Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Þorgeir Arason

Á biblíumaraþoni

biblíumaraþon 2011 007

„Og hönd Drottins var með þeim og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins“ (Post. 11.21).

Það telst ekki til tíðinda að þessi orð skuli vera lesin upp við predikunarstól Kirkjuselsins í Fellabæ. En hitt er kannski óvenjulegra, að klukkan sé langt gengin í fimm aðfaranótt sunnudags og að lesarinn sé 15 ára gamall unglingur. Það er árlegt biblíumaraþon í gangi hjá Bíbí, sameiginlegu æskulýðsfélagi safnaðanna á Héraði.

Vikuna fyrir maraþonið hafa krakkarnir gengið hús úr húsi í þéttbýlinu á Mið-Héraði með heimatilbúna bauka og safnað áheitum. Markmiðið er að ná að lesa upp úr Biblíunni samfleytt frá klukkan átta að kvöldi til átta að morgni. Takist það skiptist ágóðinn af áheitunum ávallt í tvennt milli ferðasjóðs unglinganna og góðs málefnis. Ferðinni er nú heitið á Landsmót æskulýðsfélaganna á Selfossi og að þessu sinni hefur verið ákveðið að styrkja samtök, sem munu verða í brennidepli á landsmóti og miða að stuðningi við börn sem misstu foreldra sína í náttúruhamförunum í Japan fyrr á árinu.

Það er farin að síga höfgi á mannskapinn, en enn er pælt gegnum valin rit úr Guðs orði. Samúel smyr Sál til konungs. Davíð vinnur sigur á Golíat. Jóhannes skírir Jesú. Blindur fær sýn. Konurnar koma að tómri gröf. Stefán er grýttur. Sál snýst til Krists á leiðinni til Damaskus. Og bænir, lofsöngvar og harmljóð Sálmanna tala til okkar. Aðeins hluti hópsins situr þó með Biblíur í kjöltunni inni í kirkjusalnum hverju sinni, lestrinum er skipt bróðurlega milli hópsins á „vöktum“ yfir nóttina. Á fimmta tímanum hafa sumir fengið sér kríu inni í hvíldarherbergi, en aðrir eru fjörugri og una sér við tónlist, borðtennis eða aðra afþreyingu í félagsmiðstöðinni á neðri hæðinni, sem æskulýðsfélagið fær góðfúsleg afnot af.

Fúslega skal viðurkennt að svefngalsinn nær stundum yfirhöndinni og torkennileg nöfn á borð við Ahímelek Ahítúbsson geta vakið hlátur hjá lesara og áheyrendum. Það er líka allt í lagi, því að í loftinu liggur samt sem áður virðingin fyrir viðfangsefninu og metnaðurinn til að ljúka maraþoninu. Og við leiðtogarnir treystum því, að orð Guðs sé enn sem fyrr „lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði“ (Heb. 4.12), og tali til unglinganna í æskulýðsfélaginu með sérstökum hætti þessa óvenjulegu nótt.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2252.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar