Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Hvernig líður þér?

Prestastefna 2011

Hugo Þórisson sálfræðingur er mörgum að góðu kunnur fyrir framlag sitt til umræðunnar um uppeldi á Íslandi. Nýlega kom út bókin Hollráð Hugos. Hlustum á börnin okkar. Þar dregur hann saman reynslu sína af því að bæta samskipti barna og foreldra í yfir 30 ár og miðlar hugmyndum um einfaldar breytingar á samskiptamynstrum sem geta skipt sköpum.

Við hjónin eigum sex börn og erum svo sannarlega þakklát fyrir hugmyndirnar hans Hugos. Við vorum líka glöð að sjá hann staðfesta og færa rök fyrir ýmsu sem okkur hefur þótt gefast vel. En Hollráð Hugos má ekki bara nýta sem uppskriftabók fyrir fjölskyldusamskipti. Hollráðin má líka nýta þegar horft er til þess hvernig megi bæta samskipti í ýmsum skipulagsheildum, til dæmis kirkjunni.

Hvernig leið þér í skólanum í dag?

Tökum dæmi til skýringar.

Í fjórða kafla Hollráðanna segir Hugo frá samskiptum foreldra og barna í tengslum við skólann. Flestir foreldrar vilja vita hvernig börnunum vegnar í skólanum. Þess vegna er spurt eitthvað á þessa leið: „Hvernig gekk þér í skólanum í dag?“ Hugo segir að svörin við þessari spurningu gefi tæplega rétta mynd. Annars vegar af því að mörg börn svara „bara vel“ eins og af gömlum vana. Hins vegar af því að spurningin setur barnið ekki í forgrunn heldur skólastarfið sjálft.

Í staðinn leggur Hugo til að foreldrar spyrji: „Hvernig leið þér í skólanum í dag?“ Það er opin og opnandi spurning sem getur leitt til samtals um það hvernig barninu líður og í framhaldi kannski hvernig því gengur. Velgengni í skóla þarf nefnilega ekki að haldast í hendur við vellíðan.

Hvernig líður starfsfólki kirkjunnar?

Þetta má svo sannarlega heimfæra á kirkjuna. Prestar og djáknar eru í hópi lykilstarfsfólks kirkjunnar. Þeir skila skýrslum um starf sitt mánaðarlega og gera meðal annars grein fyrir fjölda athafna í kirkjunni og hversu margir sóttu þessar athafnir. Þeir fjalla einnig um aðra þætti starfsins, skrifstofustörf, endurmenntun, fræðastörf, fundahald og fleira. En hvergi er spurt: „Hvernig líður þér í vinnunni?“ Tólf sinnum á ári spyrjum við um það hversu vel starfið gengur en við spyrjum ekki hvernig starfsfólkinu sjálfu líður.

Þessar upplýsingar eru þó mikilvægar. Í nývarðri doktorsritgerð sinni um leiðtogaeinkenni íslenskra presta og grósku í safnaðarstarfi, komst Ásdís Emilsdóttir Petersen m.a. að því að andleg endurnæring (e. spirituality) prestsins sem leiðtoga sé nauðsynleg til að starfið allt blómstri. Trúarleg kjölfesta prestsins er þannig undirstaða velferðar safnaðar og forsenda grósku í safnaðarstarfi. Í ritgerðinni kemu reinnig fram að vísbendingar eru um að trúarlegri líðan presta sé of lítill gaumur gefinn.

Við ættum að gera okkur far um að spyrja reglulega um þetta því starfsfólk kirkjunnar er auðlegð hennar og ef kirkjan á að vaxa og dafna á komandi árum þarf að leggja rækt við starfsfólkið.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Hvernig líður þér?”

  1. Hvernig líður þér? | á+k skrifar:

    […] Í dag skrifum við um Hollráð Hugos og kirkjustarfið á Trú.is. Það má stytta sér leið og lesa niðurstöðuna: Við ættum að gera okkur far um að spyrja reglulega um þetta því starfsfólk kirkjunnar er auðlegð hennar og ef kirkjan á að vaxa og dafna á komandi árum þarf að leggja rækt við starfsfólkið. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3612.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar