Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Guðrún Karls Helgudóttir

Símaskráin

Gillz og símaskráin

Nýlega kom ný Símaskrá Íslendinga út en eftir henni var beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir að í ljós kom að Egill Einarsson sem kallar sig „Gillz“ yrði meðhöfundur.

Símaskráin er gefin út í 150 000 eintökum og er útgáfa hennar bundin í fjarskiptalögum. Það er Ja.is sem sér um útgáfuna og segir forstjórinn að þau séu ekki að tapa á þessu.

Mikil umræða og deilur urðu vegna ákvörðunarinnar um að Gillz tæki að sér að sjá um forsíðu þessarar mikilvægu bókar sem til er á flestum heimilum landsins. Stór orð féllu á báða bóga þar sem grafin voru upp ummæli Gillz þess efnis að feministar og nokkrar nafngreindar konur þyrftu á kynlífi og jafnvel nauðgun að halda. Til að milda ímynd hans kom móðir hans fram og sagði hann góðan dreng og taldi fólk misskilja strákinn sinn hrapalega. Margir vinir Gillz snerust til varnar og þá voru ekki síður stór orð látin falla.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem símaskrá íslendinga verður ein umdeildasta bók ársins og stór hópur fólks valdi að skrá sig úr Símaskránni vegna samvinnunnar við Gillz.

Nú er símaskráin komin út og á forsíðu hennar má líta áðurnefndan Gillz klæðalítinn í forgrunni og Evrópumeistara Gerplu í hópfimleikum kvenna í fimleikaæfingum í bakgrunni.

Ég velti fyrir mér burtséð frá öllum deilum, orðum sem hafa fallið og hvers konar fyrirmynd Gillz er fyrir ungt fólk, hvers vegna ja.is velji að gefa út símaskrá með hálfnöktum líkamsræktarþjálfara á forsíðunni.

Ég velti fyrir mér hvers vegna fullorðið fólk velji símaskrá með mynd af klæðalitlum strák á forsíðunni.

Nekt getur verið mjög falleg og það er engin ástæða til að setja út á fullkominn líkama Gillz. Öll erum við sköpuð í Guðs mynd og allir líkamar eru fallegir á sinn hátt. Ég átta mig þó engan veginn á tengingu vöðvabúntsins við Símaskrá Íslendinga. Kannski er tengingin: „Símanúmer eru eins og fallegir kroppar“ eða „á bakvið símanúmerin eru fullkomnir kroppur“.

Kannski er tengingin engin en hugsunin eitthvað í þessa áttina: „Ef við höfum beran Gillz á forsíðu þá virkar bókin meira spennandi en ella og við sem stöndum að henni virðumst frjálslynd og nútímaleg“.

Ætli forsíða Símaskráinnar segi okkur eitthvað um íslenskt þjóðfélag árið 2011?

Mig langar að hvetja öll þau er vinna með unglingum til þess að skoða fyrirbærið ”Gillzenegger”, taka afstöðu til þess er hann boðar og ræða það við unga fólkið í vetur. Fyrirmyndir skipta máli, ekki síst þegar þær prýða Símaskrána og birta í henni myndir af fólki sem því líkar.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Símaskráin”

 1. Ragnheiður Jónsdóttir skrifar:

  Þessi orð voru þörf, hvetjandi og vekjandi.
  Þakka þér fyrir þau. Umræðan víða í gangi og undran. Í sundinu í gær sagði ein konan ,,Ég vildi frekar að símaskráin sem liggur frammi á heimili mínu sé prýdd fallegu íslensku landslagi en að vera eilíflega minnt á sjálfsdýrkun”

 2. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þennan ágæta pistil Guðrún. “Fyrirbærið Gillzenegger” eru orð að sönnu. Það er ekki maðurinn Egill Einarsson sem er til umræðu, heldur ákveðin ímynd og skilaboð sem miðlað er með henni.

  Símaskrár eru dálítið merkileg fyrirbæri, samansafn af persónuupplýsingum um þorra alls fólks á tilteknu svæði. Vegna þess að símaskrár fjalla um miðlun persónuupplýsinga eru forsíður þessara bóka yfirleitt hafðar hlutlausar, sbr. gulu síðurnar í Bandaríkjunum. Forsíður hér á Íslandi hafa í seinni tíð verið prýddar landslagsmyndum, enda hefur “fyrirbærið Ísland” verið eitthvað sem flestir Íslendingar hafa geta sannmælst um.

  Nú hefur hins vegar sú leið verið valin að slá einu umdeildasta fyrirbæri Íslandssögunnar utan um persónuupplýsingar velflestra Íslendinga. Ég hefði sagt mig úr símaskránni ef ég teldi mig ekki nauðbeygða til að vera þar sem sóknarprestur í Reykjavík sem fólk þarf að hafa aðgang að við ólíklegustu aðstæður. Það er sumsé Þjóðkirkjan sem heldur mér frá því að segja mig frá Gilzeneggerdýrkuninni :). Seint verður Gillz að sameiningartákni Íslendinga hvaða skoðun sem menn hafa á honum. En þar sem hann og líkami hans hefur nú verið tengdur nöfnum og heimilisföngum þorra Íslendinga á því herrans ári 2011, væri ekki úr vegi að velta fyrir sér guðfræðilegri merkingu fyrirbærisins Gillz.

  Kristin trú eru öðru fremur trúarbrögð sem leggja áherslu á líkama, og sjálfskilningur kirkjunnar tengist líkamsímynd, líkama Krists. Að hvaða leyti túlkar þetta fyrirbæri Gillzenegger imago dei, þ.e. að allir mannslíkamar, allar manneskjur séu skapaðar í mynd Guðs? Að hvaða leyti er kirkjan sem við þekkjum byggð upp í kringum líkama karla fremur en kvenna? Er þessi mynd sem birt er á símaskránni ekki frekar upphafning á tilteknum líkömum, velþjálfuðum, fitulausum, ófötluðum, með karlmanninn að þungamiðju frekar en imago dei?

  Getur Gilzenegger-uppstillingin í símaskránni að einhverju leyti skoðast sem hýperútgáfa af feðraveldinu og dýrkuninni á machó karllíkamanaum eins og það kemur fyrir í samfélaginu öllu og kirkjunni með? Sem slík gæti hún virkað sem gagnrýni á sjálfri sér, skrípisleikur sem er svo afgerandi að hann getur virkað sem menningar og kirkjufræðigagnrýni í réttum höndum?

  Bestu kveðjur, frá einu nafninu sem myndar rif í fótósjoppuðum líkama Gilzeneggers. Sigríður

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4902.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar