Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Úlfar Guðmundsson

Ég fékk eitt líf

Við höfum nú á jólum glaðst yfir fæðingu frelsarans.    Ég á ekki erfitt með að trúa að Jesús hafi verið getinn af heilögum anda.  En hvað sem um það má segja hafa kristnir menn litið svo á að líf Jesú á jörðunni hefjist þegar hann  var getinn í líkama Maríu móður sinnar og endaði með krossfestingu og upprisu.

Svo er  einnig um mig og þig og alla að jarðneska lífið okkar hefst við getnað og því lýkur við dauða.  Þessi staðreynd var til umræðu á liðnu ári í fjölmiðlum og margt fólk tjáði sig, fjölmiðlafólk, fagfólk úr hópi félagsráðgjafa , hjúkrunarfræðinga og jafnvel stjórmálamaður notaði stór orð sem er ekki til bóta.  Það hefur vakið undrun mína hvernig öllu þessu fólki tekst að þegja þessa staðreynd málsins í hel.

Fóstur er að sjálfsögðu ekki barn fremur en gamall maður þó við segjum að tvisvar verði gamall maður barn.  En fóstur er sérstakur einstaklingur og á eðlilegum stað í tilverunni inni í líkama móður sinnar.  Fóstur er ekki hluti af líkama móðurinnar.  Fóstur getur verið heilbrigt þó móðir þess sé sjúk og öfugt.  Hér eru  tveir einstaklingar samferða.  Fóstur er hins vegar háð móður sinni en það er svo  um  okkur öll að við erum háð öðru fólki.  Sérstaklega á það við á fósturskeiði og í ellinni en  einnig alla ævi.  Palli getur ekki verið einn í heiminum.  Við erum háð hvert öðru og það þarf í það minnsta tvö til að nýtt líf kvikni.  Það er einnig svo að okkar samferðafólk takmarkar okkar frelsi.  Við lifum í spennu við okkar samferðafólk og í  átökum milli andstæðna eins og góðs og ills og þess sem er rétt eða rangt.

Allt tal um að einhverjum hafi dottið í hug að takmarka frelsi konu yfir sínum líkama er út í hött en verður til vegna þess að ekki er horfst í augu við ofangreindar staðreyndir.  Kona og fóstur eru tveir einstaklingar.  Mjög er mikilvægt í þessu öllu að sami einstaklingur kemur aldrei aftur.  Enginn fær nema eitt tækifæri til lífs.  Einn helgasti réttur einstaklings er rétturinn til lífs.  Það er því óframbærilegt að tala um fóstur sem réttlausa og einskis verða frumuklessu.  Ef einhver efast um undur og kraft lífsins þá ætti hann að lesa fósturfræði.

Ferill lífsins frá getnaði til dauða er samfelldur.  Það eru nefndir punktar eins og 12 vikur og fæðing.  Fæðingin er vissulega þáttaskil og 12 vikur geta markað skil á læknisfræðilegum úrlausnum en hvorugt er nein skil á ferli lífsins og ekki hægt að benda á neina aðra tímapunkta en getnað og dauða enda hefur það ekki verið gert.

Þetta er  viðkvæmt mál í umræðu vegna ólíkra aðstæðna fólks.  Eigi að síður verður umræðan að byggja á staðreyndum málsins þó hún þurfi að vera ólík og með mismunandi markmið eftir því hvort um er að ræða fræðslu, ráðleggingar eða huggun.  Allra síst megum við tapa niður lotningunni fyrir heilögu undri lífsins sem við höfum þegið að gjöf.

Pistill fyrst birtur á mbl.is þann 16. 1. 2016

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2065.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar