Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jóna Lovísa Jónsdóttir

Tíðarandinn og trúin

Kæru kollegar. Mig langar að byrja á því að þakka sr. Gunnlaugi Garðarssyni fyrir að bjóða mér að halda erindi hér á Hólasamveru og fá þannig tækifæri til að viðra hugrenningar mínar sem prestur og heilsuþjálfari.

Í kvöld ætla ég leyfa mér að hugsa upphátt um trú og tilbeiðslu í nútímasamfélgi og jafnframt hugleiða hvort eða með hvaða hætti söfnuðir íslensku þjóðkirkjunnar nái til meðlima sinna.

Ég er sannfærð um að í hverju nýfæddu barni búi frækorn kærleikans, þ.e.a.s. eiginleiki sem aðeins Guð getur gefið manneskjunni, eiginleikinn til þess að elska. Jafn líklegt þykir mér að Guð hafi eitthvað að gera með það að sérhver manneskja hefur þörf fyrir það að vera elskuð. Og vegna þess að Guð er skapari alls sem lifir, upphaf alls og endir, hlýtur hver manneskja að leita Guðs og það er þessi leit manneskjunar að Guði sem við köllum TRÚ.

Birtingarmyndir trúarinnar eru jafn margar og þær eru mismunandi. Tilbeiðsla er ein af þeim fallegu myndum sem hugtakið “trú” vekur. Tilbeiðslan fer fram með ýmsum hætti eins og við vitum, enda skilningur fólks á almættinu margbreytilegur. Það er ekkert skrítið enda jörðin víðáttumikil og fólksfjöldinn gífurlegur. Fólk lifir og hrærist í ólíkum menningarheimum, menntun og þekking þjóða er mismikil og ólík og reynsluheimur hvers einstaklings mótar viðhorf hans og skynjun á umhverfinu og almættinu. En þó svo að ég og þú, við öll, séum ólík, hvert og eitt okkar einstakt, þá virðist það vera í eðli okkar að leita samhljóms með öðrum. Ég held að það sé vegna þess að við erum öll tengd í gegnum Guð skapara okkar.

Við notum skynfæri okkar til þess að draga ályktanir um aðrar manneskjur og samfélagshópa. Við skipum okkur svo í lið með þeim sem við teljum okkur eiga eitthvað sameiginlegt með, þ.e.a.s. við leitum alltaf styrks í öðrum. Þannig verða til samfélög, stór og smá; hjónabönd, fjölskyldur, stjórnmálaöfl, vinahópar, verkalýðsfélög, ættbálkar, þjóðir og að sjálfsögðu trúfélög. Styrkur þessara samfélaga getur aldrei orðið meiri en sameiginlegur styrkur þeirra einstaklinga sem þau mynda. Hvert svo sem samfélagið er, þá ríkja þar ákveðnar hugmyndir, gildi og siðir sem eru nokkurs konar lykilorð að hverju samfélagi fyrir sig. Þeir sem kunna og skilja lykilorðin eru því líklegri til þess að njóta samfélagsins en þeir sem ekki kunna þau eða þekkja merkingu þeirra.

Þá kem ég kannski að kjarna málsins. Í öllum trúfélögum ríkja ákveðnar hugmyndir, gildi og siðir. Í kristnum sið er viðhöfð ákveðin hugmyndafræði sem skilur kristin trúarbrögð frá öðrum trúarbrögðum og heimspekistefnum. Kjarninn í þessari hugmyndafræði er trúin á þríeinan Guð og trúarjátningin sameinar kristnar kirkjur um heim allan. Innan kristinnar kirkju eru mörg trúfélög því að þó svo að hugmyndafræðin sé í megindráttum sú sama hjá kristnum einstaklingum hefur þróunin orðið sú að innan kristins samfélags hafa orðið til mörg minni samfélög sem einkenna sig hvert með sínum hætti. Þar ríkja mismunandi áherslur, tilbeiðslan fer fram með ólíkum hætti, helgidómarnir eru ólíkir sem og táknin sem þar fyrirfinnast. Ytra umhverfi, svo sem stjórnsýsla trúfélaga og safnaða er einnig með mismunandi hætti. Ég ber jákvæðar tilfinningar til þess fjölbreytileika sem ríkir í hinu stóra samfélagi manneskjunnar og mér finnst forvitnilegt að heyra sjónarmið fólks sem ekki skipar sér í “hópinn minn”. En ég er meðvituð um það að ég eins og aðrir hef tilhneygingu til þess að álíta eigin skoðanir, líferni, siði, venjur, trú og tilbeiðslu vera það venjulega og það “rétta”.

Og þar liggur e.tv. hundurinn grafinn. Einmitt vegna þessarar tilhneygingar manneskjunnar að leita síns líka og draga sig saman í hópa og sérkenna sig með einhverjum hætti frá öðrum, verða til andstæðurnar “við” og “þau” eða “hinir”. Þessi flokkadráttur hefur leitt af sér margan harmleikinn þar sem þjóðir berjast, kirkjur eru brenndar, fólki hefur verið útskúfað úr samfélaginu, ójafnræði ríkt á milli hópa og fólk hundelt og fangelsað vegna litarháttar síns, trúar- eða pólitískra skoðanna. Svona hefur þetta verið alla tið. Við lesum um þetta í GT og NT. Þessi flokkadráttur hefur augljóslega verið vandamál í mörgum frumkristnum söfnuðum þar sem tekist var á um hina ýmsu siði og venjur, svo sem hvað eðlilegt væri að leggja sér til matar, hver hin eðlilega kynhegðun væri, hvert væri hlutverk karla og kvenna svo ég tali nú ekki um stéttarstöðu hinna ýmsu hópa og þjóðerna. Þau vandamál sem komu upp í söfnuðunum voru oft þessu tengd eins og postulabréfin bera vitni um.

En af hverju er ég að tala um þetta. Það er vegna þess að ég velti því stundum fyrir mér hvort starf íslensku þjóðkirkjunnar sé með þeim hætti að melimir hennar finni þar farveg fyrir trú sína? Við tölum oft um að Þjóðkirkjan sé kirkja með lágan þröskuld og þar eigi flestir að geta fundið farveg fyrir trú sína. En er það svo? Er kirkjan okkar raunverulega biðjandi, boðandi og þjónandi?

Ástæðan fyrir því að ég velti þessu fyrir mér er sú að í starfi mínu sem heilsuþjálfari vinn ég náið með fólki þar sem töluverður tími fer í sálgæslu. Ég starfa í anda kristins mannskilnings; að manneskjan sé allt í senn, líkami, sál og andi. Þess vegna læt ég mér ekki nægja að búa til æfingarkerfi og matardagbók fyrir skjólstæðinga mín heldur hitti ég þá reglulega til þess að eiga við þá trúnaðarsamtal. Þessi samtöl snúast oftar en ekki um allt annað en líkamsræktina. Ég fæ að heyra lífssögur skjólstæðinga minna, frásagnir af brotnum tengslum, áföllum og veikindum, ýmis leyndarmál og ef ég kemst mjög nálægt fólki trúir það mér fyrir ýmsu sem tengist trú þeirra og trúariðkun. Flestir sem til mín leita koma einmitt til mín af því að ég er prestur sem segir mér að fólk hefur áhuga á því að ræða trú sína og telur trúariðkun og andlega uppbyggingu mikilvæga þætti heibrigðs lífernis. Fólk sækist eftir ráðum til uppbyggingar andans.

Fyrir nokkrum vikum var ég að keppa á vaxtarræktarmóti í Osló. Á svona mótum fer mestur tíminn í það að bíða eftir því að komast á svið. Það gefst því góður tími til að spjalla við aðra keppendur og alltaf kynnist ég einhverjum nýjum einstaklingum. Í Osló fór ég að spjalla við mann sem er hálfgert tröll að vexti. Hann lá á dýnu á gólfinu og var að hlusta á tónlist í ipodnum sínum. Hann trúði mér fyrir því að þetta væri kristileg tónlist sem að honum fyndist langbest að hlusta á fyrir keppni. Hann sagði þessa tónlist gefa honum ró, vellíðan og styrk í keppni. Hann hafði hætt að drekka fyrir þremur árum, fundið Guð og sagðist vera sáttari við lífið og tilveruna en nokkru sinni fyrr. Það er alltaf gaman að rekast á fólk sem er tilbúið að deila trúarreynslu sinni.

En það að deila trúarreynslu sinni er einmitt eitthvað sem ég finn að fólk þráir að gera en virðist ekki finna farveg til þess. Þrátt fyrir þetta mikla og góða starf sem kirkjur landsins bjóða upp á virðist það vera svo að stór hópur fólks finnur ekki samhljóm með því sem þar fer fram. Margir þeirra sem ég hef talað við segjast ekki fá neitt út úr guðsþjónustunum, segjast ekki skilja allt sem þar fer fram – þar á meðal ræðu prestsins – og að ómögulegt sé að syngja með í sálmasöngnum. En sem betur fer heyri ég líka raddir sem segja að gott sé að fara í kirkjuna en að einhverra hluta vegna fari þau allt of sjaldan. Flestir sem til mín koma eiga samt jákvæða reynslu af kirkjunni og hafa fengið góða þjónustu þegar á hefur reynt. En þrátt fyrir það sækist þetta fólk ekki eftir því að taka þátt í því samfélagi sem kirkjan býður upp á og þó svo að þetta séu þjóðkirkjumeðlmir og tilheyra þar með ákveðnum hóp, virðist mér sem svo að fáir kunni lykilorð hópsins og standi því í raun utan við hann.

Ég vann um árabil innan íslensku þjóðkirkjunnar, bæði á æskulýðsvettvanginum og sem prestur. Ég þekki því til þess góða starfs sem fram fer í söfnuðum landsins. En ég upplifði líka þann skrítna veruleika að verða lítið vör við að samstarfsfólk eða sóknarbörn almennt hefðu áhuga á að deila trúarreynslu sinni, þ.e.a.s. þau eru ekki mörg samtölin sem ég hef átt um trúarreynslu. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort að í kirkjustarfinu sé nóg rými fyrir samræður – dialog? Getur það verið að í starfinu felist of mikil einræða eða mötun, þ.e.a.s. að áherslan í kirkjustarfinu sé of mikil á einhvers konar skemmtanagildi í stað þess að vera vettvangur til tilbeiðslu, trúnaðar og samfélags?

Ég verð að viðurkenna það að ég myndi gjarnan vilja sjá íslensku þjóðkirkjuna vaxa sem samfélagsafl og það myndi hún gera ef að meðlimir hennar sem eru “óvirkir” fyndu samhljóm með þeim sem þegar taka þátt í starfi kirkjunnar. Það má vel vera að kirkjustarfið sé mjög gott en sé bara eins og vel geymt leyndarmál. Það getur líka verið að boðun orðsins sé of einskorðuð við prédikun guðsþjónustunnar. Etv. ættu þjónar kirkjunnar að skipta sér meira af samfélagsmálum, taka þátt í umræðum, ganga saman í Gleðigöngunni og vera sýnilegri í baráttunni gegn spillingu, misrétti og óréttlæti?

Ég held að þjóðkirkjan hafi mikilvægu hlutverki að gegna í nútímasamfélagi. Fólk er almennt trúað og er leitandi eftir farvegi fyrir trú sína og þörf fyrir andlega uppbyggingu. Þjóðkirkjan er ekkert annað en fólkið sem hana byggir. Ef hún á að verða sterk afl í samfélaginu þá verða meðlimir hennar að finnast að þeir tilheyri þessu afli, að þeir hafi þar hlutverk og að þeir kunni þau tákn og tungumál sem þar fer fram. Eins og ég sagði áður þá getur styrkur samfélaga aldrei orðið meiri en samanlagður styrkur þeirra einstaklinga sem samfélagið mynda.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2679.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar