Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Carlos Ferrer

Við erum öll útlendingar nánast allstaðar.

17. júní 2006

Fyrir 17 árum  bjó ég í Frakklandi. Ég var nýfluttur þangað með konu minni og ársgömlum syni. 17. júní höfðum við eytt með íslenskum vinum, hvað gerir maður ekki til að hafa það heimilislegt. Ég veit ekki hvort rigndi. Hefði rignt, hefðum við eflaust sungið „Mér finnst rigningin góð“ og síðan ættjarðarlögin. Stundum „Brimsorfna kletta“, þótt umhverfið væri skógi vaxið og ekkert brim að finna lengst inni í landi langt frá sjó. Það gerir ekkert til að vera útlendingur, þegar maður er umlukinn löndum, ættingjum og vinum.

Við erum útlendingar, næstum alls staðar.
Þessi orð voru prentuð á límmiða og plaköt, af ungliðahreyfingu þýskra jafnaðarmanna í kringum 1990, þau rímuðu við slagorð Evrópuráðsins á þeim árum, „Öll mismunandi, öll jöfn“.

Stórfjölskyldan
Það er gott að vera Íslendingur þar sem aðra Íslendinga eða aðrar norðurlandabúa er að finna, fjarri heimaslóðum. Við eigum eitthvað sameiginlegt. Við getum talað saman, eigum svipaðra hagsmuna að gæta, borðum fisk og eigum skap saman. Þótt við séum mismunandi, finnum við að við erum meðal jafningja, þegnar lítilla þjóða og frændur og frænkur. Við eigum Snorra Sturluson sameiginlegan, Leif Eiríksson, meira að segja tónið í kirkjunni hljómar eins. Þegar kemur að sameiginlegum hagsmunum, stöndum við saman. Þannig er það t.d. í söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Sigur Finna í Evróvísjón mildaði það að okkar eigin Sylvía komst ekki lengra en hún komst. Við vitum hvaðan við komum og með hverjum okkur líður best.

Þótt við séum útlendingar nánast hvert sem við förum, eigum við þó heimili meðal frændþjóða okkar á Norðurlöndum og meðal afkomenda þeirra í Ameríku.

Þetta var reynsla þeirra, sem orðuðu slagorðið „við erum öll útlendingar, nánast alls staðar“, þegar múrinn hrundi, sem skildi að pólítíska andstæðinga, kommúnista og kapitalista. Fjölskyldur sameinuðust í fyrsta sinn í 40 ár, þegar lítill hópur mótmælenda varð að þjóðarhreyfingu og stjórnvöld réðu ekki neitt við neitt. Berlínarmúrinn féll og Þjóðverjar í austri og vestri féllust í faðma. Ég fékk að fylgjast með, fyrst í sjónvarpi síðan fóru að koma Trabantar og Wartburgar alla leið þangað sem ég bjó. Brátt varð það þó svo, að fátækt þeirra sem austan tjalds bjuggu og ríkdæmi okkar, vestantjaldsbúa bjó til nýyrði sem skipti mannfólkinu í tvennt.

Við erum mismunandi, en öll jöfn. Þessi vísdómur stendur gegn þeirri sigurvímu sem sum okkar fundu, þegar okkar lið vann og hin töpuðu. Við erum enn að læra að fara eftir þessum orðum, líka í okkar landi. Við erum öll útlendingar, en ekki í okkar eigin landi. Á Íslandi eigum við eitt tungumál og lifum af því sem landið gefur okkur.

Fyrirheitna landið
Land okkar er lofað sem auðugt, fagur og gjöfult, bæði í kveðskap og í þeim Íslendingasögum sem mest hafa mótað okkur. Hér drýpur smjör af hverju strái, segir í Íslendingabók. Hér finnst okkur  gott að búa, séum við  reiðubúin að vinna og yrkja landið og sækja gull í greipar Ægis. Hið gjöfula Ísland er hliðstæða landsins sem flýtur í mólk og hunangi, en svo var talað um fyrirheitna landið í Biblíunni. Eins og Hebrear, þjóðin sem Guð hafði valið fyrir sína þjóð, vitum við að okkur er þetta land gefið. Við vitum hvaðan við komum, frá Noregi, sem forfeðurnir og formæðurnar yfirgáfu af því að þeim var þar ekki vært lengur. Hér smíðuðu þau sína gæfu sjálf, voru sjálfstæð og báru höfuðið hátt. Bjuggu til samfélag sem hafði ekki kóng en fólk var eins jafnt og það gat verið. Víst voru þrælar sem unnu erfiðisverk og víst voru goðorðsmenn, bændur og vinnumenn og kotungar. En ein lög, ein tunga og einn siður sameinaði þau. Forfeður okkar, eins og við voru útlendingar nánast alls staðar, en ekki hér á Íslandi.

Einn siður
Í kristnisögu er talað um að ein trú og einn siður sé grundvöllur einna laga og friðar í landi okkar. Það var ekki þörf á því að horfa til þess að fólk væri mismunandi og því þyrfti að tryggja jöfnuð þess gagnvart lögum. Trúin var jafnarinn mikli og jafvel þau sem voru forn í siðum, blótuðu í laumi, hættu því skömmu eftir kristnitöku. Það tók því ekki að skera sig úr fjöldanum.
 

Öll mismunandi, öll jöfn.
Við erum að verða fjölmenningarlegt og fjölþjóðlegt samfélag, t.d. er sá prestur sem hér talar af erlendu bergi brotinn, nágrannar ykkar eru margir hverjir annarrar þjóðar og annarrar trúar en þið.

Við erum sannarlega öll mismunandi, og öll jöfn. Að heimta af okkur að við aðhyllumst eina trú er ósanngjarnt og ég held að Hafnfirðingar viti þetta manna best, með yndislega fríkirkju við Linnetsstíg, gamalgróið klaustur og glæsilega kaþólska kirkju.

Það er ekki hægt að ætlast til þess að öll verðum við eins, með eina trú eða eina menningu eða að við lærum öll að tala hreina íslensku, við, sem hingað flytjumst. En það er hægt að ætlast til þess að öll sem hér búa virði almenn mannréttindi, sýni öðru fólki virðingu, óháð uppruna, trú, kynferði, kynhneigð eða annars sem kann að greina okkur í sundur.

Við erum eftir allt, öll jöfn að virðingu, þótt ekki séum við eins. Þetta held ég að þurfi að verða okkar nýji siður. Að við þolum það að nágranni okkar borði ólíkan mat og við, syngi ólíka söngva við hátíðleg tækifæri, haldi með öðrum þjóðum í Evróvísjón og tali ekki hreina íslensku.

Ábyrgð okkar
Við erum öll mismunandi í landi okkar, gamal og nýbúar. Við höfum fundið hér heimili okkar og sjáum í því gjöf Guðs, blessun. Við viljum vera gestrisin, af því að við munum að sjálf vorum og erum við útlendingar, nánast hvar sem við komum. Gestrisni okkar og siðferðiskennd eru grundvöllur þess að Ísland verði áfram gjöfult land og að hér drjúpi smjör af hverju strái. Því eins og Þorgeir Ljósvetningagoði sagði við kristnitöku, rjúfum við lögin rjúfum við friðinn. Lausn hans, að hér skuli ríkja einn siður stendur enn, þótt ekki sé sá siður alltaf byggður á sömu trúarjátningu.

Einn siður sem byggir landið hvílir á gömlu innsæi, sem flest okkar þekkjum sem Gullnu regluna og ég hef orðað í slagorðunum um útlendinga og það hvað við erum öll mismunandi. Innsæið er þetta: Ef við gernýtum krafta náunga okkar og landsins, en spörum okkur sjálf, erum við arðrænendur og afætur. En ef við ætlumst ekki til meira af náunga okkar en við ætlumst til af okkur sjálfum, ef við gerum náunga okkar það sem við viljum að okkur sé gert, þá heiðrum við mannréttindi hvert annars og fögnum hverjum mismun sem auðgar líf þjóðarinnar. Því að þar sem öll eru jöfn þótt þau séu mismunandi, þar er gott að búa.

Og nú hefst bráðum skrúðgangan héðan úr Hellisgerði, í gegnum bæinn og inn á Víðistaðatún. Mér skilst að drykk, mat og góða skemmtun sé þar að hafa. Skrúðgöngu okkar svipar dálítið til ferðar Hrafna Flóka og landnámsmannanna frá Noregi og til Íslands, þar sem smjör drýpurpur af hverju strái, ef við erum reiðubúin til að umgangast landið af dugnaði og virðingu.

Njótum dagsins, njótum þess að öll erum við mismunandi, öll erum við útlendingar, nánast hvert sem við förum og öll erum við jöfn. Gerum eina af frægustu bænum heimsins að okkar bæn í dag:

Guð, gef okkur náð til að þiggja með æðruleysi þá hluti sem ekki er hægt að breyta. Gef okkur hugrekki til að breyta því sem við ættum að breyta og vit til að greina annað frá hinu.
(R. Niebuhr)

 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2636.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar