Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Lifi ljósið

Hárið er í Hörpu. Söngleikurinn um frelsið og friðinn er sá fyrsti sem settur er upp í tónlistarhúsinu nýja. Það er viðeigandi að þetta fallega hús, sem minnir okkur bæði á Hrun og uppbyggingu, sé nú vettvangur þeirrar samfélagsrýni og brýningar sem í söngleiknum felst.

Árni og KristínFyrst og fremst er Hárið í uppsetningu Silfurtunglsins frábær skemmtun með hæfileikaríku og orkumiklu listafólki sem smitar frá sér söng- og leikgleði. Hárið er líka prédikun gegn stríði og sem slíkur er söngleikurinn bæði tímabundinn og tímalaus. Hann er tímabundinn af því að Víetnamstríðinu er lokið og enginn dregur ranglæti þess lengur í efa. Hann er tímalaus af því að enn er farið í stríð út af annarlegum hagsmunum.

Hárið leiðir okkur í gegnum ástir og átök, og uppgjör við hefðir og stofnanir samfélagsins. Kynlíf og eiturlyf eru fyrirferðamikil í söngleiknum og við fylgjumst einnig með umbrotum pólitískrar og andlegrar hugmyndafræði og tilgangsleit unga fólksins.

Lokaatriði söngleiksins er útför. Vinurinn Berger, sem fór í stríðið í stað Claude, er kominn heim. Líkkista stendur á sviðinu miðju, sveipuð bandaríska fánanum og minnir á sorgina í vinahópnum og grunngildi samfélagsins. Leikararnir ungu syngja alvarleg í bragði:

Við erum öll í feluleik
föst í okkar lygavef
sem að upphefur eymdina.

Atriðinu lýkur svo á sunginni bæn sem dregur saman boðskap verksins og brýnir áhorfandann:

Lifi ljósið, lifi ljósið hér og lýsi þér.

Hárið er prédikun um manneskjuna, ranglæti og frelsi. Prédikun gegn reglum sem þjóna sjálfum sér, en ekki fólki, þjóna stríði en ekki friði, þjóna ranglæti en ekki réttlæti. Okkur er hollt að heyra slíka prédikun í þessu tónlistarhúsi.

Ljósbænin dregur líka fram einkenni náungasamfélagsins: Við horfum til náungans, biðjum fyrir og þjónum honum. Það er uppbyggingaráskorunin okkar á Íslandi eftir Hrunið.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Lifi ljósið”

 1. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Hér er skemmtileg frétt úr Sænska dagblaðinu fyrir nokkrum vikum: Hún fjallar um kirkjuna og stjórnmálin og reyndar einnig um kvenbiskup nokkurn Eva Brunne.
  Svd:
  Kannski hafði sænska kirkjan vonast eftir öðrum svörum þegar almenningur var spurður um kirkjuna og stjornmálin. Það kom nefnilega í ljós að flestir töldu að kirkjan ætti að gera allt annað en að fást við stjórnmál.

  Við tökum mið af þessu, sagði Eva Brunne biskup sem stendur fast við sitt pólitíska verkefni og er að því er virðist óhögguð af óskum meirihlutans.

  Biskup Eva Brunne brást strax við könnuninni með því að undirrita yfirlýsingu til stuðnings umdeilds pólitísks verkefnis, Ship to Gaza.

  Yfirlýsing kvenbiskupsins þykir útiloka frá sænsku kirkjunni alla þá sem ekki styðja aðgerðasinnana Matthías Gardell, Henning Mankell og Kalle Larsson og fleyri vinstrisinna.

  Lýðræðisleg þykir hin frjálsa túlkun kvenbiskupsins ekki sem telur sína eigin stjórnmálaskoðanir mikilvægari en boðskap kirkjunnar.
  (Hér líkur fréttinni)

  Ég spyr:
  Erum við á hraðleið þangað sem sænska kirkjan stefnir? Í áttina að pólitískri skilgreiningu á boðskap Krists? Veraldlegri sýn sem segir fólki með tungutaki félagsfræði eða stjórnmála hvað Kristur vill?

 2. Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar:

  Takk fyrir áhugann á skrifum okkar Guðmundur Pálsson læknir!

  Þetta eru áhugaverðir punktar sem þú nefnir hér. Ég get verið sammála þér um að það vefst oft fyrir kirkjustjórnum - líka biskupum - að taka mark á skoðanakönnunum. Sem betur fer eru biskuparnir ekki samheiti við kirkjuna - sama hvort þeir eru í Stokkhólmi eða annars staðar.

  Eva biskup hefur greinilega markað sér stefnu í ákveðnum málum, það gera allir leiðtogar.

  Varðandi tungutak trúarinnar í samtímanum þá hefur það alltaf verið eðli kristinnar kirkju að tala þannig að staður og stund upplifi og uppgötvi fagnaðarerindið. Þess vegna stundum við guðfræði og eigum gefandi samband við aðrar fræðigreinar, líka félagsfræði og stjórnmálafræði.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2641.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar