Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Grétarsdóttir

Örlæti eða óhóf?

15. janúar 2006

Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: Þeir hafa ekki vín.

Jesús svarar: Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.

Móðir hans sagði þá við þjónana: Gjörið það, sem hann kann að segja yður. Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.

Jesús segir við þá: Fyllið kerin vatni. Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: Ausið nú af og færið veislustjóra. Þeir gjörðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.

Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann. Jóh. 2. 1-11

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Við höfum öll séð eða heyrt fréttir af því eftir jólin að jólaverslunin hafi slegið öll met. Þetta sjáum við reyndar á hverju ári.

Jólaverslunin virðist aldrei minnka, hún eykst stöðugt ár frá ári. Hvers vegna ætli það sé?
Þarna er auðsjáanlega markaðsöflin sem að einhverju leyti ráða ferðinni. Og oftar en ekki heyrum við talað um þessi markaðsöfl og neyslusamfélagið sem við búum í, á afar neikvæðum nótum.

En getur verið að það sé eitthvað annað á ferðinni en neysla og óhóf ? Er kannski eitthvað undir yfirborðinu sem við sjáum ekki, eitthvað mannlegt eða jafnvel Guðlegt? Einhver mannleg þörf sem þarf ekki endilega að vera svo neikvæð því hún getur sagt okkur eitthvað mikilvægt um okkur sem manneskjur?

Nú verð ég að setja smá fyrirvara, því það er ekki ætlun mín að verja neyslusamfélagið, græðgina eða auglýsingavæðinguna.
Nei, mig langar frekar að velta fyrir mér þörf okkar fyrir að sýna náunganum og þeim sem við elskum örlæti. Að eyða án þess að hugsa endilega um það hvað það kostar!

Í Guðspjalli dagsins sýnir Jesús okkur dæmi um þetta. Í brúðkaupinu í Kana er vínið, sem var aðal veisluföngin, uppurið. Það er ljóst af frásögninni að það voru allir búnir að fá nóg, menn voru ölvaðir. En hvað gerir Jesús, hann breytir bara vatni í vín eins og ekkert sé svo boðsgestir geti haldið áfram að gleðjast og fagna. Hvaða mótsögn er þetta inn í okkar samfélag eða er þetta mótsögn?

Við getum skoðað fleiri dæmi sem Jesús gefur okkur. T.d segir frá því í Matteusarguðspjalli þegar Jesús mettar 5000 þá varð svo mikið afgangs að ekki var hægt að nýta það allt saman. Þegar allir voru orðnir mettir þá gengu af 12 körfur fullar af brauði. Örlæti eða óhóf?
Og enn annað dæmið fáum við síðar í frásögn Matteusar þegar Jesús er í heimsókn á heimili Símonar og kona nokkur smurði Jesú dýrum smyrslum. Og þar sjáum við viðbrögð lærisveinnanna sem hneyksluðust á þessari eyðslusemi, konan gæti nú notað peningana í eitthvað betra en svona dekur. Örlæti eða eyðslusemi?
Það er ljóst af þessum frásögnum að Jesús er þakklátur fyrir það þegar aðrar manneskjur sýna honum örlæti og hann vill sýna örlæti sjálfur.

Frásögurnar sýna okkur að Jesús kann ad meta það sem við erum gjörn á að kalla eyðslusemi, óhóf eða sóun. Hvernig má það vera?
Jú, Jesús lítur á þetta með allt öðrum formerkjum en við, hann lítur á þetta út frá jákvæðum formerkjum sem við getum þá kallað örlæti.

Enn á ný snýr Jesús allri okkar hugsun, skoðunum og afstöðu á hvolf. Hvað meinar hann eiginlega með því að láta allt þetta vín flæða í brúðkaupinu í Kana, eða með smyrslunum í Betaníu, svo ekki sé minnst á brauðundrið þar sem svo mikið varð afgangs að ekki var hægt ad nýta það allt saman og endaði örugglega í ruslinu.

Hvað vill Jesús segja okkur með þessu öllu saman og um hvað fjallar þetta eiginlega?

Í raun og veru þá fjallar þetta um leyndardóm Guðs ríkis. Eyðslusemin sem við tölum svo gjarna um endurspeglar á einhvern hátt örlæti Guðs. Það er því þessi mannlega þörf til þess að sýna örlæti sem knýr fólk áfram í eyðslu og jafnvel til óhófs.
Var það ekki óþarfa eyðsla og óhóf hjá Guði að senda son sinn út í opinn dauðann á krossi fyrir okkur mennina? Var það ekki óþarflega mikil elska sem hann sýndi okkur með upprisu sonar síns frá dauðum svo við mættum lifa og búa í ríki hans eftir okkar jarðnesku veru? Nei, það var örlæti.

Á öllum tímum hafa kirkjunnar menn gagnrýnt eyðslu og óhóf og litið á það sem vandmál og af því hefur leitt að meinlætastefna hinnar kristnu kirkju hefur alltaf haft betur. Það er merkilegt að uppgötva það að Jesús varð sjálfur fyrir barðinu á þeirri gagnrýni sem samfélag manna verður fyrir nú á tímum sem öðrum.
Getur verið að eyðslusemi okkar um jólin og kannski árið um kring, þessi velmegun á Íslandi sé óljós spegill sem birtir okkur brot af því lífi sem við erum kölluð til að lifa sem kristnar manneskjur. Kannski eitthvað sem sýnir okkur dýpri lífsskilning en hægt er að sjá í fljótu bragði.

Við erum sköpuð af Guði til þess að gleðja hvort annað og ekki bara gleðja, heldur gleðja á þann hátt að það sé miklu meira en væntingar okkar stóðu til. Því þannig gleður Guð okkur, kemur til móts við okkur á svo miklu áhrifameiri hátt en væntingar okkar standa til eða við getum ímyndað okkur eða fundist við eiga skilið.
Getur verið að bak við alla jólaeyðsluna getum við þrátt fyrir allt séð lítið brot af leyndardómi Guðs ríkis?
Ef svo er, þá þurfum við að biðja Guð um að leiða okkur á þann veg að þetta örlæti geti orðið til góðs í lífi okkar og hugsun allri.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3137.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar