Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Friðrik Hjartar

Atvinnulífið og himnaríki

12. febrúar 2006

Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr. Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið oss. Hann segir við þá: Farið þér einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Mt. 20:1-16

Það er einkar áhugavert guðspjallið á þessum Drottins degi, sem er 1. sd. í níuviknaföstu, því það fjallar að miklu leiti um atvinnulífið, þótt í upphafi sé dregin líking af himnaríki.

„Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn.“ segir þar. Ekki getum við sagt að atvinnulífið sé himnaríki, enda er himnaríki ekki einangrað fyrirbæri í þessari líkingu, sem tilheyrir sérefni Matteusar.

Að sjálfsögðu var atvinnulíf þess tíma gjörólíkt okkar, en það gefur tilefni til samanburðar og til að líta á þær stöðugu breytingar sem atvinnulíf dagsins í dag er undirorpið. Það má kallast merkilegt að þar megi finna sameiginlega drætti, sem virðast staðlaðir inn í líf mannsins.

Velgengni íslensks atvinnulífs vekur mikla athygli og gleði um þessar mundir. Flestir fréttatímar og fjölmiðlar eru fullir af upplýsingum um megahagnað, hátt gengi krónunnar, sem endurspeglar velsæld og oftast hækkandi verðmæti fyrirtækja og hlutabréfa. Vissulega má þó greina neikvæðan tón hjá fulltrúum framleiðslu- og útflutningsgreina.

Sem leikmanni í þessum fræðum þykir mér það vekja nokkra athygli að stórfyrirtæki skuli ganga kaupum og sölum eins og hver önnur smávara. Oftar en ekki hefur þessi mikli tilfutningur fjármagnsins áhrif á þá sem starfa í viðkomandi fyrirtækjum, bæði til góðs og ills og ekki virðist lengur lögð áhersla á þau gildi sem fólgin eru í stöðugleika, enda breytt mat á því að þjóna sömu herrum í langan tíma.

Í guðspjallinu er ekkert minnst á arðsemiskröfu, en þó er minnt á að húsbóndinn er sjálfur fjár síns ráðandi. Honum leyfist því að greiða þeim jafn mikið sem komu seinna til starfa, jafnt og þeim sem fyrst voru ráðnir. Hann á jú fyrirtækið. Þrátt fyrir þessa ráðstöfun hefur hann staðið við þá samninga sem gerðir voru að morgni um denar í daglaun.

Á tíma guðspjallsins var það réttur verkamannsins að fá uppgert að kvöldi Við höfum nýlega heyrt dæmi af myndarlegum starfslokagreiðslum til stjórnenda, sem ekki höfðu starfað lengi. Starfslokum viðkomandi aðila hafa væntanlega fylgt ákveðin réttindi, sem um var samið í upphafi. Reikna verður með því að uppgjörsaðilarnir hafi átt fyrirtækin og því ekki margt út á þessa ráðstöfun að setja. Auðvitað hlýtur að vera dýrt að kaupa fólk útaf vinnumarkaðinum. - Slík ráðstöfun getur þó í sumum tilfellum borgað sig.

Það er ekki nýtt að heyra möglað undan kjörunum. Viss öfund kom upp meðal verkamannanna sem fyrst voru ráðnir yfir því að hinir, sem aðeins höfðu unnið skamma stund, skyldu fá greitt jafnt og þeir. Þegar um kaup og kjör er að ræða virðist stutt í öfundina. Þannig hefur jafnan risið upp hópur MÖGLARA þega Kjaradómur hefur kveðið upp úrskurð um hæstu launin.

Sá kaleikur var tekinn frá þingmönnum þjóðarinnar fyrir nokkrum árum að þeir þyrftu að skammta sér og æðstu embættismönnum þjóðarinnar laun sín sjálfir. Þá var búinn til KJARADÓMUR sem hefur lagt sig eftir að fylgja settum reglum. Ég dreg í efa að þeir sem hæst hafa möglað yfir hækkun launa hjá dómurum og öðrum embættismönnum séu þeir sem búa við bágustu kjörin.

Það er nauðsynlegt að vel sé greitt fyrir þessi störf, svo að þau séu eftirsótt og því hægt að skipa þau hæfustu einstaklingunum á hverjum tíma.

Það er vissulega nauðsynjamál að tryggja öllum góða afkomu og ekki síst er nauðsynlegt að hækka lægstu launin. Eins þarf að tryggja bætta afkomu öryrkja og lífeyrisþega, sem ekki hafa samningsstöðu, nema í gegnum atkvæðið sitt.

Denar í daglaun var taxtinn í guðspjallinu. Sú upphæð dugði aðeins fyrir nauðþurftum og sá sem ekki var ráðinn þurfti sannarlega að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Denar í daglaun uppfyllir því ekki kröfu dagsins í dag og verður sú krafa því ekki höfð til viðmiðunar.

• • •

Það fer ekki hjá því að alþjóðavæðing atvinnulífsins hefur áhrif hérlendis eins og annarsstaðar og í ljósi guðspjallsins getum við sagt að búið sé að selja víngarðinn úr landi, og því enga vinnu að fá. – Í Kína og fyrrum austantjaldslöndum er mun ódýrara vinnuafl og því er tilhneiging til að flytja atvinnustarfsemina þangað.
Hin hliðin á alþjóðavæðingunni kemur e.t.v. fram í því að ekki heyrist lengur auglýst: “Háseta vantar á bát!” eins og oft mátti heyra á árum áður.

Hvað kaupskipaflotann varðar, þá hefur hið íslenska skatta- og reglugerðarumhverfi valdið því að skipin eru nú skráð erlendis og þekking og reynsla íslenskra skipstjórnarmanna stefnir því úr landi.

Í dag standa verkamennirnir ekki á torginu og bíða eftir að verða ráðnir, eins og á dögum guðspjallsritarans, heldur virðist vinnuaflið oftar og oftar sótt erlendis frá í gegnum starfsmannaleigur. Ef skortur er á vinnuafli er það ákveðin lausn. Ef launakjörin ráða þar mestu þarf að gæta vel að því hvað hefur farið úrskeiðis og bæta þar um.

Útrás íslenskra fyrirtækja vekur mikla athygli í dag. Dönum þykir til að mynda að íslendingar hafi gert innrás í danskt atvinnu- og efnahagslíf með uppkaupum á mörgum þekktum stórfyrirtækjum. Af skiljanlegum ástæðum þykir þeim að með þessu séu íslendingar að sælast í gróða þeirra.

Í þessu efni erum við e.t.v. komin að kjarna guðspjallsins, því að “Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn.” Líkingu guðspjallsins er ekki einungis ætlað að sýna fram á að þeir sem fyrstir komu til starfa hefðu átt að fá meira.

Guðspjallið höfðar til þess að það voru gyðingarnir sem voru Guðs útvalda þjóð, sem Guð hafði talað við og verndað frá voða og grandi. Þeim þótti það vera réttur sinn að vinna í víngarðinum og njóta þess hagnaðar sem af því hlaust. Heiðingjarnir komu síðar til skjalanna. Orð spámannanna voru ekki til þeirra töluð. Því þótti gyðingunum sem aðrir væru alls óverðugir að taka á móti guðsríkinu, sem Matteus nefnir himnaríki, til þess að forðast að nefna nafn Guðs.

Himnaríki hefur ekki breyst með sama hætti og atvinnulífið. Það er jákvætt og gott að atvinnulífið skuli þróast með jákvæðum hætti, en hvað sem líður atvinnulífinu, þá er himnaríki tilbúið að opna dyr sínar fyrir okkur. Þangað er ráðið allan daginn, hvenær sem er starfsævinnar. Náð Guðs fer ekki í manngreinarálit.

Ágæt leiðbeining um himnaríki kemur fram í lexíunni úr spádómsbók Jeremía, sem lesin var hér áðan. Þar segir: “Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum.” (Jer. 9:23)

Eigandi víngarðsins var ekkert að hrósa sér sérstaklega af ríkidæmi sínu, en hann notaði það til að sýna miskunnsemi og prédikaði um leið rétt og réttlæti, með því að tryggja kjör allra sinna manna.

Það er hollt fyrir atvinnulífið og þá sem því stjórna, að horfa til þessa boðskapar og orða Páls, sem minna á þá miklu samkeppni sem ríkir í atvinnulífinu.

Það er sjálfsagt að keppa, en þeir sem það gera þurfa að vera samkvæmir sjálfum sér ef þeir vilja hljóta óforgengilegan sigursveig.

Þótt unnið sé vel og velsæld ríki í flestum greinum í okkar þjóðfélagi, þá virðist sem tilgangsleysið og tómlætið ráði víða ríkjum. Það er vissulega gott að hafa nóg að lifa af, en ekki er síður mikilvægt að hafa ákveðna hluti að lifa fyrir. Það stuðlar að því að ryðja burt tilgangsleysinu og fylla lífið merkingu og gleði.

Hagsmunir himnaríkisins og atvinnulífsins fara saman í því að skapa tilverunni traustan grunn. Þá getur sérhver víngarðseigandi leyft sér að auðsýna miskunnsemi, rétt og réttlæti. – Það er allra gróði, en náð Guðs er látin ókeypis í té og er óháð mannlegum mælikvörðum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2629.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar