Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigríður Gunnarsdóttir

Beðið eftir barninu Jesú

Það ríkir eftirvænting og gleði þegar von er á barni. Í vændum er nýr einstaklingur sem gleður og auðgar líf fjölskyldu sinnar. En tilhlökkun fylgir stundum kvíði, skyldi nú barnið verða hraust og eiga eftir að þroskast og dafna vel? Nýfætt barn er umkomulaust og hjálparvana og getur svo auðveldlega farið sér að voða. Slíkar hugsanir þjóta í gegnum huga foreldra. Þegar líður að jólum er einnig eftirvæning í loftinu.

Jólabörnin brosa út að eyrum því aðventan er þeirra tími. Þau föndra, baka, þrífa, skreyta og kætast yfir komu jólanna. En það eru ekki öllum gefið að vera jólabörn. Sum hafa ástæðu til að kvíða jólunum. Það eru t.d. þau sem sakna og syrgja, vanti einhvern í fjölskylduna er erfitt að gleðjast yfir nokkru. Önnur kvíða því að fjárhagurinn býður ekki upp á hátíðarhöld eða gjafakaup sem tilheyra. Því miður eiga sum daprar minningar frá jólum bernskunnar og slíkar minningar vilja skyggja á öll jól sem á eftir koma. Jólin færa okkur öllum lítið barn.

Barnið í jötunni er innsti kjarni jólanna. Það má aldrei gleymast, hverjar sem aðstæður okkar kunna að vera. Fæðing barnsins í Betlehem færir okkur sjálfan Guð í heiminn. Við höfum því ástæðu til að hlakka til jólanna, gleðjast yfir hátíðinni sem er í vændum. Við skulum gefa okkur tíma til að taka jólin að okkur og inn á okkur því annars verða þau ekki raunverulega gleðileg.

Við þurfum að taka litla barnið upp úr jötunni, dást að því og faðma það að okkur og gera það að okkar barni. Litla barnið heitir Jesús og fæðing hans skipti sköpum fyrir mannkynið, „því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“(Jóh.3.16) .

Framtíð Jesúbarnins er á okkar ábyrgð, rétt eins og allra annarra barna. Við skulum mæta því í hverjum þeim sem á vegi okkar verða og koma fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. Barnið vill að kærleikur og umhyggja fyrir öðrum móti líf okkar alla daga. Við skulum muna að barnið kom í heiminn til þess að við mættum lifa og í þeirri vissu skulum við ganga til móts við jólahátíðina sem senn gengur í garð.

Megi algóður Guð gefa ykkur öllum gleðileg jól.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1880.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar