Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sjöfn Þór

Trúin lifir enn

15. desember 2005

Þau lýsa fegurst er lækkar sól
í bláma heiði, mín bernskujól.
Er hneig að jólum mitt hjarta brann
dásemd nýrri hver dagur rann.

Það lækkaði stöðugt á lofti sól
þau brostu í nálægð, mín bernskujól
og sífellt styttist við sérhvern dag
og húsið fylltist af helgibrag.

Ó, blessuð jólin er barn ég var
ó, mörg er gleðin að minnast þar
í gullnum ljóma hver gjöf mér skín.
En kærust voru mér kertin mín.

Ó. láttu, Kristur þau laun sín fá
er ljós þín kveiktu er lýstu þá.
L ýstu þeim héðan er lokast brá,
heilaga guðsmóðir, himnum frá.

Fyrir meira en 2000 árum, gengu ung hjón langa leið. Gamall asni var með í för og var konan með barni. Þessi ungu hjón vissu að von var á barninu á hvaða stundu sem var. En þau áttu engra annarra kosta völ en að fara í þetta ferðalag. Við þekkjum vel söguna, það fæddist barn og þetta barn, svo ósköp lítið og saklaust var frelsari og lausnari heimsins.

Meira en 2000 árum síðar, höldum við enn upp á fæðingu frelsarans. Heimurinn er allur annar nú en hann var þá. Allt er breytt, við höfum sannanir fyrir nánast öllu og oftar en ekki trúum við engu sem við ekki höfum sannanir fyrir. Þrátt fyrir eilífa leit að sönnunum lifir trúin á Guð í hjörtum okkar og um hver jól verður trúin eins og ný. Við verðum aftur börn, við hverfum á braut minninganna, við upplifum í hjörtum okkar, okkar eigin bernsku jól.

Í minningunni voru jólin hvít, hljóð og falleg. Við munum hversu þessi stutti dagur var lengi að líða, við munum ylminn af jólasteikinni, við munum eftir ljósunum, kertunum og þessari sérstöku stemmingu, hátíðleikanum. Við munum eftirvæntinguna eftir því hvað leynist inni í pökkunum. Jesúbarnið, þetta litla fallega sveinbarn, sem fætt var á jólunum var okkur sem undur og óskiljanlegur leyndardómur, og er það enn.

Þetta barn sem fætt var við fátæklegar aðstæður, svo saklaust og blítt er sú stærsta og mesta jólagjöf sem mannkyni hefur verið gefin. Þetta litla barn, færði allan heiminn nær Guði og gerir enn um hver jól. Þetta litla barn var, er og verður frelsari okkar og dvelur með okkur öll jól og alla daga.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2651.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar