Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Á Hólahátíð

12. ágúst 2001

Enn sagði hann við lærisveina sína: Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann, og var sá sakaður við hann um það, að hann sóaði eigum hans. Hann kallaði hann fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta, er ég heyri um þig? Gjör reikningsskil ráðsmennsku þinnar, því þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gjöra, fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég, hvað ég gjöri, til þess að menn taki við mér í hús sín, þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði rangláta ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi yður: Aflið yður vina með hinum rangláta mammón, svo að þeir taki við yður í eilífar tjaldbúðir, þegar honum sleppir. (Lúk.16.1-9)

I

Í dag söfnumst við til helgrar hátíðar heima á Hólum. Hún er haldin til að fagna endurreisn hér og styrkja hugi og hendur til hins góða verksins í virðingarskyni við sögu og helgi staðarins.

Um þessar mundir eru tvær aldir liðnar frá því að kónglegt majestet í Kaupinhafn gaf út þá tilskipun að biskupsstóll og skóli á Hólum skyldi lagður niður, stólseignirnar seldar og Ísland hér eftir vera eitt biskupsdæmi.

Þessi ákvörðun var niðurstaða mestu niðurlægingatíma íslensku þjóðarinnar. Og fullyrða má að þetta konungsboð hafi verið mesta högg sem samhengi íslenskrar menningar hefur verið greitt, ásamt með niðurlagningu alþingis við Öxará, sem varð um sama leyti. Vandræðafát og fum og grátleg skammsýni ráðsmanna okkar andlegu og veraldlegu arfleifðar. Þessu réð krafa tímans, upplýsingaaldar, skynsemi og hagsýni og nauðsyn endurreisnar eftir ægilegustu efnahagskreppu, eða öllu heldur efnahagshrun, sem Ísland hefur lifað. En dýrt var það. Við uppboðin í Skálholti og á Hólum þar sem jarðeignir, húsaviður og lausafé, skrúð og ornament biskupsstólanna, þeirra aldagömlu og öflugu sjálfseignastofnana, var selt, tvístrað og eyðilagt, til ágóða fyrir kóngsins kassa, er eitt alvarlegasta skemmdarverk í sögu okkar litla lands. Þar fóru mörg óbætanleg verðmæti í súginn. Þorláksskrín og Ögmundarbrík, það eru nöfn sem segja sína sögu um hefðarrofið og vanvirðu verðmæta, andlegt og menningarlegt gjaldþrot. Skólahaldið og kristnihaldið á Íslandi tók áratugi að rétta við. Hugsanlega varð sala stólsjarðanna til að efla sjálfseignarbændur á Íslandi og auka þjóðarauðinn, ekki skal vanmeta það. En það er annað og meir en hagtölur sem meta líf þjóðar. Það eru önnur verðmæti sem hvergi birtast í hagskýrslum sem valda þó úrslitum um hag einstaklinga og þjóðar.

Við lokun stólsskólanna og afnám biskupsstólanna var kirkju og kristnihaldi í landinu veitt svöðusár. Hinn nýi sameinaði biskupsstóll fékk ekkert af þeim eignum sem voru lögmætur arfur hans. Kirkjan missti sjálfstæði sitt. Geir biskup Vídalín, sá fyrsti er hlaut titilinn biskupinn yfir Íslandi, og var vígður biskupsvígslu hér, í Hóladómkirkju árið 1797, var alla tíð á hrakhólum í Reykjavík, og loks gjaldþrota. Skólinn hjarði með mestu hörmungum.

Þetta er sorgarsaga um slæma ráðsmennsku og nöpur eftirmæli blindrar aldar og ráðlausrar. Nú er öldin vissulega önnur. Tuttugasta og fyrsta öldin heilsar með fegurri fyrirheit í farteskinu en nokkur önnur öld Íslandssögunnar hvað varðar afl og auð lands og þjóðar, menntun og menningu. Og ytri styrk íslensku kirkjunnar, þrátt fyrir allt. Það vil ég fullyrða. Uppbyggingin hér á Hólum ber vitni um blómlegt háskólasamfélag, ferðaþjónustu í fremstu röð, og uppbygging þeirra menningarverðmæta sem staðurinn geymir lýsir miklum metnaði og umhyggju. Auðunarstofa sem hér verður lagður hornsteinn að vitnar um forna verkmenningu og húsagerðarlist, minnir á forna sögu en bætir og úr brýnni þörf fyrir starfsaðstöðu vígslubiskups hér á Hólum. Ég óska vígslubiskupi og Hólanefnd, sérstaklega til hamingju með Auðunarstofu og þakka stjórnvöldum stuðning við þetta sérstæða verkefni.

Öllu þessu getum við glaðst yfir í dag og lesið sem fyrirheit fyrir þjóð og kirkju, menningu og trúarlíf í landi hér. Þar varðar þó miklu að við kristið fólk, kristin þjóð, bregðumst ekki þeim trúnaði sem okkur er sýndur sem ráðsmenn þeirra verðmæta sem þessu er ætlað að miðla og ávaxta. Þau verðmæti eru í þágu lífsins á líðandi stund, og bera ávöxt til framtíðar. Sem verkfæri og farvegir þess sem er líftaug þjóðar og heill sérhvers manns.
II

Guðspjall dagsins fjallar um ráðsmann, ranglátan, óheiðarlegan ráðsmann. Ég verð að játa að mér finnst hún óþolandi þessi dæmisaga um rangláta ráðsmanninn. Óþolandi og fráleit og í meira lagi ógeðfelld.

Það er óþolandi að Jesús skuli láta húsbóndann hrósa óheiðarlegum manni fyrir kænsku hans! Þvílíkt og annað eins. Slíkum mönnum er ekki hrósað. Þeir eru fordæmdir, já þjóðin öll fyllist heilagri reiði og vandlætingu þegar fréttir berast af óheiðarleika í opinberu lífi, svindli og svikum. Við hrósum ekki slíku. Við dæmum. En dæmisagan minnir okkur á, að Jesús hneykslast ekki á fólki, og býsnast ekki yfir syndinni. Hann tekur mannfólkið eins og það er. Og hann harmar syndina, en smjattar ekki á henni. Sá sem hneykslast á öðrum ofmetur gjarna sjálfan sig. Jesús hneykslast ekki, býsnast ekki yfir syndinni, en hann sættir sig ekki heldur við hana. Hann þekkir afl hennar og veikleik manns. Hann tók hana á sig, lagði líf sitt í sölurnar fyrir syndarann. Krossinn sýnir hve dýru verði það var goldið.

Með þesu fráleita dæmi er Jesús að hnippa í okkar: Menn eru tilbúnir að leggja mikið á sig, taka áhættu, leggja allt undir vegna tímanlegs ávinnings, skammvinnra gæða. En hvað með hin andlegu, eilífu? Hverju erum við tilbúin að kosta í þeim efnum?

Dæmisagan um rangláta ráðsmanninn er alvarleg áminning til okkar: Við erum ráðsmenn, okkur er falið að ávaxta verðmæti fyrir Guð og náungann. Öll erum við háð trúmennsku annarra í smáu og stóru. Og öll njótum við trausts og viljum njóta trausts. Öll höfum við fengið verðmæti í hendur seld til ávöxtunar fyrir Guð, lífið og náungann. Guðs góðu sköpun, líf og gæfu, trú, von og kærleika. Og þau verðmæti sem Drottinn taldi meira verð en allan heiminn, og það er okkar ódauðlega sál. Um það fjallar guðspjall dagsins og það er nokkuð sem á fullt erindi við okkur hér og nú og varpar sínu einstæða ljósi inn í umræðu dagsins og veruleik samtíðar og kröfur framtíðar.

Hvernig stöndum við okkur í þeirri trúnaðarstöðu? Hvað blasir við á vettvangi dagsins? Hvað segja fréttirnar? Hvernig er umgengni okkar um verðmæti, eigur, líf og síðast en ekki síst mannhelgi? Hvaða sögu segja nýafstaðnar útihátíðar um það, með tilheyrandi sukki, neyslu, nauðgunum og ofbeldi? Skipulagðar hátíðar sem veltu milljónatugum, þar sem okkar gjörvilegu börn og ungmenni eru ginnt út í aðstæður og umhverfi þar sem þau er berskjalda og ofurseld hömluleysi og auðveld bráð manna sem einskis svífast. Myndirnar af ruslinu og sóðaskapnum sem við blasti að hátíð lokinni segja sína sögu um meðferð verðmæta. En svo er hitt sem aldrei sést. Vita megum við að mörg börnin bíða þessa aldrei bætur.

Þetta þarf ekki að vera svona, og á ekki að vera svona. Börnin okkar eiga betra skilið. Hvenær rís almenningsálitið gegn þessu? Við foreldrar verðum að taka höndum saman. Við höfum séð að það ber árangur.

Sama er að segja gagnvart kláminu og óþverranum sem sífellt verður meira áberandi í samfélaginu. Markaðurinn fyrir barnaklám og annan öfuguggahátt þrífst hér eins og nýlegar fréttir herma. Það er fyrirlitlegt og óverjandi með öllu. Við skulum ekki láta það líðast! Sagt er: Blessaður góði, slappaðu af. Þetta er bara nútíminn, markaðurinn, við Íslendingar erum bara svona, víkingar og villimenn inn við beinið. Jú, satt er það, þetta er syndin, ruglið, firringin, hið illa og ljóta. Og gegn því ber okkur að hamla. Það eru nefnilega verðmæti í húfi sem okkur er trúað fyrir; hið góða, fagra og fullkomna.
III

Sífellt berast fregnir af sigrum læknavísinda og líftækni. Það er undursamlegt. Og þar eru fögur fyrirheit gefin. Hér er manninum í hendur falin mikil verðmæti til ávöxtunar lífinu til heilla. En váboðarnir eru margvíslegir. Það er svo margt sem bendir til þess að siðferðisþroski mannsins sé langt að baki þekkingunni. Fréttir af áformum um einræktun manna vekja óhug, og áleitnar spurningar um hvað það muni hafa í för með sér fyrir mennskuna og mannhelgina. Tæknin að ráðskast með stofnfrumur og erfðaefni mannsins felur í sér valmöguleika og freistingar sem mannkyn hefur aldrei fyrr staðið frammi fyrir. Hvað mun ráða för? Ljóst er að þessi nýja þekking og tækni mun verða alvarlegur prófsteinn á mannskilning okkar og sannfæringu um tilgang lífsins og gildi einstaklingsins.

Þessi þekking vekur vonir um að hægt verði að sigrast á sjúkdómum og efla lífsgæði fólks. En hvaða fólks? Unnt er að stjórna heilsu og skapa einstaklinga með æskileg einkenni og hæfileika. Hvað mun stjórna ákvörðunum þeirra sem ráða fjármagninu. Og hverjir verða látnir sitja eftir? Hvað með þá fátæku, hvað með hið veika og máttvana?

Það staðfestir öll reynsla að það fer sjaldnast vel þegr ráðsmaðurinn lætur sem húsbóndinn sé ekki til. Og það er skelfilegt þegar maðurinn fer að leika Guð.

Við erum að leika Guð og tökum okkur vald. Þessi stund og staður leiðir okkur fram fyrir Guð sem afsalaði sér valdi sínu og gerðist maður, mannsbarn á jörðu. Í nafni hans, frelsarans Jesú Krists, sem eins og segir í þjóðvísunni: „kom í heiminn og með börnum hann grét, af móðurinnar mjólkinni mettast hann lét.“ – Í nafni hans: Finnum til með því lífi sem á í vök að verjast. Lítum í okkar barm og spyrjum út í hugarfar og hjartalag og þá grundvallar lífsafstöðu sem ræður för í samtímanum. Þar sem möguleikarnir virðast takmarkalausir, þar sem flest allt er fært, en er þar með sagt að það sé leyfilegt, eða siðferðilega verjandi? Þöggum ekki niður í þeim spurningum!

Þar kemur að húsbóndinn æðsti krefst uppgjörs, vill skoða reikningshaldið, umsýsluna, kalla okkur til ábyrgðar. Hvað höfum við þá fram að færa? Skoðum hugi okkar og líf í ljósi þeirrar spurningar. „Vangæslan mín er margvíslig…“ segir trúarhetjan Hallgrímur. Hvað get ég þá sagt, hvað má vesalingur minn? Og þú? Ranglátir ráðsmenn erum við vafalaust, ónýtir þjónar, syndugar manneskjur. Syndugar manneskjur. Það eigum við öll sameiginlegt, hver sem við erum, hvar í stétt sem við stöndum, við erum af moldu runnin og til moldar stefnt, og við höfum syndgað með hugsunum, orðum og gjörðum. „Sá sem hyggst standa gæti því vel að hann falli ekki“ segir postulinn í pistli dagsins. „Gef mér Jesú að gá að því glaskeri ber ég minn fésjóð í, viðvörun þína virði eg mest, veikleika holdsins sér þú best.“ Biður Hallgrímur.

Hann beinir huga og máli til Jesú. Hann er vinur syndarans. Vegna hans er sagan og dæmið ljóta gleðifrétt, fagnaðarerindi. Jesús er sá sem tók á sig skuldabréfið, kröfuna á hendur mér og þér og heimi öllum, og sló striki yfir, krossfórnar sinnar. Eiginlega á kristin kirkja það erindi eitt við hverja samtíð og hverja öld að boða þá fyrirgefningu, sýknu, endurlausn, náð og veginn rétta í birtu þess. Og leiða okkur, breyskar, syndugar manneskjur fram fyrir það orð og að þeirri laug og því borði þar sem fyrirgefning syndanna veitist. Hér á Hólastað og hvar sem er um landið hér. Amen.

Prédikun á Hólahátíð, 12. ágúst 2001

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2969.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar