Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Ábyrgð

7. ágúst 2005

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.

Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér. Matt. 11. 16-24

Kristur, mér auk þú enn
elsku til þín.
Sú er í lotning ljúf
löngunin mín.
Heyr þetta hjartans ,mál
heit verði í minni sál
elskan til þín. Amen.

Friðrik A.Friðriksson

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi, Amen.

Það fer ekki hjá því þegar gengið er hér um vellina, leitað Lögbergs eða bara rýnt í landslagið að ýmsar spurningar kunni að vakna um þá tíma þegar þjóð var að verða til á Þingvöllum. Hvernig var það til dæmis þegar lögsögumaðurinn sagði upp lögin?
Þyrptist að fólkið allt sem sótti þingstaðinn heim, eins næri lögréttu og það mátti, og sat eða stóð í andakt á meðan? Hljóðnuðu samræður og hvíslingar?
Hugsaði fólk : Þetta sem hann er að segja er grundvöllur þess að við fáum að lifa hér í landinu á okkar eigin forsendum, - frjáls þjóð í mótun. Þetta þurfum við að kunna, þetta eru leikreglur samfélagsins.
Og allir settu á sig lögin sem best þeir kunnu, og þeir sem höfðu komið oft, bærðu varirnar því þeir kunnu heilu kaflana utan að.

Var þetta svona?

Eða stóð lögsögumaðurinn í hópi 48 útvaldra lögréttumanna, og aðstoðarmanna þeirra, og sagði upp lögin, meðan allir aðrir voru að sinna hugðarefnum sínum, gengu um og spjölluðu, sinntu kaupskap, leituðu nýrra félaga eða völdu sér maka.

Var það kannski svo að lögin skiptu ekki máli nema ef eitthvert óvenjulegt afbrigði mannlegra samskipta kom upp, grip var stolið, maður drepinn og hús var brennt.

Hvaða máli skipta reglur samfélagsins í daglegu lífi þjóðar?
Skipta þær kannski engu máli?
Erum við ekkert að hugsa um þær?
Berum við virðingu fyrir þeim?
Látum við þær til hliðar ef þær henta okkur ekki.?

Hvernig er með umferðarlögin, skattalögin, eða barnalögin?

Og – hvaða máli skiptir grundvöllur kristinnar trúar - Jesús sjálfur?
Við hljótum að spyrja þeirrar spurningar einnig hér á Þingvöllum, þar sem þingheimur kaus sér Krist að konungi og hét því að fylgja honum,
Í þúsund ár hafa Kristur og þjóðin átt samleið. Um það vitnar þessi kirkja, - alveg sérstaklega, - um það að kynslóð eftir kynslóð hefur kosið að fylgja honum, -
og þó að þeim fjölgi sem gera það ekki, eru það þó enn meira en átta af hverjum tíu
Hefur það merkingu í samfélaginu, eða í persónulegu lífi?
Einhverja stærri og dýpri en þá að hafa kross á leiðinu sínu?

Kæri söfnuður.

Verslunarmannahelgin er um margt dálítið merkileg helgi.
Það virðist eins og fjölmiðlarnir og ef til vill almenningur líka hafi enga helgi ársins meiri áhyggjur af því hvort fólkið í landinu virðir reglur mannlegra samskipta.

Þegar grannt er skoðað er þó alls ekki mikill munur á þessari helgi og öðrum.
Einnig aðra daga hendir að fólk heldur sig ekki á veginum, ekur ölvað, ekur of hratt, beitir ofbeldi, nauðgar og misnotar, veltist um í eiturlyfjavímu, kaupir og selur ólögleg og lífshættuleg efni, brýst inn , brennir tjöldin sín og drekkur ókjörin öll af áfengi.

Í rauninni mætti miklu fremur tala um það hvað hlutirnir ganga vel þessa helgi, sem vissulega líka er gert, miðað þann mikla söfnuð sem safnast saman á hátíðum landsins eða á vegum landsins.

Það mætti meira að segja halda langar ræður um það mikla átak í bættum samgöngum um landið sem við höfum fengið að njóta undanfarin ár.
En við gerum það síður.
Góðar fréttir eru engar fréttir. Það sem vel er gert er ekki fréttaefni nema það sé með einhverjum sérstökum hætti öðruvísi.

Og svo er það eins og landlægur sjúkdómur að gleðjast ekki yfir því sem vel er gert eða gengur vel, heldur nöldra og ónotast.

Lestar þessa sunnudags eiga það allir sameiginlegt að í þeim er þungur aðvörunar- og áminningartónn. Þetta er sunnudagurinn þegar Jesús grætur yfir Jerúsalem.
Lestrarnir í dag snúast allir um það hvað það merkir, þegar ekki er gætt að reglum, grundvallarreglum mannlegra samskipta og samskipta Guðs og manns.
Þeir fjalla um þá ábyrgð sem fylgir því að vera kallaður til samfélags við Guð og hvað gerist ef maður gleymir því, eða ef maður lætur sem maður viti ekki af því.

Það er einmitt það sem alvarlegast, - að þekkja reglurar og brjóta þær samt. Að vita um helgi lífsins og réttindi manneskjunnar og ábyrgðina á því að standa vörð um hvort tveggja, sem sjálfráða manneskja, - en gera það ekki . Vísvitandi ekki. Um það má nefna mörg dæmi sem þið þekkið.

Það er eins og að vita reglur um hámarkshraða, lesa töluna 30 og orðin og merkið : börn að leik, en aka samt á hundrað eða hraðar.

Guðspjallslesturinn í dag er í tvennu lagi.
Fyrri hlutinn hefur einfaldari skírskotun, um nöldrarana og úrtölufólkið sem aldrei er hægt að gera til geðs.

Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.

Öll þekkjum við einstaklinga sem þurfa alltaf að kvarta yfir öllu, eða gera lítið úr því, eða hæðast að því.
Tilgangurinn er að koma sér hjá því að takast á við það sem um er rætt.
Tilgangurinn sem ekki er einu sinni alltaf meðvitaður.
Maður þarf ekki að takast á við vandann, heldur dæmir hann úr leik.
Maður virðir heldur ekki það sem maður sér, heldur gerir lítið úr því.

Jesús tekur dæmi af Jóhannesi skírara og sjálfum sér. Við gætum sagt:
Sá sem teku trú sína alvarlega, er einlægur og ákafur, og neitar sér um margt sem hann telur stríða gegn trúarsannfæringu sinni , og sker sig þar af leiðandi úr, - hann er öðruvísi, - hann spyr : sæmir þetta þeim sem játa trúna, - og fær að heyra að hann þykist vera eitthvað betri en aðrir, sé hrokafullur og líti niður á aðra.

Sá sem tekur trú sína alvarlega en tekur fullan þátt í lífi fólks, heldur sig ekki til hlés, en er með á eigin forsendum,
er ásakaður fyrir að lifa ekki nógu heilögu lífi, - hann þykist vera eitthvað heilagur , en ég sá hann nú samt á bar niðri í bæ.

Þetta er saklausari parturinn.
En svo fór Jesús að ávíta borgirnar, - og þær mest sem stóðu honum næst.
Áminningarpredikunin hefur alltaf þennan sama brodd sem stingur; sá sem mikið er gefið undirgengst strangari reikningsskap.
Honum dugar ekki þessi ódýra afsökun:
Ég vissi það ekki, enginn sagði mér það, ég hef aldrei lært að þekkja sannleikann – aldrei hitt hann.

Jesús ávítar borgirnar.
Hér hefur Guðs Orð verið boðað, - hér hefur Guðs Orð verið heyrt og játað, og hin helgu tákn um nærveru Guðs hafa verið borin fram.
En það er eins og það sé allt án þess umskapandi kraftar sem því fylgir. Það brennur enginn eldur, það blæs enginn vindur.

Eru þetta þá staðir hans? Er þetta borgin þar sem hann býr?
Erum við blind og heyrnarlaus gagnvart máttugri nærveru Krists,
Ékki fær um að taka á móti eða skilja spor hans í baráttunni fyrir hinu góða, baráttunni gegn því illa, og erum ónæm fyrir ógnum myrkursins og myndum þess vegna falla í dóminum þegar hann gengur yfir borg hans.

Gildir áminning Krists fyrir allar borgir, þjóðir og lönd þar sem guðspjallið hefur verið predikað, sakramentin um hönd höfð og krossmerkið reist.

Eru orð hans og kenning grundvöllur að lífi kristins manns, - eða er það bara siður einhverra fárra að lesa orð hans og hugleiða þau, meðan allir aðrir sinna kaupskap sínum og vakna aldrei til vitundar nema þegar einhver deyr, eða þegar barn er skírt og kannski fermt.
Og er það víst að skírnarheitið og fermingarheitið séu einhvers virði í dauðanum ef þau voru aldrei rifjuð upp, eða þeim beitt í daglegu lífi?
Eg bara spyr?

Eru kannski allt um kring, í svökölluðu kristilegu umhverfi þúsundir sem aldrei hafa í alvöru tekið við því samfélagi Krists sem geymir í sér kraft hans sem æðri er og meiri en allir kraftar þessa lífs –
eru ekki hluti þess
heldur hluti af sigri hans sem sigrað hefur heiminn, -

en af því þau tóku ekki eftir því hvað játningin merkti gætu þau sagt með sanni að þau hefðu aldrei mætt sannleikanum.
og sé svo, hver var það þá sem brást?

Var það ég?

Er það kannski svo að ég hafi allrei kynnst umskapandi mætti Guðs dýrðar, - og krafti Krists.

Er trúin kraftur til breytinga? Er máttur Krists lifandi veruleiki?
Já. Og játning skírnarinnar og játning fermingarinnar er skráð á himnum og verður ekki máð af, rétt eins og játning brúðhjónanna við altarið.

Hversvegna köllum við hann ekki til liðs?
Hversvegna göngum við ekki fram undir merki hans? og segjum:
Kristinn maður beitir ekki ofbeldi, kristinn maður svíkur ekki undan skatti, kristinn maður ekur ekki ölvaður, kristinn maður hlýðir reglunum.

Því að Kristur gefur sjálfur kraft til þess að það sé hægt að segja það og framkvæma það, eins og hann hefur gert í samfylgd sinni í þúsund ár.
Og, eins og við getum vitnað um um úr eigin lífi.

Eða er ekki svo?

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2870.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar