Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Svart

10. maí 2006

„Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.“ Lúk 20.27-39

„Þegar kemur að Guði erum við öll blind. Við getum ekki séð hann og við getum ekki heyrt í honum. En ég hef snert hann …“ Þessi orð mælir Michelle, aðalsöguhetja indversku myndarinnar Svart – Black, undir lok myndarinnar þegar hún vitnar um reynslu sína af lífinu, en þú einkum af einum mikilvægum manni. Og hún heldur áfram: „Ég hef snert hann og ég kalla hann Kennara – Teacher.“

Michelle er bæði blind og heyrnarlaus, einu samskipti hennar við umheiminn eru í gegnum snertingu og lykt og bragð. Hún talar og heyrir með fingrunum. Þegar hún lærir stafrófið í fyrsta skipti þá er það ekki hið hefðbundna abc stafróf. Nei, hennar stafróf hefst á stöfunum S V A R T. Því heimurinn hennar er svartur.

Hann er samt ekki litlaus. Litir og merking verða til í gegnum og fyrir samskipti hennar við lærimeistarann, kennarann, sem verður eins konar brúarsmiður milli Michells og heimsins. Í myndinni sjáum við hvernig hann er sá fyrsti sem kemur fram við hana sem manneskju. Og það er einmitt í því, þegar hann mætir henni sem manneskju sem hún verður manneskja. Og þannig mætir hún líka Guði því sá sem sýnir sannan náungakærleika verður eins konar Guðsbirting.

Mér varð hugsað til þessarar kvikmyndar þegar ég las morgunlestur dagsins vegna þess að þar er í einu versinu skírskotað til lífsins. Jesús segir: „Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.“ Ég held nefnilega að myndina alla – og reynslu Michelle – megi skoða sem eins konar líkingu fyrir líf hins kristna manns. Samkvæmt henni erum við í raun öll – að minnsta kosti til að byrja með - blind á veröldina og þurfum að ná tökum má henni, staf fyrir staf og orð fyrir orð. Og rétt eins og Michell lærði í upphafi orð eins og:

Vatn (Woah)

Gras

Blóm

Mamma (Maa)

Pabbi (Paa)

Þá þurfum við að læra orð eins og:

Sköpun

Faðir

Kristur

Náungi

Kærleikur

Eins og Michelle þá nemum við þau af öðrum, af kennurum, af fólki sem virðir aðra sem manneskjur (elskar semsagt náungann) og kann að snerta aðra og hreyfa við þeim á sviði hins trúarlega. Smátt og smátt verðum við þannig myndug og fullgild og getum svo miðlað áfram til annarra og þannig reynst þeim sönn sem náungar, kennt orðin og breytt myrkri í ljós.

Þannig getum við reynst útsendarar hans sem er Guð lifenda, þannig getum við lifað Guði. Guð styrki okkur til þess og veiti okkur að upplifa snertingu hans og snerta aðra.

Um höfundinnViðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 6206.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar