Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Samferða í eilífðinni

6. nóvember 2005

Hlusta á þessa ræðuHlusta á þessa prédikun

Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.

Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.

Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum. Mt 5.13-16

Bæn dagsins

Eilífi, trúfasti Guð.
Þú kallar okkur til samfélags hinna heilögu
sem á öllum tímum og á öllum stöðum
vegsama nafn þitt.
Við þökkum þér
að við fáum að standa fylkingu hinna trúuðu,
saman tengd á grunni hinnar góðu játningar
í glöðu trausti þess
að við munum fá að sjá þig augliti til auglitis.
Þér sé lof að eilífu.
Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Allra heilagra messa

Fyrsta nóvember hvert ár er Allra heilagra messa samkvæmt fornri kirkjuhefð og sá siður í okkar kirkju að minnast látinn þann dag eða næsta sunnudag á eftir á sér langa hefð.

Og hér eru margir sem hafa misst og syrgja og sakna. Við ástvinamissi vakna margar spurningar sem fá svör eru við. Í dag erum við minnt á að vera salt og ljós og minnast þeirra sem voru okkur hið saman. Við sláumst í för með Kristi og einum eftirfylgjara hans séra Hallgrími Péturssyni í glímu hans við dauðann en hann gekk sjálfur í gegnum margvíslega erfiðleika, andstreymi, sjúkdóma og missi. Fáir menn hafa talað af meira viti og dýpt um dauðann og er ég þá ekki aðeins að vísa til Íslendinga heldur heimsins alls. Við sungum upphafsversin af sálminum sem skáldið gaf yfirskriftina Um dauðans óvissan tíma. Þar er okkur mannfólkinu líkt við grös og blóm, reyr og rósir. Allt verður það fyrir ljá sláttumannsins og fer sömu leið. En samt er það nú svo að enginn vill í raun deyja. Við ríghöldum í lífið vegna þess að lífið er okkur dýrmætt, lífið er dásamlegt í allri sinni fjölbreytni og þrátt fyrir andstreymi og mótlæti. Við elskum lífið. Dauðinn er fjarri. Og þið, kæru fermingarbörn, eigið lífið framundan eða svo mætti ætla, en við skulum vera þess minnug að lífið er fallvalt. Fyrir einu og hálfu ári létust tvær stúlkur úr hverfinu sem fermast áttu um vorið og tvær aðrar stúlkur létust í bernsku þetta sama ár. Lífið er fallvalt.

Að læra að lifa og læra að deyja

„Auðvitað verða allir menn að deyja, en ég hélt að gera mætti undantekningu hvað mig varðar“, sagði maður nokkur kaldhæðinn. Við vitum það eitt að við fæðumst til að deyja. Barnið, sem skírt var hér fyrr í messunni, ungt og saklaust, á lífið fram undan, en um leið er barnið dæmt til að deyja í óræðri framtíð. Sérhvert barn er kallað til þess að læra að lifa – OG LÆRA AÐ DEYJA. Það sama á við um okkur öll. Æskan og ellin hlaupa óvissa dauðans leið og hafa ávallt gert, löngu fyrir þá daga er sérhannaðir hlaupaskór litu dagsins ljós.

Dauðinn hopar ekki fyrir neinum eða neinu. Velmegun okkar leysir okkur ekki undan valdi dauðans og milljarðar duga ekki til að kaupa okkur undan valdi hans.

Hvorki fyr’ir hefð né valdi
hopar dauðinn eitt strik,
fæst síst með fögru gjaldi
frestur um augnablik,
allt hann að einu gildir,
þótt illa líki’ eða vel,
bón ei né bræði mildir
hans beiska heiftarþel.

Og ekkert vitum við áætlanaferðir dauðans. Engu máli skiptir með hvaða hætti menn teikna upp leiðakortið. Við vitum það ekki sem betur fer. Og enginn þekkir herbergjaskipan í handanverunni og þaðan af síður hitastig heljar.

Menn vaða’ í villu og svíma,
veit enginn neitt um það,
hvernig, á hverjum tíma
eða hvar hann kemur að.
Einn vegur öllum greiðir
inngang í heimsins rann,
margbreyttar líst mér leiðir
liggi þó út þaðan.

Við erum öll á sama báti. Við hrósum okkur af ættfræðiþekkingu og erum öll talin komin af kaþólska biskupi! Og til er fólk sem telur sig geta rakið ættir sínar til norrænna konunga. En trúin sér enn lengra. Hún veit hvar skyldleiki okkar allra kemur saman í einni og sömu manneskjunni. Við erum öll sama eðlis. Og það þekkti skáldpresturinn góði:

Afl dauðans eins nam krenkja
alla í veröld hér.
Skal ég þá þurfa að þenkja,
hann þyrmi einum mér?
Adams er eðli runnið
í mitt náttúrlegt hold,
ég hef þar og til unnið
aftur að verða mold.

Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða. Svo er mælt yfir hverri gröf. Við erum og verðum mold. Erum öll sömu ættar sama hver litarháttur er, trú, upprunaland, kyn eða atgervi.

Hvorki með hefð né ráni
hér þetta líf ég fann,
sálin er svo sem að láni
samtengd við líkamann.
Í Herrans höndum stendur
að heimta sitt af mér,
dauðinn má segjast sendur
að sækja, hvað skaparans er.

Í honum lifum, hrærumst og erum vér, sagði Páll við spekingana á Aresarhæð í Aþenu forðum daga. Við getum ekki flúið Guð. Hann vitjar okkar stöðugt og kallar okkur aftur til sín í fyllingu tímans.

Nú vel, í Herrans nafni,
fyrst nauðsyn ber til slík,
ég er ei þeirra jafni,
sem jörðin geymir nú lík.
Hvenær sem kallið kemur,
kaupir sig enginn frí,
þar læt ég nótt, sem nemur,
neitt skal ei kvíða því.

Ekkert lausnargjald er til sem dauðinn tekur gilt, engar upphæðir duga, hvorki gull né demantar, né nokkur önnur verðmæti. Ekki einu sinni góðverk. En við þurfum samt engu að kvíða, segir skáldið.

Skilin miklu og Nói litli í Örkinni

Í þessu undursamlega ljóði séra Hallgríms sem við höfum hingað til heyrt, er rakin leiðin okkar allra, hin sammannlega reynsla. En hér, einmitt hér, eru algjör skil í sálminum. Nú hefst 10. versið og þar boðar skáldið lausnina, Lausnarann! Um það allt syngjum við í lok messunnar.

Hér er það hin kristna von sem öllu skiptir. Dauðinn á ekki síðasta orðið. Á Golgata urðu skil. Ekki svo að skilja að dauðinn hafi orðið eitthvað auðveldari eftir en áður heldur gaf Jesús dauðanum nýja merkingu á Golgata. Af dauða hans spratt nýtt líf, ný von. Golgata er leyndardómur sem tjáir það að Guð gerir aftur heilt það sem sundraðist á milli hans og manna í Paradís forðum daga. Elska Guðs náði aftur að snerta hjörtu manna fyrir krossfestingu – ekki okkar, heldur sonar Guðs sem dó og reis upp aftur! Þar með er dauðinn brotinn á bak aftur – með ólýsanlegri þjáningu og óendanlega djúpri elsku. Kristur sigraði dauðann og gefur okkur hlutdeild í þeim sigri. Hann lifir að eilífu, hann sem sagði: Ég lifi og þér munuð lifa.

Eilífðin er hafin! Við lifum nú þegar í eilífðinni! Eilífðin er gefin í heilagri skírn. Við erum vígð Kristi, himni hans og eilífð!
Í skírninni birtist ástarjátning Guðs. Við þeirri játningu segjum við: JÁ! ég vil fylgja þér, ég er þinn, ég er þín. Lokajátning kristins manns á dauðastund er líka „JÁ“ - ég dey í þér. Og þessi játning leiðir til lífs: „JÁ“, ég dey í þér og lifi í þér.
Dauðinn hefst þegar við byrjum að lifa. Nýfætt barnið byrjar að deyja um leið og það fæðist.
En afli dauðans lýkur hins vegar þegar við byrjum að lifa í Jesú Kristi.

Lifum við í Jesú Kristi?

Já, það gerum við með því að heiðra skírnina og hina helgu máltíð. Við lifum í Kristi fyrir sakramentin tvö, skírn og heilaga kvöldmáltíð. Þar mætir hann okkur, vígir okkur eilífðinni og nærir eilífðina í brjósti okkar. Kirkjan kennir okkur að lifa og að deyja. Kirkjan er örkin, skipið sem skilar okkur heim og engar bylgjur geta bugað. Hann Nói litli, sem skírður var fyrr í messunni, var munstraður á Örkina í dag. Þar á á hann skipsrúm, þar lifir hann að eilífu í Kristi, sem er sjálfur um borð, lægir storm og bál, blessar allt og helgar með nærveru sinni og krafti síns heilaga anda. Við þurfum ekkert að óttast.

Ekkert að óttast

Við vitum ekki nær dauðinn grípur inn í líf okkar eða hvernig? Deyjum við af völdum hamfara eða hörmunga, krabbameins eða kolesteróls, verður fuglaflensa okkur að fjörtjóni eða eitthvað óþekkt? Við vitum það ekki sem betur fer. En trúin segir okkur að óttast eigi. Kristur telur upp hörmungar og hallæri sem dynja munu yfir en ekkert af því getur slitið okkur úr hendi hans:

„En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“

Við höfum flest ef ekki öll horft á eftir ástvinum í dauðann. Kristur segir okkur að trúa á upprisuna og eilífa lífið. Þau sem trúa á mig munu lifa þótt þau deyi. Við trúum á Guð réttlætis og kærleika. Hann gerir allt heilt á ný, hann læknar í upprisunni og þerrar hvert tár og kemur á réttlæti.

Hin komandi veröld

Gyðingur nokkur hefur tjáð sig um lífið eftir dauðann með þessum orðum:

Eina spurningin er: „Hvers vegna þjást réttlátir?“ Og eina svarið felst í hugtakinu olam habah, hinni komandi veröld. . . Olam habah bjargar ekki aðeins von okkar andspænis dauðanum; heldur bjargað það einnig trú okkar á Guð frammi fyrir heiminum. Hið nauðsynlega og ráðandi inntak trúar okkar er fólgið í þeirri vissu að veröldin sé sköpuð af almáttugum og góðum Guði, og ef enginn ný veröld er í vændum, er slík trú einfaldlega merkingarlaus. Án hinnar komandi veraldar þar sem vogarskálar réttlætisins jafna út órétt þessa heims, getum við ekki trúað á réttlátan Guð. Án hinnar komandi veraldar þar sem góðvildin hlýtur endurgjald og illskan makleg málagjöld, getum við ekki trúað á kærleiksríkan Guð. (Marc Gellman)

Og að lokum önnur tilvitnun í orð heimspekings:

Dauðinn er ekki atburður í lífinu; við lifum það ekki að upplifa dauðann. Ef við lítum svo á eilífðina að hún sé ekki óendanleg tímalengd heldur tímaleysi, þá tilheyrir eilífðin þeim sem lifa í núinu. (Ludwig Wittgenstein)

Eilífðin er hafin og við lifum í eilífðinni í samfélaginu við Krist. Ræktum það samfélag með því að vera salt og ljós og himininn er og verður okkar heimkynni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5478.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar