Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hildur Eir Bolladóttir

Það er hægt að vera hamingjusamur í ógninni

Í aðdraganda jóla grípur mig oft nístandi ferðakvíði. Nú gæti einhver húrrað niður í stemmningunni og hugsað mér sér „ almáttugur minn ætlar hún að fara að draga okkur niður í einhverja persónulega dramatík korteri fyrir jól þegar allir eru að reyna að höndla gleðina og sumir jafnvel af veikum mætti“? Svarið við því er nei, ég ætla alls ekki að vera stemmningsbani, ég ætla bara að tala um jólin eins og þau birtast mér núna. Jólin eru nefnilega kamelljón, þau eiga sér margar birtingarmyndir, eða kannski eru það bara við manneskjurnar sem erum kamelljónin sjálf og mætum því jólunum með nýjum og nýjum hætti. Ef ég á hins vegar að vera heiðarleg sem ég held alltaf að sé dálítið vanmetið fyrirbæri, að þá verð ég að fá að vera svolítið dramatísk, því reynsla mín er sú að jólin séu nokkuð lævi blandin. Að loft sé lævi blandið merkir að það ríkir spenna í loftinu og það má vissulega til sanns vegar færa þegar jólin eru annars vegar og þá ekki síst jólaguðspjallið sjálft.

Ég man þegar ég var barn þá voru ferðalög óskaplega mikil fyrirhöfn í minni fjölskyldu, enda fórum við ekki mikið, fyrir utan bíltúra í Mývatnssveit og Bárðardal. Ég átti ömmu og afa í Reykjavík og ég held ég hafi verið orðin nokkuð stálpuð þegar ég man fyrst eftir mér í heimsókn hjá þeim á Flókagötu 61, sem var óneitanlega synd, því þau voru orðin svo roskin þá að tíminn var engan veginn að vinna með okkur. Amma Jóna og afi Jón, þau voru bæði yndisleg en ég hitti þau bara alltof sjaldan og ég hugsa svei mér þá, að þjóðvegur 1 hafi átt nokkurn þátt í því. Það var nefnilega ægilegt ferðalag að fara suður til Reykjavíkur þegar ég kornung konan, var barn. Það var svo mikið ferðalag að maður neyddist alltaf til að vakna fyrir dagrenningu til að leggja af stað eins og einhver persóna úr þjóðsögum Jóns Árnasonar sem gekk yfir Tröllaskaga á sauðskinnsskóm og talaði við álfa og tröll. Ég held að fram að fermingu muni ég varla upphaf á slíku ferðalagi án þess að mér væri óglatt af svefnleysi og drunga sem tengdist jafnan órofa böndum. Að auki áttu foreldrar mínir citroenbíl sem hafði svo mikla fjöðrun að í beygjunum í Borgarfirði urðu allir grænir í framan, nema pabbi sem hafði verið svo forsjáll að gæða sér á klassískri jólaköku á hótel Varmahlíð, já með einni einmana rúsínu, á meðan við mamma og kannski einhver systkini (því nóg var víst af þeim) gröðkuðum í okkur pylsur með remúlaði sem pabba þótti alltaf mjög „ókúltíveraður“ matur. Það er skemmst frá því að segja að meðan við hin börðumst gegn því að skila endurunnum kjötvörum í Borgarfjarðarbeygjunum sat pabbi yfirvegaður við stýrið með trölladeig í maganum og Louis Armstrong á kassettu eins og rúsínu í pylsuenda þessa ójafna leiks.

Ég get ekki skilgreint nákvæmlega ástæðuna en það er ljóst að ég var alin upp við nokkurn ferðakvíða, líklegast var það tengt áhyggjum foreldra minna yfir því að fara með barnaskara landshorna á milli í vetrarfærð, á vondum vegum, þar sem einbreiðar brýr voru ekki undantekning, heldur regla. Ég man alltaf feginleikann þegar pabbi tilkynnti úr bílstjórasætinu, „jæja krakkar nú kemur smá kafli með bundnu slitlagi“ þá var líkt og himnarnir opnuðust og englakór Gabríels birtist okkur eins og fjárhirðunum forðum. Við vorum nefnilega úr sveit eins og þeir. Það voru þó skammvinn hughrif því jafnskjótt tók mölin við eins og kaldur janúarmorgunn og þá var ekkert sem yljaði meir en Loui gamli með sinn rifna saxófón og þykka söng sem fyllti upp í vegholurnar. „What a wonderful world“ og tilfinningin var slík að ég gleymdi næstum hvað Hvalfjörðurinn var ógeðslega langur.

Ég fæ oft ferðakvíða við upphaf jólaföstu, þegar allt samfélagið er að ferðbúast fyrir jólin. Þó er þetta ekki þessi eiginlegi ferðakvíði líkt og sá sem elti mig í æsku og sótti rætur sínar í áhyggjur foreldra minna. Á aðventunni líður mér einhverra hluta vegna svolítið eins og ég sé sjö ára að vakna fyrir klukkan sex að morgni til að leggja af stað í níu tíma ferðalag til Reykjavíkur. Mér er meira að segja stundum pínulítið óglatt af svefnleysi og ég hlakka svo til að komast á bundið slitlag og borða pylsu með remúlaði í Varmahlíð þó ég viti að hún muni ganga aftur í Borgarfirði og ásækja mig, og einhvers staðar í bakgrunninum er Loui Armstrong að syngja „what a Wonderful world“ og ég kýs að trúa honum af því að reynslan mín af lífinu er sú að í grunninn er það fjári gott.

Jólin eru áfangastaður ferðar sem er bæði krefjandi og gefandi. Ég held að það sé góðst viti ef aðventan hefur ýmiskonar áhrif á þig. Það er bara gott ef þú skynjar flóru tilfinninga hellast yfir þig, það þýðir einfaldlega það að þú þarft að ganga í sjálfan þig. Og af hverju segi ég að það sé gott? Jú vegna þess að það er megin tilgangur jólanna, að vita hver maður er og hvað maður hefur að gefa. Alveg eins og foreldri sem býr sig undir að taka við nýfæddu barni. Af hverju heldurðu að konur gangi í gegnum svo flókið ferli tilfinninga og sjálfsskoðunar á meðgöngu? Það eru ekki bara hormónar, heldur mannleg viðbrögð við nýju lífi og stórum breytingum. Í hugum foreldra eru fæðingar barna þeirra það besta og merkilegasta sem þau hafa lifað. Samt er ekkert eins erfitt og að verða foreldri. Það er nefnilega svo heilbrigt að verða ferðakvíðinn þegar eitthvað stórbrotið er í nánd. Sennilega er því einlægasta trúarjátning manneskjunnar sú að verða viðkvæm og trekkt í aðdraganda jóla.

En það eru ekki bara ég og þú sem leggjum upp í þessa ferð. Þegar jólaguðspjallið sjálft er lesið þá kemur í ljós að allar aðal persónur þess eru á ferð þar sem hvorki er bundið slitlag né pylsa með öllu. Aðeins hrjóstrugar óbyggðir Palestínu, eyðimerkursandar og stjarna á himni sem fyllir þátttakendur vissu um að heimurinn sé jafn góður og Loui gamli Armstrong söng.

Nóttina eftir að Jesús fæddist, vaknaði hinn nýbakaði faðir Jósep upp með andfælum því rödd engilsins sagði honum að hafa sig á brott með barni og konu og flýja til Egyptalands, undan Heródesi konungi sem hafði illt eitt í hyggju. Ég hugsa að ef einhverjar aðstæður ættu að kveikja ferðakvíða þá væru þær þessar. Meira að segja reynsla mín úr Borgarfirðinum blikknar í samanburðinum .Þó er ég sem móðir sannfærð um að í næturkuldanum hafi hjarta Maríu verið að springa úr gleði þó svo margt hafi ógnað því sem henni var kærast. En það segir mér líka það, að það er hægt að vera hamingjusamur í ógninni. Það er fólk raunar að uppgötva á hverjum einasta degi. Meira að segja á mestu sorgarstundum í lífi þess má heyra hlátur óma í ljósi minninganna, eins og mótleik gegn dauðanum. Og það hrífur.

Það væri í raun fáránlegt að taka á móti Jesúbarninu án áreynslu, móðgun við Maríu og Jósep og fjárhirðana sem hímdu í næturkuldanum á Betlehemsvöllum, höfðu ekkert til að ylja sér við nema vonina um nýjan himin og nýja jörð. Já og vitringarnir sem höfðu beðið allt sitt líf eftir þessum atburði og fóru af stað án þess einu sinni að vita fyrir víst hvar hinn nýja konung væri að finna, en þeir eltu stjörnu og fundu stjörnu.

Og nú sameinumst við öll við jötuna á þeim forsendum sem hvert og eitt okkar hefur, til að þiggja einu og sömu gjöfina, þá gjöf sem Guð einn getur gefið, það er ást án skilyrða og líf án landamæra. Það er himininn sjálfur fólginn í augum barnsins.

Gleðileg jól.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1897.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar