlutunum.  Hver er ég?  Hvert stefnum við?  Hver er tilgangurinn? 
 
Mikilvægasti liður hinnar almennu guðsþjónustu er þegar við förum út úr kirkjunni, endurnærð af orði Guðs og blessun hans -  út í heiminn til að vera kirkjan þar, þjóna Guði og vitna um Krist. 
Jesús grætur.  Guð finnur til, það gerum við líka.  Sérhver manneskja er helgidómur og á rétt á elsku og virðingu.  Þannig er lifandi kirkja og þannig skulum við vera.

 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3683.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar