Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Já!

9. október 2005

Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?

Þeir svara: Sá fyrri.

Þá mælti Jesús: Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum. Mt. 21.28-32

Vek, hirðir góði, hverja sál,
sem hyllir blekking, lokkar tál,
og hverja sjúka, sára önd
þín sefi mjúka læknishönd.

Lát alla, sem ei þekkja þig,
og þá, sem sem villast, átta sig,
frá birtu þinni bjarma fá
og blessun finna, marki ná. Amen
(Sigurbjörn Einarsson, Sb. 729)

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Textar þessa sunnudags eru allir sterkir, í þeirri merkingu að þeir hreyfa við manni og skilja mikið eftir. En þeir þurfa auðvitað meiri tíma en þeim er gefin þegar þeir eru lesnir í messunni. Þá þarf að lesa og hugleiða. Það er ekki nóg, eða sjaldnast nóg ,að heyra þá lesna einu sinni.

Presturinn hefur forskot. Hann hefur lesið þá áður. Oft. Hann verður að hafa lesið þá oft, fyrst honum er ætlað að opna þá fyrir söfnuðinum. Hann á að útleggja þessa texta sem maður heyrir bara svona snöggt.

Það liggur nærri að hugsa að heldur litlar kröfur séu gerðar til safnaðarins, til áheyrendanna, í starfi sínu í þjónustu Guðs heilaga Orðs, með því að stoppa ekki lengur við lesturinn, og láta prestinum einum eftir að fjalla um hann.

Kannski felast líka í þessu óbein skilaboð til presta um að textinn skipti ekki meira máli en sem svarar einum hröðum lestri. Sjálfur geti hann svo valið sér einhver hugðarefni að fjalla um eins og um prívat og persónulega hugleiðingu hans væri að ræða.

Predikunin væri þá fyrst og fremst tækifæri prestsins til þess að láta ljós sitt skína.

En ef það skín nú ekki?

Presturinn er ef til vill ekki upplagður. Hann er með flensu. Eða, hann komst ekki til að vinna vinnuna sína og undirbúa predikun sunnudagsins af því að önnur störf hans, skyldustörf hans vel að merkja, hindruðu hann í því.
Kannski sat hann í allt gærkvöld hjá syrgjendum, á þeim tím sem hann hafði tekið frá fyrir predikunarvinnu , af því að dauðinn hefur alltaf forgang.
Og þegar andlát ber að er presturinn kallaður til, hvort sem er á nótt eða degi, og allt annað verður að víkja. Líka predikunarvinnan, sem þó átti að vanda.

Þetta geta líka verið önnur verkefni, og aðrir harmleikir, fjölskyldu og einstaklinga, og prestur í starfi hefur aldrei frí. Vinnutími hans er ekki skilgreindur. Bara frítíminn.

Kæri söfnuður, ég legg ykkur þetta á hjarta áður en ég sný mér að hinni eiginlegu predikun dagsins.

Eg legg ykkur þetta á hjarta vegna þess að ég á gott með það vegna þessa að ég er ekki presturinn ykkar. Og hann ekki einu sinni viðstaddur.
Ég legg ykkur þetta á hjarta til þess að vekja athygli ykkar á því að predikunin er aldrei eitthvað sem gerist bara hér á stólnum hjá prestinum og er þess vegna nothæf, góð og uppbyggjandi, eða ónothæf, léleg og niðurrífandi, heldur gerist hún hjá ykkur, söfnuðinum, eða hún gerist ekki.
Hún gerist vegna þess að söfnuðurinn veit um hvað málið snýst. Hann veit það annað hvort vegna þess að hann er undirbúinn og veit hvaða textar eru og hefur lesið þá og hugsað um þá, eða vegna þess að prestinum og lesaranum tekst að koma honum til skila.

En fyrst og fremst gerist eitthvað vegna þess að söfnuðurinn hefur þegar sett sig í tilteknar stellingar (ef svo má segja) gagnvart því orði sem honum er flutt.

Og það er einmitt það sem eins og samnefnari þessa dags,

Við heyrum texta sunnudagsins og vinnum með þá. Þeir eru hluti af því stefnumóti sem við eigum við Guð, og presturinnn þjónar í starfi sínu, en sér ekki um, frekar en organistinn og meðhjálparinn, kórfólkið og lesararnir, barnastarfsfólkið og hringjarinn.

Söfnuðurinn á sjálfur stefnumót við Guð í orði sínu. Sérhver sunnudagur kirkjuársins á sitt orð, og raunar hver dagur, en alveg sérstaklega sunnudagurinn. Og þetta orð er tilefni kirkjugöngu, Söfnuðurinn er kallaður til að mæta því. Hann kemur og mætir Guði í orði hans.

Þess vegna er svo nauðsynlegt að við gefum okkur tíma til að taka á móti þessu orði og hugleiða það, og styðja predikarana í því að útleggja það, - útleggja ÞAÐ með upphafsstöfum, en ekki eitthvað annað.

Og þó að það eigi ekki við í þessum söfnuði er sjálfsagt að minna á það í víðu samhengi, að ef það hendir predikarann að týna guðspjallinu þá er það söfnuðurinn sem á að nefna það við hann í vinsemd og kærleika. Það er enginn annar betri prófsteinn á innihald predikunar en söfnuður Jesú Krists sem kemur saman í hans nafni, og er sjálfur undirbúinn.

Þess vegna er svo gott í hinum sífellt tölvuvæddari heimi, og heimilum, að hafa þessa texta aðgengilega. Til dæmis á vef þjóðkirkjunnar, og heimasíðu hennar.
Vísað er til þessa á ágætri heimasíðu ykkar eigin Langholtskirkju, sem þannig auðveldar söfnuðinum að taka á móti Guðs orði og varðveita það.

• • •

Við höfum heyrt lestra dagsins. Þeir eru ólíkir innbyrðis. Samt hafa þeir sameiginlegt innihald, eins konar rauðan þráð, eða leiðarhnoða, eins og það heitir í ævintýrum og tröllasögum, eða bara samnefnara.

Lexían er tekin úr sögunni um Rut.
Það er gott að Rutarbók komst inn á spjöld lestrarskrár sunnudaganna. Lesið hana alla næst þegar þið takið fram Biblíuna ykkar. Þetta er yndisleg saga um manneskjur og fyrir manneskjur, og um hina huldu fyrirætlun Guðs, - sem fyrr en varir verður augljós.

Sagan um Rut, sem hlýddi röddu hjarta síns og brást ekki tengdamóður sinni sem var orðin einstæðingur, heldur fylgdi henni heim til ættlands hennar, þó að það væri henni ókunnugt, og þó að hún sjálf missti af því öryggi sem hennar eigin ættmenn áttu að tryggja er áminning um hlýðni. Og Drottinn Guð umbunaði henni tryggðina og trúfestina og gerði hana að jarðneskri formóður Jesú Krists.

Og í pistlinum talar Páll til safnaðarfólksins og kveður það, því að dagar hans eru senn taldir, og hann hrósar því fyrir hlýðina við vilja Guðs. Þau sem hann talar til eru að hans mati hrein og flekklaus Guðs börn sem skína eins og ljós við hlið rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Afhverju? Með því að hlýða án þess að mögla eða hika.

Og svo kemur guðspjallið.

Þetta er merkilegt guðspjall, en svo stutt að maður er bara rétt byrjaður að hlusta, þá er það búið. Nefndir eru tveir synir, en það er eiginlega um jásegjendur og ekkigerendur
og neisegjendur og gerendur.

Og þar með er það auðvitað um okkur. Og einmitt þessvegna, af því að það erum okkur, þá er ekki auðvelt að leggja það út. Það er eiginlega als ekki hægt nema við gerum það í sameiningu.

Það erum við sem segjum já eða nei. Hvað meinum við með því? Berum við virðingu fyrir því sem við segjum. Tökum við mark á okkar eigin orðum? Er samhengi milli orðs og æðis?

Er já orð til að standa við? Já, það er það. Í hinu smæsta sem hinu stærsta. Það er enginn munur á því hvort það fjallar um það hvort við sem þjóð eigum að standa við orðin um að leita eftir aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, eða við sem persónur játuðum því að fara út með ruslið.

Guðspjallið fjallar um samhengi og hlýðni.

Eina niðurstaðan sem hægt er að draga í fljótheitum af því er að það er bara einn sem hlýðir, - ef að það er aðalmálið.

En þegar við hugleiðum texta úr Biblíunni rekum við okkur fljótt á það að Biblían er myndabók raunveruleikans. Hún er ekki dæmasafn góðs og ills. Hún er ekki þú átt að gera svona en ekki svona- bók.

Hún er ekki bókin sem tekur upp þetta stef bernskunnar sem talið var af mörgum afgerandi og bindandi svar: Mamma sagði að við mættum þetta ekki.

En það er nú einmitt það sem oftast er beðið um. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið símtöl í vinnu mína á Biskupsstofu frá fólki sem sem vill að ég eða einhver annar og allra helst biskupinn taki af skarið og gefi úrskurð sem þjónar áhugasviði og skilningi þess sem hringir. Sjálfur ætlar hann ekki að gera neitt nema segja; Biskupinn sagði að…. og þannig er það.
Mamma sagði að við mættum þetta ekki.

Svör Biblíunnar taka aldrei ábyrgðina af þeim sem heyra orð Guðs. Heyrandanum er alltaf falið að verða gerandi.

Þetta áréttar Jesús þegar hann notar dæmisöguna um synina tvo til að sýna hvernig tilheyrendur hans og Jóhannesar skírara brugðust við orðum þeirra og kenningu.

Hann notar líkingu sem ekki aðeins hrellir áheyrendurna heldur móðgar þá. Og það voru engir smá kallar, heldur æðstu prestarnir og öldungarnir. (Sjá. Mt.21.23)

Tollheimtumenn og skækjur fari á undan þeim til himna, segir hann.

Það er vegna þess hversu auðvelt það er að segja já en gera svo ekki neitt.
Það gildir líka í kristindómnum og kirkjunni. Maður segir já af gömlum vana en svo gerist ekki neitt. Úr því verður venjukristindómur, vanakristindómur og varakristindómur. Að játa með vörunum en ekki með hjartanu.

Áformin ein duga skammt.

Máltækið segir meira að segja að vegurinn til vítis sé varðaður góðum áformum.

Það sem virðist vera malbikaður og hellulagður stígur hinna trúföstu, reynist vera ótraust slóð yfir síki hugleysis og umhugsunarleysis og kæruleysis og kærleiksleysis.

Það er hinn kristni maður sem Drottinn vitjar á vínekrunni,
og hann sér að hann er ekki að gera neitt.
Stundum?
Oft.

Af hverju er það?.

Hættan er sú að við förum að trúa því að þetta séu hvort sem er alltsaman bara fróm og falleg orð sem við heyrum í fljótheitum en hlustum ekki á og hvorki fylgi hugur máli né eyra. Ef við reiknum ekki lengur með neinni hlýðni, ekki einu sinni með möguleikanum til hlýðni, og gerum alls ekki ráð fyrir því að til séu tollheimtumenn sem standa upp og skila því sem var illa fengið og gefa svo helminginn af því sem vel fengið, eða að syndarar standi upp frá iðju sinni og syndgi ekki framar, ef við tölum hin tíu boðorð eins og þau væru yfirmarkmið í fyrirtæki sem enginn ætlar einu sinni að reyna að ná, ef við tölum um iðrun og yfirbót en gerum alls ekki ráð fyrir að svo verði,
þá verðum við óheiðarleg gagnvart sjálfum okkur og gagnslaus gagnvart umheiminum og bregðumst Kristi.

Því að það er þeirra vegna sem hlýða, sem englarnir syngja á himnum, og þeirra vegna er Drottinn hér á gangi í víngarðinum.

Af því að það eru til manneskjur sem segja já og fylgja því eftir. Þau gera góðu játninguna. Þeirra já er staðfest með framkvæmd.

Þegar Páll postuli horfði fram til æviloka sinna skrifaði hann fleirum en við heyrðum um í pistlinum. Hann skrifaði líka sérstök hvatningarorð til Tímoteusar, samstarfsmanns síns, sem tekið hafði að sér þýðingarmikla þjónustu í kirkjunni. Þau byggir hann á játningu Tímóteusar, góðu játningunni, þegar hann hét því að fylgja Kristi og starfa með honum og í samræmi við vilja hans.

Páll skrifar:

Þú, Guðs maður, … stunda réttlæti, guðhræðslu, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð. Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.

Ég býð þér fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og fyrir augliti Krists Jesú, er gjörði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi:

Gæt þú boðorðsins lýtalaust, óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists. 1.Tím. 6. 11-14.

Þesssu hljóta að fylgja tvær spurningar. Hinn fyrri snýr að okkur. Höfum við gert einhverja góða játningu?

Og; hver var góða játningin sem Kristur gerði frammi fyrir Pílatusi?

Þá segir Pílatus við hann: Þú ert þá konungur? Jesús svaraði: Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd. Jh.18.37

Þetta sagði Jesús.
Og hvað segjum við?
Er eitthvað að marka sem við segjum?
Höfum við gert góða játningu?

Í handbók kirkjunnar segir:

Hafið alla ævi frelsarann Jesú Krist fyrir augunum og minnist orða hans: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun ég og við kannast fyrir föður mínum á himnum.“
Og síðar stendur skrifað sem hér segir:

Börnin ganga upp að altarinu í þeirri röð sem áður hefur verið ákveðin.
Presturinn ávarpar hvert barn og segir:
NN, vilt þú leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?
Barnið svarar:

Já.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3236.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar