Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Biblían á ruslahaugunum

5. maí 2017

Ég á reglulega erindi í Sorpu í Hafnarfirði þar sem ég á heima, með það sem til fellur af úrgangi frá heimilinu eins og gengur og gerist um flesta býst ég við. Við heimilisfólkið reynum að flokka ruslið að einhverju leiti og vera þannig umhverfisvæn, þó oft vilji nú því miður verða misbrestur þar á.

En ég var sem sagt staddur í Sorpu fyrir nokkru með fulla kerru af rusli sem átti að fara í hina margvíslegu gáma og pressur. Það var mikið að gera þennan dag í ruslinu, margir að taka til í sínum eigin ranni og löng biðröð við gámana. Nokkrir vaskir starfsmenn Sorpu voru því mættir að aðstoða okkur kúnnana við flokkun og affermingu á ruslinu.

Þar sem ég var á kafi við pressuna að tæma mis-vel þefjandi poka af kerrunni með hjálp áðurnefndra starfsmanna Sorpu, leit einn kúnninn snöggt á mig og sagði um leið og hann mokaði poka í pressuna :”Þú ert prestur er það ekki?”. Ekki gat ég neitað því. “Hvað finnst þér um Biblíuþýðinguna 2007?” spurði hann þá eins og ekkert væri eðlilegra. Það kom smá fát á mig enda með fangið fullt af gömlum kössum sem ég var að losa mig við og ég umlaði eitthvað miður skynsamlegt af veikum mætti.

“Ja, ég hef nú lesið mikið af þessari þýðingu og ég er bara hræddur um að með því að þýða Biblíuna upp á nýtt, þá séu menn að breyta því sem hún er að segja okkur, já eiginlega að búa til nýja Biblíu” svaraði þessi ágæti gestur Sorpu mér að bragði. “En auðvitað þarf að orða hlutina þannig að nýjar kynslóðir skilji” bætti hann við “þannig að þetta er nú ekki einfalt mál”. Um leið og ég þurkaði framan úr mér svitann benti ég á af guðfræðilegu innsæi mínu að Biblían væri náttúrulega alltaf til í frumtextunum á grísku og hebreku. En síðan tók ég undir að við hlytum einmitt að verða að þýða hana upp á nýtt með orðfæri nýrra tíma til þess að merking hennar væri skiljanleg nýjum kynslóðum . “Jú, jú” svaraði viðmælandi minn kankvíslega eins og hann hefði nú heyrt þetta allt áður “ en það verður nú samt að passa að breytingarnar verði ekki til þess að menn missi trú á ritinu”.

Með þessum orðum skellti hann síðasta pokanum í pressuna, vinkaði mér bless og var rokinn og ég sömuleiðis enda kerran tóm og margir í röðinni eins og fyrr segir.

Þessi guðfræðilega umræða um Biblíuþýðinguna sem fór fram á Sorpu fyrir nokkru sýndi mér enn einu sinni það sem ég reyndar hafði grun um fyrir. Það er sú staðreynd að áhuginn á trúmálum er mikill meðal almennings sem fylgist mun betur með umræðunni um trúarleg málefni heldur en oft er talið. Það sama sést reyndar líka á þeim fjölda sem sækir starfsemi kirkjunnar alla daga. Og þeim sem sækja Biblíunámskeið í Breiðholtskirkju á þessu vori.

Og fólk hefur sínar skoðanir sem það gjarnan vill ræða og viðra af áhuga og í vinsemd – rétt eins og viðmælandi minn á haugunum sem í erli dagsins var að íhuga Biblíutextana og þýðingu þeirra – sannur hlaðvarpaguðfræðinur í sorpinu-.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 671.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar