Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Ásdís Pétursdóttir Blöndal

Heimsókn

12. nóvember 2013

„Það er mánudagur, í dag kemur djákninn í heimsókn“ minnir öldruð kona vinkonu sína á. Þær eru báðar ekkjur á tíræðisaldri og búa í þjónustuíbúðum fyrir aldraða. 

Á mánudögum kemur djákninn úr sóknarkirkjunni þeirra í heimsókn í húsið og
heldur samverustund. Trúfastur hópur, um 20 manns tínast inn í stofuna þegar klukkan nálgast 14.00. Djákninn heilsar glaðlega og spyr hvernig þau hafi það og fær ýmis svör, enda sumir að nálgast tírætt.

Þau eru glöð yfir því að kirkjan þeirra skuli koma í heimsókn. Margir eiga erfitt með að hreyfa sig og eru hættir að komast út, rétt staulast inn í dagstofuna þegar eitthvað er um að vera.

Það hefur myndast dýrmæt samkennd með hópnum. Þau spjalla saman og í ljós kemur að ein úr hópnum hefur dottið og mjaðmagrindabrotnað og liggur á sjúkrahúsi.

Stundin er fjörug og fjölbreytt og söngglaður sjálfboðaliði hefur slegist í hópinn. 
En í lokin er bænastund og allir biðja fyrir konunni sem slasaðist.

Djákninn kveður hópinn sinn. Hún þyrfti að drífa sig heim en konan á spítalanum sækir á hugann. Konan sem er á tíræðisaldri er ógift og barnlaus, skildi einhver heimsækja hana ? Best væri að koma við hjá henni.

Djákninn finnur út hvar konan liggur og fer í heimsókn. Konan reynist vera mjög þjáð og getur lítið talað svo djákninn situr hjá henni smá stund, segir henni að hópurinn hafi saknað hennar og beðið fyrir henni. Kveður með kossi á vanga og þungu hjarta.

Tveimur dögum seinna er konan látin. Mikið er ég fegin að ég fór og gat kvatt hana, að ég hlustaði á litla tikkið sem bankaði á hjarta mitt hugsar djákninn.

Guð er góður.

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1787.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar