Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Hjáleið út af heilum vegi

8. mars 2006

Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.

Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans.
Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn.

Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.
Rm 6. 11-14

Kæri söfnuður.

Þessi miðvikudagur eftir fyrsta sunnudag í föstu, réttri viku eftir öskudag, markar upphaf imbrudaga. Fjórum sinnum á ári eru imbrudagar. Einu sinni á hverri árstíð. Nú eru imbrudagar á vori. Það er nú reyndar nokkuð snemmt að kenna þá við vor miðað við venjulegt íslenskt veðurfar, en við sem erum vön því að sumardagurinn fyrsti geti jafnt verið falinn í ísköldum faðmi vetrarhörkunnar eins og í gróðurvinjum vorsins megum vel við una þótt þessir fyrstu imbrudagar ársins séu oftar en ekki haldnir á kuldatíð.

Það er heldur ekki veðrið sem ræður för, eða nokkuð í hinu ytra samhengi lífsins, heldur er það hið innra líf, og meira að segja hið innsta í hinu innra.

Imbrudagar eru dagar íhugunar, dagar iðrunar, dagar alvöru, dagar hinna stóru spurninga frammi fyrir Guðs heilaga augliti. Heilög kirkja hefur haldið imbrudaga árstíðanna fjögurra í þúsund ár, vegna þess að kristið fólk á jörð þarf þess með.

Ritningartextinn sem okkur er fenginn til íhugunar á þessum degi er alveg í samræmi við það. Hann talar til okkar tæpitungulaust. Hann sker sig því úr orðaflaumi samtímans sem sjaldnast er afgerandi þegar kemur að kröfunni um glímu mannsins við það sem heilög ritning kallar synd og ranglæti í augum Guðs.

Hversvegna er hann ekki afgerandi? Hversvegna er eins og iðulega sé leitað hjáleiða þó að brautin sé bein framundan?

Meginástæðan er að hugsunin dvelur svo lengi við vandann að hún sér ekki lausnina. Hún hverfur frá vandanum og reynir að láta sem hann sé ekki til, og missir þar með af lausninni. Ef ég reyni að kalla það ranga sem ég geri öðru fólki eitthvað annað, mun mig ekki iðra þess, og missi af fyrirgefningunni.

Hver sem horfir á syndina án þess að þekkja iðrunina og fyrirgefninguna reynir að gera lítið úr henni, eða afneita henni til þess að komast þannig framhjá henni. Þannig kemst syndin upp með að halda völdum sínum.

Páll postuli kennir einfalda kenningu í þessum versum Rómverjabréfsins sem lesin voru hér að framan. Kenning hans byggir á því hvað það þýðir að vera skírður til Krists Jesú, eins og hann segir.(v.3.)

Hver sá sem heldur sig við Krist eins og hann hefur verið gróðursettur á honum í skírninni, hefur fengið líf að nýju. Hann hefur gengið með Kristi gegnum myrkur dauðans inn í birtu lífsins. Dauðinn dó, en lífið lifir, og syndin missti mátt sinn. Syndin hefur ekkert vald yfir honum lengur nema hann afhendi henni sérstaklega umsjón og yfirráð í lífi sínu. Og það getur hann. Hann getur boðist til þess að þjóna henni með lífi sínu og með líkama sínum. Þá ríkir hún. Hún hin máttlausa og dauða fær aftur kraft og líf eins og uppvakningur.

En ranglætisvopn syndarinnar geta breyst í réttlætisvopn Guðs. Um leið og við bjóðum honum alla veru okkar, líkamlega og andlega þjónustu okkar, fáum við reynt að það er lífið sem við þjónum. Syndin ræður ekki, heldur náðin.

Þetta eru undursamlegar fréttir.

Kæri söfnuður. Ég leyfi mér að álykta að það sem ég heyri á símsvaranum þegar ég hringi til Kína þar sem konan mín er þessa dagana, séu líka góðar fréttir, en ég skil ekkert einasta orð.
Sífellt fjölgar þeim sem skilja heldur ekkert einasta orð hvorki af því sem ég las úr bréfi Páls eða mína eigin útleggingu.

Imbrudagar á vori eru ætlaðir til persónulegrar innri uppbyggingar, en þeir eru líka ætlaðir til þess að við íhugum hvernig við getum verið túlkar Guðs gagnvart þeim sem ekki skilja og ekki heyra þegar hann kallar, og missa af því að sjá syndina tapa og eigið líf verða að guðsþjónustu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2706.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar