Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Grétarsdóttir

Nútíma fjölskyldur

29. janúar 2006

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.

Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn.

Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. Matt 8.23-27

Konan mín keypti sér uppskriftabók og gat bara eldað eftir henni, alveg hreint ágætis mat. Svo tók hún sig til og þreif klósettið, ég hefði nú getað gert þetta betur sjálfur en vildi ekki setja út á þetta hjá henni, hún var svo dugleg. Hún er meira að segja farin að taka sig til og skúra endrum og eins, þetta er nú hálfgert káf hjá henni, en það er allt í lagi, ég fer bara yfir gólfið aftur og þá auðvitað án þess að hún viti, því ég vil alls ekki að hún gefist upp, ég veit að þetta kemur allt hjá henni. En þegar kom að uppvaskinu þá fór hún og keypti uppþvottavél, þar sagði hún stopp.

Hvað er athugavert við þessa frásögn? Í raun og veru er ekkert athugavert við hana, nema þá kannski það að við erum ekki vön að heyra svona lýsingar um konur heldur heyrum við þær miklu frekar um karlana okkar sem eru að aðlagast nýrri samfélagsgerð og leggja sig því fram við það að jafna byrði heimilishaldsins.

Á Íslandi vinna allflestir foreldrar fulla vinnu utan heimilisins og því er það nauðsynlegt fyrir jafnrétti kynjanna að skipta með sér verkum þegar heim er komið. Bæði hvað varðar uppeldi barna sem og heimilisstörfin öll. Hvernig sú verkaskipting er skiptir ekki öllu máli heldur að hún sé nokkuð jöfn og að sátt ríki um hana innan heimilisins.

Guðspjall dagsins fjallar um storma lífsins og mikilvægi þess að trúa og treysta, biðja og vona þó allt virðist vera að fara í kalda kol. Lærisveinarnir í guðspjallinu eru hræddir og missa í hræðslu sinni þá trú og það traust sem Jesús hafði kennt þeim að hafa en þeir gleyma samt ekki bæninni og þeirri von sem henni fylgir, því þeir vöktu Jesú og báðu hann um að bjarga sér. Það breytir því ekki að þeir höfðu ekki þolinmæði til þess að bíða óveðrið af sér og ekki það traust og trú að Jesús bjargar og vakir yfir þrátt fyrir að virðast á stundum vera sofandi, svo órafjarri í öldugangi lífsins.

Hvernig er öldugangurinn i fjölskyldum þessa lands?

Útivinnandi foreldrar koma heim ef vel er á milli fjögur og sex á daginn. Þegar heim er komið á eftir að hirða um heimilið, þvo þvotta, þrífa, elda kvöldmat og láta börnin læra, koma þeim í háttinn. En vera þá jafnframt búin að veita þeim athygli með því að tala við þau eða eiga á annan hátt góðar og uppbyggilegar samverustundir, ala þau upp með því að kenna þeim góða siði. Nú það þarf að finna tíma til að rækta sambandið við maka sinn og stórfjölskyldu alla. Það þarf nú líka að sinna áhugamálum bæði sínum eigin og barnanna. Svo má ekki gleyma líkamsræktinni sem þarf að komast þarna einhverstaðar að. Efnislegar kröfur fara sívaxandi, skuldir heimilanna aldrei verið meiri sem kallar á aukinn vinnutíma sem aftur hefur í för með sér færri stundir til að sinna fjölskyldu-skyldum sínum. Nú ef við þetta bætist fjárhagsáhyggjur, veikindi, ósætti eða aðrir erfiðleikar þá held ég að þurfi nú að fara að bæta nokkrum klukkustundum í sólarhringinn.

Er eitthvað skrítið að grunnstoðir samfélagsins riði til falls, að fjölskyldur gliðni í sundur? Um 50% hjónabanda enda með skilnaði.

Hvernig ætlum við í okkar samfélagi að bregðast við?

Sumir myndu segja að lausnin væri einföld, konurnar aftur heim, þetta var allt miklu betra þegar mæður voru heimavinnandi, svo eru þær líka með miklu lægri laun.
Aðrir myndu segja að nú væri komið að körlunum að vera heima að hugsa um börn og bú, konurnar væru búnar með sinn skerf í gegnum aldirnar, það þurfi bara að hækka launin hjá þeim.
Nei, líklega eru þetta ekki viðunandi lausnir. Því lausnir finnast ekki ef litið er framhjá staðreyndum.
Staðreynin er sú að í allflestum fjölskyldum eru báðir foreldrar útivinnandi og út frá því þarf að skoða hvað hægt er gera.

Fyrir það fyrsta þurfa báðir foreldra,r ef þeirra nýtur við, að koma að heimilishaldi og uppeldi barnanna, það er svo miklu léttara að bera byrðarnar saman. Nú það er hægt að kenna börnunum að taka þátt í heimilisstörfunum því það er liður í því að ala þau vel upp, að þau hafi hlutverki að gegna, hafi skyldur. Þá er það mín skoðun að afnema skuli að mestu heimanám barnanna, það er búið að lengja skólaárið án þess að bæta við námsefni og börnin eru nánast allan daginn í skólanum og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu og hafa margir skólar minnkað heimanámið til muna.

Margt er til ráða til að létta álagið og fleira væri sjálfsagt hægt að telja upp í þessum dúr. En það ráð sem aldrei bregst og er á valdi hvers og eins að fara eftir og það er að leggja líf sitt í Guðs hendur í bæn og treysta því að hann muni vel fyrir sjá. Þolinmæði í trú og trausti þegar öldugangurinn er hvað mestur er mikilvæg leið sem fær er þó erfið sé. Sú leið að gefast upp og sökkva er þó enn verri. Bænin getur því, ef við viljum gegnt lykilhlutverki í lífsgöngu okkar. Því í gegnum stöðugt bænalíf finnum við fyrir handleiðslu Guðs bæði í stillu og stormi. Það hefur meira að segja verið rannsakað að þau sem stunda reglulegt bænalíf eru minna stressuð en þau sem ekki biðja.

Ein er sú fjölskyldugerð sem á verulega undir högg að sækja og stormviðri geysar um þessa dagana og það eru fjölskyldur samkynhneigðra para. Mikið hefur verið talað í ræðu og riti um það hvernig við viljum búa að og hlúa að þessum fjölskyldum. Og misjafnar eru skoðanir fólks, sumar settar fram á mjög særandi hátt en aðrar málefnalegar.

Það þarf í þessu tilliti einnig að horfa á staðreyndir. Samkynhneigðir eiga fjölskyldur og mynda fjölskyldur með því að para sig saman á jafnréttisgrundvelli sem tveir einstaklingar. Samkynhneigðir eru að ala upp börn. Rétt eins og gagnkynhneigðir þá lifa samkynhneigðir fjölskyldulífi með öllum þeim verkefnum og álagi sem því fylgir og að ofan er greint.

Hvernig ætlum við sem samfélag að bregðast við þessum staðreyndum?

Hið háa alþingi hefur brugðist við og liggur nú fyrir frumvarp til laga um málefnið eins og þjóð veit. Þetta frumvarp fær svo sína umfjöllun og breytingatillögur og hvað eina sem fylgir þeim farvegi sem ný lög þurfa að fara í gegnum.

Þjóðkirkjan hefur brugðist við og hefur Biskupinn yfir Íslandi lagt málefni þessarar fjölskyldugerðar í þann farveg sem kirkjan okkar hefur; í samstarfshóp, í umræðu og umfjöllun, í kirkjuráð, í kenningarnefnd og svo verður tekið á málinu á prestastefnu.

Innan þjóðkirkjunnar eru misjafnar skoðanir í mörgum málum og er umræðan um fjölskyldulíf samkynhneigðra þar ekki undanskilið.

Þar togast aðalega á hin Biblíulegu rök. Annarsvegar um kærleiksboðskap Jesú Krists til handa allri sköpuninni, þeim sem taka vilja á móti og hins vegar örfáir ritningastaðir í heilagri ritningu.

Biblían er heilagt Guðs orð sem skrifað er á löngum tíma af mönnum sem lifðu á mismunandi tímum og skrifuðu inn í mismunandi umhverfi, það eru flestir sammála um. Það er þó eins ljóst og ég stend hér og er ein af staðreyndum málsins að ef farið yrði eftir hverjum einasta bókstaf sem skrifaður er í hinni helgu bók þá þyrfti nú heldur betur að breyta bæði lögum, venju og hefð. Eins myndi koma í ljós að það væri ógjörningur vegna þess að í Biblíunni eru margar andstæðurnar.

Ef litið er á einstaka ritningarstaði má auðveldlega finna staði sem sýna fram á fáránleika þess að nota einstaka ritningarstaði til stuðnings málefni sínu og slíta þá úr samhengi tíma og texta. T.d væri hægt að halda því fram að konur mættu ekki gegna prestembættum. (1.Tim.2.11). Við prestar landsins gætum harðneitað að gefa út sáttavottorð vegna hjónaskilnaða hvað þá að gifta fráskilið fólk.(Matt.5 og 19). Konur væru óhreinar á meðan á blæðingum stæði eða í sjö daga og enginn mætti koma nálægt þeim og þær mættu alls ekki koma til kirkju. (3.Mós.15). Og þau sem halda framhjá skulu dæmd til dauða.(3.Mós.20).

Þessi dæmi sýna okkur einungis fram á það að Biblían er skrifuð á löngum tíma inn í ákveðið sögulegt samhengi og því megum við ekki gleyma þegar við lesum hina heilögu bók sem hefur þrátt fyrir þetta að geyma þann boðskap sem aldrei má glatast eða kasta fyrir róða.

Boðskapinn um Jesú Krist, son Guðs sem fæddist í þennan heim til sáluhjálpar fyrir okkur mennina. Kærleikur hans var svo mikill að hann fórnaði lífi sínu á krossi fyrir okkur synduga menn. Hann tekur okkur að sér í heilagri skírn svo við megum kallast Guðs börn og vera þannig öll jöfn frammi fyrir Guði.

Þannig boðar kirkja Krists jafnrétti til handa allri sköpuninni. Því verður það aðeins á þeim grunni, með jafnréttið að leiðarljósi sem okkur tekst að móta samfélag sem styður við verkefni daganna sem hvíla á hverri einustu fjölskyldu þessa lands.

Og boðskapur Jesú til okkar í dag er skýr. Við eigum ekki að hræðast þó á móti blási eða gefast upp. Við eigum að leggja málefni daganna í bæn til Drottins, í trausti þess að hann heyrir bænir okkar.

Veðrátta lífsins er misjöfn, oftast gengur þetta blessaða líf okkar bara alveg ágætlega og léttur sunnanvindur blæs en stundum geysa sterkir stormar og stundum breytist vindáttin skyndilega. Þá er nauðsynlegt að hafa staðfasta trú til að byggja á, fara í gegnum storma og breytingar með þolinmæði trúarinnar með þá vissu að Jesús bjargar og blessar þó að hann virðist á stundum vera sofandi og fjarlægur. Vita það að Drottinn yfirgefur ekki þau sem á hann vona og trúa. Lifa í þeirri trúarvissu að hann einn lægir vind og vatn.

Við skulum leggja fjölskyldur þessa lands í hendur Guðs í bænum okkar og við skulum biðja góðan Guð að leiða þær í amstri daganna.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. (Sl.37.5).

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3647.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar