Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Jón Dalbú Hróbjartsson

Álengdar

1. september 2002

Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: Jesús, meistari, miskunna þú oss!

Er hann leit þá, sagði hann við þá: Farið og sýnið yður prestunum. Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur? Síðan mælti Jesús við hann: Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér. (Lk. 17.11-19)

Líkþráu mennirnir 10 stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: Jesús, meistari, miskunna þú oss.

Hvað getum við lært af þessum líkþráu mönnum? - Jú, eftir því sem ég hugsa meira um það, þá finnst mér ég geta lært afar margt.

Þessir bráðveiku menn höfðu heyrt orðróm um Jesú og það sem hann var að gera, - þeir höfðu örugglega einnig heyrt orðróminn um að Jesús væri á leiðinni. Þeir voru staðráðnir í að hitta hann, þeir reyndar vissu, að þeir máttu ekki koma of nálægt mannfjöldanum, vegna sjúkdómsins sem þeir báru, en þeir tóku sér stöðu álengdar og tóku að kalla, hrópa.

Í eyrum Jesú hafa þessi köll orðið að fallegum söng, - því þetta var söngur trúar og vonar. Söngurinn sem síðan hefur ómað sem bænasöngur kirkjunnar öld fram af öld, Kyrie eleison …

Þeir trúðu því, að Jesús gæti hjálpað þeim, þeir voru sannfærðir um að þetta ákall þeirra mundi virka, annars hefðu þeir ekki hrópað.

Ég tók eftir því, þegar ég heimsótti koptiska kirkju í Addis Abeba á s.l. ári, að ég sá hóp af fólki standa álengdar við þessa stóru kirkju. Þeir höfðu tekið af sér skóna, jörðin kring um kirkjuna þeirra var heilög í þeirra augum, þeir vildu ekki koma of nálægt, þeim fannst þeir ekki vera verðir þessarar nálægðar, en þeir sungu bænirnar sínar, sungu kyrie eleison upphátt og í hljóði.

Þessi sjón var eins og prédikun fyrir mér og minnti mig á guðspjall dagsins.

Við sem komum til kirkju í dag erum í rauninni að feta í fótspor þessara líkþráu manna, þessara þurfandi einstaklinga. Við komum hingað af því að við tilheyrum kristinni kirkju, trúum því, að Guð í Jesú Kristi hafi vitjað okkar mannanna, að hann sé hér, að hann heyri bænirnar okkar um miskunn og náð.

Já, þessir líkþráu menn allir, sýndu mikla trú, - því að þeir hlýddu Jesú blint. Um leið og Jesús sagði þeim að fara og sýna sig prestunum, þá lögðu þeir af stað án þess að hafa fengið lækninguna, þeir lögðu af stað í trú og uppgötvuðu á leiðinni, að þeir voru að verða heilbrigðir, kraftaverkið var að gerast á þeim.

Hvernig er það með okkur? Treystum við á orð frelsarans, göngum við héðan í dag í þeirri trú, að Guð hjálpi og trúin bjargi. Tökum við eftir því að „kraftaverkið“ er alltaf að gerast í lífi okkar.

Dæmi guðspjallsins kennir okkur, að þetta er óhætt, það er óhætt að treysta orðum Jesú, hann hjálpar, hann bjargar. Vissulega ekki alltaf eins og við hefðum óskað, en hjálpin kemur, blessunin kemur eins og okkur er fyrir bestu, því megum við treysta.

Af hverju þurftu þeir að sýna sig prestunum. Jú, reglurnar voru þessar í samfélaginu, prestarnir höfðu þetta hlutverk að skoða hvort líkþráir menn höfðu læknast eða ekki, þeir gáfu út eins konar heilbrigðisvottorð, þannig að þeir máttu aftur koma inn í samfélagið.

Þeir fóru til prestanna, sögðu þeim frá að Jesús hefði læknað þá, - en prestarnir hafa líklega ekki orðið neitt upprifnir yfir því, kannski hafa þeir sagt við þennan glaða hóp, að þeir hafi orðið frískir vegna þess að þeir hafi gefið ölmusu, hafi farið eftir lögmáli Guðs, - nei, prestarnir sendu þá ekki aftur til Jesú.

Það var aðeins einn, sem lét orð prestanna ekki hafa áhrif á sig, heldur fór til baka, fór til að gefa Guði dýrðina, fór til að þakka Jesú fyrir líknarverkið.

Hvar eru hinir níu?

Enn á ný er það útlendingurinn, Samverjinn sem dregur sig út úr og verður fyrirmynd. Jesús notar þetta, hann uppörvar hann, staðfestir gleði hans, segir við hann: Trú þín hefur bjargað þér.

Hann lét ekkert stöðva sig í að gefa Guði dýrðina.

Þegar ég var að hugsa um þetta nú síðustu daga, þá kom upp í hug mér þetta sem gerðist sumarið 2ooo, þegar verið var að undirbúa kristnihátíð á Þingvöllum. Þegar þjóðinni gafst tækifæri tl að koma saman og gefa Guði dýrðina, þakka Guði fyrir 1000 árin, þakka fyrir blessunina, björgunina, sem trúin hefur veitt þúsundunum gegnum allar aldir.

Það voru sterk öfl í gangi, sem reyndu að hindra fólk í að fara til Þingvalla, - þannig blasti það við mér, ekki síst nú, þegar ég horfi til baka. Fólk var spurt aftur og aftur í fjölmiðlum, - „ ætlar þú nokkuð á Kristnihátíð?“ „Ne.. nei, ætli það.“ - Já, það var sagt oft berum orðum, „…nei, það fer enginn, ég þekki engann sem fer, þetta verður víst svo leiðinlegt, þetta verður bara önnur vegahátíðin.“

Það eru alltaf öfl í gangi, sem reyna að hindra fólk í að mæta Jesú Kristi. Meira að segja lærisveinar Jesú reyndu að hindra börnin í að koma til Jesú, eins og við heyrðum í barnaguðspjallinu, sem ég las við skírna hér rétt áðan. Þá gat Jesús ekki orða bundist: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því slíkra er Guðsríkið.“

Íslenskar kannanir sýna, að miklu fleiri hafa áhuga á að koma til kirkju, en raun ber vitni. Magir þora ekki, margir orka ekki að þurfa að mæta spurningunum: „Hvað, er það rétt, að þú sért farinn að sækja kirkju? Er eitthvað að hjá þér?“ -

Dæmi guðspjallsins sýnir, að við megum treysta Guði, að við ættum ekki að láta neinn hindra okkur í að sækja okkur andlegan styrk, ættum ekki að láta undir höfuð leggjast að leita Guðs, hvort sem það er heima, eða í samfélagi kirkjunnar - treysta orði Guðs, treysta hinum krossfesta og upprisna frelsara og þakka honum, þá finnum við þetta sama og Samverjinn í guðspjallinu, - hann kom að fótum Jesú til að gefa Guði dýrðina og fékk þessa uppörvandi kveðju: Statt upp, far leiðar þinnar, trú þín hefur bjargað þér.

Með þessa trú í hjarta er gott að mæta veruleika lífsins, hann getur vissulega verið jafn erfiður, jafn sár, jafn harður, - en þegar upp er staðið, þá gefur nálægðin við Guð styrkinn til að lifa.

Og sá sem stendur upp og fer út í hversdaginn í Jesú nafni, hann fer til að vinna góð verk, hann fer til að láta gott af sér leiða. Góðu verkin eru afleiðingar trúarinnar ekki forsenda, áhersla sem Luther undirstrikar aftur og aftur í sínum ræðum og ritum. Ég hef einmitt verið að lesa að undanförnu í ræðum Lúthers, afar fróðleg og góð lesning, en aftur og aftur kemur þetta upp, hann bendir á samhengið trú, von og kærleikur, en í réttri röð, - eins og í guðspjalli dagsins.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Jón Dalbú Hróbjartsson (jondalbu@hallgrimskirkja.is) er prestur í Hallgrímskirkju og prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Flutt í Hallgrímskirkju á 14. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 1. september 2002.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3208.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar