Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Guðni Már Harðarson og Halldór Elías Guðmundson

Þankar um ráðningarferli og nýliðun

Í störfum okkar á vettvangi kirkjunnar, sér í lagi með sjálfboðaliðum, er ein af megin glímunum samspil valda og ábyrgðar. Ef ójafnvægi ríkir í þessu samspili leiðir það til fjölbreytilegra árekstra og vandamála. Það á við hvort sem að sjálfboðaliðar hafa mikil völd, en litla ábyrgð eða ábyrgð sjálfboðaliða sé mikil, en völdin lítil. Inn í þetta samspil spilar síðan traust milli þeirra sem starfa sem sjálfboðaliðar og okkar sem kalla þau til starfa.


Mikið ójafnvægi milli valda og ábyrgðar er innbyggt í valnefndarkerfið í þjóðkirkjunni. Valnefndir eru skipaðar til að velja presta til þjónustu fyrir einstaka söfnuði og þeim lagt á herðar að fylgja landslögum og innri reglugerðum kirkjunnar. Völdin eru mikil, en ábyrgðin er hins vegar takmörkuð, því skipunin og ábyrgðin á valinu hvílir á herðum biskups.

Sú ákvörðun biskups að hafna rökstuðningi valnefndar, gefur skýrt til kynna að þetta misræmi milli valda og ábyrgðar sé óásættanlegt. Seljakirkjufordæmið gefur skýr skilaboð um að biskup hyggst ekki bera ábyrgð á ákvörðunum sjálfboðaliða sem hugsanlega eru á svig við lög og reglur. Biskup hefur enda skiljanlega lítinn áhuga á að greiða í sífellu skaðabætur úr þunnum sjóðum kirkjunnar.

Ef hins vegar biskup hyggst í framtíðinni fylgja þessu fordæmi er líklegt að án róttækra breytinga á ráðningarfyrirkomulagi presta, þá verði framkvæmdin sú, að sá einstaklingur verði skipaður prestur, sem líklegastur er til að kæra niðurstöðuna en þarfir sóknarbarnanna mæti afgangi. Þá mun fordæmið án vafa leiða til þess að söfnuðir verða valdalitlir í vali sínu á prestum.

Það er ljóst í ljósi nýlegra ráðninga í kirkjunni að fjölmargt valnefndarfólk lítur svo á að hlutverk þeirra hafi nú þegar verið takmarkað og völdin nánast tekin úr höndunum á þeim. Ef fram fer sem horfir má leiða að því líkum að einstaka söfnuðir muni í náinni framtíð sitja uppi með presta sem lítill áhugi er innan safnaðar til að starfa með. Slík staða er slæm, ekki einungis fyrir söfnuði heldur ekki síður prestana, sem þyrftu hugsanlega að vinna í fjandsamlegu starfsumhverfi. Það eru nú þegar til dæmi um vanlíðan presta sem sitja í embættum í óþökk við þá sem unnið er með og fyrir. Framhjá því verður ekki horft.

Ef vilji er til að bregðast við þessari þróun sem Seljakirkjufordæmið virðist bera vitni um, eru ýmsar leiðir færar. Ein þeirra og e.t.v. sú einfaldasta er að endurskilgreina vald og ábyrgð valnefnda og samspil þeirra við biskup. Slík lausn gæti falið í sér að hlutverk valnefndar yrði einvörðungu að móta væntingar og hugmyndir safnaðarins um komandi prests. Þá myndi valnefnd þurfa að sjá til þess að auglýsingar um embættið innihéldu með skýrum hætti þær væntingar sem gerðar eru. Hluti þessarar vinnu fælist í gerð framtíðarsýnar og stefnumótunargagna sem umsækendur þyrftu að bregðast við og svara.

Með þessu móti yrði fjölgað þeim fagbreytingum sem biskup þarf að styðjast við þegar ákvörðun um hæfi presta fyrir einstaka söfnuði er tekin. Eins og staðan er núna, eru breyturnar fáar en vel skilgreindar í „Handbók fyrir valnefndir“, þ.e. menntun, starfsreynsla, starfsaldur, starfsvettvangur, starfsferill og kyn. Með þessu móti myndu völd og ábyrgð liggja saman með skýrum hætti í hendi biskups, en hlutverk valnefndarinnar væri að skilgreina rammann sem biskup notaðist við ákvörðun sína.

Vandinn við þessa hugmynd er að ákvarðanavaldið yrði með formlegum hætti tekið úr höndum valnefnda. Þó má færa rök fyrir að slík formleg ákvörðun sé heiðarlegri og vandaðri en það fyrirkomulag sem nú er, enda sýnir Seljakirkjufordæmið að raunverulegt ákvarðanavald valnefnda er ekki til staðar.

Fyrsta leiðin fólst í að færa völdin með formlegum hætti til biskups. Önnur leið er að færa ábyrgðina yfir á valnefndirnar. Ef við viljum byggja upp sjálfboðaliða í söfnuðum kirkjunnar og ef við viljum sjá öflugt safnaðarstarf, þá þurfa að fara saman ábyrgð og völd. Með því að færa ábyrgðina af skipun prestsins á herðar valnefnda, þá kallar það á ábyrga ákvarðanatöku, enda væri auðvelt að „sá skaðabótaótta“ í garði valnefndarfólks ef þau þyrftu að standa persónulega skil á hugsanlegum kærumálum. Ef við óttumst að íhaldssemi myndi ráða ríkjum í framkvæmd fyrstu leiðarinnar, þá er óhætt að fullyrða að það ætti jafnvel enn frekar við ef farin yrði leið tvö.

Þriðja leiðin sem okkur langar að nefna er leið traustsins. Hún er langerfiðust, en felst í óbreyttu samspili valda og ábyrgðar, þar sem biskup gengur alltaf og án hiks erinda sjálfboðaliðanna sem hafa verið kölluð til starfa. Þessi leið er án nokkurs vafa kostnaðarsömust, enda ljóst að sjálfboðaliðar munu taka ákvarðanir sem eru „rangar“ og dýrkeyptar.

Núverandi ástand felur í sér blekkingu sem er óásættanleg fyrir alla. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að valnefndarfólk víða um land er óánægt. Því finnst eins og það hafi ekki heimild til að meta alla umsækendur. Þannig séu umsækjendur með mikla samskiptahæfileika, spennandi hugmyndir í boðun og metnaðarfulla framtíðarsýn (allt þættir sem ættu að hafa vægi) sem ekki sé hægt að ræða. Prófastar og ráðgjafar biskups komi á fundi nefndanna með mjög fastmótaðar „skipanir“ sem„slá út guðfræðinga“ og„sá skaðabótaótta“ ef einhverjum dettur í hug að óvígður eða reynslulítill komi til álita. Þetta er væntanlega gert til þess að auðvelda biskupi að skipa í stöðuna án þess hætta sé á að greiða þurfi skaðabætur.

Hvort sem þessi tilfinning valnefndarfólks er réttmæt eða ekki, þá má okkur vera ljóst að samspil ábyrgðar og valds, valnefnda og biskupsembættisins byggja ekki á fullkomnu trausti sem sést hvað skýrast í áðurnefndu Seljakirkjumáli.

Ef niðurstaðan er sú að það sé hlutverk biskups eins að velja presta eða meta hvort niðurstaða valnefndar sé lögmæt eða ekki, þá er nauðsynlegt að allir hafi skýra mynd af því hvernig biskup hyggst meta niðurstöðurnar. Gagnsæi þarf að einkenna alla ákvarðanatökuna, enda öllum til heilla að vita eftir hverju er farið. Það getur ekki verið vilji kirkju Krists að einstaklingar eyði tíma og kröftum sínum og byggi upp væntingar um starf sem aldrei var mögulegt að fá skipun í, vegna vígsluleysis, kyns eða skorts á prófgráðum.

Meðal spurninga sem vakna er t.d. hvort að sömu reglur og væntingar muni gilda um sóknarpresta, presta og sérþjónustupresta? Hvort að kynjahlutföll verði skoðuð út frá einstökum prestaköllum, samstarfssvæðum, prófastsdæmum eða landinu í heild? Hvað með aðra þætti, eins og meistaragráðu eða vígslu. Hvort er meira um vert að hafa lokið sex ára framhaldsnámi í kennimannlegri guðfræði eða hafa sex ára prestsreynslu? Nú eða hefur óvígð kona með mikla reynslu í barnastarfi og meistaragráðu í sálgæslu meiri eða minni möguleika en vígður karlmaður án framhaldsmenntunar?

Nýjar reglur um ráðningu presta munu ekki taka á þessum vanda nema að takmörkuðu leiti, enda virðist markmiðið helst það að draga úr möguleikum valnefnda á að komast að „rangri“ niðurstöðu. Þó vissulega sé þar margt til fyrirmyndar, svo sem ákvæði um þarfagreiningu og væntingar um rökstuðning fyrir hverjum og einum.

Þá er góð ástæða til að óttast að nýju reglurnar stuðli ekki að nýliðun í stéttinni. Ungu fólki og óvígðu verði þvert á móti gert erfiðara um vik að koma sér á framfæri. Það virðist nú þegar vera ótti við að of margir fái vígslu. Þannig er búið að taka fyrir að ráða óvígða í afleysingar og vígslan virkar á stundum eins og hlutdeild í samtryggingu þeirra útvöldu sem vilja draga úr nýliðun. Því miður er eins og vígsluskilningur í þjóðkirkjunni sé meira í átt við umbreytingartrú rómversk katólsku kirkjunnar en hinn lútherska þjónustuskilning. Þannig höfum við heyrt um dæmi þess að ráðgjafar á valnefndarfundum telji 90 mínútna vígsluathöfn í Dómkirkjunni meira um verða en 6 ára doktorsnám og vönduð meðmæli.

Ungt fólk í hópi guðfræðinga er ekki í öfundsverðri stöðu. Prestsembættum hefur fækkað verulega og þrátt fyrir mikla starfsmannaveltu eru tækifærin ekki mörg, enda margir um hituna. Þau geta beðið þolinmóð, safnað í reynslusarpinn og vonast til að færast framar í goggunarröðinni (svo lengi sem reglurnar í röðinni breytist ekki). Þau geta litið til Noregs, þar sem ráðningar presta eru með öðrum hætti en hér á landi og framtíðarsýn einstakra safnaða kallar eftir ungu fólki til starfa. Nú eða þau geta treyst á að prestskosningum fjölgi á Íslandi, þar sem söfnuðurinn fær að velja sinn prest án þess að innri reglugerðir og lög móti ákvarðanatökuna.

Skortur á ungu fólki í prestastétt á Íslandi er vaxandi vandamál. Án ungra presta verður kirkjan gömul og ungum prestum hefur fækkað hratt á höfuðborgarsvæðinu. Um áramótin 2008/09 voru fjórir prestar undir þrítugu á höfuðborgarsvæðinu og a.m.k. ellefu prestar milli þrítugs og fertugs. Fimm árum seinna er enginn undir þrítugu og í haust verða í besta falli fimm undir fertugu. Einn þeirra er prestur Kristilegu skólahreyfingarinnar, en sú staða er í hættu meðal annars vegna ákvörðunar Kirkjuráðs um að afnema styrk sinn til starfsins með öllu.

Miðað við valnefndarkerfið og væntanlegar breytingar sem liggja fyrir er ólíklegt að breytingar verði á fjölda ungra presta, nema þá helst sú að meðalaldur presta hækkar árlega um a.m.k. eitt ár.

Það ætti að vera okkur umhugsunarefni að þrír yngstu prestvígðu Íslendingarnir verða sennilega öll starfandi á norðurlöndunum á næsta ári, tvær konur og einn karl undir þrítugu. Sá sem kemur næstur í aldri mun starfa á Íslandi næsta vetur, ekki þó vegna valnefndarkerfisins heldur vegna sigurs í almennri prestskosningu. En eins og ráðningarferli kirkjunnar er um þessar mundir þá er það langlíklegasta leiðin til að ungt óvígt fólk fái embætti.

Þessi skrif bjóða ef til vill ekki upp á margar raunhæfar lausnir. Hugsanlega er rétt að kalla þau harmljóð án endurlausnarstefs. En vonandi lýsa þau áhyggjum og vangaveltum okkar á heiðarlegan hátt og halda umræðunni opinni. Umræðu sem vonandi verður Guði til dýrðar og kirkju Krists til blessunar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3412.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar