Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Hvernig breyti ég heiminum?

30. október 2005

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína. Mark. 12.41-44

Ég man ekki hver það var sem sagði þessa frægu setningu: ef þú vilt breyta heiminum byrjaðu þá á sjálfum þér. Þessi pæling er ansi mögnuð því hún stillir upp í raun og veru upp tveimur andstæðum. Heimurinn og ég. Hinn stóri, mannmargi, flókni, óyfirstíganlegi heimur og litla, takmarkaða ég. Í fljótu bragði er erfitt að sjá að sambandið þarna á milli geti verið á annan hátt en það sem við lærum af félagsfræðinni – að sá heimur sem við lifum í og það samfélag sem við tilheyrum móti viðhorf okkar, þekkingu og heimsmynd frá grunni. Getur einstaklingurinn einhvern tímann breytt því samhengi sem hann tilheyrir sjálfur og haft bein áhrif á hvernig samfélagið mótast og þróast? Hver eru í raun áhrif einstaklingsins á framvindu sögunnar?

Í vikunni sem leið voru rifjaðir upp hálfrar aldar gamlir viðburðir í suðurríkjum Bandaríkjanna, þegar kona sem hét Rosa Parks, hratt af stað atburðarrás sem átti eftir að breyta mjög miklu í því hvernig tiltekið samfélag hagaði lögum sínum og mannskilningi. Rosa Parks, sem lést núna í vikunni í hárri elli, vildi ekki standa upp úr sætinu sínu í strætisvagni á leið heim úr vinnunni, til að víkja fyrir annarri manneskju, sem hún þó hefði átt að gera samkvæmt gildandi reglum. Rosa Parks var þeldökk, af afrískum uppruna og í gildi voru lög sem kváðu á um aðskilnað kynþátta og mismunandi réttindi hvítra og svartra. Þetta litla atvik, að Rosa Parks neitaði að fara eftir þessum lögum og þurfti þess vegna að svara til saka fyrir viðeigandi yfirvöldum, fékk samfélagið til að íhuga hvers konar lög það væru sem mismunuðu þegnum landsins svo gróflega eftir litarhætti og í kjölfarið voru slík lög afnumin.

Rosa Parks hafði svona mikil áhrif vegna þess að hún byrjaði á því að breyta sjálfri sér og hætti að sætta sig við að lifa í ranglátu samfélagi sem setti hana skör lægra en hvíta íbúa landsins. Þennan dag breytti hún út af því sem hún hafði kannski gert alla sína æfi – fylgt eftir og samþykkt ríkjandi lög og þau viðhorf sem studdu þau. Og þessi breyting í lífi einnar konu hafði áhrif á allt samfélagið.

Svona byrja sumir hlutir smátt. Og í raun eru dæmin mýmörg um að framlag og breytni einstaklingsins sé hinn stóri áhrifavaldur í samfélaginu. En þessi litlu verk sem fæðast í samhengi daglega lífsins fara ekki alltaf hátt. Sérstaklega ekki ef um er að ræða einstaklinga sem berast ekki á á neinn hátt, eða eru ekki sérlega hátt skrifaðir í samfélaginu. Konur eru hópur sem hefur unnið verkin sín í hljóði í marga mannsaldra. Það sem konur gerðu og stóðu fyrir var oftar en ekki umvafið þögn og áhugaleysi þeirra sem skrifuðu söguna og þeirra sem skilgreindu samfélagið og þarfir þess. Og það er gömul saga og ný að umhverfið hefur meiri áhuga á og tekur frekar eftir þeim sem geta, stöðu sinnar og ríkidæmis vegna, látið á sér bera svo um munar.

Söguna um ekkjuna í samkunduhúsinu í guðspjalli dagsins ber að skoða í þessu ljósi. Þar bendir Jesús á að framlag konunar, sem var lítið og gefið af skorti, væri í raun meira virði en það sem auðmennirnir gáfu af allsnægtum sínum. Til viðbótar við að innleiða ákveðna afstæðishyggju sem byggist á mati samhengisins sem verk einstaklinganna eru unnin í, lætur Jesús áheyrendum sínum í té öðru vísi og hinsegin sjónarhorn. Í stað þess að skoða hreint og klárt framlag hvers og eins sem gefur í hin sameiginlegu verkefni sem fjárhirsla musterins gagnaðist til, leggur Jesús til mælistiku sem tekur tillit til þeirra aðstæðna sem einstaklingurinn býr við og hvað það er sem hvetur hann til að gefa. Og þessi aðferðarfræði leiðir í ljós allt annað landslag og allt aðrar persónur en bæði áheyrendur Jesú og við sem heyrum guðspjallið í dag, eigum að venjast að skoða hlutina út frá. Konan sem breytti sjálfri sér með því að gefa af skorti sínum, breytir þannig því hvernig við metum framlag hvers og eins til samfélagsins. Þannig hafði hún meiri áhrif en hinir í sögunni sem við heyrum um – þeir sem voru auðmenn og gáfu vissulega af ríkidæmi sínu en ekki þannig að þeir fundu fyrir því eða að um breytingu á þeim sjálfum væri að ræða.

Þetta viðhorf – að breyta fyrst sjálfum sér og byrja þannig smátt á því að hafa áhrif á umhverfið – gildir á öllum sviðum. Í gær var ég á ráðstefnu sem fjallaði um vatn – og mikilvægi þess fyrir allar manneskjur að hafa aðgengi að hreinu og óspilltu vatni. Við heyrðum ýmsa sérfræðinga fjalla um vatn frá mörgum hliðum – lagalegum, náttúrufræðilegum, félagslegum og þeim sem lúta að umhverfisvernd. Fyrir okkur á Íslandi sem skortir flest annað en vatn, var kannski sérstaklega umhugsunarvert að heyra af aðstæðum fólks sem býr við raunverulegan vatnsskort og afleiðingarnar sem það hefur á hvert einasta svið lífs þess. Einungis lítið brot af íbúum Afríku hefur vatn tengt inn í bústaðinn sinn – meginþorri fólksins þar verður að nota mikinn tíma og orku í að afla vatns – sem þar að auki er oft ekki hreint og óspillt. Afleiðingarnar af þessum vatnsskorti eru m.a. uppgangur og útbreiðsla ýmissa sjúkdóma, vannæring og skortur af öllu tagi. Vatnsskorturinn hefur líka miklar félagslegar afleiðingar í þessum samfélögum. Hverjir eru það sem sækja vatnið? Það eru konur og stelpur – sem byrja ungar að nota allan sinn tíma og alla orku í að rogast með vatn fyrir fólk, skepnur og heimili. Vegna þess tíma sem vatnsburðurinn tekur hafa þær ekki svigrúm til að sækja skóla. Og vegna þess að að vatnið er þungt veldur hið líkamlega álag sem vatnsburðurinn er, óbætanlegum skaða hjá þessum stelpum og konum.

Nú er hið alþjóðlega samfélag búið að skera úr um að það að eiga aðgang að hreinu og óspilltu vatni séu mannréttindi. Mannréttindi eru grundvallar atriði sem eiga alltaf við alla. Í því ljósi hefur alþjóðasamfélagið sett sér markmið að færa þann rúmlega eina milljarð manna sem nýtur ekki þessara mannréttinda nær þeim veruleika sem hreint vatn er. Og hér er það virkilega aðferðarfræðin að byrja á því að breyta sjálfum sér, sem á við. Því hvernig er hægt að bæta úr eins stórkostlegum og útbreyddum vanda og vatnsskorturinn er? Með því að byrja á hinum litlu samfélagslegu einingum, þorpinu og ættflokknum, og byggja einn lítinn brunn sem síðan sér fólkinu fyrir því sem það hafði ekki áður. Hugmyndafræði brunna byggingarinnar byggist á því að nota fólk og þekkingu sem er til staðar og flytja inn í þær aðstæður þau tæki sem vantar upp á svo að brunnurinn geti orðið að veruleika. Í gegnum Lútherska heimssambandið vinnur Hjálparstarf kirkjunnar að því að byggja einfalda vatnsbrunna í Mósambík, sem nýtast fjölda fólks í langan tíma – og breytir raunverulega lífsgæðum þeirra sem njóta. Og á hinum endanum, hérna megin, eru framlög hvers og eins sem leggur hjálparstarfinu lið með því að gefa af því sem hann eða hún hefur aflögu, raunveruleg lóð á vogarskálarnar sem breyta til batnaðar lífi bræðra og systra í fjarlægum löndum.

Hver og einn brunnur skiptir máli og hvert og eitt framlag skiptir máli, eins og við verðum minnt á þegar jólasöfnun hjálparstarfs kirkjunnar hefst. Virkni og aðstoð þeirra sem hafa, við þau sem hafa ekki, verður alltaf hluti af lífi kristinnar kirkju. Og þar gerum við kröfur til okkar sjálfra sem byggjast á sömu hugsun og guðspjallið um eyri ekkjunnar. Það er sælla að gefa en þiggja og framlagið sjálft ber að skoða í samhengi aðstæðna hvers og eins.

Gamla testamentislesturinn í dag hefur sömuleiðis beina skírskotun í vatnsveruleikann eins og hann var kynntur okkur sem hlýddum á ráðstefnuna um vatnið í gær. Þar er spámaðurinn Elía staddur í landi þar sem ríkir mikill þurrkur með tilheyrandi eymd og skorti fyrir íbúana. Hann er sendur á heimili ekkju sem tekur hann að sér og gefur honum af því litla sem hún þó á eftir fyrir sig og son sinn til að draga fram lífið. Í erfiðum og aðþrengdum aðstæðum lætur hún meðmanneskju sína njóta góðs af því litla sem hún á til að deila. Og þess fær hún að njóta þótt síðar verði.

Umhugsunarefni dagsins tengjast mikilvægi einstaklingsframtaksins og samhjálp. Við hugsum til þess að við þurfum hvert og eitt að horfa á það sem við getum gert, í okkar eigin lífi og til að hafa áhrif á umhverfið okkar. Við erum kölluð til að vera gefandi einstaklingar og til að láta gott af okkur leiða. Að gefa þýðir að láta eitthvað í té sem skiptir mann máli til þess sem þarf á því að halda. Rosa Parks gaf hugrekki sitt og réttlætiskennd og breytti ranglátu kerfi. Ég get í raun og veru lagt mitt af mörkum til að eitt þorp í viðbót fái aðgang að hreinu vatni svo stúlkurnar þar þurfi ekki að nota allan sinn tíma og alla sína orku að sækja vatn langar leiðir við erfiðar aðstæður. Gefandi samfélag er sælt samfélag. Og þar skiptir hver einstaklingur öllu máli.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3525.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar