Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Pálsson

Áhrif Biblíunnar - Útbreiðsla kristinnar trúar

19. febrúar 2006

Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt. Að svo mæltu hrópaði hann: Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.

En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.

En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Lúk. 8.4-15

Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Þannig hefst guðspjall dagsins. Þekkt upphaf á þekktri dæmisögu, sem við munum áreiðanlega flest frá því við lásum Biblíusögur í barnaskóla. Við höfum sitthvað í nesti þaðan sem vel geymist. Vel á minnst. Kristinfræðikennsla í grunnskólum er gagnrýnd í blöðum með reglulegu millibili. Þannig birtist klausa í einu dagblaðanna fyrir helgi sem bar heitið Menntakerfi á villigötum. Þar hneykslast höfundur á því að kristin fræði (og þar með frásögur af Jesú Kristi og kenningu hans) skuli vera svo fyrirferðamikil á stundaskrá skyldunámsskólans. Þetta sé öðrum þræði hugmyndasaga sem skyggi alfarið á aðra, og að ýmsu leyti mikilvægari hugmyndasmiði, í hugmyndasögu vesturlanda. Og höfundur spyr: „Af hverju læra börnin okkar ekkert um þá einstaklinga, s.s. Adam Smith, John Stuart Mill, Charles Darwin og marga fleiri sem lögðu grunninn að þeirri heimsmynd og þeim lýðréttindum sem við búum við í dag?“ Þessar breytingar á inntaki námsins telur höfundur mikilvægar og við hæfi vegna afhelgunar eða veraldarvæðingar vestrænna þjóðfélaga.

Hvað sem hinum hugmyndafræðilega þætti kristindómsfræðslunnar líður er kristin trú, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, fjölmennustu trúarbrögð heims og sé litið á heiminn allan fjölgar kristnum mönnum meira en nokkrum öðrum eða um 8% á ári.
Það væri menntakerfi á villigötum ef fræðslu um kristna trú yrði úthýst úr skólunum eða að henni þrengt meira en orðið er. Auk þess að vera fjölmennustu trúarbrögð heims hafa þau fylgt íslenskri þjóð í 1000 ár og mótað flesta þætti þjóðlífsins meira en margir gera sér grein fyrir eða vilja viðurkenna. Sjálfsagt er að nemendur læri um Smith, Stuart Mill og Darwin, en það hlýtur að vera pláss fyrir þá ágætu menn án þess að stugga Jesú Kristi til hliðar. Ég fyrir mitt leyti leyfi mér að trúa að áhrif hans séu meiri en þeirra þremenninga allra, með fullri virðingu fyrir þeim. Höfundur er einnig skelfingu lostinn yfir því að Þjóðkirkjan skuli stjórna þessari fræðslu, sem eðli málsins samkvæmt er alltaf í hlutverki trúboðans, eins og höfundur segir. Jafnvel þótt höfundur sé með rós akademiskrar menntunar í hnappagatinu hefur hann ljóslega ekki kannað heimildir áður en hann settist niður til að skrifa. Kirkjan hefur ekki stjórnað kristinfræðikennslu skólanna síðan 1926 að Ásgeir Ásgeirsson fékk það sett í lög að yfirvöld menntamála ákvæðu um þessa fræðslu sem aðra með þeim rökum að kirkjan ætti ekki að stýra því sem í skólunum væri kennt. Þetta stendur enn. Kirkjan hefur að sjálfsögðu tekið þátt í umræðum um greinina og haft á henni skoðun. En það er menntamálaráðuneytið sem lætur semja námskrár og skammtar námsgreinum tíma. Í núgildandi námskrá fyrir kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði er skýrt tekið fram að kristinfræðikennslan sé ekki trúboð heldur fræðsla, upplýsing, þekkingarmiðlun, svo sem er um önnur trúarbrögð sem kennd eru. Þau trúarbrögð sem kennd eru í skólum bæði hér á landi og hvarvetna í kringum okkur eru kennd á eigin forsendum, það er, þau eru látin tala fyrir sig sjálf, svo nemendur geri sér betur grein fyrir hver sé mergurinn málsins. Og tekið upplýsta afstöðu.

Vel á minnst. Önnur trúarbrögð. Vaxandi krafa er gerð um fræðslu um önnur trúarbrögð, þótt allt of hægt gangi að koma þeirri fræðslu á sem skyldi. Þó eru þau ákvæði búin að vera í námskrám allt frá árinu 1976. Á þessari kröfu hnykkti biskup meðal annars í ræðu sinni á Laugardaalsvelli kristnitökuárið 2000.

Menntun í trúarbrögðum er mikilvæg í fjölmenningar-samfélögum nútímanas. Um það er ekki ágreiningur. Þekkingarleysi er frjór jarðvegur fyrir fordóma, sem leitt geta til sundrungar. Um þetta eru flestir sammála. En hitt er sjaldnar nefnt að þekkingarskortur á eigin trú (yfir 90% þjóðarinnar er kristinn), getur einnig valdið fordómum gagnvart henni og orsakað að menn verði berskjaldaðir fyrir áróðri þeirra sem ýta vilja kristinni fræðslu út í horn. Menntakerfið er á villigötum ef það sinnir ekki trúarbragðafræðslunni, þar með kristinfræðikennslunni, af kostgæfni og með vönduðum undirbúningi kennara. Það er skólans að fræða, mennta. Það er kirkjunnar að boða. Þetta tvennt á að vera aðgreint. Um það er ekki að vera ágreiningur.

• • •

Sáðmaður gekk út að sá. Sæðið er Guðs orð. Það fellur og hefur fallið í margvíslegan jarðveg, sumt í grýttan, annað í grunnan þar sem það gat ekki fest rætur. En það hefur í gegnum aldirnar einnig, og ekki síður, fallið í frjóan jarðveg og fest rætur, lifað og borið margfaldan ávöxt og umskapað einstaklinga og samfélög. Þess vegna er kristin trú fjölmennustu trúarbrögð heims í dag. Uppeldisfræðingurinn Reidar Myhre segir á einum stað: „Með kristninni verður bylting í skilningi á manninum. Það var kristindómurinn sem fyrst setti einstaklinginn í öndvegi og hélt fram óendanlegu gildi hans og þetta átti við um alla óháð stétt og stöðu, kyni og aldri.“ Hér er verið að tala um kristindóminn, ekki þá sem hafa misbeitt honum. Og enn er sáð. Það er Biblíudagur, helgaður Biblíunni og starfi Hins íslenska Biblíufélags. Biblíufélögin í heiminum eiga fullt í fangi með að sjá kristnum söfnuðum um víða veröld fyrir Biblíum, þrátt fyrir öfluga útgáfustarfsemi sem skiptir milljóinum eintaka árlega, auk umfangsmikils þýðingarstarfs. Víða eru þýðendur Biblíunnar að smíða ritmálslausum málsamfélögum ritmál jafnframt þýðingunni. Hið íslenska Biblíufélag tekur þátt í þessu starfi, m.a. með því að styðja við þýðingu Biblíunnar á mál Konsóbúa, en þar hófu íslenskir kristniboðar störf fyrir meira en hálfri öld. Þegar Nýja testamentið kom þar út árið 2005 var upplagið 2500 og seldist á þremur dögum.

Sámaður gekk út að sá. Og sæðið ber ávöxt.

• • •

Íslendingar voru á meðal 20 fyrstu þjóða sem fengu Biblíuna alla á eigin þjóðtungu. Það var ekki aðeins kirkjulegt afrek þeirra Odds Gottskálkssonar og Guðbrands Þorlákssonar, sem greiddi Guðs orði, hinu góða sæði, veg til þjóðarinnar. Það var einnig menningarlegt afrek og hefur haft ómæld áhrif á tungu þjóðarinnar og stuðlað mjög að varðveislu hennar. Síðan hefur Biblían verið þýdd eða þýðingar endurskoðaðar að jafnaði einu sinni á öld. Nú er verið að ljúka við nýja þýðingu úr frummálunum, Biblíu 21. aldarinnar. Rúm fimmtán ár eru síðan þýðingarstarfið hófst og áætlað að þýðingin komi út fyrir lok þessa árs. Mjög hefur verið vandað til þýðingarinnar bæði að því er varðar merkingu hugtaka í frumtextanum og íslenskt málfar, þar sem kappkostað hefur verið að taka tillit til íslenskrar Biblíumálshefðar og vandaðs nútímamáls. Þýðingin hefur verið gefin út í heftum jafnóðum og henni hefur miðað, svo almenningur allur gæti sent inn rökstudda gagnrýni og komið með tillögur. Tekin hefur verið afstaða til allra athugasemda sem borist hafa. Hið íslenska Biblíufélag er ekki bundið við meðlimi þjóðkirkjunnar einnar, heldur opið öllum meðlimum kristinna trúfélaga, enda hefur forstöðumönnum þeirra einnig verið gefinn kostur á að fylgjast með þýðingarstarfinu.

• • •

Sáðmaður gekk út að sá. Og enn er gengið út til að sá. Að koma orði Guðs sem víðast á ekki aðeins við þar sem kristnin er í mestum vexti. Það gildir einnig hér á landi. Hver ný kynslóð er kristniboðsakur. Að sá í þann akur er hlutverk sérhvers kristins manns, hvaða kristnu trúfélagi sem hann tilheyrir. Til þess að sæðið festi rætur og beri ávöxt þarf að leggja við það rækt, allt frá bernsku til elliára. Verkefnið er því ærið. Trúfélögin sem stofnanir bera ekki þetta starf uppi. Þau eru aðeins farvegur fyrir starf einstaklinga sem taka trú sína alvarlega og telja hana þess virði að deila henni með öðrum.

Hver er svo ávöxtur þessa sæðis, orðs Guðs. Þetta orð er kallað orð lífsins. Orð lífsins er Kristur. Það er hann og boðskapur hans sem þarf að festa rætur í hjarta sérhvers manns. Að skuldbindast Jesú Kristi er að þiggja líf af hans lífi, líf sem aldrei deyr, vera umvafinn kærleika hans og fyrirgefningu, þiggja huggun hans og leiðsögn, finna sig tekinn gildan án tillits til þess hvort maður hefur eitthvað að leggja með sér. Þó er það ekki skuldbinding mín sem ræður úrslitum, heldur að hann hefur skuldbundið sjálfan sig til að yfirgefa mig ekki, hvorki í lífi eða dauða. Þetta er kallað fagnaðarerindi, vegna þess sem það gefur, vegna ávaxtanna sem það ber.

Þeir sem sá ráða hvorki vexti eða ávöxtum. Þeirra skylda, eða öllu heldur forréttindi, er að sá, það er Guð sem gefur vöxtinn. En vilji enginn sá, sprettur ekkert. Hvernig viljum við sjá framtíðina fyrir okkur? Er okkur sama hvort kristin trú lognist útaf á meðal okkar vegna skeytingarleysis eða erum við tilbúin að sá, hvar sem við erum. Það er hægt að eiga sér staðfasta trúarsannfæringu en sýna jafnframt umburðarlyndi gagnvart sannfæringu annarra. Það er hægt að vitna um og boða trú sína án þess að meina öðrum að gera hið sama. Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum. Með þessum orðum hófst sáningarstarf sem borið hefur ávöxt um víða veröld í tvö þúsund ár, þrátt fyrir fyrirlitningu, andróður og ofsóknir, vegna þess að fjöldi sáðmanna hefur hlýtt þessum orðum Jesú Krists. Þessir sáðmenn hafa talið erindi Jesú Krists mikilvægara en öll önnur erindi, talið að mikilvægara sé að setja von sína í lífi og dauða á hann en nokkurn annan.
Farið um allan heim, skírið og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Þau boð finnum við í bókinni sem þessi dagur er helgaður. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5660.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar