Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Elías Guðmundsson

Börn og félagsmiðlar

Ég þurfti að setjast niður með góðu fólki fyrir nokkrum vikum og ræða hvaða reglur og hegðun væri mikilvægt að unglingur undir 18 ára tileinkaði sér á félagsmiðlum eins og Facebook. Við vörpuðum ýmsum hugmyndum á loft, veltum fyrir okkur hættum og tækifærum og enduðum með nokkrar reglur sem má gjarnan ræða og þróa áfram með ungu fólki. Þessar reglur eru helstar:

 • Foreldrar þínir þurfa að vera vinir þínir á félagsmiðlum sem þú notar.
 • Samþykktu bara vini sem þú þekkir og ert viss um hverjir eru.
 • Þú þarft ekki að samþykkja vinabeiðnir frá neinum frekar en þú vilt. Ekki einu sinni frá ættingjum (nema auðvitað frá foreldrum).
 • Vertu eingöngu í hópum (e. group) eða „network“ sem þú tilheyrir í raunveruleikanum.
 • Þú mátt ekki vera vinur kennaranna þinna, leiðbeinenda, þjálfara eða æskulýðsleiðtoga. Þú mátt hins vegar vera í hópum (e. groups) sem þau stofna í kringum verkefni/atburði/hópa sem þú tilheyrir og/eða tekur þátt í.
 • Aðgengi að veggnum þínum þarf að vera lokað öðrum en vinum. Einkastillingar (e. privacy settings) þurfa ýmist að vera „bara vinir“ eða „bara ég“, t.d. þarf að stilla myndir þannig að þær birtist bara hjá vinum (en ekki vinum vina).
 • Hafðu allar upplýsingar um netföng, vefsíður, síma eða annað falið á síðunni þinni. Best er að skrá sem minnst af slíkum upplýsingum á félagsmiðla.
 • Hafðu bara myndir af sjálfri þér sem þú getur leyft öllum í heiminum að sjá.
 • Settu bara inn myndir af öðrum sem þú myndir vilja að væru settar inn af þér.
 • Segðu bara á félagsmiðlum það sem allir í heiminum mega heyra.
 • Spjallaðu (e. chat) bara við þá sem þú þekkir. Það er gott að muna að spjall og skilaboð (e. message) eru yfirleitt vistuð og auðveldlega afrituð. Það getur vel verið að þau hverfi aldrei, jafnvel þó þú stillir þau þannig.
 • Það er ágæt regla að smella aldrei á auglýsingar á félagsmiðlum.
 • Foreldrar þínir þurfa að vita aðgangs- og lykilorð þín á félagsmiðlum.
 • Foreldrar þínir þurfa að lofa að nota aldrei aðganginn þinn til að gera neitt annað en að fylgjast með notkuninni þinni. Þau verða að lofa að skrifa aldrei neitt á síðuna í þínu nafni.
 • Með því að nota félagsmiðla samþykkir þú að misnotkun þín á vefnum þýðir að foreldrar þínir geta þurft að loka fyrir aðgang þinn.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2269.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar