Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hildur Eir Bolladóttir

Frelsi kirkjunnar er fólgið í góðum skuldbindingum.

Brasilíski rithöfundurinn Paulo Coelho segir á einum stað í bók sinni Hugarfjötur að frelsið sé ekki fólgið í því að vera laus við skuldbindingar heldur að velja það besta og skuldbindast því. Þetta er mjög gott að hafa í huga t.d. við makaval, það er fátt betra eða gæfuríkara en að vera í farsælu hjónabandi, vera bundinn góðri manneskju sem hjálpar þér að stækka og þroskast í rétta átt.

Skuldbindingar eru nefnilega mjög góðar þ.e.a.s. ef vaxtabæturnar eru ríkulegar. Þó við yrðum formlega sjálfstæð þjóð þann 17.júní árið 1944 er ekki þar með sagt að skyldum okkar gagnvart umheiminum hafi lokið, nei þá hófust þær nefnilega fyrir alvöru, í raun má segja að sjálfstæð þjóð hafi skyldur umfram aðrar. Rétt eins og fullveðja einstaklingur ber meiri ábyrgð en sá sem er enn barn að aldri, skuldbindingunum fjölgar þegar maður verður fullorðinn og öðlast meira sjálfstæði.

Ég man einmitt þegar ég var barn hvað ég hlakkaði oft til þess að verða fullorðin, þá stóð ég í þeirri trú að fullorðið fólk gæti gert nákvæmlega það sem því sýndist. En svo liðu árin og raunin varð önnur, hjónaband, barneignir, nám og vinna, allt hafði þetta í för með sér auknar skuldbindingar og tími minn var ekki lengur sinn eigin herra. En hvað er betra en vera skuldbundin ástinni, börnunum, gefandi starfi og stórfjölskyldu? Ekkert, það er ekkert betra, bara sönn forréttindi, þó ég þurfi stundum að leita gaumgæfilega að tíma til að rifja upp hver ég er og hvaðan ég kom eða hvert í ósköpunum ég er að fara.

Við erum lýðveldi, fullveðja þjóð og frjáls þjóð en skuldbundin ábyrgð gagnvart öðrum þjóðum, við erum gríðarlega lánsöm að hafa slíkar skuldbindingar því það þýðir bara eitt að við erum frjáls, þjóð sem lýtur stjórn annarar þjóðar hefur engar skuldbindingar og þar af leiðandi lítið um samfélagsþróun sína að segja, þess vegna er frelsið fólgið í góðum skuldbindingum. Við Íslendingar lutum lengi stjórn annara þjóða, Noregs og Danmerkur já allt frá árinu 1252 til 1918 þegar við hlutum fullveldi en þá fór danska ríkið samt enn með utanríkismál og landhelgisgæslu fyrir okkar hönd ásamt því að löndin tvö höfðu sameiginlegan konung. Í dag höfum við frelsi til að ráða öllum okkar málum sjálf, ég held við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því hvað það er dýrmætt og hversu mikil lífsgæði eru í því fólgin. En því fylgir náttúrulega aukin ábyrgð sem við þurfum að axla og þannig þurfa allar stofnanir landsins að horfa í eigin rann allt frá heimilum til löggjafar og framkvæmdavalds að ég tali nú ekki um kirkjuna, hún þarf svo sannarlega að bera ábyrgð á sjálfri sér og framgöngu sinni sem ég vona svo heitt og innilega að yfirstjórn hennar muni gera nú á næstu dögum af virðingu við þjóðina og skaparann, kirkjan er nefnilega ekki bara bundin “væntingum” þjóðarinnar, því væntingar eru ómælanlegt hugtak, kirkjan er einfaldlega skuldbundin þjóðinni, kirkjan er lífvörður þjóðarinnar og hún er skuldbundin Kristi að feta veginn hans, frelsi kristins manns er fólgið í skuldbindingum við Guð og náungann en ekki eigin hag.

Það er mín bjargfasta trú að erindi kirkjunnar sé fjöregg þjóðarinnar. Það er ekki síst vegna þess að hin kristna trú er svo mikilvægur áttaviti þjóðar sem ræður málum sínum sjálf og hefur þannig afgerandi áhrif á aðrar þjóðir. Kristin trú er þeim töfrum gædd að hún á jafn mikið erindi inn í frelsið og helsið, það er mjög merkilegt og óvenjulegt að einhver ákveðin hugmyndafræði búi yfir slíkum eiginleikum, líklegast er það vegna þess að hún er ekki samin af mönnum, ekki sprottin upp úr óánægju hinna undirokuðu eða ótta hinna valdsjúku heldur af hreinum og ómenguðum kærleika Guðs til alls mannkyns. Kristin trú er ekki afstæð hugmyndafræði heldur þvert á móti algild, þess vegna á hún jafn mikið erindi við okkur nú og þegar við vorum undirokuð þjóð. Samfélagið hefur breyst en Kristur er hinn sami og hann hvetur okkur á öllum tímum að bjóða tíðarandanum byrginn og hafa forgöngu um að leiða fram réttlætið og það er alls ekki einfalt verk, en ef þú ert á annað borð fullorðinn og finnst lífið bara einfalt, þá er mikil hætta á að einhver sé að líða undan framgöngu þinni og þá er sko vert að skoða aftur hug sinn.

Guðspjall þjóðhátíðardagsins 17.júní 2011 kemur úr fjallræðu Jesú þar er m.a. hina gullnu reglu að finna “Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.” Hvaða regla er meiri farsældarvaki frjálsrar þjóðar en þessi? Að horfa til umheimsins með þarfir hans að markmiði eins og um eigið líf væri að ræða. Þannig ber öllum sem hafa völd hins frjálsa manns að hugsa, þannig ber frjálsri þjóð að hugsa hvort sem hún lítur inn fyrir eða út fyrir landhelgi sína. Og við eigum alltaf að vera að spyrja okkur hvort við séum friðarþjóð í raun og sanni, hvort við elskum réttlætið bæði í orði og á borði, og þar af leiðandi þurfum við að hugsa hverju við skuldbindumst í frelsi okkar og sjálfstæði, af því að frelsið er eins og skáldið sagði fólgið í því að skuldbindast því besta. Við höfum val til þess að samþykkja og hafna og taka afleiðingum gjörða okkar og svo höfum við líka val til að vera kristin fjölmenningar þjóð því það á svo merkilega vel saman, það er í anda frelsarans frá Nasaret. Ég bið algóðan Guð að blessa okkur þennan dag, megi þjóðhátíðardagurinn ætíð verða okkur til umhugsunar um hvað það merkir að vera stór. Amen.

Flutt í Listigarðinum á Akureyri 17.júní 2011

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2605.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar