Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl Sigurbjörnsson

Úrsagnir eru áskorun

Þjóðkirkjan hefur gengið gegnum erfiða tíma átaka um erfið og viðkvæm mál. Oft hefur hún verið óviss og svifasein í viðbrögðum sínum. Nú er verið að taka á því með markvissum hætti og unnið að gagngerum endurbótum á stjórn og starfsháttum kirkjunnar. Markvisst er unnið að því að efla leikmenn til ábyrgðar í kirkjunni með því að fjölga umtalsvert þeim sem hafa kosningarétt til kirkjuþings og í biskupskjöri.

Karl SigurbjörnssonÞað er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af úrsögnum og fækkun í söfnuðum þjóðkirkjunnar. Það er samt ekki séríslenskt fyrirbæri. Alls staðar á Norðurlöndunum má sjá hliðstæða þróun, þar eru þjóðkirkjurnar líka að hopa og það af ýmsum ástæðum, lýðfræðilegum og menningarlegum. Eins og hér á landi má sjá einnig í þeim úrsögnum viðbrögð við deilum og hneykslismálum innan kirknanna.

Það er áhugavert að bera saman hlutfall þjóðkirkjufólks á Norðurlöndunum. Árið 1998 töldust tæp 86% Dana til dönsku þjóðkirkjunnar, en 80% nú. Í Kaupmannahöfn voru það 63%. Í Svíþjóð tilheyrðu 84.3% sænsku kirkjunni árið 1998 og 70% árið 2010, tæp 60% Stokkhólmsbúa. Sama er með Noreg, þar er alveg sama þróunin, fækkun úr 87% árið 1998 í 79% nú. Hlutfall þjóðkirkjufólks í höfuðborginni, Osló, er 64%. Hér á landi tilheyrðu 88.7% þjóðkirkjunni árið 1998 og 78% nú, 74.5% Reykvíkinga voru skráðir í þjóðkirkjuna. Hliðstæðurnar eru sláandi. Þjóðfélag og menning, siður og trú er í mikilli deiglu allt í kringum okkur. Og það er áskorun á okkur sem störfum í kirkjunni.

Það er afar sorglegt að svo margir segi sig úr þjóðkirkjunni og sömuleiðis mjög miður að fólk beri minna traust til kirkjunnar og biskups hennar. Ég tek það afar alvarlega, þau öll sem starfa innan kirkjunnar og þau sem líta til hennar um leiðsögn og þjónustu taka það afar alvarlega.

Um land allt er kirkjan að vinna mikilvægt mannræktarstarf og mæta fólki í erfiðum aðstæðum með orð og athöfn sem vekur von og lífsþrótt. Mesta áhyggjuefni mitt er að úrsagnir bitni á því starfi.

Ég tel að við verðum að hlusta eftir því sem fólk er ósátt við og bæta úr þar sem þarf að bæta. Það er áskorunin. Tökum saman höndum að því verkefni.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3768.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar