Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Jóga- Fimmti hluti

4. apríl 2017

Þá er komið að fimmta og síðasta pistlinum um trúarlegann bakgrunn jóga.

Jóga-Sutra eru helgitextar sem skráðir voru á 2. öld f.kr. á Indlandi og hafa löngum verið taldir ein helsta kennslubók hindúismans í  jóga.

Jóga-Sutra greinir á milli margskonar notkunar á jóga. 

Í grunninn er þó um tvær stefnur að ræða

Annarsvegar er jóga ætlað til þess að drepa niður alla andlega starfsemi og alla skynjun. Aðeins þannig getur maðurinn hreinsað sig af samsara og losnað undan karma og hjóli endurfæðingarinnar.

Á hinn bóginn bendir Jóga-Sutra á þá leið sem tantrajóga byggir á og hér fyrr hefur verið gerð að umfjöllunarefni. 

En hvað er samsara, karma og hjól endurfæðingarinnar samkvæmt hindúisma?

Lífið og tilveran öll eru  ekkert annað en blekking og ímyndun. Aðeins Brahman, hið ópersónulega alheimsgoð,  er raunverulegt og samstæða  þess, atman. Sá sem lifir í blekkingunni  þjónar  guðunum og sýnir þeim lottningu og ást sína. Það er auðvitað gott og blessað en  er samt aðeins þátttaka í blekkingunni. Sá sem skilur að heimurinn er blekking,  leitar út fyrir blekkinguna að hinu raunverulega og reynir að sameinast því. Um  leið hafnar hann heiminum og öllu hinu veraldlega, allri sköpuninni. Hún er  einskis virði og það sem í henni gerist sömuleiðis.

En hvað veldur þessari blekkingu sem við  köllum heiminn?

Jú, það er fyrirbæri sem hindúar kalla Samsara.   

Samsara er breytanleiki alls lífsins. Ekkert stendur í stað. Við fæðumst,  eldumst og deyjum og okkur text aldrei að halda í hinahverfulu stund. Allt í  heiminum er blekking nema Brahman og atman. Meira að segja hin stærsta hamingja  okkar hverfur í tímans tóm. Blekkingin tekur á sig stöðugt nýjar og nýjar  myndir. Blekkingin er lífið sem er stöðugt að breytast. Einkenni blekkingarinnar  er samsara, breytingin sjálf. Breyting lífsins er aftur rót alls ills. Það er  hverjum nauðsynlegt að losna undan breytingunni, vilji hann á annað borð losna  undan hinu illa. Hinn efnislegi heimur er því heimur blekkingar og breytinga,  þjáninga og óguðleika. Hann er óæðri hinum andlega, guðlega. Besta og tryggasta  leiðin til að losna undan heiminum og þar með þessari blekkingu breytingarinnar  sem umlykur okkur mennina, það er að hafna heiminum og öllu sem í honum er, snúa  baki við tilverunni.

Sá sem losnar undan samsara, breytingunni, og maya,  blekkingunni eða heiminum, hann  öðlast nirvana.

Nirvana er í raun aðeins það ástand sem maðurinn kemst í  eftir að hann losnar undan blekkingunni, heiminum og samlagast Brahman, hinu  ópersónulega frumafli. Þegar þangað kemur hættir einstaklingurinn  að „verða til“,  breytast, en atman rennur aftur í uppruna sinn. Líkja má því við vatnsdropann  sem fellur í hafið. Hann verður þar með hluti af hafinu en hættir um að leið að  vera dropi, að vera til sem slíkur.

Nirvana er því hin endanlega upplausn einstaklingsins.

Leiðin undan samsara, breytingu lífsins, og inn í nirvana, getur verið bæði erfið og ströng. Hún kostar stöðuga þjálfun og hugleiðslu, sjálfsafneitun og jafnvel sjálfspindingar. Æfin endist vart til að öðlast  nirvana og slökkva þorstann eftir lífinu. 

Til þess þarf maðurinn að fæðast aftur  og aftur og aftur þar til honum text að vinna bug á heiminum og þrá sinni eftir  því að vera til. Þar með er kenningin um endurholdgunina orðin að forsendu þess  að mönnunum takist að hverfa á vit frumaflsins mikla. En þessi kenning er engin  gleðikenning. Það er ekki gott að verða að endurfæðast samkvæmt hindúismanum.  Því stundum gengur vel í baráttunni við heiminn og maðurinn nálgast nirvana.  Stundum gengur illa og maðurinn fjarlægist. Og þá þarf að byrja baráttuna alveg  upp á nýtt. Það er ekki vitað nákvæmlega hvaðan hugmyndin um endurholdgun  mannsins eftir dauðann er kominn. 

En það má greina hana þegar í Vedaritunum gömlu, ritum aríanna sem lögðu undir sig Indland um 1500 fyrir krist. Fyrst í  stað litu aríarnir þannig á endurholdgunina að hún væri af hinu góða. En með  Upanishjadaritunum vex svartsýnin og menn fara að álykta sem svo svo á að  endurfæðingin sé böl og þjáning. Að þurfa að fæðast þýðir nefnilega ekkert annað en að menn þurfi að takast  áfram á við blekkinguna og þjáningun og síðan deyja. Sum rit hætta meira að  segja að tala um endurfæðingu en kalla hana í staðin endurdauða. Maðurinn fæðist  ekki aftur, það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að maðurinn deyr aftur og aftur.

Það er hið mikla böl heimsins og tilverunnar.

En hvers vegna gerist  þetta? 

Því veldur karmalögmálið.  Karmalögmálið er það lögmál sem ræður afleiðingum þess sem maðurinn gerir  í hvert sinn er hann lifir. Karma er í raun samansafn alls þess sem maðurinn  gerir. Geri maðurinn gott, fæðist hann í góðum málum í næsta lífi. Geri maðurinn  illt, fæðist hann í vondum málum, jafnvel í sjálfu víti. Um er að ræða hið  fullkomna orsakalögmál. Geri maðurinn „A“ í þessu lífi er afleiðingin „A“ í því  næsta. Af því að maðurinn gerir eitthvað gott eða vont, endurfæðist hann og þar  með er hann neyddur til að deyja á ný. En geri hann ekkert, hvorki gott né illt,  hlýtur hann að hætta að fæðast. Því þá safnast ekki í sarp karmalögmálsins. Það  kenna margir lærifeður hindúismans. 

Lausnin undan þjáningu þess að þurfa stöðugt  að vera aðfæðast og deyja í heimi , maya, blekkingar og samsara, breytanleika er  að gera ekki neitt. Afleiðingin af því að gera ekkert í þessu lífi er að ekkert knýr manninn til þess að endurholdgast.

Eða að sigra karmað með tantrajóga.

Ef við drögum þetta saman lítur vegferð tantrajóga svona út:

líkamlegt aðhald,

innri andleg hreinsun,

réttar hugleiðslustellingar,

að stjórna öndun,

að stjórna skilningarvitunum,

andlegur samruni við alheiminn með hugleiðslu.
 
Þetta er líka það prógramm sem stendur til boða hjá mörgum jóga klúbbum í dag, einskonar helgiganga þar sem hver leitar eigin frelsunar.

Að lokum

Ég verð að lokum að undirstrika að  hér í þessum pistlum er mikið mál  dregið saman í stuttum texta til útskýringar.  Hver hreyfing, stefna og skóli í jóga hefur sínar áherslur. Þannig leggur Innhverf íhugun höfuðáherslu á möntruna, tantra á kynlífsbeislunina og enn aðrar hreyfingra hugsa mest um líkamsæfingarnar. Sérstaklega á það við í byrjendanámskeiðunum. 

Í ekta tantrajóga eins og því er hér var lýst, notast allar aðferðirnar samtímis til að ná sem mestum árangri.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 514.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar