Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arna Grétarsdóttir

Vetrardrómi

ÞríhyrningurVeturinn er sú árstíð sem mörgum reynist erfiðust. Misdökk gluggatjöld eru dregin fyrir sálartetrið. Leiði, depurð, kvíði og einmannaleiki, jafnvel sorg og söknuður eru oft vefnaður þessara gluggatjalda. Það getur verið erfitt að draga frá og hleypa birtunni að. Tómleiki og tilgangsleysið vill yfirtaka tilveruna og hvert verk, hver hreyfing verður margfalt erfiðari en í annan tíma. Innst inni býr vitneskja og fullvissa um það að aðeins birtan, aðeins ljósið sanna fær sálartetrið til að rétta úr sér og draga frá.

Að eiga samtal við vin, vinkonu, meðferðaraðila eða prest getur verið það sem þarf til að birtan komist að. Þá horfast í augu tvær sálir sem hjálpast að við að draga frá hin þungu og þykku tjöld. Það er öllum hollt að ræða það sem íþyngir. Ræða sektarkenndina, skömmina og söknuðinn. Það getur skipt sköpum að mæta vingjarnlegum og umhyggjusömum augum og eyrum sem hlusta af einlægni hjartans. Það getur skipt sköpum að eiga opið og einlægt samtal um trúna, um guðsmyndina sem gjarna er svo tengd foreldrasambandinu.

Að orða erfiðar tilfinningar og upplifanir og lyfta þeim inn í ljósið getur orðið til þess að ummyndun á sér stað. Ummyndun er breyting sem á sér stað þegar Guði er leyft að vera með og í kærleika sínum segir þessi fallegu orð: Þú ert dóttir mín, þú ert sonur minn sem ég hef velþóknun á. Ég ber umhyggju fyrir þér. Ég elska þig eins og þú ert.

Geislar samtals og samveru þar sem Guði er leyft að vera með getur gefið mátt sem læknar vetrardróma.

Að lyfta orðum, tilfinningum og upplifun inn í dagsbirtuna og hleypa ljósinu að, hinu eina sanna ljósi;

ljósi sköpunarinnar,
ljósi heimsins,
ljósi kærleikans,

sem fær að umvefja það sem í sálarfylgni býr getur gefið nýja sýn, nýja von.

Ljósið á sér mátt sem huggar, hrósar og veitir uppörvun.
Ljósið ummyndar og umvefur í kærleika.

Jesús sagði: Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.(Jóh. 7.14)

Vertu blessuð af birtu Drottins.
Vertu blessaður af ljósi Guðs.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2895.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar