Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Á sama báti á sama sjó

1. júní 2003

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum.Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.

Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum. (Matt. 8. 23-27)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Gleðilega hátíð, hátíð hafsins og sjómannadagsins. Blessun Guðs sé yfir öllu því sem þessir daga standa fyrir í lífi og minningum þjóðarinnar.

Fyrr og síðar hefur maðurinn hrifist af sjóferðarsögum. Við þekkjum sögurnar af svaðilförum Sindbaðs sæfara og hrakningum Ódysseifs. Biblían geymir slíkar sögur, nefna má söguna af Jónasi spámanni og raunum hans, og guðspjöllin segja frá lærisveinum Jesú sem hrópa til hans í dauðans angist í stormi og stórsjó, og Postulasagan segir frá sjávarháska Páls. Þessar sögur hrífa af því að ógnir hafsins eru okkur mynd þeirra ógna og regindjúpa sem líf okkar og örlög eru. Eða er það vegna þess að við vitum að við erum öll á sama báti og á sama sjó, umfarendur á óþekktu reginhafi, ofurseld ógnaröflum sem við höfum ekki ráð yfir? Hafið táknar þau öfl sem maðurinn er svo undursmár andspænis, vægðarlaus átök náttúruaflanna, hin leyndardómsfullu, órannsakanlegu djúp sem undir dyljast. Hafið táknar líka dauðann, bylgjuna hinstu sem hrífa mun okkur um síðir.

Kirkjunni er oft líkt við skip. Talað er um meginhluta hverrar kirkjubyggingar sem skip, kirkjuskipið. Myndin sem að baki býr er af bátnum, skipinu, þar sem Kristur er um borð. Frásögn guðspjalls dagsins er ekki ein sjóferðarsagan í viðbót. Hún vísar til æðri máttar sem hún staðhæfir að sé hér hjá okkur á lífsfleyinu. Og að ekkert megni að skilja þig frá þeim mætti. Jesús Kristur heitir hann. Bæn og orð og iðkun við skírnarlaug og látinna gröf, og allur vitnisburður kristinnar kirkju er borin uppi af þeirri trú og von. Þetta er kirkjan, skipið,sem að vissu leyti er sýnilegt hér fyrir augum okkar. Þú hefur skipsrúm þar um borð og hvernig sem vindar blása og veður bylja þá er hann hjá þér, Kristur, frelsarinn.

• • •

Langalangamma konu minnar, Sesselja Grímsdóttir, sem lést árið 1875, reri fjölmargal sjóróðra á opnum áraskipum frá Stokkseyri, 11 barna móðir, ein hinna vösku sjó-kvenna sem Ísland átti, hörkuræðari og hamhleypa, henni hefur augljóslega hreint ekki verið fisjað saman þessari konu Fóstursonur hennar spurði hana á gamals aldri hvernig heillavænlegast væri á sjó að leggja, og fékk þetta svar: “Fyrst verður þú að læra sjóferðarbænina, því enginn skal á sjó fara, nema hana kunni og lesi. Þegar komið er að skipi og allir tilbúnir að setja frá, taka allir ofan, signa sig og lesa hana í hljóði, en formaðurinn segir: “Leggjum nú hendur á í Jesú nafni.” Þetta var henni efst í huga, þeirri lífsreyndu kraftakonu, um það sem helst má til heilla verða þegar haldið skal á sjó. Bænin í Jesú nafni.

Hún hefur siglt margan krappan sjó, þessi kona, séð margan boðann rísa og brimölduna slá. Hún hefur iðulega verið augliti til auglitis við hel, séð hversu styrkur, áræði, snarræði mannsins megnar, og eins hefur hún séð og reynt hitt, hinn ægilega leyndardóm fjörs og feigðar. En hún vissi hvað úrslitum veldur.

Kristin trú sér mannlífið sem ferð, sjóferð, pílagrímsför til æðri miða. Samtíminn virðist ekki ýkja upptekinn af þeirri mynd. Eru ekki almennari hugmyndir sem sjá lífið sem reikult, rótlaust þangið, fálmkennda leit að innra sjálfi, sem ferð án fyrirheitis? Og væntanlega annað okkur yfirleitt ofar í huga til heilla á hættuslóð en fornleg og fróm heilræði gömlu konunnar. Við skulum hlusta á þau.

Við höfum sannarlega megnað að virkja náttúruöflin og sigrast á mörgum þeim ógnum sem ægðu forfeðrum okkar og mæðrum. Guði sé lof fyrir það. En þess vegna erum við ekkert sérstaklega uppnæm fyrir sögum eins og þeim sem guðspjall dagsins segir. Við erum umlukt tækjum og tækni sem beina för og afstýra vá. Við teljum okkur hafa stjórn á málunum. Við sem lifum í heimi sem hefur unnið stórvirki í því að sjá fyrir um veður og sjólag, efla öryggi á ferðum, og tryggja líf án áhættu, sjúkdóma, sársauka. Við treystum á tæknina og göngum að því gefnu að hún hafi og muni frelsa okkur, með, því að gera mannlífið vélrænna, tæknilegra, skynsamlegra, útreiknanlegra, fyrirsjáanlegra, svipt leyndardómum sínum og dul. “Nú þarf ekki Guð, ég gat,” sagði karlinn í þjóðsögunni. Og við samsinnum því æði oft, ef ekki í orði þá í verki. Oflæti okkar daga ber vott um það. Tæknin og auðurinn gefa okkur fyrirheit um eilíft líf á okkar forsendum, án áhættu, sársauka eða leyndardóma. Vakúmpakkað líf, gulltryggt á allar hliðar.

Eða hvað? Er það ekki tál? Höfum við allt í hendi okkar? Höfum við leyst lífsgátuna? Blasa ekki einlægt við nýir leyndardómar, nýjar ráðgátur, fyrir hverja þá sem við teljum okkur hafa leyst eða þurrausið? Er maðurinn ekki enn sem fyrr ráðgáta, fyrir sjálfum sér? Er það ekki enn svo að “ein nótt er ei til enda trygg” ? Og hversu mikil sem tæknin er og öflugur öryggisbúnaðurinn, þá nær það skammt ef mannsins hönd og hugur bregst. Þar eru gjarna úrslitin ráðin.

• • •

Mikið eigum við að þakka því fólki sem heldur vöku sinni og heldur uppi slysavörnum og björgunarstarfi um land allt. Því skulu sendar sérstakar kveðjur héðan úr Dómkirkjunni í dag. Guð launi því og blessi það allt. Og eins það fólk sem iðkar bæn og trú í lotningu fyrir lífi og gjafara þess og umhyggju um náungann og leggur hugi og hendur á í Jesú nafni.

Er lífið ekki ætíð leyndardómur, og ráðgátur heilla og óheilla, syndar og sektar, lífs og dauða? Þær bylgjur rísa í lífi manns og heimi sem enginn mannlegur máttur fær stöðvað, þrátt fyrir allt og þau áföll og auðnubrigði svipleg og hörð sem fátt virðist stoða gegn.

Og trúin? Trúin er ekki að damla letilega undir bláhimni í blíðunni, laus frá öllum vanda. Jesús Kristur lofar því ekki. Trúin sem hann kennir og gefur er raunsæi á lífið og kröfur þess, ógn og neyð, gleði og gæfu. OG VEIT að máttur handa hans og orðs, kærleikurinn, fyrirgefningin og vonin, er æðri og meiri en þau öfl sem skelfa og ógna.

• • •

Hér í Fossvogskirkjugarði er minnisvarði um þá sem týndu lífi á sjó. Minningaröldur, kallast þessi áhrifaríki minnisvarði, enda mótaður eins og öldur og á þeim eru skráð fjölmörg nöfn. Minningaröldurnar minna á það sem við sungum áðan: „Föðurland vort hálft er hafið, hetjulífi og dauða skráð…“ Á bak við hvert og eitt þessara nafna er líf og saga og örlög. Á bak við hvert og eitt þessara nafna eru önnur nöfn rist í hjörtu ástvina, í sögu og minningu íslensku þjóðarinnar. Megi þjóðin aldrei gleyma, aldrei missa sjónar á þessum öldum og því sem nöfnin geyma og verða sljó og dauf og dumb á það hve líf hennar er dýru verði goldið.

Nöfnin mörgu sem letruð eru á minningaröldurnar, nöfn þeirra sem dauðans bylgja hreif með sér, þau eru ekki horfin í gleymskunnar sökkvisæ. Drottinn man, Drottinn þekkir, Drottinn varðveitir þau hvert og eitt í hjarta sínu, ómælisdjúpi kærleikans. Hann sem segir: “Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.”

• • •

Mér er áleitið svar sem gefið var við spurningunni: „Hvað er að deyja?“

„Hvað er að deyja? Ég stend á bryggjunni. Skúta siglir út sundið. Það er fögur sjón. Ég stend og horfi á eftir henni uns hún hverfur sjónum mínum við sjóndeildarhring. Einhver nærstaddur segir með trega í röddinni: „Hún er farin.“ Farin, hvert? Farin mínum sjónum séð, það er allt og sumt, hún heldur samt áfram siglingu sinni, með seglin þanin í sunnanþeynum, og ber áhöfn sína til annarrar hafnar.

Þótt skútan hafi fjarlægst mig, mynd hennar dofnað og loks horfið, þá er það aðeins fyrir augum mínum. Og á sömu stundu og einhver við hlið mér segir hryggur: „Hún er farin!“ þá eru aðrir sem horfa með óþreyju á hana nálgast og hrópa: „Þarna kemur hún!“ – og svona er að deyja.“

Í niðurlagi Jóhannesarguðspjalls segir: “Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni.” Gott er að eiga það í vændum að koma þar að landi, þegar eilífðardagurinn rennur upp og fá að sjá opinn faðm frelsarans og þau sem við unnum og dauðinn tók, óhult hjá honum.

Við messu sjómannadagsins hér í Dómkirkjunni hefur jafnan verið fáni með stjörnum jafnmörgum og drukknuðu í sjó á umliðnu ári. Að þessu sinni tvær stjörnur.

Nöfn þeirra og líf er geymt í föðurhjarta Drottins. Guð geymi þá og varðveiti í friði sínum og huggi þau sem sakna og syrgja. Drottinn signi hverja minningu, varðveiti hverja von, þerri öll tár.

Nú verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn …

Lýstu þeim, Drottinn, styrk þau sem syrgja, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra öll tár.

Í Jesú nafni. Amen.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Flutt á sjómannadagur 2003, í Dómkirkjunni, 1. júní 2003.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2905.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar