Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arna Grétarsdóttir

Kall til kvenna

Í umræðunni um komandi biskupskosningar hefur nokkuð borið á því að stór krafa sé til þess að konur gefi kost á sér. Ég tek undir það, ekki bara til þess að kona komist að, heldur vegna þess að það er einfaldlega réttlátt að skipta jafnt á milli sín. Við upphaf 21. aldar finnast sannarlega á Íslandi meðal presta og guðfræðinga bæði hæfar konur og karlar. Ábyrgðin á því að skipta jafnt liggur hjá þeim sem deila út. Þau sem hafa kosningarrétt bera einfaldlega siðferðilega ábyrgð á því að jafnt sé skipt.

Á biskupsstóli hefur aldrei setið kona á Íslandi og því langar mig að kalla til prestsvígðra og guðfræðimenntaðra kvenna og biðja þær að íhuga það vel hvort biskupskápan geti ekki vel passað. Þær kröfur sem gerðar eru til biskupsins má lesa í lögum og í starfsreglum kirkjuþings. Þar liggja sniðmát sem hægt er að lesa og máta. Hið ósýnilega sniðmát sem mótað hefur verið af körlum í gegnum aldir getur verið erfiðara fyrir konur að máta.
Mig langar að biðja konur um að prófa þetta snið og íhuga vandlega hvort geti ekki vel passað. Sniðið er fengið að láni úr nútíma- og biblíulegum leiðtogafræðum, lagað að tilefninu.

Þetta eru þau atriði sem ég tel að einstaklingur sem mátar biskupskápuna verði að vilja tileinka sér.

1. Að varðveita vináttuna. Velja sér vini og vinkonur sem uppörva og gera ekki kröfu um óréttmæta umbun. Mikilvægust er þó vináttan við Jesú sem er ræktuð í lifandi bænasamfélagi og biblíulestri/bíblíurannsókn.

2. Að vera með skýra sýn út um gluggann en ekki hlaupa á milli herbergja. Sýnin er boðun fagnaðarerindisins. Sú sýn er sameiginleg prestunum sem horfa þá líka út en ekki inn.

3. Að rækta heiðarleika gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hafa þor til að horfast í augu við eigin veikleika, vankanta og mistök. Hafa til að bera persónuleika sem hefur kjark bæði til þess að horfa inn á við og út. Hér er það réttlát málsmeðferð sem skiptir mestu.

4. Að stjórna eða leiða í gegnum þjónustu. Hrósa óspart og gefa þeim heiðurinn sem eiga.

5. Að virkja rétt fólk á réttum stöðum.

6. Að elska þau sem eru ósammála eða eru utan þjóðkirkjunnar.

7. Að veita frelsi til athafna svo sístæð sköpun gefi góðan vöxt.

8. Að halda út, þrátt fyrir höfnun, vonbrigði og mótbyr.

9. Að sækjast eftir einingu og friði án þess þó að hindra eðlileg skoðanaskipti. Taka ákvarðanir fljótt og vel og gefa sér og öðrum leyfi til að skipta um skoðun.

10. Lykillinn að góðri biskupsþjónustu er fyrst og síðast að lifa í trú og bæn.

Kæru konur!
Mátiði nú!

Um höfundinnEin viðbrögð við “Kall til kvenna”

  1. Kallað eftir konum | Árni og Kristín skrifar:

    […] Arna Grétarsdóttir kallar eftir konum í biskupskjöri og leggur til grundvallar tíu mælikvarða á kandídata. Fjórði er svona: „Að stjórna eða leiða í gegnum þjónustu. Hrósa óspart og gefa þeim heiðurinn sem eiga.“ – Meira um biskupskjör og kirkju. This entry was posted in Blogg and tagged biskupskjör by Árni Svanur. Bookmark the permalink. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3471.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar