Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Vigfús Ingvar Ingvarsson

Sannir og falskir spámenn

16. janúar 2005

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina.
En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur.
Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti.
Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá.
Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.
Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður.
Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni.
En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur.
Jesús sagði þá við hann: Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur.
Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.
Lúkas 19.1-10

Íhugunartextar dagsins vekja til umhugsunar um kall Drottins. Við heyrðum hina ljúfu frásögn um drenginn Samúel sem svaf svaf í musteri Drottins og fékk að heyra kall hans. Og yfirtollheimtumaðurinn í Jeríkó -maður af allt öðru tagi- fékk einnig að heyra kall Drottins, þar sem hann sat í mórberjatré:„Sakkeus flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann varð fjarska glaður - þetta var næstum of gott til að vera satt. Samúel varð hins vegar ráðvilltur í reynsluleysi sínu þó hann ætti greinilega þjónustulund og vilja til að gera það sem hann vissi réttast.

Spámaður er sá sem er kallaður af Drottni til að vera honum svo náinn að vilji Guðs verður spámanninum í mörgum tilfellum ljós og hann er kallaður til að koma þessum vilja Guðs á framfæri við samferðafólkið.

Meginhlutverk spámanna Gamla testamentisins var ekki að sjá fyrir óorðna hluti heldur að vera talsmenn Drottins meðal fólksins og ráðgjafar. Orðið spámaður og að spá veldur hins vegar oft misskilningi því sami orðstofninn er í okkar máli notaður um fyrirbæri af öðru tagi. Við tölum um að spá fyrir um veðrið eða spá í spil eða bolla.

Veðurfræðingurinn eða áhugamaður á því sviði beitir tiltekinni þekkingu til að reyna að segja til um framvindu veðursins. Þetta hefur ekkert með guðlegt samband að gera.

Enn síður á það við um einhvers konar spákukl þar sem reynt er með hjálp einhverrar tækni eða töfra að skyggnast inn í hulinn veruleika - þó stundum sé þó fremur um samkvæmisleiki að ræða heldur en ásetning til að virkja einhver hulin öfl.

Slíkir spádómar eru þó trúarlegs eðlis, að því marki sem ekki er um leik að ræða - og þá er rétt að hafa í huga að leikur getur stundum þróast yfir í alvöru. Þar væri þó um að ræða einhvers konar töfrahyggju sem spámenn Biblíunnar vara einmitt við. Og töfrahyggjan leitast við að ná valdi yfir huldum öflum sér til framdráttar með einhvers konar tækni eða þekkingu.

Hinn biblíulegi spámaður beygir sig undir kall Drottins og treystir ekki á þekkingu sína né hæfileika - miklu fremur á hlýðni við Drottin og náið samfélag við hann sem þá oft knýr til gerða sem ekki virðast viðkomandi í hag heldur miða að því að hjálpa samferðafólkinu. Hann nær ekki valdi á Guði eða guðlegum öflum heldur er á valdi Drottins.

Eitt af hinum andlegu lögmálum varðandi það hvernig og hverjum Guð birtir vilja sinn er að Guði þóknast ekki að birta vilja sinn umfram það sem vilji er til að hlýða því sem hann birtir.

Þetta fellur að báðum þessum dæmum. Samúel hlustar og er tilbúinn að hlýða þó hann skorti reynslu til að dæma um hvaðan kallið kemur. Sakkeus fylgist í ofvæni með Jesú og gerir sér grein fyrir að frá honum er að vænta orða og gerða sem varða meiru en allt annað sem hann getur komist í snertingu við.

Hinir fornu spámenn dvöldu ekki einvörðungu við andlegar iðkanir í helgidómum og köllun þeirra var ekki einvörðungu himnesk rödd. Þeir létu sér annt um meðbræður sína og höfðu vakandi auga á því sem var að gerast í þjóðfélaginu og leituðu í bæn vilja Guðs varðandi málefni samfélagsins. Oft voru þeir kallaðir til andstöðu við ríkjandi strauma í samtíð sinn - knúðir til að benda á að grundvöllur þess sem virtist vera heillavegur væri falskur og myndi bresta.

Sá Guð sem þeir þjónuðu er ekki duttlungafullur. Hann er sjálfum sér samkvæmur og hægt var að prófa hversu ekta boðskapurinn var með vísun til samhengisins í sögunni. Sögunni af afskiptum Guðs af mönnum í gegnum árin - þessu sem við þekkjum sem Orð Guðs og þá fyrst og fremst hið ritaða orð Biblíuna. En það orð er þá upphaflega talað, flutt af innblásnum huga. Og þannig er það enn að orð Guðs verður fyrst og fremst lifandi þegar það er flutt þannig að hugur fylgir máli.

Falsspámennina einkenndi hins vegar að þeir áttu ekki þetta nána guðssamfélag og töluðu útfrá eigin hagsmunum og voru gjarnan talhlýðnir gagnvart konungum eða almenningsáliti. Sögðu t.d.„friður, friður engin hætta“ þegar grundvöllur samfélagsins var að bresta.

Köllun Guðs er samspil orðs og anda og við skulum ekki gleyma því að við erum öll kölluð til að þjóna Drottni með margvíslegum hætti og köllun okkar í lífinu getum við eflt með því að rækta samfélag okkar við Guð og leitast við að kynnast betur orði hans. Þá verðum við næmari á vilja Guðs og getum fremur aðgreint þær raddir sem hreinni eru varðandi vilja Guðs frá þeim sem óhreinni eru. Því víst er það svo jafnan í okkar heimi að í munni fólks blandast saman í mismunandi hlutföllum sannleikur og villa. Og alþekkt er að góðir kennimenn Drottins, sem jafnvel virðast vera sérstaklega innblásnir af honum fara út af sporinu. Fyllast kannski ofmetnaði og hroka vegna velgengni og verða uppfullir af sjálfum sér og hlýðnin við Guð fjarar út og þetta ekta guðssamfélag sem nærir dómgreind og næmi á vilja hans. Þá geta slíkir menn orðið að hættulegum falsspámönnum, sérstaklega ef þeir njóta mikillar hylli og margir treysta þeim.

Sagt er að predikarinn frægi, Billy Graham, hafi snemma valið sér aðstoðarmenn sem höfðu það hlutverk að fylgjast náið með breytni hans og gæta þess að áminna hann ef honum yrði eitthvað á í siðferðisefnum. Kannski er þetta ein af ástæðum þess að varla hefur borið skugga á feril þessa mæta manns þrátt fyrir þær freistingar sem fylgja gífurlegum vinsældum.

Spámenn Gamla testamentisins eru horfnir af sjónarsviðinu en kirkjan er arftaki meginhefða bæði Gamla og Nýja testamentisins. Hinn spámannlegi þáttur á því að vera til staðar í lífi kirkjunnar, í boðun hennar og í lífi fólks. Við eigum með ýmsum hætti að leitast við að færast nær Guði með vaxandi þekkingu á orði hans og vakandi dómgreind sem leitar í bæn og íhugun skilnings á vilja Guðs varðandi líf okkar og málefni samfélagsins í kringum okkur. Og minnumst þess þá einnig að spámennirnir fjölluðu ekki síður um það sem oft er kallað veraldleg mál, þ.e. þjóðfélagslegt réttlæti, skiptingu auðsins og framkomu gagnvart þeim sem höllum fæti stóðu eins og t.d. útlendingar.

Gefum Drottni tækifæri til að hafa áhrif í lífi okkar, á heimili okkar og í þjóðfélagi okkar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3005.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar