Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Trúin sem heilsulind

21. september 2003

Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann. Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: Viltu verða heill?

Hinn sjúki svaraði honum: Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér.

Jesús segir við hann: Statt upp, tak rekkju þína og gakk! Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. (Jóh. 5.2-9)

Við heilsulindina í Betesda hafði maður legið nærfellt mannsaldur, ósjálfbjarga. Þetta var líknarhús, það er reyndar merking orðsins Betesda, líknarhús. Þótt þeir væru annars færri sem urðu vitni að kraftaverki en hinir sem ekki hittu á rétt andartak þegar vatnið hrærðist og kraftar lækningarinnar voru virkir.

Í þrjátíu og átta ár lá hann þarna og enginn hjálpaði honum að komast í laugina á þessu skammvinna andartaki þegar engillinn var á ferð. Hvers vegna? Því er ekki svarað í sögunni. Við vitum það eitt að þarna hafði hann verið, og enginn komið honum til hjálpar og er það ekki kjarni málsins? Vegna þess að það er enn svo, þeir eru svo ótal margir sem enginn kemur til hjálpar, þeir eru svo margir sem vilja ekki af vita, dettur ekki í hug að rétta hönd til hjálpar. Það er eitt mesta böl okkar samtíðar, sem er tröllriðin af áhorfi og neyslu sem sljóvgar og deyfir öll lifandi viðbrögð hins hlýja hjarta, góðvildar og umhyggju. EN, þetta er ekki kjarni málsins.

Í 38 ár hafði maðurinn legið og beðið þess að hljóta hjálp. Aleinn og hjálparvana. En svo stendur Jesús frammi fyrir honum og ávarpar hann: „Viltu verða heill?“ – „Viltu verða heill?“ spyr Jesús, sá sem hefur lækninguna og heilbrigðið í hendi sér og býður fram sem gjöf. Og það er kjarni málsins, hjálpin sem stendur til boða, líknarlindin sem opin stendur, leiðin til lífs og lækningar.

• • •

Frá öndverðu hefur kirkjan séð þessa frásögn sem tákn eða dæmisögu. Hún minnir á hjálparleysi mannsins í heiminum. Þar er trúin líknarhús þar sem hjálp er að fá. En mannkyn er hjálparvana í fjötrum uppgjafar, hjátrúar og forlagahyggju, eins og lamaði maðurinn. Jesús rýfur þá fjötra. Jesús, sem er orð lífsins. Hvert sinn sem Jesús læknar manneskju er það tákn og fyrirboði þeirrar nýsköpunar, sem páskarnir leiða í ljós, þegar Kristur læknar öll þín mein, leysir líf þitt af gröfinni, krýnir þig náð og miskunn. Þegar tilveran öll er ummynduð til dýrðar hans: læknuð, heil, upprisin.

Lækningin er ekki háð því að maður nái ofan í laugina þegar vatnið hrærist. Hjátrúin og forneskjan bindur allt í slíkar viðjar: Þegar afstaða stjörnumerkjanna er rétt, þegar þessi eða hin skilyrðin eru uppfyllt í einhverju dulmögnuðu samhengi tilverunnar. NEI, segir fagnaðarerindið:

Jesús er sterkari en öll forlög, máttugri en afl örlaganna. Hann ávarpar manninn í fjötrum hans. Knýr hann til að horfast í augu við aðstæður sínar, og leysir þær viðjar er binda líkama, sál og sinni – og læknar. Eins og einhver sagði: „Heilsa er það hvernig maður hefur það, heilbrigði er það hvernig maður tekur því.“ Það getur verið mikill munur þar á. Jesús læknar lífsþrótt manns og gefur kærleik, von og trú.

„Viltu verða heill?“ spurði Jesús hinn lamaða. Þeirri spurning beinir hann nú til þín. Hér er líknarhús. Hér gengur hann í veg fyrir þig. Hér mælir hann máttarorðið yfir þér. Sérhver guðsþjónusta kirkjunnar er atburður, þar sem þessi spurning mætir þér í orði og sakramentum: „Viltu verða heill?“ Viltu þær aðstæður þar sem allt er heilt, satt og hreint? Viltu leggja líf þitt í hendur hans, sem er LÍFIÐ. Þetta er spurning um vilja. Um trú, von og kærleika, sem finnur til með öðrum og er fús að gefa, hjálpa. Stærra kraftaverk er ekki til í mannheimi en það. Þar er fólginn lykillinn að heilsu og heilbrigði manns og heims.

Ljós endurlausnarinnar frá Golgata og gröfinni tómu fellur yfir alla þjáning manna og dauða, það allt tók Jesús á sig til að bera það fyrir okkur og með okkur og sigra það allt í okkar stað. Héðan vill hann senda þig með líkn sína og miskunn, ljós af ljósi sínu og lifandi von til meðbræðra þinna, þeirra sem eru í fjötrum, myrkri, vonleysi.

• • •

Þið, kæru vígsluþegar, eruð á sérstakan hátt frátekin og send í þá sendiför, með orðið sem læknar, með athöfn og iðkun sem ber fram það orð og þann mátt sem reisir upp og gerir heilan. Með verk Krists. Þið eruð send, vegna þess að svo margur liggur utan hjá og kemst ekki að lind lækningarinnar, eins og sá lamaði í Betesda forðum sem kveinaði: „En ég hef engan til að hjálpa mér!“ þið eruð send sem svar við því kveini, send til að hjálpa og leiða að lindinni hreinu lífsins eina. Við, skírð og fermd kristnar konur og karlar, sem heyrt höfum orðið og meðtekið það, við sem á ævimorgni vorum borin að laug helgrar skírnar sem engill Guðs hrærir og andi hans glæðir og endurfæðir og gerir heilan, við erum þessi sendiför.

Kirkja Krists er þessi sendiför, já sérhver guðsþjónusta er útsending, það er reyndar merking orðsins „messa“ – útsending, - send út með þetta orð að heimurinn megi trúa og læknast og fagna. Þið, sem vígðir þjónar, eruð frátekin, vígð til að þjóna, leiða þá för, bera aðra að lífsins lind, boða, blessa, brjóta brauðið, biðja. Þið eruð sem þjónar orðsins og sakramentanna send til að varpa ljósi fagnaðarerindisins, krossins og upprisunnar á sorg og sársauka, gleði og vonir. Og þið eruð send til að standa mitt á hinum opinbera vettvangi sem þjónar og leiðtogar, sem þroskaðar, biðjandi, kristnar manneskjur, til að gefa þeim orðvana raust og styðja og styrkja þar sem trú og þol vill þrotna, og lífið brestur og dauðinn slær.

Þið eruð vígð, frátekin, send til þjónustu í nafni Jesú Krists með orðið sem reisir á fætur. Við fögnum ykkur og gleðjumst yfir ykkur, og samgleðjumst söfnuðum ykkar og samstarfsfólki og ástvinum. Gleði og fyrirbæn umvefur ykkur og þau öll. Og við sem vottum og staðfestum köllun ykkar og heilög heit, treystum jafnframt okkar eigin heit að standa trú í sendiför hans sem læknar, leysir og frelsar.

14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Lexía: Sl 103.1-6. Pistill: Gal 2.20. Guðspjall: Jóh 5. 2-9. Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt við prestsvígslu, 21. september 2003. Þá voru vígð Elínborg Sturludóttir og Ragnar Gunnarsson.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3011.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar