Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Baldur Kristjánsson

Guð og tsunami

25. desember 2005

Ég var að skoða myndir, inn á vef BBC, af börnum sem komust af í flóðbylgjunni fyrir ári, tsunami eins og hún er kölluð. Þessi börn misstu foreldra sína eitt eð bæði, systkini sín og vini sína. Sum misstu beinlínis alla sem stóðu nálægt þeim. Öll misstu þau heimili sín, sum misstu alveg þorpið sitt. Og þau misstu bernsku sína.

Ég fór að hugsa það hvað við erum heppin sem búum hér. Hvað aðstæður okkar eru góðar. Og ég fór líka að hugsa um af hverju Guð léti hluti eins og þessa viðgangast. Af hverju hann léti það viðgangast að líf barna væri með þessum hætti lagt í rúst –annaðhvort tekið af þeim með hræðilegum hætti eða þau þá skilin eftir án foreldra og ástvina.

Þú átt ekkert að hugsa svona, hugsaði ég með sjálfum mér, presturinn á aðfangadagskvöld, þú veist full vel að Guð er kærleikur en skiptir sér ekkert af sögunni. Ekki virtist hann skipta sér af Gyðingamorðunum í Auswitch eða fjöldamorðunum í Ruwanda eða slysum og mannslátum yfirleitt.

En hvað þá spurði ég sjálfan mig? Til hvers er þá Guð? Og svaraði í huga mér: Guð vill vel. Hann hefur tilgang með sögunni. Hans vegir eru hins vegar órannsakanlegir. Hann einn sér heildarmyndina-við bara sjáum eitt og eitt púsl en allt kemur þetta heim og saman að lokum. Eitthvað vit er í þessu, einhver tilgangur!

• • •

En ég á við er það ekki augljóst að þú gerir ekki barni þetta, ég á við tsunami – þú afstýrir því ef þú getur? Já, en Guð má ekki leggjast í einhverjar björgunaraðgerðir á jörðu niðri. Þá myndu menn týna allri ábyrgð, er það ekki augljóst? Skipstjórinn myndi verða kærulaus því engir bátar færust, sömuleiðis bílstjórinn og flugstjórinn. Læknum yrði ekki borgað kaup og rannsóknir á sjúkdómum leggðust af ef Guð hindraði sjúkdóma með sama hætti og slys. Allir yrðu ódauðlegir eða að minnsta kosti fjörgamlir. Þú hættir að hafa áhyggjur af börnunum þínum – þú þyrftir ekki að borða hollan mat. Óábyrgt mannlíf er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess ef Guð færi sím og æ að bjarga málum. Og á hann kannski bara að bjarga sumum, ekki öðrum?

Samt biðjum við Guð í almennu kirkjubæninni að afstýra slysum og stöðva styrjaldir. Við viljum ekki útiloka það að Guð skipti sér af –Við viljum ekki útiloka það að hann verndi okkur og leiði –við tölum um Guðlega forsjón ef allt fer betur en á horfðist. Í Faðir vorinu gerum við okkur þó grein fyrir því að bænir okkar kunni að vera skammsýnar og eigingjarnar og segjum:„Verði þinn vilji”

• • •

Oft hefur það verið orðað svo að Guð stýri í gegnum okkur mennina … við mennirnir séum útréttar hendur Guðs á jörðu. Guð stýri í gegnum hendur okkar og hugi, og við, innblásin af boðskap Biblíunnar, mörkuð kristnu hugarfari eigum að koma nauðstöddum til hjálpar og búa af fremsta megni þannig um hnútana að öllum farnist vel. Það sé okkar að standa gegn óréttlæti og ofbeldi. Það sé okkar, ekki Guðs, að byggja varnargarða. Það sé okkar að byggja réttlátt samfélag. Það sé okkar að stöðva styrjaldir og afstýra slysum.

En hvað kemur þetta barninu við. Hann er kominn ansi langt frá helgisögninni um barnið í Betlehem þessi prédikari. Jú, málið er,fæðing Jesú Krists er opinberunin í sögunni. Þar vitnar Guð um elsku sína til mannanna, sættist við mannkyn og býður því náð sína. Biblían segir frá þessari opinberun til dæmis í þessari fallegu frásögu Lúkasar af fæðingu Jesúbarnsins – og Nýja testamentið er svo frásögn og útlegging af Jesú og boðskap hans. Þessum frábæra boðskap um ást og kærleika. Allt sem Jesú gerir og segir er innblásið af ást og kærleika og virðingu fyrir fólki, ekki bara sumu fólki, heldur öllu fólki, hverri og einni manneskju. Aldrei sem á jólum reynum við að taka á móti þessum boðskap, þeim boðskap sem felst í fæðingu hans, lífi, starfi og dauða, og rýna í hvað hann þýðir fyrir líf okkar.

Og hann þýðir fyrst og síðast það að við erum ekki ein- við erum elskuð og við hljótum að elska …

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3555.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar