Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Grandveri

13. ágúst 2005

Þess vegna segi ég yður: Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið. Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.

Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð. Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn. Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.

En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða. Matt. 12. 31-37

Er ég gott tré eða illt? Ber ég góðan ávöxt eða vondan? Hvernig mælist mér í daglegu lífi? Hef ég taumhald á tungu mini? Hvað verður um mig í ljósi harðra orða Jesú um afgerandi afstöðu í lífinu? Á ég einhverja möguleika á að komast af? Stend ég undir kröfu fagnaðarerindisins? Hvernig mun mér farnast þegar bókhaldið mitt verður grandskoðað og ákærur birtar?

Guðspjallstexti dagsins er krefjandi og nærgöngull.

Í ljósi hans má spyrja: Hver er ég? Hvernig er ég? Hvaða áhrif hef ég á samferðafólk mitt, umhverfi og þjóðfélag?
Hver er ég?

Veit ég það sjálfur? Sé ég nema lítinn hluta af sjálfum mér? Sérð þú ekki eitthvað í mér sem ég sé ekki og öfugt? Jú, lílega hefur enginn fullkomna mynd af sjálfum sér. Ég sé ekki allt og þú ekki heldur, en Guð sér allt og heyrir, alla myndina, öll smáatriði, hverja hugsun, orð og gjörð. Hann þarf ekki að leita leyfis Persónuverndar til að fylgjast með öllu sem við gerum. Hann er í raun hin eina sanna persónuvernd og þá í þeim skilningi að hann vill vernda okkur fyrir áhrifum hins illa, vill að við verðum heilar persónur og góðar. Orð Guðs kallar okkur til heilbrigðs lífernis, til heilsu og lækningar. Orð Guðs er heilsulind, heilsuhæli, sem kallar okkur til að fínstilla líf okkar og koma því á réttan kjöl.

Gæt að sálu þinni. Farðu vel með þig. Stefndu lífi þínu til heilbrigðis og hamingju. Þetta eru alkunn stef í kristinni trú. Íslensk menning og þjóðlíf er mótað af kristinni hugsun.

Ég var á ferð í Póllandi í síðustu viku. Pólverjar eru trúaðir í meira lagi. Þeir eru margir kurteisir og elskulegir í viðmóti. Lítil stúlka á að giska 4 ára sem gekk nokkrum skrefum á undan móður sinni á götu horfði til mín er við mættumst og sagði að fyrra bragði: Dzien dobry - Góðan dag! Og mamman brosti að þessu kotroskna barni sínu um leið og ég heilsaði með sömu orðum: Dzien dobry. Börn gera það sem fyrir þeim er haft. Við erum öll börn Guðs og kirkjan er oss kristnum móðir sem leitast við að hafa gott fyrir okkur börnum sínum. Kristin kirkja boðar okkur veg, hamingjuleið, sem kynslóðir hafa reynt af góðu einu í mörg þúsund ár. Í íslensku homilíubókinni sem rituð var um aldamótin 1200 segir um grandvarlegt líf:

Grandveri er göfugleg og ítarleg og drengileg atferð fyr Guðs augum, því að af henni gerast margir góðir hlutir. Af henni gerist hreinlífi, en hún heldur aftur síngirni. Forðast hún þrætur, og stövar hún reiði, varast hún við ofdrykkju, þröngvir hún losta, stillir hún beiðni, . . [fýsn] hirtir hún girndir. Hún eykur eigi orði af orð, forðast hún ofát og ofdrykkju, og fyrirdæmir hún stuld. Alla löstu þröngvir hún, en allt það, er loflegt er fyr Guði og góðum mönnum, það fylgir allt grandveri og ráðvendni . . . En of ráðvendina verður nú margt rætt, því að á helgum bókum er svo of hana mælt, að hún er kölluð prýði göfugra manna, en tign ógöfugra, fegurð ljótra manna, en farsæla góðra, huggun harmanda, auki allrar fegurðar, vegur siðlætis og vörn glæpa, minnkun misverka, en miklun verðleika. Hún er og kölluð vinátta meðal Guðs og góðra manna.

Falleg orð í fullu gild þó 800 ár séu liðin frá ritun. Við erum rík að eiga slíka texta og lánsöm að geta lesið þá enn þann dag í dag og skilið inntak þeirra. Hversu nærri er íslenskt þjóðlíf nú á tímum þeirri mynd sem dregin er upp í þessari merku bók? Ef til vill eru það ellimerki hjá mér að hafa áhyggjur af samtíðinni, af ungu kynslóðinni. Það er engin nýlunda. Sókrates fann æskunni allt til foráttu um hálfu árþúsundi fyrir Krist og fannst allt vera á niðurleið. Ég ætla ekki að falla í sömu gryfju og hann því stór hluti æsku þessa lands hefur sjaldan eða aldrei verið betur upplýstur og undirbúinn undir lífið en einmitt nú. Ég verð þó að viðurkenna að margt í samtímanum er víðsfjarri þeirri visku sem kynslóðir manna hafa varðveitt og haldið í heiðri allt til þessa dags. Auðvelt er jafnan að hefja fingur á loft og amast við hegðun annarra. Siðaprédikanir hafa verið fluttar um aldir og kirkjan kunn frá fystu tíð af því að vara við löstum og lauslæti. En við erum ekki hér til að benda á aðra. Við erum hér til að skoða eigið líf í ljósi kristinnar trúar. Við höfum gengið til fundar við Guð. Hann er okkar leiðbeinandi og líknargjafi.

Við erum öll tré sem ber ávöxt. Hvers konar ávöxt ber líf mitt? Guð kallar okkur til róttækrar lækningar. Hann vill uppræta hið illa og rótfesta líf okkar í orði sínu og kærleika. Textar dagsins boða afgerandi afstöðu. Hér er engin málamiðlun. Annað hvort erum við gott tré eða illt. Annað hvort mælum við gott eða illt. Annað hvort erum við heilbrigt tré eða sjúkt. Orð Guðs er afgerandi. Jesús Kristur kom fram og kallaði menn til iðrunar: Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd. Takið til í lífi ykkar því Guð er á leiðinni til að halda dóm, gera upp bókhaldið, kanna heilbrigði hvers trés og runna, sérhvers gilds stofns og skjálfandi hríslu. Ekki þarf að kalla til neina brotadeild í kerfi manna því alsjáandi auga Guðs er sívirkt og vakandi.

Presturinn og jesúítinn, metsöluhöfundur í Bandaríkjunum til margra ára, John Powell segir m.a. í einni bóka sinna:

Guðs orð er augljóslega ekki handa þeim sem sækjast eftir ró og friði málamiðlunar þar sem allir eru sammála um að trúa engu. Það væri hryggilegur samnefnari. Orð Guðs er handa hinum skapandi, hinum sterku, þeim sem láta sig dreyma ómögulega drauma og teygja sig til hinna ónálganlegu stjarna, nýrrar veraldar allra manna í einni fjölskyldu í samfélagi kærleikans. Hið persónugerða orð Guðs, Jesús, er maður sem lifir öðrum, sem kallar okkur frá harðsjórn eigingirninnar, til frelsis í nýju systra- og bræðralagi, hér í þessum heimi og á þessum tíma.

Kristin trú og samfélag við lifandi Guð elsku og kærleika er undursamleg gjöf. Þegar við göngum til fundar við Guð í kirkju hans, í bæn og trúariðkun, erum við að styrkja ræturnar og leyfa þeim að vaxa dýpra í jarðvegi kærleika og friðar. Svar við ógnvekjandi spurningum í upphafi prédikunarinnar er fólgið í kærleika Guðs. Við erum ekki ofurseld blindum öflum ranglætis og hefndar í þessum heimi. Okkur er boðið að breytast úr vondu tré í gott með því að færa ræturnar í hinn góða jarðveg sem felst í samfélaginu við Jesú Krist í kirkju hans.

Er ég gott tré eða illt? Ber ég góðan ávöxt eða vondan? Við eigum valið. Í því birtist fagnaðarerindi krisitnnar trúar: við eigum val um nýtt líf, nýja framtíð, nýjan himinn og nýja jörð. Þess vegna getum við tekið undir orðin í lexíu dagsins:

Ég hefi sett alla von mína á Drottin,
og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr hinni botnlausu leðju,
og veitti mér fótfestu á kletti,
gjörði mig styrkan í gangi.
Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng um Guð vorn.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3815.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar