Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Bjarni Karlsson

Allt hreyfist

25. desember 2003

Náð og friður frá Guði sé með okkur öllum. Amen.

Um daginn sagði mér fróður maður að vísindamenn úti í heimi héldu því fram með gildum rökum að slík væri hringrás efnisins í veröldinni að á hverjum þremur vikum hefur þú deilt frumeindum með hverri einustu lífveru sem dregið hefur andann á þessari jörð. Efnið og orkan eyðist ekki, heldur skiptir bara um form og öðlast nýtt samhengi.

Merkilegt ef rétt er. Merkilegt að hugsa til þess að á þessari stundu er ekki ólíklegt að einhver efnisögn sem eitt sinn var hluti af þungum skrokki risaeðlu bú nú í mér, tímabundið. Já, tímabundið. Því líkami okkar er allur ein hringrás. Frumur líkamans endurnýja sig, skila í sífellu frá sér frumeindum og taka nýjar inn. Í dag er ekkert eftir í þér, ekki neitt, af því sem fyrir einhverjum árum var líkami þinn. Þú hefur skipt út öllum frumeindum mörgum sinnum og fengið nýjar að láni. “Panta hrei” sagði gríski heimspekingurinn Heraklítos (?) löngu fyrir fæðingu Krists. Panta hrei - Allt hreyfist. Og sú kenning hefur staðist tímanns tönn. Allt hreyfist. Ekkert stendur kyrrt. Lífið, veruleikinn sem við erum hluti af, er allt ein alsherjar hreifing. Á þessari stundu þjótum við með ógnarhraða um víðerni himingeimsins á sporbaug um sólu og fyrir samspil miðflóttaafls og aðdráttarafls mun norðurheimskaut jarðkúlunnar nú meir og meir halla sér að sólinni og daginn mun taka að lengja. Ekkert stendur kyrrt.

Og höfum við ekki fengið að reyna þetta öllum kynslóðum fremur? Börnin okkar ganga að því sem vísu að þeirra bíði endalaust val. Þau sjá heim þar sem tækifærin, möguleikarnir, tilboðin bíða á hlaðborðum. Hvað vilt þú verða? Hvert vilt þú ferðast? Hvort langar þig meira í peninga eða reynslu? Hvort hefur þú áhuga á listum, raunvísindum, viðskiptum eða andlegum efnum? Allt er hægt, allt er í seilingarfjarlægð, því við tilheyrum ríku og upplýstu menningarsamfélagi, erum hluti af þessum 20% jarðarbúa sem eru heppin. Það er bara eitt sem ekki er unnt að velja. Eitt sem ekki stendur til boða ungri manneskju á vesturlöndum, það er kyrrstaðan.

Á ferð minni til Eþíópíu í síðasta mánuði, þar sem ég naut þeirra forréttinda að fljúga með einu einkaflugvél landsins, sem er í eigu Helga Hróbjartssonar, kristniboða, laukst upp fyrir mér sérstaða okkar með nýjum hætti. Í Eþíópíu búa 60 milljónir manna. Á sjö dögum hitti ég nokkur hundruð þeirra á nokkrum ólíkum svæðum. Helmingur Eþíópsku þjóðarinnar er undir 20 árum að aldri. Aðgengi að heilsugæslu er afar takmarkað, barnadauði er hár, meðal lífaldur kvenna er um 50 ár og karlmenn ná gjarnan 60 árum. Megnið af því fólki sem ég kynntist eða sá virtist engu að síður hamingjusamt og líða vel, þannig séð. Flestir Eþíópíubúar hafa nóg að bíta og brenna. Þurrkar og hungur eru staðbundin vandamál sem koma og fara á ýmsum stöðum. En þegar hungrið kemur þá fellur líka búpeningur og fólk. Hins vegar, ef hægt væri að mæla hamingjuna í brjóstinu þá held ég alls ekki að Eþíópíubúar myndu skora lægra en við hér á klakanum. Alltént ekki á þeim svæðum þar sem kristin trú hefur fengið tíma til að mýkja samfélagið, auka menntun, bæta stöðu kvenna og barna og verða það ‘samfélagslím’ sem kirkja Jesú hvarvetna er. Já, hafi ég einhverntíman efast um gildi kristninnar, þá geri ég það ekki eftir að hafa séð áhrif hennar á Eþíópískt samfélag. Þar blasa sönnunargöngnin við.
En eitt er það sem algerlega aðgreinir þau frá okkur. Við eigum val, en þau verða að taka því sem að höndum ber. Börnin okkar sjá heim þar sem möguleikar og tækifæri blasa við, börnin og unglingarnir í Eþíópíu kynnast þjóðfélagi þar sem breytingar ganga hægt yfir, þeirra heimur hreyfist hægt.

Í dag höldum við hátíð þeirrar hreyfingar sem afdrifaríkust hefur orðið fyrir alla veröld. Sú hreyfing hefur verið ústkýrð á margan hátt, hún er grunnvitneskja trúarinnar, grundvöllur þess sem við treystum í lífi og dauða. Í þremur orðum tjáir Jóhannes Guðspjallamaður þessi umskipti og segir: “Orðið varð hold.”

Ef þú skilur allan heiminn, hafir þú runnið í farveg hvers fljóts, kannað alla hyli og djúp, klifið hvern fjallstind og farið um geiminn allan. Hafir þú heyrt laufþyt allra skóga, horft í augu hverrar skepnu og þekkir hug hverrar sálar, þá skilur þú þessi þrjú orð. Annars ekki. Orðið varð hold. Það er kristin trú að sá hugur sem býr að baki allri hreyfingu hafi runnið saman við efnisheiminn. Orðið varð hold. “Í upphafi var orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er…. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans.”

Hafi þeir rétt fyrir sér vitringar nútímans, þá sitja einhver okkar hér á þessum degi, og í okkur eru frumeindir sem eitt sinn gistu líkama Jesú frá Nasaret.

Hvað var það í raun sem gerðist á jólum? Hvernig fór Guð að því að verða maður? Hvert er hið raunverulega eðli þess atburðar þegar Orðið varð hold?

Hér í sókninni býr Skáldkonan, María Skagan. Hún hefur árum saman legið rúmföst og býr að Hátúni 12. Í nýjustu bók hennar er þetta ljóð:

Hver er sá ferðalangur
er leitar til ystu
endimarka heimsins
að hinu eina?

Hinu eina sem
alltaf er að leita
hans í hans
innsta ranni.

Það er ekki boðskapur jólann að Guð hafi komið í heiminn til þess að við lærðum að skilja hann. Hann kom heldur ekki til þess að við gætum uppgötvað hann.

“Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð.” segir Guðspjall jóladagsins. “Enginn hefur nokkurntíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.” Og til þess að fyrirbyggja strax allan misskilning skrifar Jóhannes orðrétt: “Orðið varð hold, hann bjó með oss fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans.” Þannig sáu hinir fyrstu menn Jesú, með því að hann bjó með þeim. Þannig komu jólin til þeirra, Jesús dvaldi hjá þeim fullur náðar og sannleika.
Með öðrum orðum: Þú hefur ekkert að fara.

Við leitum að ýtrustu þekkingu. Þenjum í sífellu út athafnasvæði okkar, í rúmi og tíma. Söfnum vitneskju um allt sem hugann á festir, aukum hraðann á öllum sviðum, þannig að nú fara orð sem áður voru skrifuð á blöð eða pikkuð á ritvélar síðan prentuð á pappír og send í þungum bögglum milli landa,- nú fara þau ásamt allra handa myndefni í einu vetfangi í gegnum ljósleiðara og gerfitungl til að birtast á skjám í fjarlægum heimshlutum. Enginn sér fyrir endann á útþenslu mannlegrar getu og samt! - samt er enginn neinu nær um það sem máli skiptir. Hvað var það í raun sem gerðist á jólum?
Í öðru ljóði segir María Skagan:

Aldrei hef ég klifið fjöll.

En af lítilli þúfu
auðnaðist mér að líta
víðan sjónhring.

Já,

Hver er sá ferðalangur
er leitar til ystu
endimarka heimsins
að hinu eina?

Hinu eina sem
alltaf er að leita
hans í hans
innsta ranni.

Munurinn á okkar börnum og börnum Eþíópíu eru valmöguleikarnir segi ég. Hvaða valmöguleikar? Möguleikarnir á því að fara eitthvert. Valið um að mega leita á sem flestum stöðum, tileinka sér nýjar upplýsingar.

Það segir frá því í Jóhannesarguðspjalli að eitt sinn er margir lærisveina Jesú höfðu horfið frá honum og vildu ekki lengur fylgja honum, “þá sagði Jesús við þá tólf: ‘Ætlið þér að fara líka?’ Símon Pétur svaraði honum: ‘Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.’”

Á jóladegi segir Orð Guðs við okkur: Það er ekkert að fara? Guð er kominn og hann er að leita að þér.

• • •

Kæri áheyrandi. Ferðir þínar, já öll þín erindi í veröldinni eru og verða merkingarlaus að svo miklu leyti sem þú ert týndur Guði. Án hans er ekkert að fara, en með honum eru erindin endalaus.

Við manneskjur, já allar skepnur jarðar deilum nánari kjörum en okkur langar að vita. Hér sitjum við komin hvert úr sinni áttinni, og þegar við höldum heim berum við með okkur, bókstaflega, hvert annað. Við deilum jafnt efniseindum, hugsunum, tilfinningum, vitneskju. Við erum ekki náskyld í orði kveðnu, við erum náskyld. Við öndum að okkur sama súrefni, drekkum sama vatn, lifum hvert með öðru og hvert af öðru, bókstaflega. Engin landamæri eru til í raun, hvorki í rúmi né tíma. Allt hreyfist. Í gegnum líkama þinn hafa margsinnis farið sömu efniseindir og farið hafa í gegnum líkama Saddam Hussein og Bin Ladens. Að ekki sé talað um hugsanir þeirra og tilfinningar. Inn í þetta nána samhengi jarðarkringlunnar hefur Guð stigið í syni sínum Jesú Kristi. Þarf okkur þá að undar áhrif þess? Er að furða að Jesús sé alstaðar? Það er varla að nokkur maður opni munninn án þess að nefna hann. Þú lítur ekki í neina átt án þess að sjá kross einhversstaðar. Hvað sérðu marga krossa á dag? Líður nokkur dagur án þess að þú heyrir einhvern vísa til Jesú, eða taka orð hans sér í munn? Nei, auðvitað ekki, vegna þess að Orðið varð hold og hann býr með oss.

Það er neyð í heiminum. Manneskjur þjást.
Jesús kom ekki í heiminn til þess að kenna okkur að vera góð við þau sem eiga bágt.
Hann kom ekki til að bæta siðferði okkar og segja okkur að vera ekki svona grimm hvert við annað.
Hann kom til þess að búa með okkur, búa í okkur og leyfa okkur að uppgötva þá ófrávíkjanlegu staðreynd að við erum á sama báti með honum og öllu sem lifir. Það sem við gerum einum okkar minnstu bræðra það gerum við Jesú og það gerum við sjálfum okkur.
Að því leiti sem við búum við misskiptingu, ranglæti og kúgun í veröldinni, að því leiti er misskiptingin, ranglætið og kúgunin þjáning okkar allra. Skortur á heilsugæslu í Eþíópíu er skortur þinn og minn. Það er skortur sem Jesús býr líka við. Við skiljum bara ekki ennþá hvernig þeirra skortur getur verið okkar skortur. Ekki frekar en við skiljum hvernig Guð gerðist maður. Þetta er okkur ennþá hulið af því við höfum ekki séð Guð. En Jesús hefur birt hann. Þess vegna skulum við taka við Jesú sem persónulegum frelsara okkar. Við skulum búa með honum því það er skynsamlegt, rökrétt og yndislegt. Þá munum við fá að sjá dýrð hans, jólin munu vaxa fram í lífi okkar og erindi Guðs verður okkar fögnuður eftir því sem við öðlumst meira og meira af eðli hans og huga, því hann heldur alltaf áfram að leita okkar í okkar innsta ranni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen. Takið postulegri blessun: Náð Drottins Jeús Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með okkur öllum. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3880.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar