Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Leiðsögn um Svæðið

1. mars 2006

Kæri söfnuður,
í dag ætla ég að tala við ykkur um bíómynd. Fyrir því eru tvær ástæður. Sú fyrri er að ég hef horft mikið á þessa mynd upp á síðkastið. Sú síðari – og það er ástæðan sem mestu máli skiptir í dag – er að myndin kallast á við það tímabil sem hefst í dag: Föstuna.

Myndin sem um ræðir er eftir rússneska leikstjórann Andrei Tarkovsky. Hann er einn mesti meistari hinnar trúarlegu kvikmyndagerðar, svo djúpur hugsuður að maður gæti freistast til að tala um hann sem sjötta guðspjallamanninn. Myndin heitir Stalker og hún fjallar um ferðalag þriggja manna – Rithöfundar, Prófessors og Kennara sem er leiðsögumaður hinna tveggja. Þeir ferðast um órætt og leyndardómsfullt svæði sem er bara kallað Svæði í myndinni. Ferðinni er heitið að Herbergi sem er þeirrar náttúru að þar rætist innsta ósk sérhvers manns.

Það er ekki heiglum hent að komast í gegnum þetta svæði, ekki er hægt að stytta sér leið og varast ber fjölmargar gildrur sem þarna leynast. Það er því mikilvægt að hafa góðan leiðsögumann með sér. Ófáir hafa farið flatt á því að reyna að stytta sér leið. „Þeir einir komast í gegnum Svæðið sem hafa glatað allri von,“ segir leiðsögumaðurinn reyndar á einum stað í myndinni.

Þessu ferðalagi þremenninganna hefur verið líkt við gönguferð um lendur sálarinnar, eins konar Emmaus-göngu sem er gengin til að átta sig á því hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu. Og svarið sem gefið er við því í myndinni er tiltölulega einfalt og blátt áfram. Það sem mestu máli skiptir er að hafa trú, eiga von og sýna kærleika. Þetta er líka í samræmi við það sem leikstjórinn sagði um kvikmyndagerð sína almennt: „Hlutverk mitt er að gera alla sem horfa á myndir mínar meðvitaða um elskuþörf sína og viljuga til að gefa af kærleika sínum …“

Og þá erum við einmitt komin að föstunni. Kannski er hér nefnilega komin líking fyrir föstugöngu hins trúaða – gegnum dagana sem eru framundan. Við erum nefnilega á fjörtíu daga göngu til móts við hið heilaga. Og á hverju strái geta leynst ögurstundir. Og hvert er þá markmið slíkrar göngu? Kannski einmitt þetta sem leikstjórinn ágæti nefnir: Að hvert og eitt okkar verði meðvitað um elskuþörfina, þörf okkar til að miðla kærleika frá Guði til náungans.

Ferðalag og fasta, leiðsögumaður og hið heilaga, trú, von og kærleikur í verki. Það eru stikkorð og skilaboð dagsins og nestið okkar út í dagsins önn á öskudegi.

Guð gefi ykkur góða föstutíð.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4608.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar